Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ljósleiðaravæðing landsins klárist innan þriggja ára

Ljósleiðaravæðing landsins klárist innan þriggja ára - myndUnsplash / Austin Guhl

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í morgun áform um að klára ljósleiðaravæðingu landsins. Opinbert markmið stjórnvalda um aðgengi að ljósleiðara hefur verið að allir þéttbýlisstaðir og byggðakjarnar á landinu nái a.m.k. 80% hlutfalli tengdra lögheimila fyrir árslok 2028. Nýju áformunum sem kynnt voru í dag er aftur á móti ætlað að stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026, á grundvelli samvinnu íbúa, sveitarfélaga, fjarskiptafyrirtækja og ríkisins. Um er að ræða langþráða heildstæða uppfærslu fjarskipta gagnvart þúsundum heimila um land allt og einstakan árangur á heimsvísu.

Áformin eru framhald af verkefninu Ísland ljóstengt hvers markmið var að koma ljósleiðaratengingu í dreifbýlið þar sem markaðsforsendur væru ekki fyrir hendi. Fjarskiptasjóður studdi þar 57 sveitarfélög til að leggja ljósleiðaranet í dreifbýli sínu og er nú svo komið að um 82% lögheimila í dreifbýli hafa aðgang að ljósleiðara. Góðan árangur í verkefninu má ekki síst þakka almennri þátttöku, greiðsluvilja og staðfestu sveitarstjórna.

„Jafnt aðgengi að háhraðanetsambandi er undirstaða nútíma búsetugæða, atvinnulífs og samkeppnishæfni byggða. Við höfum staðið okkur vel í þessum efnum á undanförnum árum en ef við viljum leysa krafta landsmanna almennilega úr læðingi þurfum við að tryggja að þeir geti allir gengið að öflugu netsambandi og öllum þeim tækifærum sem því fylgir. Að klára ljósleiðaravæðinguna að fullu á svo skömmum tíma mun ekki aðeins styrkja byggðir landsins heldur jafnframt auka samkeppnishæfni landsins svo um munar,“ segir Áslaug Arna.

Um fimm þúsund heimilisföng ótengd

Fjarskiptastofa kannaði í vor áform fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu á ljósleiðara í öllu þéttbýli árin 2024-2026. Með þéttbýli er átt við 102 skilgreinda þéttbýlisstaði með 200+ íbúa og byggðakjarna með 50–199 íbúa. Niðurstaðan er sú að tilkynnt áform ná ekki til um 4.900 ótengdra heimilisfanga í þéttbýli með rúmlega 5.600 lögheimilum.

Því stendur til að gera sveitarfélögum tilboð um 80.000 kr. styrk til að kosta jarðvinnu við að tengja hvert slíkt heimilisfang fyrir árslok 2026. Sú upphæð jafngildir áætluðum meðaltals jarðvinnukostnaði fyrir hvert heimilisfang og er jafnframt sambærileg upphæð og fjarskiptafyrirtæki setja upp sem tengigjald fyrir lögheimili í þéttbýli á markaðsforsendum. Samþykki öll viðkomandi sveitarfélög slíkt tilboð og ná að tengja öll heimilisföngin þá gera það 392 m.kr.

Fjármögnun ríkisins er þegar tryggð með fjárveitingum fjarskiptasjóðs árin 2024 - 2025 og aðgerðar A.1. í byggðaáætlun árin 2024 -2026. Sveitarfélög hafa til 16. ágúst að tilkynna hvort þau þiggja tilboðið og verður gengið til samninga strax í kjölfarið.

Öllum tryggð örugg fjarskipti

Þá var greint frá því í maí að samhliða þessum áformum verður ráðist í átak til að bæta fjarskiptasamband á um 100 stöðum á landinu. Útbreiðsla farnets síðustu árin hefur verið að mælast um og yfir 99,9% í byggð en samkvæmt frumathugun Fjarskiptastofu eru um 100 lögheimili eða vinnustaðir sem ekki eiga kost á farneti yfir höfuð eða þá að fyrirliggjandi farnet uppfyllir ekki lágmarksskilyrði alþjónustu.

„Ísland er meðal leiðandi landa í útbreiðslu á ljósleiðara, Ísland er með einstaka stöðu í aðgengi ljósleiðara í dreifbýli og útbreiðsla á 4G og 5G er á pari við það sem best gerist í heiminum. Þetta hefur gerst bæði í krafti mikillar samkeppni og rétt stilltri aðkomu stjórnvalda,“ segir Áslaug Arna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum