Hoppa yfir valmynd
3. maí 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á leiðtogafundi Norðurlandanna með forseta Úkraínu

Mynd: Roni Rekomaa/Office of the President of Finland - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, sem fram fór í Helsinki.

Gestgjafi fundarins var Sauli Niinistö, forseti Finnlands, en auk forsætisráðherra og forseta Úkraínu tóku Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, þátt í fundinum.

Á fundinum hétu norrænu leiðtogarnir áframhaldandi órofa stuðningi Norðurlandanna við Úkraínu. Var sá stuðningur ítrekaður í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins. Þar segir að Norðurlöndin muni áfram, hvert fyrir sig, sem ríkjahópur og á vettvangi alþjóðastofnana, veita Úkraínu mannúðaraðstoð og pólitískan, fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning.

Norðurlöndin lýsa einnig yfir fullum stuðningi við áætlanir Úkraínu um réttlátan og varanlegan frið sem byggi á fullveldi Úkraínu innan viðurkenndra landamæra sinna. Þá er í yfirlýsingunni ítrekað mikilvægi þess að þeir sem beri ábyrgð á stríðsglæpum í Úkraínu verði dregnir til ábyrgðar og að til þess verði stofnaður sérstakur dómstóll.

Norðurlöndin og Úkraína munu áfram í samstarfi við alþjóðasamfélagið vinna að því að tryggja að Rússar greiði bætur fyrir það tjón sem stríðsrekstur þeirra hefur valdið. Liður í því er að koma á fót alþjóðlegri tjónaskrá sem kynnt verður á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík 16.-17. maí nk. Norðurlöndin heita einnig stuðningi sínum við þá uppbyggingu sem framundan er í Úkraínu þegar stríðinu lýkur.

Loks er í yfirlýsingunni fjallað um aðildarumsókn Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu. Þar er ítrekað að Úkraínu sé frjálst að ráða sínum öryggis- og varnarmálum. Þau Norðurlönd sem eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu munu áfram styðja við Úkraínu á leið sinni að aðild. Þessi mál verða rædd frekar á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Vilníus í júlí.

Sameiginleg yfirlýsing leiðtogafundar Norðurlandanna og Úkraínu (á ensku)

  • Forsætisráðherra á leiðtogafundi Norðurlandanna með forseta Úkraínu - mynd úr myndasafni númer 1
  • Forsætisráðherra á leiðtogafundi Norðurlandanna með forseta Úkraínu - mynd úr myndasafni númer 2
  • Forsætisráðherra á leiðtogafundi Norðurlandanna með forseta Úkraínu - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum