Hoppa yfir valmynd
1. júní 2023 Innviðaráðuneytið

Norrænir samgönguráðherrar funduðu í Lúxemborg um evrópska samvinnu

Samgönguráðherrar Norðurlandanna á fundi sínum í Lúxemborg. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, bauð samgönguráðherrum Norðurlanda til fundar í gærkvöldi í Lúxemborg í aðdraganda fundar ráðherraráðs ESB á sviði samgöngumála. Á fundinum voru rædd ýmis samgöngumál.

Hefð hefur skapast fyrir því að ráðherrar Norðurlandanna fundi áður en ráðherraráð hittist. Þar sem Ísland er í formennsku í norrænu ráðherranefndinni boðaði Sigurður Ingi til þessa fundar. 

Á þessum fundum gefst ráðherrum tækifæri að skiptast á skoðunum um stefnumótunarvinnu ESB á sviði samgöngumála og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. 

Meðal þess sem fjallað var um á fundinum var umhverfislöggjöf Evrópusambandsins, oftast nefnd „Fit for 55“. Ráðherra sagði þar m.a. frá samkomulagi sem náðst hefur við framkvæmdastjórn ESB um losunarheimildir í flugi.

Þá var rætt um tillögu framkvæmdastjórnar ESB um ökuskírteini, sem m.a. felur í sér að bílprófsaldur verði 18 ár. Í þeim umræðum lýsti ráðherra sjónarmiðum Íslands þess efnis að ekki væri þörf á að hækka aldurinn hér á landi enda hafi Íslandi með markvissum hætti tekist að fækka umferðarslysum meðal yngri ökumanna auk sem að landið liggur ekki að öðru landi. Einnig var rætt um upplýsingaskipti um umferðalagabrot sem þýðir að hægt verði að innheimta fyrir umferðalagabrot þótt viðkomandi sé staddur í öðru landi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum