Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland styrkir innviðaverkefni UNDP í Úkraínu

Íslensk stjórnvöld ætla að veita 72 milljónum króna til innviðaverkefnis Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu. Markmiðið er að styrkja grunnorkuinnviði í landinu sem eru víða í lamasessi vegna árása Rússlands.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 72 milljóna króna framlagi til verkefnis á vegum Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) í Úkraínu. Það styður vinnu stjórnvalda við endurbyggingu rafstöðva og dreifikerfa, svo tryggja megi áframhaldandi aðgang að lífsbjargandi grunnþjónustu á stríðshrjáðum svæðum, einkum í Kharkiv og nágrenni. Framlagið er hluti af mannúðar- og efnahagsaðstoð Íslands við Úkraínu.

“Kerfisbundnar árásir Rússlands á borgaralega orkuvinniði í Úkraínu eru gróft brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og þær hafa haft í för með sér miklar þjáningar fyrir almenning í landinu. Uppbygging á sjálfbærum orkuinnviðum er lykilforsenda þess að lina þessar þjáningar og leggja um leið grunninn að endurreisn til framtíðar. Stuðningur og samstaða Íslands með Úkraínu er óbilandi og við erum stolt af því að styðja við starf UNDP á sviði þróunar og mannúðarmála í Úkraínu,” segir utanríkisráðherra.

Grunninnviðir í Úkraínu, ekki síst orkuinnviðir, hafa sætt kerfisbundnum árásum af hálfu Rússlands frá því að innrásarstríðið hófst. Framleiðslugeta rafmagns hefur minnkað til muna og viðvarandi skortur er nú á rafmagni, gasi og vatni víða um landið. Brýn þörf er á stuðningi við að byggja upp á ný og viðhalda orkuinnviðum auk þess að koma til móts við þörf fyrir mannúðaraðstoð og efnahagsuppbyggingu í landinu.

Ísland hefur frá upphafi innrásarinnar stutt við uppbyggingu orkuinnviða í Úkraínu og er þess skemmst að minnast þegar íslensk dreifi- og veitufyrirtæki sendu raforkubúnað af ýmsu tagi til Úkraínu. Þá hafa íslensk stjórnvöld lagt 1,5 milljónir bandaríkjadala í orkusjóð fyrir Úkraínu (Ukraine Energy Support Fund) á vegum evrópsks samstarfsvettvangs um orkumál (Energy Community).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum