Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar ræddu þróun öryggismála á fundi í Stokkhólmi

Frá sameiginlegum fundi varnarmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. - myndRegeringskansliet/Niklas Forsström

Þróun öryggismála, aukinn varnarviðbúnaður og stuðningur við Úkraínu voru áherslumál á tveggja daga fundi varnarmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem lauk í Stokkhólmi  í gær. 

Fyrri daginn fóru fram fundir norrænu ráðherranna þar sem rætt var um ört vaxandi samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum sem styrkist enn frekar með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið. Markvisst hefur verið unnið að því að tengja ríkin betur saman með æfingum og áætlanagerð sem miðar að því að auka viðbúnað og samhæfingu. Ísland tekur virkan þátt í vinnunni og hóf sömuleiðis fulla þátttöku í hermálahlið norræna varnarsamstarfsins í lok síðasta árs. 

Aukið samstarf Norðurlandanna í varnarmálum mikið fagnaðarefni

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, sem gegnir einnig hlutverki varnarmálaráðherra, átti tvíhliða fund með Pål Jonson varnarmálaráðherra Svíþjóðar sem fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu (NORDEFCO) í ár en Danir taka við keflinu í næsta mánuði. Á fundinum ræddu ráðherrarnir samstarf ríkjanna, þróun öryggismála og stöðu aðildarumsóknar Svíþjóðar. 

„Stóraukið samstarf Norðurlandanna í varnarmálum síðustu misseri er mikið fagnaðarefni enda deilum við bæði áherslum og sameiginlegum hagsmunum á svæðinu. Aðild Finnlands, og von bráðar Svíþjóðar, að Atlantshafsbandalaginu styrkir stöðu bandalagsins og eflir öryggi íbúa Norðurlandanna enn frekar. Á fundi mínum með Pål Jonson ítrekaði ég ótvíræðan stuðning Íslands við aðild Svíþjóðar sem ég bind vonir við að verði að veruleika mjög fljótlega,” segir Bjarni Bendiktsson, utanríkisráðherra.

Þá fór fram sameiginlegur fundur varnarmálaráðherra Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna með áherslu á öryggismál í Norður-Evrópu og á Eystrasaltinu.

Til hliðar við ráðherrafundina tóku ráðherrarnir þátt í fjarfundi ríkjahóps sem styður varnir Úkraínu (Ukraine Defence Contact Group). Utanríkisráðherra tilkynnti við það tilefni að búið sé að afhenda Úkraínu færanlegt neyðarsjúkrahús og að Ísland hyggist taka þátt í verkefnum er snúa að stuðning við netöryggi og sprengjueyðingu í Úkraínu.

  • Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóða, býður Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra velkominn til Stokkhólms. - mynd
  • Sendinefnd Íslands í Stokkhólmi. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum