Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

S&P Global Ratings hækkar lánshæfiseinkunn Íslands í A+ með stöðugum horfum

Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands í A+ úr A. Horfur fyrir einkunnina eru stöðugar.

Hækkun lánshæfiseinkunnarinnar endurspeglar áframhaldandi sterkan hagvöxt þrátt fyrir að hagkerfið hafi strax á fyrsta ársfjórðungi 2022 náð fyrra stigi sínu frá því fyrir faraldurinn. S&P spáir 3,8% hagvexti árið 2023 sem er meiri vöxtur en í öðrum Evrópuríkjum sem S&P gefur lánshæfiseinkunn.

Ferðaþjónusta, sem stendur að baki 30% útflutnings, stendur vel og umsvif í greininni eru orðin meiri en 2019 á flesta mælikvarða, þar á meðal komur ferðamanna. S&P gerir ráð fyrir því að innlend eftirspurn muni taka við sem drifkraftur hagvaxtar árið 2024, studd sterkri náttúrulegri fólksfjölgun og áframhaldandi vexti nýrra atvinnugreina, þ.m.t. líftækni, fiskeldi, upplýsingatækni og viðskiptaþjónustu. S&P bendir líka á að Ísland er sjálfu sér nægt um innlenda orkuþörf, fyrst og fremst með vatnsorku og jarðvarma.

Á sama tíma eru stjórnvöld að hraða afkomubata ríkisfjármála, ekki síst til þess að styðja peningastefnuna í að lækka verðbólgu sem S&P gerir ráð fyrir að verði 8% að meðaltali árið 2023. Hreinar opinberar skuldir fara lækkandi; S&P spáir því að þær verði 41% af VLF árið 2026 og lækki úr 46% af VLF í árslok 2023. Að mati S&P veita lítil erlend skuldsetning Íslands og sterkur gjaldeyrisforði frekari viðnámsþrótt. Sterk stofnanaumgjörð og skilvirk stefnumótun stjórnvalda styðja einnig við einkunnina.

Þættir sem halda engu að síður aftur af einkunninni eru sveiflukennt eðli íslenska hagkerfisins og takmörkuð skilvirkni peningastefnu sökum þess hvað ytri þættir geta haft mikil áhrif á þróun innlendrar verðbólgu.

Stöðugar horfur endurspegla það mat S&P að íslenska hagkerfið muni vaxa áfram á næstu tveimur árum á sama tíma og halli á rekstri hins opinbera og viðskiptajöfnuði verður hóflegur.

Samkvæmt S&P gætu lánshæfiseinkunnir Íslands verið hækkaðar ef opinber fjármál styrkjast umtalsvert umfram það sem fyrirtækið væntir nú, til dæmis ef hagvöxtur verður meiri eða stjórnvöld grípa til frekari ráðstafana.

S&P gæti lækkað einkunnirnar ef staða ríkisfjármála eða ytri staða hagkerfisins versnar umtalsvert í samanburði við spár. Það gæti til dæmis gerst ef óvænt áfall hefur neikvæð áhrif í ferðaþjónustu.

Fréttatilkynning S&P


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum