Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samstarf háskóla: Opið fyrir umsóknir

Líkt og greint hefur verið frá mun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra úthluta tveimur milljörðum króna til aukins samstarfs háskóla. Nú er búið að opna fyrir umsóknir um styrki og ætlunin er að úthluta á allt að einum milljarði króna til verkefna sem snúa að auknu samstarfi háskóla á yfirstandandi ári. Umsóknarfrestur er til og með 5. desember nk. Stefnt er á að úthluta sömu fjárhæð með sambærilegum hætti árið 2023.

Háskólar og samstarfsaðilar þeirra skila umsóknum til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Háskólar fá sendar leiðbeiningar um hvernig sækja eigi um.

Við mat á umsóknum verður horft til áætlaðs ávinnings af verkefnunum, nýnæmis þeirra og gæði verk- og kostnaðaráætlana. Í úthlutunarreglum,  er að finna að nánari lýsingar þeim kröfum sem gerðar eru til umsókna. Hér má sjá hvernig umsóknarformið lítur út.

Samstarf háskóla veitir íslenskum háskólum fjárhagslegan hvata til að taka upp samstarf sín á milli. Ráðstafa á fjármunum sem veitt er til háskólastigsins með gagnsæjum hætti og efna til samkeppni um umbótaverkefni sem snúa að samstarfi þeirra á milli. Þess er vænst að háskólarnir sjö sýni frumkvæði í greiningu á samstarfsmöguleikum sín á milli og sjálfstæði í vali verkefna sem styðja við nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Þannig er samstarfi ætlað að auka gæði háskólastarfs og skilvirkni í rekstri þeirra.

Úthlutuninni er einnig ætlað að styðja við stefnumörkun á háskólastigi og í því skyni eru 12 áherslur tilgreindar sem samstarfsverkefnum er ætlað að styðja við:

Bætt stjórnsýsla, aukin gæði náms og betri þjónusta við námsmenn:

  • Aukið samstarf um stjórnsýslu og stoðþjónustu skólanna með það að markmiði að draga úr yfirbyggingu.
  • Samstarf um aukin gæði háskólanáms, ekki síst á meistara- og doktorsstigi, þar sem nemendur geta tekið í auknum mæli áfanga í fleiri en einum háskóla og kennarar kennt við fleiri en einn háskóla.
  • Fjármögnun á þróun og innleiðingu sameiginlegrar umsóknargáttar háskólanna í gegnum Ísland.is.

Háskóli í þágu samfélags:

  • Samstarf um fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum, m.a. með áherslu á snjallvæðingu og færnibúðir sem létta á starfsnámi innan heilbrigðisstofnana og auðvelda fjölgun nemenda.
  • Samstarf um fjölgun nemenda í menntavísindum, m.a. með áherslu á menntun leikskólakennara og aukið framboð fagháskólanáms.
  • Samstarf um aukna áherslu á STEAM greinar, þ.e. vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði.
  • Samstarf um fjölgun erlendra stúdenta, m.a. með kennslu fleiri námsgreina á ensku með það að markmiði að fleiri erlendir nemendur geti lokið gráðunámi á Íslandi.
  • Samstarf um nám óháð staðsetningu, m.a. með aukinni áherslu á framboð fjarnáms.
  • Samstarf um sjálfbærni með áherslu á hlutverk háskóla í að hafa uppbyggileg áhrif á umhverfi, stjórnarhætti og samfélag.

Öflugri rannsóknir, nýsköpun og miðlun þekkingar:

  • Samstarf háskóla, stofnana og fyrirtækja um nýtingu rannsóknarinnviða.
  • Samstarf um eflingu íslenskra háskóla í að sækja fram á alþjóðavettvangi.
  • Samstarf til eflingar íslensku og máltækni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum