Hoppa yfir valmynd
18. desember 2020 Brussel-vaktin

Metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Síðustu tvær vikur hefur þetta borið hæst:

Formennskuáætlun Íslands

Á fyrri hluta næsta árs mun Ísland gegna formennsku í Fastanefnd EFTA og þannig leiða samræmingu á afstöðu EES/EFTA ríkjanna og vera í forsvari fyrir þau í samskiptum við Evrópusambandið. Fyrir liggur formennskuáætlun Íslands þar sem lögð er áhersla á áframhaldandi samvinnu um viðbrögð við heimsfaraldrinum, að standa vörð um framkvæmd og uppfærslu EES-samningsins og virka hagsmunagæslu við mótun gerða sem varða innri markaðinn. Jafnframt verður formennskan nýtt til að kynna framlag Íslands til nýsköpunar í loftslags- og orkulausnum í samhengi við Græna sáttmála ESB og markmið um að draga úr losun gróðurhúslofttegunda um 55% árið 2030.

Rammi um starfsemi netvanga

Frumvörp að stafrænni þjónustulöggjöf ESB (Digital Services Act) og stafrænni markaðslöggjöf (Digital Markets Act) voru kynnt til sögunnar 15. desember s.l. og er löggjöfinni ætlað að leysa af hólmi tuttugu ára gamalt regluverk um rafræn viðskipti (e-Commerce).

Um er að ræða yfirgripsmikinn lagapakka sem er ætlað að leiða stafræna framtíð Evrópu, styrkja innri markaðinn enn frekar og fjalla um ábyrgð þjónustuaðila svo vernda megi grunngildi ESB sem snúa m.a. að réttindum og vernd íbúa álfunnar.

Netvangar (online digital platforms) af ýmsu tagi hafa stóreflt innri markað ESB og veitt neytendum aðgang að fjölbreyttara vöruúrvali og þjónustu. Viðskipti yfir landamæri, og þar með stækkun markaða, hafa ekki síður gefið fyrirtækjum tækifæri til að vaxa og eflast. Það er þó öllum ljóst að netið er einnig farvegur fyrir ólöglegan varning, hatursumræðu og aðra umdeilda háttsemi.

Löggjöfinni er fyrst og fremst ætlað að efla innri markaðinn á sviði rafrænnar þjónustu og auka samkeppnishæfni Evrópu á þessu sviði en einnig að tryggja öryggi viðskiptavinarins og taka á augljósum vandamálum. Er það gert með því að setja ramma utan um netvanga, þar á meðal markaðstorg, samfélagsmiðla, leitarvélar, vídeóleikjasvæði og aðra þjónustu á netinu. Mun löggjöfin því m.a. fjalla um ólöglegt efni sem birt er, auglýsingasiðferði og falsfréttir.

Jafnframt er löggjöfinni ætlað að höggva í samkeppnisforskot risafyrirtækja á borð við Apple, Amazon, Facebook og Google en eins og staðan er núna má segja að þessir stóru aðilar ráði markaðinum og neytandinn því verulega háður þeim. Ætlunin er að skylda þau til að hleypa að minni framleiðendum hugbúnaðar og þjónustu.

Tímasetning á birtingu frumvarps að stafrænni þjónustulöggjöf er að margra mati fullkomin þar sem COVID ástandið hefur heldur betur sýnt fram á hvernig almenningur og atvinnulíf treystir á rafræna þjónustu.

Í Brussel eru þó einnig uppi efasemdir um að frumvörpin verði samþykkt með hraði enda aðildarríkin með mjög mismunandi áherslur á þessu sviði. Þá muni stórfyrirtækin sem sótt er að halda áfram að verjast fimlega.

Hvað sem því líður er um að ræða stórmál sem á eftir að hafa veruleg áhrif á heimsvísu.

Áætlun um netöryggi

Framkvæmdastjórn ESB gaf 16. desember sl. út nýja netöryggisáætlun sem er ætlað að styrkja viðbúnað sambandsins gegn netógnum. Áætlunin inniheldur tillögur að löggjöf, fjárfestingum og stefnumótandi verkefnum, sem ná til innviða, fullveldis ESB í tæknimálum og styrkingar alþjóðasamvinnu á þessu sviði. Í tengslum við þetta kom einnig út ný tillaga að netöryggistilskipun (NIS 2) sem varðar EES. NIS-tilskipunin miðar að því að efla og samhæfa öryggisstig í net- og upplýsingakerfum mikilvægra innviða samfélaga og þar með viðnámsþrótt gegn netógnum. Markmiðið með þessari nýju tillögu er að bæta úr annmörkum á gildandi tilskipun, víkka út gildissvið og aðlaga hana að nýju landslagi þegar kemur að netógnum.

Samkomulag um afgreiðslu fjárhagsáætlunar til lengri tíma

Í tæka tíð fyrir leiðtogafund ESB 10. og 11. desember sl. náðist samkomulag um útistandandi atriði vegna nýrrar 7 ára fjárhagsáætlunar og bjargráðsjóðs. Pólverjar og Ungverjar höfðu lagst gegn afgreiðslunni vegna tengingar sem ákveðin hafði verið fyrr á árinu við meginreglur réttarríkisins. Fyrir fundinn lögðu Þjóðverjar til að áður en hægt væri að grípa til þess að svipta aðildarríki rétti til fjárframlaga vegna vandamála á þessu sviði væri hægt að bera fyrirkomulagið undir Evrópudómstólinn. Það mun gera það að verkum að 1-2 ár geta liðið áður en á nýja úrræðið reynir. Í yfirlýsingu frá leiðtogafundinum er áréttað að um þrautavaraúrræði er að ræða, til dæmis þarf að vera ótvírætt orsakasamhengi milli annmarka í lýðræðis- og réttindamálum og fjárhagslegs tjóns sem Evrópusambandið gæti orðið fyrir. Pólsk og ungversk stjórnvöld féllust á þessa málamiðlun.

Þessi lausn málsins skiptir máli fyrir Ísland vegna þess að samstarfsáætlanir ESB eru þá fjármagnaðar, að minnsta kosti af hálfu sambandsins, og ættu þá að geta byrjað á fyrri hluta næsta árs, eins og ráð hefur verið gert fyrir. Það á sérstaklega við um áætlanir sem eru fastar í sessi, eins og Horizon Europe og Erasmsus+, en lengri tíma gæti tekið fyrir nýjar áætlanir eins og Health og Invest EU að komast í gagnið.

Uppfærð loftslagsmarkmið

Leiðtogaráð ESB ákvað á fundi sínum 10. desember sl. að uppfæra markmið ESB um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030. Markmið ESB er nú að nettó samdráttur verði að lágmarki 55% þegar árið 2030 er borið saman við árið 1990. Fyrra markmið á þessu tímabili var 40% en Evrópuþingið hefði viljað ganga enn lengra og ákveða 60% samdrátt. Breyta þarf löggjöf sambandsins til að hún endurspegli þessi markmið. Til lengri tíma er markmiðið um kolefnishlutleysi 2050 óbreytt.

Fram kemur í niðurstöðum fundarins ( www.consilium.europa.eu/media/47296/1011-12-20-euco-conclusions-en.pdf) að markmiðinu verði náð með sjálfbærum efnahagslegum vexti, nýjum störfum, aukinni lýðheilsu og með því að örva nýsköpun í grænni tækni.   

Öll ESB ríkin standa saman að ákvörðuninni sem byggir að sögn á sanngirni og samstöðu þar sem ekkert ríki er skilið eftir. Ná verði nýju markmiði um samdrátt með því að verja samkeppnishæfni ESB og taka þurfi tillit til mismunandi aðstæðna innan ríkja ESB og möguleika þeirra til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Tryggja þurfi orkuöryggi allra ríkja ESB þannig að orka verði á viðráðanlegu verði fyrir heimili og fyrirtæki. Einnig þurfi að virða rétt aðildarríkjanna til að ákveða hvers konar orku þau vilji nota til að ná sameiginlegu markmiði fyrir árið 2030.

Fjármögnun verður með framlögum úr opinbera geiranum sem og frá atvinnulífinu, auk þess sem framkvæmdastjórn ESB mun setja fram tillögu er varðar græn skuldabréf (e. EU green bond standard) í júní 2021 í síðasta lagi.

Framkvæmdastjórnin mun einnig meta hvernig allir geirar efnahagslífsins geti best lagt sitt af mörkum til 2030 markmiðsins. Í því sambandi mun framkvæmdastjórnin leggja til nauðsynlegar tillögur ásamt mati á áhrifum þeirra á umhverfi, efnahag og félagslegar aðstæður í aðildarríkjunum þar sem tekið verður tillit til orku- og loftslagsáætlana hvers ríkis. 

Framkvæmdastjórnin mun m.a. einnig leita leiða til að styrkja viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS kerfið), leggja til aðgerðir sem ýta undir nýsköpun í þróun kolefnishlutlausrar tækni í orkufrekum iðnaði og leggja til landamæraaðlögunarkerfi fyrir kolefni (e. Carbon border adjustment mechanism).

Fram kemur að leiðtogaráðið muni setja fram frekari leiðbeiningar áður en framkvæmdastjórnin leggur fram sínar tillögur og muni m.a. verða fjallað um framtíð „Effort sharing regulation“ við það tækifæri.

Grænt flokkunarkerfi fjárfestingarkosta („Taxonomy“) og vatnsorka

Evrópusambandið samþykkti nýlega reglugerð um flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar (e. sustainable investments). Þessi reglugerð gerir ráð fyrir að skilyrði fyrir því hvaða fjárfestingar verði taldar sjálfbærar eða grænar verði skilgreind í afleiddum reglugerðum (delegated acts). Þar undir getur fallið hvers kyns starfsemi sem talin er geta haft veruleg áhrif á umhverfið, bæði jákvæð eða neikvæð. Drög að þessum afleiddu reglugerðum hafa verið birt í samráðsgátt Evrópusambandsins og eru því enn í mótun. Þegar þær hafa verið afgreiddar má hins vegar búast við því að þær verði teknar upp í EES-samninginn. Hluti þeirra á að koma til framkvæmda á árinu 2022.

Orkuframleiðsla leikur stórt hlutverk þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Fram til þessa verið talið að raforkuframleiðsla með vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum, eins og við Íslendingar þekkjum best, uppfylli öll skilyrði til að teljast sjálfbær. Almennt er ekki ástæða til að óttast að svo verði ekki áfram. Á hinn bóginn virðist í fyrirliggjandi drögum sem raforkuframleiðsla með vatnsorku  sé talin hafa minni græn áhrif en sólarorka og vindorka, sem er nýtt í sambærilega framleiðslu. Jafnframt hefur viðmið fyrir CO2 útblástur við framleiðslu raforku með vatnsafli verið hækkað frá því sem áður var áætlað en það skapar ákveðna hindrun fyrir hefðbundnar vatnsaflsvirkjanir. Sérfræðingar og hagsmunaaðilar  á þessu sviði, bæði hér á landi og á annars staðar á Norðurlöndum, eru sammála um að sérfræðingar ESB hafi gengið of langt hvað þessi sjálfbærniviðmið fyrir vatnsorku varðar og verður athugasemdum og mótmælum við það komið á framfæri við framkvæmdastjórn ESB. Standa vonir til að mark verði tekið á þeim ríkjum sem mesta reynsluna hafa á þessu sviði. Þess ber að geta að mörg aðildarríki ESB gerðu sambærilegar athugasemdir við mat á vatnsorkunni eins og Norðurlöndin. Rétt er að taka fram að Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa einungis áheyrnarrétt en ekki tillögurétt í þessari vinnu. EES/EFTA ríkin geta þó komið athugasemdum á framfæri við umfjöllun mála þar sem þau telja sig hafa hagsmuna að gæta eins og gagnvart þessu sem hér um ræðir.

Endurskoðuð dýraheilbrigðislöggjöf

Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar 11. desember sl. var meðal annars ákveðið að taka nýja dýraheilbrigðislöggjöf ESB upp í EES-samninginn. Nýja löggjöfin á að taka gildi innan ESB 21. apríl 2021. Löggjöfin (e. Regulation (EU) 2016/429 on Animal Health) er um smitandi dýrasjúkdóma og um breytingu og niðurfellingu tiltekinna gerða á sviði dýraheilbrigðis. Ísland fellur ekki undir þessa löggjöf nema að því leyti er varðar fiskisjúkdóma, merkingar og rekjanleika nautgripa, innflutning dýraafurða, framleiðslu og dreifingu dýraafurða og tilkynningarskylda dýrasjúkdóma. Sérfræðingar hafa unnið að undirbúningi og greiningu hinna ýmsu gerða. Ekki er talið að þurfi lagabreytingu til að innleiða þann hluta löggjafarinnar sem Ísland þarf að innleiða. Settar verða reglugerðir m.a. á grundvelli laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma.

Stefnt að grænu flugi 2035

Framkvæmdastjórn ESB gaf út nýja samgöngustefnu 9. desember sl. Áhersla er lögð á vistvænar samgöngur sem eigi að leiða til þess að losun gróðurhúsalofttegunda minnki um 90% fram til ársins 2050. Flugið er þar mikil áskorun því jafnvel þótt nýjar flugfélagar séu sparneytnari en þær eldri þá er spáð áframhaldandi vexti í farþegaflugi. Stefnt er að því að stærri flugfélagar sem gangi fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum verið komnar á markað árið 2035. Sjá ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/IP_20_2329

Aðgerðaáætlun um lýðræði

Framkvæmdastjórn ESB gaf 3. desember sl. út aðgerðaáætlun um lýðræði. Þar kemur fram að lýðræði geti einungis þrifist þar sem er tjáningar- og upplýsingafrelsi. Stafræna byltingin hafi gerbreytt stjórnmálunum. Kosningabarátta fari nú að verulegu leyti fram á netinu. Því fylgi nýir möguleikar til að ná til kjósenda og þátttökumöguleikar, sérstaklega fyrir ungt fólk, aukist. Samhliða hafi nýir veikleikar komið í ljós og erfiðara sé orðið að vernda lýðræðislegt kosningaferli fyrir röngum og villandi upplýsingum og öðrum bolabrögðum. Starfræna þróunin hafi opnað möguleika á dulinni fjármögnun stjórnmálastarfs, tölvuárásir geti stofnað mikilvægum innviðum kosninga í hættu, blaðamenn sæti ofsóknum á netinu og rangar upplýsingar og þær sem ýti undir öfgaviðhorf dreifist hratt á samfélagsmiðlum, stundum vegna skipulagðra herferða. Þá magni algóriþmar stundum upp þessi neikvæðu áhrif.

Gildandi reglur um gagnsæi og jafnræði að því er varðar fjármögnun kosningabaráttu og útsendingartíma fyrir auglýsingar og kynningar henti ekki í stafrænu umhverfi. Verkfæri til kosningabaráttu á netinu verða enn öflugri þegar hægt er að samþætta persónuupplýsingar og gervigreind við sálræn persónusnið og flóknar aðferðir til einstaklingsbundinnar nálgunar. Í sumum tilvikum á persónuverndarreglugerðin við. En í öðrum ræðst svigrúmið af viðmiðum viðkomandi netþjónustufyrirtækis auk þess sem lögsögumál flækja málin. Áhyggjur af gagnsæi og ábyrgð slíkra fyrirtækja eru viðbótar áskorun. Stundum annast þau fréttamiðlun en eru jafnframt hliðverðir fyrir aðra án þess að lúta endilega reglum í viðkomandi landi.

Aðgerðaáætlunin beinist að stofnunum Evrópusambandsins, ríkisstjórnum, löggjafarþingum sem bera höfuðábyrgð á að tryggja að lýðræðið virki á eðlilegan máta en einnig að öðrum stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum, fjölmiðlum, frjálsum félagasamtökum og netþjónustufyrirtækjum. Settar eru fram aðgerðir til að styðja frjálsar og sanngjarnar kosningar og öfluga lýðræðislega þátttöku, styðja frjálsa og sjálfstæða fjölmiðla og berjast gegn röngum og villandi upplýsingum.

Fram kemur að aukin þátttaka í nýlegum kosningum í Evrópusambandinu sýni að kjósendur hafi enn trú á atkvæðagreiðslu til að láta í ljós skoðanir og draga fulltrúa til ábyrgðar. Á sama tíma eru samfélagsmiðlar einn farvegur fyrir tilraunir til að hafa óeðlileg áhrif á almenningsálitið, letja til þátttöku í kosningum og draga þýðingu kosninga í efa. Þá hafa verið færðar fram sannanir um erlenda íhlutun.  

Kjósendur og stjórnvöld verða að geta greint uppsprettu og tilgang pólitískra auglýsinga að því er segir í aðgerðaáætluninni. Á netinu er oft erfitt að greina pólitísk efni sem borgað hefur verið fyrir og halda því aðskildu frá öðru pólitísku efni, ekki síst vegna þess að oft getur það litið út fyrir að vera upprunalegt efni sem stafi frá öðrum. Þetta skapar réttaróvissu fyrir þjónustuveitendur, almannatengsla, en einnig fyrir stjórnmálaflokka og frambjóðendur og allan almenning og hefur áhrif á ábyrgð og eftirlit.

Framkvæmdastjórnin hyggst á árinu 2021 leggja fram tillögu að reglum um gagnsæi kostaðs pólitísks efnis. Þessi tillaga verður til viðbótar við reglur um auglýsingar á netinu í löggjöf um stafræna þjónustu með það fyrir augum að lagaramminn verði skýr í tæka tíð fyrir kosningar til Evrópuþingsins vorið 2024. Reglurnar munu beinast að þeim sem kosta borgað efni og öðrum hlutaðeigandi. Þá verður metið hvort þörf sé á sérstakri nálgun á meðan kosningabarátta stendur yfir. Tillagan mun skýra hverjir og hvers konar kostað efni falli undir auknar gagnsæiskröfur. Hún mun styðja við ábyrgð og gera kleift að fylgja eftir viðkomandi reglum. Þá mun framkvæmdastjórnin skoða að takmarka frekar beinskeyttar herferðir (e. micro-targeting) og notkun á sálfræðilegum svipmyndum (e. psychological profiling) í stjórnmálalegu samhengi. Þá kemur til álita að leggja sérstakar afmarkaðar og hóflegar skyldur á milligönguaðila á netinu, auglýsingafyrirtæki og fleiri í samræmi við stærð þeirra og áhrif (til dæmis merking efnis, geymsla gagna, birting upplýsinga, gagnsæi um verð, mælikvarðar á markvissa markaðssetningu og mögnun skilaboða). Þá gætu ákvæði fjallað um eftirlit sérstakra eftirlitsstofnana og skapað stoð fyrir samreglunar (e. co-regulatory) viðmið og fagleg viðmið.

Þá hyggst framkvæmdastjórnin auka viðbúnað til að styðja við bakið á kosningaferlum í aðildarríkjunum. Þegar er til staðar Evrópska samstarfsnetið um kosningar (e. European Cooperation Network on Elections), NIS-samvinnuhópur (e. Network and Information Systems Cooperation Group) og bráðaviðvörunarkerfi (Rapid Alert System). Gert er ráð fyrir að teymi sérfræðinga veiti ráðgjöf um til dæmis netöryggi og kosningar og sakamálarannsóknir sem tengjast starfsemi á netinu. Áfram verði hvatt til samstarfs stjórnvalda í aðildarríkjum varðandi sérstakar áskoranir eins og þær sem tengjast kosningabaráttu, eftirliti með kosningum, úrskurðum um ágreiningsmál og raunhæfum úrræðum. Hjálplegt muni vera að skilgreina kosningakerfi og ferla sem ómissandi innviði.

Þá verði sjónum einnig beint að jafnræði milli keppinauta í kosningum og jafnvægi í fjölmiðlaumfjöllun, hafandi í huga að hefðbundnir fjölmiðlar og netmiðlar lúta ekki sömu reglum. Nýta megi sérþekkingu fjölmiðlaeftirlitsstofnana í aðildarríkjunum sem saman myndi ERGA (e. European Regulators Group for Audiovisual Media Services) og siðanefnda og slíkra aðila sem fjölmiðlarnir hafa sjálfir komið á laggirnar. Í þessu sambandi er sérstaklega mikilvægt að standa vörð um heilindi í blaðamennsku og ritstjórn í tengslum við kosningar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum