Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2023 Innviðaráðuneytið

Ráðstefna um innviðafjárfestingar með áherslu á samgönguinnviði

Landssamtök lífeyrissjóða og innviðaráðuneytið standa fyrir heilsdagsráðstefnu um innviðafjárfestingar með áherslu á samgönguinnviði fimmtudaginn 2. febrúar nk. á Grand hóteli. Yfirskrift ráðstefnunnar er Fjárfesting í þágu þjóðar. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, flytur opnunarerindi ráðstefnunnar og mun fjalla um mikilvægi öflugra og fjölbreyttra fjárfestinga í samgönguinnviðum fyrir íslenskt samfélag.

„Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur til að auka umræðu um arðsamar fjárfestingar í samgönguinnviðum hér á landi og koma auga á slík tækifæri. Ríkið mun sem fyrr gegna lykilhlutverki í uppbyggingu samgönguinnviða en skilgreind samvinnuverkefni með þátttöku öflugra fjárfesta verða þýðingarmikil á næstu árum til að fjölga og flýta fyrir nauðsynlegum samgöngumannvirkjum,“ segir ráðherra.

Fjölmargir fyrirlesarar með þekkingu á ólíkum hliðum innviðauppbyggingar flytja erindi á ráðstefnunni. Þá verða pallborðsumræður um ýmsar leiðir við fjármögnun innviða þar sem varpað verður ljósi á tækifæri af innlendum og erlendum vettvangi.

Ráðstefnan verður haldin á Grand hóteli og stendur frá kl. 8:00-16:00. Þau sem hafa áhuga eru hvött til að skrá þátttöku sína en hægt að velja um að vera á staðfundi eða fylgjast með á streymi. Ráðstefnustjóri er Bergur Ebbi Benediktsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum