Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr kennsluvefur fyrir börn opnaður

Frá opnun Icelandic Online fyrir helgi - myndKristinn Ingvarsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, opnaði kennsluvefinn Icelandic Online Börn við hátíðlega athöfn í Vigdísarstofu í Veröld – húsi Vigdísar á Barnamenningarhátíð Reykjavíkur.

Íslenska á netinu fyrir börn er gagnvirkt námsefni með leikjaívafi í íslensku sem öðru máli fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla. Kennsluvefurinn er gjaldfrjáls og öllum opinn.

Á kennsluvefnum eru sjö námskeið í mismunandi þyngdarstigum. Markhópurinn eru fimm til sjö ára börn sem eiga erlent mál að móðurmáli og íslensk börn sem alist hafa upp í öðru málumhverfi og eru að byrja að lesa.

Brottfallið áhyggjuefni

Í ræðu sinni á opnunarathöfninni, fagnaði menningar- og viðskiptaráðherra tilkomu kennsluvefjarins og lagði áherslu á mikilvægi íslenskunáms og stuðnings við fjöltyngd börn.

„Íslenska á netinu (e. Icelandic Online) fyrir börn er mikilvæg viðbót við námsefni sem er í boði fyrir sífellt stækkandi hóp barna með erlendan bakgrunn í skólakerfinu. Bætt íslenskukennsla og þjónusta við börn með erlendan bakgrunn er einmitt eitt af því sem við leggjum mesta áherslu á í vinnu við aðgerðaáætlun um málefni íslenskrar tungu sem verður kynnt á næstu vikum.“

Efnið á vefnum Icelandic Online fyrir börn mun einnig nýtast sem ítarefni við móðurmálsnám, en í því er sérstök áhersla lögð á skólamál og mál námsbóka. Námskeiðið tekur mið af Aðalnámskrá leik- og grunnskóla, og nýtir sér vefnámskeiðaumhverfi Icelandic Online, sem hentar bæði tölvum og snjalltækjum.



Skólabörn úr 5. og 6. bekk Landakotsskóla voru sérstakir gestir við opnunina og sungu tvö lög við ljóð Þórarins Eldjárns.

„Brottfall nemenda með erlendan bakgrunn úr framhaldsskólum landsins hefur lengi verið áhyggjuefni. Það minnkar milli ára en er enn allt of hátt – tæpur helmingur innflytjenda sem skráir sig í nám í framhaldsskóla lýkur því ekki. Tungumálið spilar þar stóran þátt og til að laga stöðuna er ljóst að við verðum að byrja snemma, í leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskóla, og gera allt sem í okkar valdi stendur til að kenna þessum börnum íslensku strax,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Verðlaunaverkefni

Vefurinn Icelandic Online hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og má því sambandi nefna Hagnýtingarverðlaun Háskólans og sérstaka viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu.

„.Mikilvægur hluti af samfélagslegu hlutverki skólans er að afla, varðveita og miðla þekkingu á sviði íslenskrar sögu, menningar og tungu,“ sagði Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands á viðburðinum.

Verkefnið hlaut styrki frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Barnavinafélaginu Sumargjöf, Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur, Þróunarsjóði innflytjendamála og Þróunarsjóði námsgagna. Vefurinn verður hýstur hjá Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands.

Ritstjórar nýja kennsluvefjarins voru Birna Arnbjörnsdóttir og Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir en Úlfur Alexander Einarsson verkefnastýrði hugbúnaðar- og forritunarvinnu. Handritsgerð var í höndum Halldóru Jóhönnu Þorláksdóttur, Þorgerðar Önnu Björnsdóttur og Birnu Arnbjörnsdóttur. Um grafíska hönnun sá Bjarney Hinriksdóttir og Davíð Hólm Júlíusson um myndbandagerð, hljóðupptökur og hljóðvinnslu. Ásamt handritshöfundum sátu í ritnefnd Branislav Bédi, Kolbrún Friðriksdóttir og Úlfar Bragason.

Aðrir starfsmenn voru Anna María Steingrímsdóttir, Guðlaug Agnes Kristjánsdóttir, Gunnar Dofri Viðarsson, Júlía Hermannsdóttir, Saga Rut Sunnevudóttir, Sara Ósk Þorsteinsdóttir, Sigurður Birkir Sigurðsson og Þröstur Almar Þrastarson. Talsetningu önnuðust Jón Bergsteinn Auðarson, Kristín Jónsdóttir, Rebekka Þráinsdóttir, Þorgerður Anna Björnsdóttir og Þorri Elís Halldóruson. Bergur A. H. Jónsson og Diljá Þorbjargardóttir aðstoðuðu við yfirlestur og villuprófanir. Hulda Karen Daníelsdóttir, Renata Emilsson Pesková, Sigríður Sigurjónsdóttir og Ragnhildur Sigurðardóttir voru í ráðgjafanefnd en sérfræðingar við Menntamálastofnun veittu einnig ráðgjöf við gerð efnisins.

Skoða vefinn betur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum