Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2022 Forsætisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir Sögufélag á 120 ára afmæli félagsins

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra um að veita Sögufélagi 3,5 milljóna kr. styrk af ráðstöfunarfé sínu. Verður styrkurinn nýttur til útgáfu á fyrsta riti í smáritaröðinni nýrri Íslandssögu fyrir almenning.

Sögufélag, sem á 120 ára afmæli á árinu, efnir til útgáfu smáritaraðarinnar í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins 2024. Alls er stefnt á útgáfu 80 smárita á tíu árum og verður fjallað um afmarkað efni, viðburð eða tímabil í hverju þeirra. Ritin eiga að höfða til almennings en einnig að nýtast við kennslu bæði í grunnskólum og framhaldsskólum og við rannsóknir.

Ritin verða prentuð en þeim mun fylgja vefslóð með ítarefni, tilvísunum og aukaefni. Útgáfan mun byggjast á nýjum rannsóknum og verða færustu sérfræðingar fengnir til verksins. Sérstaklega verður hugað að aðgengileika efnisins fyrir almenna lesendur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum