Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Fundir Evrópuráðsþingsins í Reykjavík

Fundir Evrópuráðsþingsins í Reykjavík - myndutanríkisráðuneytið

Mikilvægi samstöðu Evrópuríkja um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið ásamt formennskuáherslum Íslands á réttindi barna og ungenna, jafnrétti og umhverfismál voru í brennidepli í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og forseta ráðherranefndar Evrópuráðsins, hjá stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins í Hörpu í dag.

Á fundinum kynnti ráðherra áherslur og áform formennsku Íslands í Evrópuráðinu fyrir þingmönnum og svaraði spurningum þeirra. Þá var rætt um leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 16.-17. maí 2023 og aðkomu Evrópuráðsþingsins í aðdraganda hans.

„Ísland tekur við formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins á sögulegum tímum í Evrópu,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars. „Við gerum okkur betur en nokkru sinni fyrr grein fyrir hversu mikilvægt það er að standa sameinuð í baráttu okkar fyrir réttlátri og sanngjarnri Evrópu þar sem virðing er borin fyrir lýðræðinu, mannréttindum og réttarríkinu.“

Ráðherra átti einnig tvíhliða fund með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins.

Í tengslum við fundi Evrópuráðsþingsins kom framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Marija Pejčinović Burić, í vinnuheimsókn til Íslands í boði utanríkisráðherra. Burić fundaði með forsætisráðherra, forseta Íslands og mennta- og barnamálaráðherra í gær, auk þess að heimsækja jafnréttisskrifstofu forsætisráðuneytisins og Barnahús. Þá tók Burić þátt í opinni málstofu í Háskóla Íslands á vegum utanríkisráðuneytis og Alþjóðamálastofnunar um mannréttindavernd á tímum áskorana og hlutverk Evrópuráðsins til framtíðar. Hægt er að nálgast upptöku frá málstofunni á Facebook-síðu viðburðarins.

Í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu gaf Þórdís Kolbrún út yfirlýsingu sem forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn kynbundnu ofbeldi. Þar hvatti hún aðildarríki Evrópuráðsins til að taka þátt í 16 daga vitundarvakningu um baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands erlendis verða lýst appelsínugul næstu 16 daga, en appelsínuguli liturinn táknar bjartari framtíð, án ofbeldis. Þá verður jafnframt ýtt úr vör samhliða samfélagsmiðlaátaki gegn kynbundnu ofbeldi sem fastanefndir Íslands og Hollands leiða innan Evrópuráðsins í Strassborg.

Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins fundaði í Hörpu í Reykjavík 24.-25. nóvember og var Alþingi gestgjafi fundarins. Fundurinn er haldinn á Íslandi í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Í stjórnarnefnd sitja varaforsetar þingsins, formenn allra landsdeilda, formenn flokkahópa og formenn málefnanefnda þingsins, alls um 60 þingmenn frá 46 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins skipa Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson. Nálgast má upptöku frá fundinum á vefsíðu Evrópuráðsþingsins.

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum