Hoppa yfir valmynd
5. júní 2023 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu

Afkoma ríkissjóðs stórbatnar áfram miðað við fyrri áætlanir samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans og er afkoma á frumjöfnuði nú 90 milljörðum betri en gert var ráð fyrir við samþykkt síðustu fjárlaga.

Til viðbótar við skýra stefnu sem birtist í framlagðri fjármálaáætlun og bætta afkomu ræðst ríkisstjórnin nú í enn frekari aðgerðir til þess að vinna gegn verðbólgu og frekari hækkun vaxta. Þetta styður við aðgerðir Seðlabanka Íslands og spornar gegn þenslu, bætir afkomuna og tekur utan um hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana.

Helstu aðgerðir eru:

  • Lögum verður breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% þann 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting.
  • Stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verða þær 1000 á ári. Auk þess verður 250 nýjum íbúðum bætt við fyrri áætlanir þessa árs og verða þá samtals tæplega 800. Þetta styður við aukið framboð á húsnæðismarkaði.
  • Fjármálareglur taka gildi ári fyrr en áætlað var en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldri.
  • Frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs verður lagt fram að nýju til að styrkja enn frekar áfallaþol ríkissjóðs til framtíðar.
  •  Lagt verður mat á árangur af núverandi fjármálareglum og tækifæri til úrbóta.
  • Afkoma ríkissjóðs verður bætt um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum eins og fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
  • Þar af verður framkvæmdum fyrir a.m.k. 3,5 milljarða króna frestað tímabundið til að draga úr þenslu. Meðal verkefna er nýbygging stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila.
  • Til þess að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega verður lífeyrir almannatrygginga hækkaður um 2,5% frá miðju ári, til viðbótar við 7,4% hækkun í upphafi árs.
  • Frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verður hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá 1. janúar sl., til viðbótar við hækkun þess í upphafi árs um 7,4%.
  • Þá er unnið að lagabreytingum sem munu bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og mun starfshópur skila tillögum sínum þar að lútandi fyrir 1. júlí næstkomandi.
  • Kannaðar verða breytingar á lagaumhverfi heimagistingar til að jafna samkeppnisstöðu og draga úr þrýstingi á húsnæðismarkað.

Hófleg launahækkun

Lagt verður fram frumvarp á Alþingi um að launahækkanir þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins verði minni í ár en viðmið laga gera ráð fyrir. Þannig muni launin hækka um 2,5% í stað 6%.

Þannig er tryggt að laun æðstu ráðamanna auki ekki verðbólguþrýsting.

Góð staða efnahagsmála og sterkari ríkissjóður

Gangi nýleg þjóðhagspá Seðlabankans eftir er útlit fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. afkoma að frátöldum vaxtagjöldum, verði jákvæður um nærri 44 ma.kr. í ár. Þetta er 20 ma.kr. betri afkoma en vænst var við framlagningu fjármálaáætlunar í mars og 90 ma.kr. betri afkoma en vænst var við samþykkt fjárlaga fyrir yfirstandandi ár í desember síðastliðnum. Einnig er útlit fyrir 10 ma.kr. betri afkomu árið 2024 en áður var áætlað.

 

Afkomubati ríkissjóðs eftir heimsfaraldur er einn sá hraðasti meðal þróaðra ríkja. Fá hagkerfi hafa vaxið hraðar út úr faraldrinum og er útlit fyrir að hagvöxtur í ár verði óvíða meiri en hér á landi. Þessum mikla efnahagsbata hefur fylgt stórbætt afkoma ríkissjóðs, enda er atvinnuástandið gott, störfum hefur fjölgað um 10.000 á einu ári, mikil umsvif eru í flestum atvinnugreinum og útlit fyrir eitt besta ár ferðaþjónustunnar frá upphafi.

Hraður hagvöxtur og afkomubati ríkissjóðs stuðla að lækkandi skuldahlutföllum á næstu árum, en þau eru góð í alþjóðlegum samanburði. Gangi hagspá Seðlabankans eftir er líklegt að skuldir sem hlutfall af VLF batni áfram og verði um prósentustigi lægri en miðað er við í framlagðri fjármálaáætlun. Verða skuldir ríkissjóðs samkvæmt skilgreiningu laga um opinber fjármál þá um 30,5% af VLF í árslok í stað 31,4% af VLF. Fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 gerði hins vegar ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs yrðu um 50% af VLF í árslok 2023.

Sparnaður í ríkisrekstri dregur úr verðbólguþrýstingi

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára gerir ríkisstjórnin ráð fyrir aðhaldi á næsta ári upp á 8,8 milljarða króna með auknum sparnaði í rekstri stofnana ríkisins, sérstöku viðbótaraðhaldi á aðalskrifstofur ráðuneyta og frestun fjárfestinga. Fjárfestingum verður frestað fyrir a.m.k. 3,5 ma.kr.

 

Til viðbótar verður afkoman bætt um 9 milljarða í fjárlögum ársins 2024. Þar verður m.a. horft til þess að draga úr ferðakostnaði Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins, fresta fjárfestingum og draga úr ríkisstuðningi þar sem þenslan er mest. Meðal verkefna sem verður frestað frekar er nýbygging stjórnarráðsins við Lækjargötu og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila.

Þá er unnið er að útfærslu ríflega 18 milljarða króna tekjuráðstafana fyrir fjárlög næsta árs sem m.a. munu birtast í breyttu gjaldtökukerfi af ökutækjum og í aukinni gjaldtöku á ferðaþjónustu. Þá verður gjald á fiskeldisfyrirtæki hækkað á árinu 2025 auk þess sem gert er ráð fyrir að endurskoðun veiðigjalds muni skila viðbótartekjum upp á samtals 13 milljarða á tímabili áætlunarinnar. Enn fremur verður tekjuskattur lögaðila tímabundið hækkaður um 1% í eitt ár árið 2025 vegna tekna ársins 2024.

Varðstaða um grunnþjónustu

Afkomutryggingakerfin og velferðarþjónusta eru áfram undanþegin aðhaldi og engin aðhaldskrafa er gerð á almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, sjúkratryggingar og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Þá er aðhaldsmarkmið í rekstri framhalds- og háskóla lægra en almennt aðhald, eða 0,5% og felld er niður aðhaldskrafa á fangelsismál og á löggæslu á árunum 2024 og 2025.

Umgjörð ríkisfjármálanna styrkt

Samhliða bættri afkomu og aðhaldi munu stjórnvöld útfæra frekari umbætur á umgjörð ríkisfjármálanna til að stuðla að stöðugleika til lengri tíma. Í því skyni verður m.a. gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • Gildistöku fjármálareglna laga um opinber fjármál verður flýtt um eitt ár. Þetta er til marks um hratt batnandi afkomu og skuldastöðu langt umfram fyrri áætlanir. Þykir því ekki rétt að frekari slaki sé gefinn í þessum efnum en þörf er á.
  • Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja fram frumvarp um þjóðarsjóð á komandi þingi. Þannig verði tryggt að nýjum tekjum verði ekki einungis varið í aukin útgjöld, heldur einnig til að búa í haginn fyrir óvænt áföll framtíðar.
  • Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja fram skýrslu á Alþingi í haust um alþjóðlega þróun fjármálareglna, þar sem lagt verður mat á árangur núverandi reglna og tækifæri til enn frekari árangurs könnuð.

Tvöfalt fleiri hagkvæmar leiguíbúðir byggðar

Framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga verður stóraukið á næstu misserum. Framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar og stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð þannig að 1000 íbúðir verða byggðar árlega 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins í stað 500. Auk þess verða tæplega 800 íbúðir byggðar á þessu ári sem er fjölgun um 250 íbúðir frá fyrri áformum.

Fjármögnun er tryggð með svigrúmi sem til staðar er í fjármálaáætluninni og hliðrun annarra verkefna, enda er stöðugleiki á húsnæðismarkaði forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Stofnframlög eru veitt til byggingar og kaupa á hagkvæmum leiguíbúðum sem stuðlar að lægra leiguverði. Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur undir tilteknum tekjumörkum.

Þá er unnið að lagabreytingum sem munu bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og mun starfshópur skila tillögum sínum þar að lútandi fyrir 1. júlí næstkomandi.

Jafnframt eru í skoðun breytingar á lagaumhverfi heimagistingar til að jafna samkeppnisstöðu og draga úr þrýstingi á húsnæðismarkað.

Mótvægisaðgerðir fyrir lífeyrisþega, barnafólk og leigjendur

Ríkisstjórnin mun áfram styðja þá hópa sem erfiðast eiga með að mæta áhrifum verðbólgunnar og vaxtahækkana. Til að verja kaupmátt elli- og örorkulífeyrisþega verða bætur almannatrygginga hækkaðar á miðju ári um 2,5%. Til að húsnæðisbætur skerðist ekki á móti er frítekjumark húsnæðisbóta jafnframt hækkað um 2,5% afturvirkt frá og með 1. janúar 2023. Hvorttveggja er til viðbótar við 7,4% hækkun í upphafi árs.

Þessar aðgerðir koma til viðbótar verulegum stuðningi undanfarin misseri, en þar má m.a. nefna:

  • Bætur almannatrygginga hækkuðu um tæp 9% 2022 og um 7,4% þann 1. janúar 2023.  
  • Frítekjumark atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hækkaði í 200.000 krónur í ársbyrjun 2023.  
  • Húsaleigubætur hafa verið hækkaðar um fjórðung frá miðju ári 2022 auk þess sem frítekjumörk voru hækkuð til jafns við hækkun bóta.  
  • Eignamörk voru hækkuð um 50% í vaxtabótakerfinu í byrjun árs.  
  • Barnabætur hækkuðu í byrjun árs með hærri grunnfjárhæðum og skerðingarmörkum, auk fækkunar á skerðingarhlutföllum. Lægri jaðarskattar og um 3000 fleiri fjölskyldur fá bætur í nýju kerfi en ella. Auk þessa er unnið að fyrirkomulagi á greiðslu samtíma barnabóta sem kemur til framkvæmda í byrjun árs 2024.  
  •  Persónuafsláttur og þrepamörk hækkuðu um 10,7% 1. janúar 2023.  Alls lækka skattar á heimili um sex milljarða króna á árinu. Meðalskatthlutfall einstaklings með 450 þús. kr. í mánaðarlaun lækkar þannig um 1,8 prósentur og 0,9 prósentur hjá einstaklingi með 900 þús. kr. í mánaðarlaun. Ráðstöfunartekjur beggja heimila vaxa þannig um u.þ.b. 100 þús. kr. á ári aðeins vegna skattalækkunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum