Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Leggja til úrbætur vegna myndastoppa ferðamanna á Gullna hringnum

Erlendir ferðamenn í Kömbunum - myndGolli

Einu myndastoppi eða áningarstað verður bætt við á Gullna hringnum á næstunni í samráð við Gullna hringborðið sem er nýr samráðsvettvangur svæðisins sem tók til starfa í vetur. Stöðum verður forgangsraðað og einn valinn út frá þeirri forgangsröðun.

„Það er gríðarlega mikilvægt að vinna að auknu öryggi á þessari fjölförnu leið. Það er von ráðuneytisins að nýr áningarstaður geti hjálpað til við að hægja á umferð og jafna flæði hennar betur um Gullna hringinn. Jafnframt að þetta verkefni geti nýst Gullna hringborðinu og öðrum hagaðilum við frekari vinnu við að bæta flæði umferðar á Gullna hringnum í framtíðinni,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Mikilvægt að auka umferðaröryggi

Í nýrri skýrslu Vegagerðarinnar kemur fram að úrbóta er þörf á mörgum áningarstaða ferðamanna á Gullna hringnum, einni fjölförnustu ferðamannaleið landsins. Einnig er lagt til að bætt verði við svokölluðum norðurljósaplönum til að auka umferðaröryggi á þessari rúmlega 200 kílómetra vegalengd.

Skýrslan var unnin af VSÓ Ráðgjöf fyrir hönd Vegagerðarinnar og fjármögnuð af Vörðu sem er samstarfsverkefni á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

„Sjálfbærni er mikilvægt leiðarljós fyrir þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Stuðla þarf að því að vöxtur sé ekki umfram getu og innviði á fjölsóttum svæðum eins og Gullna hringnum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Norðurljósaplan gæti dregið úr slysahættu

Markmið verkefnisins er að fá heildstæða yfirsýn yfir staði á Gullna hringnum þar sem ferðamenn stoppa gjarnan á til myndatöku og þar sem engin aðstaða er til staðar. Einnig að leggja til fyrstu úrbætur að bættu flæði umferðar ferðamanna um svæðið og jöfnun á álagstoppum sem og búa til grunn til frekari úrbóta til framtíðar.

Í skýrslunni er farið yfir helstu myndastoppin á Gullna hringnum og það aðdráttarafl sem hver staður hefur eins og norðurljós, útsýni, hross eða annað slíkt. Einnig var farið yfir slysakort Samgöngustofu fyrir svæðið yfir tíu ára tímabil. Komið er með tillögur til úrbóta eins og að bæta við merkingum, útbúa bílaplön, bæta yfirborð og svo framvegis.

Einnig er talað um áningarstaði þar sem hugmyndin er að gestir geti stoppað lengur, bekkir og borð eru til staðar á áningarsvæði þannig að gestir geti sest niður og t.d. nært sig. Er einnig talað um norðurljósaplan, en hugtakið er nýtt af nálinni og kemur í kjölfar viðtala við rútubílstjóra sem eru öllum hnútum kunnugir á Gullna hringnum. Þeir nefndu t.d. að þeir komi oft að bílaleigubílum sem hafa stöðvað hér og þar við þjóðvegi að vetrarlagi og ástæðan er norðurljós á himni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum