Hoppa yfir valmynd
22. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði ráðstefnu um þjóðaröryggi og alþjóðasamstarf

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra - mynd

Í krafti smæðarinnar getur Ísland lagt meira af mörkum en margir telja í alþjóðasamstarfi á sviði öryggis- og varnarmála. Þetta er á meðal þess sem kom fram í opnunarerindi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á málstofu um alþjóðasamvinnu og áskoranir samtímans á ráðstefnu þjóðaröryggisráðs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Hörpu í dag. Á ráðstefnunni var boðið upp á samtal um þjóðaröryggi og alþjóðasamstarf og hvernig stjórnvöld geti nýtt alþjóðasamstarf til að tryggja öryggi þjóðar á breyttum tímum. 

Í erindi sínu sagði Þórdís Kolbrún Ísland meðal annars eiga að leggja sig fram um að vera til fyrirmyndar þegar kæmi að virðingu fyrir alþjóðalögum og lagt ýmislegt af mörkum á sviðum þar sem Íslendingar hafi getu og sérþekkingu. Þá geti Ísland oft á tíðum sett málefni á dagskrá sem stærri ríki, sem búi við flóknara net hagsmuna, eigi erfiðara með að gera. 

„Hvað varðar þátttöku í alþjóðakerfinu þá tel ég mikilvægt að Ísland hafi metnað til þess að vera fullgildur þátttakandi þar sem við tökum þátt og að við stefnum að því að ávinna okkur orðspor fyrir metnað og fagmennsku. Við eigum að stefna að því að vera góðir leikmenn í liðinu sem spilar til þess að ná árangri fyrir alþjóðakerfið,“ sagði Þórdís Kolbrún og bætti því við  að sérstaklega þurfi að efla samstöðu um mikilvægi alþjóðakerfisins í íslenskum stjórnmálum. „Undir þetta fellur vitaskuld líka að okkur ber að taka með myndarskap og af alvöru við verkefnum sem okkur eru falin, á borð við að halda hér í Hörpu fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins 16. til 17. maí næstkomandi.“

Þórdís Kolbrún sagðist í sinni tíð sem utanríkisráðherra hafa lagt áherslu á að Íslendingar væru verðugir bandamenn. „Okkur hefur tekist að verða bandamönnum okkar að gagni með því að vinna í krafti smæðarinnar og hraðans til dæmis með skotfærasendingum til Úkraínu í upphafi innrásarinnar, við höfum sett á fót mikilvæg verkefni í sprengjueyðingu, við höfum stutt fjárhagslega við varnartengd verkefni, mikil uppbygging hefur átt sér stað á varnarsvæðinu og áframhald verður á því, við höfum sinnt hlutverki okkar sem gistiríki vegna eftirlits af sívaxandi alvöru, við leggjum til sérfræðinga á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í meiri mæli en fyrr, samstarf okkar við Bandaríkin og önnur bandalagsríki hefur ekki verið nánara um langt árabil, og sem ráðherra varnarmála hef ég lagt kapp á að sýna því verkefni virðingu með því að mæta á fundi kollega minna hvenær sem ég hef haft tækifæri til.“

Ráðherra sagði þrennt skipta mestu máli hvað öryggi Íslands varðar. Í fyrsta lagi að alþjóðalög séu virt. „Ef alþjóðalög halda ekki þá treystum við á stofnanir alþjóðakerfisins. Ef alþjóðakerfið brestur þá treystum við á vina- og bandalagsríki sem hafa skuldbundið sig til sameiginlegra varna,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Stofnaðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin væru hornsteinar öryggis og varna Íslands. Hvort tveggja hafi veri umdeilt í gegnum tíðina á Íslandi, en með samþykkt þjóðaröryggisstefnu árið 2016 sem nýlega var uppfærð megi segja að meiri sátt ríki innanlands um öryggis- og varnarmál en verið hafi um langt árabil. 

„Það skiptir líka máli fyrir okkur Íslendinga, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa í Evrópu að við gleymum því ekki að herleysi okkar sjálfra er ekki eitthvað sem við getum leyft okkur að gorta okkur af. Við getum verið þakklát fyrir það en megum aldrei gleyma að þegar öllu er á botninn hvolft þá er friðurinn okkar líka verndaður með vopnum.“

Á vefsíðu Alþjóðamálastofnunar má sjá upptöku frá ráðstefnunni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum