Hoppa yfir valmynd
11. mars 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lífskjör hafa óvíða vaxið jafn hratt og hér á landi undanfarin ár

Á göngu við hafið - mynd

Hagvöxtur mældist 4,1% árið 2023 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar og er það nokkuð meiri hagvöxtur en gert hefur verið ráð fyrir. Sömuleiðis endurskoðaði Hagstofan birtingu hagtalna fyrir árin 2020-2022 en verðmætasköpun reyndist markvert meiri á tímabilinu. Niðurstaðan er sú að landsframleiðsla þjóðarbúsins hefur aukist um nær 11% á tímabilinu 2019-2023. Í alþjóðlegum samanburði má ljóst vera að íslenska þjóðarbúið kom vel undan heimsfaraldrinum en sviptingar í alþjóðlegum efnahagsmálum eftir lok faraldursins hafa leikið ýmis samanburðarlönd grátt.

 

Mat á stöðu efnahagsmála hefur því breyst til hins betra á undanförnum vikum í kjölfar endurmats Hagstofu á verðmætasköpun og eftir að í ljós kom að fólksfjölgun hefur verið kerfisbundið ofmetin undanfarin ár. Í alþjóðlegum samanburði var verðmætasköpun á mann þannig aðeins hærri í fimm samanburðarríkjum Íslands árið 2023. Þá voru lífskjör á þessum mælikvarða orðin álíka mikil og spár gerðu ráð fyrir áður en faraldurinn brast á og því hefur allt framleiðslutap í kjölfar faraldursins verið unnið upp. Er þetta raunin jafnvel þó áhrif af völdum faraldursins hafi verið einkar mikil hér á landi sem rekja mátti til stærðar ferðaþjónustunnar í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Þá má ljóst vera að stuðningsaðgerðir ríkissjóðs og aðgerðir Seðlabanka á tímum heimsfaraldurs sem miðuðu að því að varðveita kaupmátt heimila og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot, ruddu brautina fyrir kröftugan efnahagsbata sem hófst strax árið 2021.

 

Eftir faraldurinn tók það hagkerfið aðeins tvö ár að ná fyrra framleiðslustigi. Er þetta þrisvar sinnum hraðari bati en eftir fjármálaáfallið 2008, en þá tók batinn sex ár. Þó að þessir tveir viðburðir séu eðlisólíkir gildir hið sama um viðnámsþrótt þjóðarbúsins í aðdraganda þeirra. Þegar heimsfaraldurinn skók heimsbyggðina voru skuldir heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs lágar, fjármálastofnanir vel fjármagnaðar og erlend staða þjóðarbúsins afar hagstæð. Allt framangreint voru lykilþættir í að bæði grynnka og stytta niðursveifluna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum