Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastýru UN Women

Samstarf Íslands og UN Women, jafnréttisáherslur Íslands í formennsku í Evrópuráðinu og staða kvenna í Íran og Afganistan voru helstu umfjöllunarefnin á fundi  Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Sima Bahous, framkvæmdastýru Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) í gær. Sú síðarnefnda er stödd hér á landi til þess að taka þátt í Heimsþingi kvenleiðtoga en ráðherra ávarpaði þingið einnig í vikunni. 

„Það var ánægjulegt að hitta Sima Bahous og ræða þau mikilvægu verkefni sem UN Women stendur fyrir. Ísland hefur stutt starf stofnunarinnar ötullega frá því hún var sett á laggirnar fyrir rúmum áratug og er hún ein af fjórum áherslustofnunum okkar í þróunarsamvinnu. Við hækkuðum kjarnaframlög okkar til UN Women á þessu ári auk þess sem við veitum framlög í verkefni UN Women í Palestínu, Malaví og stuðning við griðastaði sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdaníu,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Þær ræddu einnig um afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu á viðkvæma hópa og fólk á flótta, þar á meðal konur og stúlkur. Vernd kvenna og stúlkna þurfi að setja í forgang, þar með talið vernd gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Þá kom bágborin staða kvenna í Afganistan og Íran einnig til tals. 

„Við deilum áhyggjum af réttindum kvenna í Íran og harkalegum aðgerðum stjórnvalda gegn mótmælendum þar í landi. Ísland hefur, ásamt öðrum líkt þenkjandi ríkjum, óskað eftir sérstakri umræðu um stöðu mála í Íran á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna síðar í þessum mánuði. Þá notaði ég tækifærið og þakkaði fyrir mikilvæg störf UN Women í Afganistan þar sem mannréttindi kvenna og takmarkaður aðgangur stúlkna að menntun er mikið áhyggjuefni,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Þróun alþjóðlegra jafnréttismála og viðkvæm staða kvenna víða um heim, ekki síst í Íran og Afganistan, voru einnig áherslur í ávarpi utanríkisráðherra á Heimsþingi kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum, á miðvikudag. Þórdís Kolbrún tók þátt í umræðum á þinginu í gegnum fjarfundarbúnað frá Strassborg þar sem hún var stödd til að taka við formennsku Íslands hjá Evrópuráðinu og kynna formennskuáætlun Íslands. Í máli sínu minntist utanríkisráðherra meðal annars á mikilvægi Reykjavík Index for Leadership sem mælir viðhorf samfélaga til kvenleiðtoga. „Þótt mælingar undanfarin fimm ár sýni að viðhorfin breytast hægt holar dropinn steininn. Það er gott að sjá að jafnrétti kynjanna eykst jafnt og þétt hér á landi en betur má ef duga skal,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þá hitti utanríkisráðherra Sviatlönu Tsikhanouskaya einnig í gær.

  • Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastýru UN Women - mynd úr myndasafni númer 1
  • Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastýru UN Women - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum