Hoppa yfir valmynd
12. maí 2023 Innviðaráðuneytið

Breytingar á hafnalögum samþykktar á Alþingi

Alþingi samþykkti fyrr í vikunni frumvarp innviðaráðherra um breytingar á hafnalögum. Meðal breytinga er að í gjaldskrám hafna, sem eru ekki í opinberri eigu, verður heimilt að taka mið af umhverfissjónarmiðum, orkunýtni eða kolefnisnýtni í siglingum. Nær þessi heimild til Faxaflóahafna, stærstu hafnar Íslands, en ráðuneytið hyggst nú í kjölfarið undirbúa ákvæði sem nær yfir aðrar hafnir landsins.

Með breytingunum er opnað á umhverfismiðaða gjaldtöku sem hefur rutt sér til rúms í Evrópu. Í dag eru einungis skemmtiferðaskip metin samkvæmt þessum alþjóðlegu vísitölum en þegar fram líða stundir gætu flutningaskip bæst við. Með þessu verður til fjárhagslegt hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari skipareksturs. Afslættir eða álögur af þessu tagi skulu samkvæmt breyttum lögum vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismunar og samræmast samkeppnislögum. 

Samráð um gjaldtöku

Við lagabreytinguna bætist einnig við ákvæði sem skyldar hafnir innan samevrópska flutninganetsins til að eiga samráð við notendur um gjaldtökustefnu sína og veita upplýsingar um umtalverðar breytingar á gjaldtöku minnst tveimur mánuðum áður en breytingar taka gildi. Samhliða þessu er ráðherra falið gefa út reglugerð sem tilgreini hvaða hafnir tilheyri samevrópska flutningsnetinu hverju sinni og um veitingu hafnarþjónustu, gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði hafna.

Ráðuneytið mun í kjölfar þessarar lagasetningar innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Nær sú gerð til allra hafna innan samevrópska flutninganetsins. Fimm íslenskar hafnir eru nú hluti af flutninganetinu: Sundahöfn, Seyðisfjarðarhöfn, Fjarðarbyggðahafnir, Vestmannaeyjahöfn og Landeyjahöfn.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum