Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2023 Innviðaráðuneytið

Starfshópur leggur til breytingar á regluverki til að gera úrbætur á brunavörnum

 Frá brunaæfingu. - myndGolli

Starfshópur sem innviðaráðherra skipaði um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu hefur skilað tillögum um mögulegar lagabreytingar til að tryggja sem best rétta skráningu fólks í húsnæði, auka öryggi íbúa og bæta upplýsingagjöf til viðbragðsaðila ef hætta steðjar að vegna eldsvoða, náttúruvár eða af öðrum ástæðum. 

Tillögur starfshópsins hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 28. apríl nk. Ábendingar og athugasemdir sem berast verða hafðar til hliðsjónar við nánari útfærslu starfshópsins á tillögum sem kynntar verða í lokaskýrslu hópsins til ráðherra. Ráðuneytið mun í kjölfarið taka tillögur starfshópsins til frekari skoðunar í tengslum við undirbúning frumvarps um lagabreytingar á þessu sviði. Þegar áform um lagasetningu liggja fyrir verða þau kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Hópurinn var annar tveggja starfshópa sem skipaðir voru til að útfæra og fylgja eftir tillögum úr skýrslu samráðsvettvangs um úrbætur á brunavörnum, sem gerð var í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg 1.

Starfshópnum var falið að meta fjórar tillögur úr skýrslu samráðsvettvangsins, nr. 6, 9, 11 og 12. Hann leggur til breytingar á lögum og reglugerðum sem snúa að þremur tillagnanna en í einni þeirra er lagt til að ráðast í fræðsluátak.

Tillaga nr. 6 fjallaði um endurskoðun heimilda til fjöldaskráningar í íbúðarhúsnæði. Starfshópurinn leggur til að breyta lögum og reglugerð um lögheimili og aðsetur. Að í reglugerð verð bætt við heimild um fjöldatakmörkun í íbúðarhúsnæði og í lögum verði Þjóðskrá Íslands heimilað að hlutast til um skráningu íbúa ef fullnægjandi gögn um búsetu liggja fyrir.

Í tillögu 9 er lagt til að hefja átaksverkefni vegna eldri timburhúsa með fræðslu og skjalfestingu brunavarna. Starfshópurinn leggur til tvískipt fræðsluátak. Í fyrsta lagi verði handbók gerð fyrir fagaðila um brunavarnir í timburhúsum og í öðru lagi á samfélagsmiðlum með myndum og myndböndum á vef HMS.

Tillaga nr. 11 fjallaði um að meta þurfi hvort og í hvaða mæli heimila skuli með lögum tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi. Starfshópurinn telur að ef heimila skuli slíka tímabundna aðsetursskráningu þurfi að bæta við heimild í lög um lögheimili. Einnig leggur starfshópurinn til breytingu á brunavarnalögum sem veiti slökkviliðsstjóra sérstaka heimild til eldvarnareftirlits í atvinnuhúsnæði þar sem fyrirhugað væri að skrá tímabundið aðsetur.

Í tillögu 12 er lagt til að endurskoðaðar verði heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum og til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits. Starfshópurinn telur í drögum að skýrslu sinni að gera þurfi breytingar á brunavarnalögum til að veita skýrari heimild til eftirlits, liggi fyrir rökstuddur grunur slökkviliðs að brunavörnum í húsnæði sé sérlega ábótavant og líf og heilsa manna sé í húfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum