Hoppa yfir valmynd
28. október 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Rannsóknasjóður ómissandi í íslensku vísindasamfélagi

Rannsóknasjóður ómissandi í íslensku vísindasamfélagi  - myndKaleidico / Unsplash

Gefið hefur verið út áhrifamat á Rannsóknasjóði sem nær til úthlutana úr sjóðnum á árunum 2011-2015. Verkefnisstjóri áhrifamatsins var Katrín Frímannsdóttir en Gæðaráð íslenskra háskóla annaðist umsýslu. Áhrifamatið leiðir í ljós að umsóknum um styrki úr Rannsóknasjóði fór fjölgandi á tímabilinu en árangurshlutfall var að meðaltali rúmlega 20% og mikil aðsókn var í styrki. Engan mun var að sjá á árangurshlutfalli eftir kynjum en hlutfall kvenna í umsóknum var þó örlítið lægra en hlutfall karla. Engan mun var heldur að finna milli þeirra rannsóknasviða sem borin voru saman, þ.e. náttúruvísinda  annars vegar og félags- og hugvísinda hins vegar hvað árangurshlutfall varðar.

Tilgangur matsins var að framkvæma greiningu á styrkveitingum Rannsóknasjóðs, sýnileika hans og áhrifum. Skoðað var hvernig styrkveitingar dreifðust, hvort þær leiddu til frekari rannsókna og annarra styrkja, hvernig styrkir studdu við framlegð í vísindastarfi og menntun nýrra vísindamanna, auk þess sem félagsleg, menningarleg og efnahagsleg áhrif styrkja voru greind.

,,Öflugt rannsóknastarf er undirstaða velsældar, samkeppnishæfni og nýrra lausna gegn samfélagslegum áskorunum. Rannsóknasjóður er mikilvægt tæki til stuðnings rannsóknastarfs á Íslandi og framlög í sjóðinn hafa farið hækkandi undanfarin ár,” segir Áslaug Arna, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. ,,Mikilvægt er að meta áhrif þessara styrkveitinga með reglulegu millibili og því legg ég mikla áherslu á aukna og bætta gagnöflun um alla málaflokka sem undir ráðuneytið heyra. Ég fagna því þeirri góðu skýrslu sem hér hefur verið unnin.” 

Rannsóknasjóður þykir ómissandi meðal fólks í vísindageiranum hér á landi samkvæmt áhrifamatinu og þeir sem ekki hljóta styrki úr sjóðnum eru líklegir til að sækja um aftur síðar. Styrkir úr Rannsóknasjóði eru mikilvægt fyrsta skref við upphaf rannsókna og styrkja þeir nýliðun í vísindum þar sem doktors- og meistaranemar njóta góðs af styrkjunum, bæði beint og óbeint. Styrkveitingar úr Rannsóknasjóði auka einnig möguleika styrkþega á frekari erlendum styrkjum í kjölfarið. Hátæknifyrirtæki meta einnig mikils að geta ráðið einstaklinga sem fengið hafa góða þjálfun í rannsóknum og fulltrúar þeirra líta á Rannsóknarsjóð sem afar mikilvægan hlekk í þeirri keðju.

Fram kemur í skýrslunni að skortur á samræmi og skýrleika gagna hafi hamlað vinnu við áhrifamatið en það er eitt af meginmarkmiðum nýs ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar að bæta gagnasöfnun og greiningu á málasviðum ráðuneytisins með virkri gagnaöflun, markvissri tölfræðigreiningu og gagnsærri og aðgengilegri framsetningu. 

Áhrifamatið verður til umræðu á Rannsóknarþingi sem haldið verður síðar í haust.

Skýrslan er gefin út á ensku og hana má nálgast hér. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum