Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Gæsluvarðhald á Íslandi er ekki ofnotað eða sjálfvirkt

Amnesty International á Íslandi gaf nýlega út skýrsluna: „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“. Dómsmálaráðuneytið tekur öllum athugasemdum um réttindi gæsluvarðhaldsfanga alvarlega enda eru þar til umfjöllunar mikilvægustu réttindi hvers manns, frelsið.

Á allra síðustu árum hefur fangelsiskerfið á Íslandi tekið þó nokkrum breytingum og er unnið að uppbyggingu kerfisins í heild sinni.  Ísland er aðili að ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum sem varða stöðu frelsissviptra og má þar m.a. nefna samning Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum (CAT), samning Evrópuráðsins um sama efni (CPT), og valfrjálsa bókun við fyrrnefnda samninginn sem kveður á um innlent eftirlit með aðbúnaði frelsissviptra (OPCAT). Á síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld fengið athugasemdir frá eftirlitsaðilum með þessum samningum sem teknar eru alvarlega. Er unnið að ýmsum úrbótum á þessu sviði og sumar þeirra eru þegar komnar til framkvæmda.  Breytingarnar snúa ýmist að þjónustu við þá sem eru vistaðir á grundvelli dóms eða úrskurðar, aðstöðu þeirra og réttindum. Ráðuneytið  mun einnig fara vandlega yfir ofangreinda skýrslu Amnesty International og þær ábendingar sem þar koma fram..

 Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur skapast vegna skýrslu Amnesty telur ráðuneytið rétt að fjalla nánar um nokkur atriði.

Hugtakið einangrun

Meginþungi gagnrýninnar frá Amnesty beinist að notkun einangrunarvistar hérlendis og ekki síst hjá einstaklingum á aldrinum 15-17 ára. Það er því mjög mikilvægt að taka það strax fram að skilgreining Amnesty International á einangrunarvist er vistun án innihaldsríkra samskipta við aðra manneskju í 22 klukkustundir á sólarhring. Samkvæmt staðfestum upplýsingum Fangelsismálastofnunar sæta einstaklingar, á þessum aldri, aldrei slíkri einangrun hérlendis.

Frá árinu 2015 til 2021 sættu tveir sakborningar á aldrinum 15-17 ára einangrun í fangelsi, samkvæmt íslenskum lögum. Báðir voru 17 ára, annar grunaður um stórfellt fíkniefnabrot og hinn um tilraun til manndráps.

Sakhæfisaldur á Íslandi er 15 ár og því verða yngri einstaklingar en það ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Ef sakborningur á aldrinum 15-17 ára er úrskurðaður í gæsluvarðhald eða einangrun er ávallt skoðað hvort möguleiki sé að vista utan fangelsis, þ.e. í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda. Ef það tekst ekki í upphafi er alltaf reynt að gera það eins fljótt og nokkur kostur er. Reynist þörf á að nota fangelsi til einangrunar þá fylgir því enginn samgangur við aðra og eldri fanga. 

Árin 2012 til 2021 voru 10 einstaklingar á aldrinum 15 til 17 ára úrskurðaðir í gæsluvarðhald sem hófst með einangrun í fangelsi, níu þeirra voru 17 ára og einn 15 ára.

Fjöldi gæsluvarðhaldsúrskurða árin 2012 til 2021 fyrir einstaklinga á aldrinum 15-17 ára sem hófu gæsluvarðhald í fangelsi.

Ár         Fjöldi   Aldur og brot

2012     1           17 ára fyrir ofbeldisbrot   

2013     1           15 ára fyrir brennu     

2014     6          17 ára – kynferðisbrot (2) og hópnauðgun (4)

2015     1           17 ára   Stórfellt fíkniefnabrot

2016-2019        0

2020    1           17 ára fyrir tilraun til manndráps

Afstaða Fangelsismálastofnunar

„Þeir aðilar sem eru vistaðir í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna eru í algerum forgangi heilbrigðisstarfsfólks Fangelsismálastofnunar og þeim er sinnt með nærgætnum hætti eins vel og aðstæður leyfa. Öllum þessum einstaklingum er boðinn aðgangur að DVD-spilurum sem og aðgangur að bókum af bókasafni fangelsa auk annarrar afþreyingar sem heimil er. Þá eru fangaverðir sem sinna þessum einstaklingum mjög meðvitaðir um hve erfið upplifun það er að sæta einangrun og þeir leggja sig fram um að eiga virðingarverð samskipti og sýna  sérstaka alúð í öllum samskiptum. Fangelsismálastofnun mun halda áfram að leggja áherslu á mikilvægi þessara mála og leita leiða til þess að auka samskipti og þjónustu við þá sem sæta einangrun sem og að bæta þann aðbúnað sem mögulegt er.“

Aðgerðir yfirvalda í framhaldi af alþjóðlegum skýrslum

Dómsmálaráðherra er með frumvarp á þingmálalista í vetur til breytinga á sakamálalögum en við vinnslu þess er meðal annars verið að skoða athugasemdir sem fram komu í CAT-úttektinni, einkum sem lúta að sérstaklega viðkvæmum hópum, svo sem sakhæfum börnum 15 – 17 ára og fólki með geðræn vandamál.

Í þeirri uppbyggingu sem stefnt er að í fangelsismálum er sérstaklega til skoðunar að koma fyrir gæsluvarðhaldseiningu þar sem unnt er að viðhafa takmarkanir vegna rannsóknarhagsmuna sem ganga skemur en einangrun (símabann, heimsóknarbann, fjölmiðlabann o.þ.h.)

Mikið hefur verið gert á undanförnum árum í því að auka aðgengi fanga og gæsluvarðhaldsfanga að heilbrigðisþjónustu, einkum geðheilbrigðisþjónustu og því verður áfram fylgt eftir af hálfu stjórnvalda.

Íslensk lög skylda lögreglu til að bera varðhald við rannsókn sakamála undir dómara innan 24 klukkustunda. Í nágrannalöndum okkar hefur lögregla stundum 48-72 klst. til þess að rannsaka sakamál með sakborning í varðhaldi, ÁN þess að bera það undir dómara. Sakborningur sem er í haldi þessa fyrstu daga fær einungis að hringja í sinn lögmann, fær ekki heimsóknir og fær ekki að umgangast aðra fanga. Þessar takmarkanir eru til þess að vernda rannsóknarhagsmuni og í sumum tilfellum til að vernda brotaþola. Þennan tímamun gæti þurft að hafa í huga þegar borin er saman tölfræði á milli landa um gæsluvarðhaldsúrskurði og einangrunarvist.

Gæsluvarðhald á Íslandi

Þegar einstaklingar eru handteknir vegna gruns um refsiverða háttsemi er í eitt til tvö skipti af hverjum hundrað óskað eftir gæsluvarðhaldi, en 98 til 99 af hverjum 100 sakborningum fara ekki í gæsluvarðhald og eru látnir lausir innan 24 stunda. Lögregla fer fram á einangrun gæsluvarðhaldsfanga í um 60% þeirra tilvika sem er um 0,6 til 1,2% af heildinni. Þar af leiðandi er villandi að fullyrða að gæsluvarðhaldi og einangrun sé beitt sem einskonar meginreglu við rannsókn sakamála og að úrræðinu sé  misbeitt. Tölfræði sýnir þvert á móti að gæsluvarðhaldi og einangrun er beitt í undantekningartilvikum gagnvart einstaklingum sem eru handteknir og grunaðir um refsiverða háttsemi.

Samanburður við Norðurlönd

Í tölum frá Eurostat vermir Ísland eitt af botnsætunum þegar kemur að gæsluvarðhaldsúrskurðum undanfarin ár í Evrópu. Árin 2012 til 2020 er meðalfjöldi gæsluvarðhaldsfanga á hverjum degi af 100 þúsund íbúum þannig 6 á Íslandi, 11 í Finnlandi, 16 í Svíþjóð, 18 í Noregi, og 21 í Danmörku.

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu

Í skýrslunni er fjallað um aðgengi gæsluvarðhaldsfanga að viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsimálastofnun eiga gæsluvarðhaldsfangar  og almennir fangar rétt á sambærilegri heilbrigðisþjónustu og almennir borgarar. Í sumum tilvikum hafa gæsluvarðhaldsfangar, einkum þeir sem sæta einangrun, aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar sem geðheilsuteymið setur þá í forgang. Þegar einstaklingum er gert að sæta einangrun eru þeir beðnir um að veita upplýsingar um heilsufar sitt og tiltaka sérstaklega hvaða heilbrigðisþjónustu þeir telja nauðsynlega. Samband er haft við lækni samstundis ef óskað er eftir því af hálfu þess sem sætir einangrun eða ef starfsmenn fangelsisins verða varir verið einhverja heilsubresti. Jafnvel þótt ekki sé óskað eftir heilbrigðisþjónustu þá hittir sá sem sætir einangrunarvist lækni tvisvar í viku. Í ljósi athugasemda frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum og nú frá Amnesty verður farið vandlega yfir aðkomu geðheilbrigðisstarfsfólks og annars starfsfólks til þess að draga eins mikið og nokkur kostur er úr skaðlegum áhrifum einangrunarvistar.

Mannréttindi og sakamál

Við rannsókn á sakamálum er það forgangsatriði að sakborningar geti ekki spillt sönnunargögnum eða, þar sem sakborningar eru fleiri en einn, sammælst um framburð í yfirheyrslum. Þess vegna geta lögregluyfirvöld um allan heim þurft að beita ákveðnum samskiptatakmörkunum á fyrstu stigum rannsókna til þess að tryggja rannsóknarhagsmuni. Að mati dómsmálaráðuneytisins er því ekki unnt, þrátt fyrir afstöðu Amnesty International, að taka slík úrræði alfarið úr lögum enda virðast önnur ríki ekki hafa farið þá leið. Dómsmálaráðuneytið tekur þó fyllilega undir með samtökunum að þessu úrræði skuli einungis beita í algjörum undantekningartilfellum þegar ljóst er að önnur úrræði dugi ekki til. Ekki má þó gleyma því að á yfirvöldum hvílir sú skylda að standa vörð um lög og rétt, leitast við að koma í veg fyrir afbrot og að rannsaka refsiverða háttsemi. Að mati dómsmálaráðuneytisins er brýnt að stjórnvöld séu ætíð meðvituð um að leita leiða til að rannsaka sakamál með þeim hætti sem grípur sem minnst inn í réttindi þeirra sem rannsókninni sæta.

Alþjóðlegar skuldbindingar

Íslensk stjórnvöld hafa undirgengist margvíslegar alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda og á grundvelli þessara skuldbindinga gengist undir reglulegar úttektir hjá eftirlitsstofnunum, s.s. nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (CAT-nefndin) og Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndin). Nefndirnar hafa komið á framfæri athugasemdum og tilmælum er varða beitingu gæsluvarðhalds og einangrunar hér á landi síðustu ár og með hliðsjón af vinnu nefndanna hefur dómsmálaráðuneytið unnið að úrbótum á þeim atriðum sem þar er fjallað um.

Þá vill ráðuneytið koma því á framfæri að íslensk stjórnvöld hafa undirgengist valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT). Þar er kveðið á um eftirlit sem komið skal á fót innan hvers aðildarríkis og hér á landi hefur umboðsmanni Alþingis verið falið það hlutverk. Hlutverk umboðsmanns er að kanna hvort og hvernig réttindi frelsissviptra einstaklinga eru virt og draga úr líkum á brotum gegn þeim með forvarnarstarfi. Meginþáttur  í þessu verkefni umboðsmanns er að heimsækja staði þar sem dvelja einstaklingar sem eru eða kunna að vera frelsissviptir. Svo að hægt sé að ná markmiðum eftirlits og forvarnarstarfs umboðsmanns Alþingis sem innlends forvarnaraðila á umboðsmaður í umfangsmiklum samskiptum við innlend stjórnvöld, félagasamtök og fjölþjóðlegar mannréttindastofnanir. Að mati ráðuneytisins hefur þessi vinna umboðsmanns þegar skilað umtalsverðum árangri í að bæta stöðu frelsissviptra einstaklinga og er mikil áhersla lögð á að halda áfram á þeirri braut.

Skýrsla Amnesty International

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum