Hoppa yfir valmynd
16. desember 2022 Innviðaráðuneytið

Bókin sem aldrei týnist – rafrænt ökunám

Stórum áfanga í stafvæðingu ökunáms er nú náð með virkjun stafrænnar ökunámsbókar Samgöngustofu. Með þessum áfanga gefst ökukennurum kostur á að staðfesta verklega ökutíma fyrir almenn ökuréttindi með rafrænum hætti í gegnum Ísland.is. Innan skamms munu því ökunemar geta fylgst með framvindu ökunáms á Mínum síðum á Ísland.is.

Þá styttist einnig í að ökunemar þurfi ekki að halda sérstaka ökunámsbók, sem á það til að týnast og gleymast, því hún verður brátt aðgengileg á stafrænu formi.

Með stafrænni ökunámsbók munu ökunemar hafa aðgang að grunnupplýsingum ökunáms ásamt yfirliti yfir verklega ökutíma, ökuskóla og ökupróf á einum stað. Grunnupplýsingar ökunáms eru til dæmis hvenær ökunám hófst, nafn ökukennara og fjöldi lokinna ökutíma.

Með stafrænu ökunámi er stefnt að því að einfalda ferlið frá umsókn til útgáfu ökuskírteinis til muna, fyrst og fremst fyrir ökunema en einnig þau sem að ökunámi koma. 

Stafræn ökunámsbók er liður í stóru samstarfsverkefni innviðaráðuneytisins, Samgöngustofu, sýslumanna, Ríkislögreglustjóra og Stafræns Íslands um stafrænt ökunámsferli frá A-Ö. Fyrri áfangar í verkefninu voru stafvæðing á umsókn um námsheimild, staðfestingu á akstursmati og umsókn um fullnaðarskírteini en þær voru allar kynntar á árinu. 

Fram undan er áframhaldandi vinna með ökuskólum til að gera þeim kleift að staðfesta með rafrænum hætti lok ökuskóla í stafræna ökunámsbók. Þá er einnig vinna í gangi við undirbúning fyrir rafræna próftöku fyrir bókleg ökupróf og stefnt að innleiðingu árið 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum