Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Brussel-vaktin

Óvissa vegna nýrra afbrigða veirunnar

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst:

Enn reynir á þolrifin

Á meðan almenn bjartsýni ríkti fyrir nokkrum vikum vegna nýrra bóluefna sem litu dagsins ljós hvert á fætur öðru þá hefur heldur þykknað upp að undanförnu.  Evrópusambandið hefur þurft að verja innkaupastefnu sína og áform lyfjafyrirtækjanna um afhendingu hafa riðlast. Enn er þó opinber stefna Evrópusambandsins að hægt verði að bólusetja um 70% fullorðinna fyrir júnílok eins og kom fram á leiðtogafundi í liðinni viku. Það sem veldur mestum ugg eru hins vegar ný afbrigði veirunnar sem breiðast hraðar út en þau upphaflegu og þar sem óvissa ríkir að einhverju marki um hvort bóluefni dugi.

Ekkert lát er á útbreiðslu farsóttarinnar í Evrópu og stjórnvöld sjá sig knúin til að herða aðgerðir bæði innanlands og á landamærum. Ljóst er að næstu vikur og mánuðir verða erfiðir vegna þess að enn þarf að höfða til samstöðu og þolgæðis almennings án þess að hafa skýr svör um hvenær komist verði úr kófinu.

Hertar aðgerðir á landamærum

Almenn afstaða Evrópuríkjanna virðist vera sú að ferðalögum milli ríkja og jafnvel innan þeirra eigi að halda í lágmarki til að hamla gegn útbreiðslu farsóttarinnar.  Af þeim sökum er nú til umræðu að herða sóttvarnaaðgerðir á landamærum.  Þannig leggur framkvæmdastjórn ESB til að komufarþegum frá ríkjum utan EES verði gert að framvísa neikvæðu PCR-prófi fyrir brottför. Sama eigi við um komufarþega innan EES sem komi frá þeim svæðum þar sem smittíðni er hæst. Er lagt til að bæta eldrauðum lit við vikulegt kort Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar til að endurspegla svæði þar sem smitttíðnin er yfir 500/100.000 íbúa sl. 14 daga. Sjá nánar: ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_21_195

Hóta útflutningshömlum

Það olli óróa í vikunni að lyfjafyrirtækið AstraZeneca kvaðst ekki geta uppfyllt fyrirheit um afhendingu bóluefna. Svo virðist sem fyrirtækið telji skuldbindingar gagnvart öðrum en ESB-ríkjum ganga að einhverju leyti framar. Framkvæmdastjórinn sem ber ábyrgð á heilbrigðismálum hótaði því  fyrir vikið að settar yrðu á útflutningshömlur til að þvinga lyfjafyrirtækið til að standa við orð sín. Minnti hún á að tvær af fjórum verksmiðjum fyrirtækisins sem framleiða myndu bóluefnið væru innan ESB-landa. ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/speech_21_267

Beðið í ofvæni eftir Bjargráðasjóðnum

Á fundi efnahags- og fjármálaráðherra ESB 19. janúar sl. var fjallað um þau mál sem efst eru baugi á þeirra sviði næstu vikur og mánuði. Þar bar hæst umræðu um reglur Bjargráðasjóðsins svokallaða (Recovery and Resilience Facility) og framkvæmd þeirra sem aðildarríkin bíða óþreyjufull eftir að komist í gagnið, ekki síst þau sem verst hafa orðið úti í kórónaveirukreppunni. Valdis Dombrovskis, sem var talsmaður framkvæmdastjórnarinnar á fundinum, sagði að framundan væru mörg og stór verkefni fyrir aðildarríkin, en undirbúningur þeirra hefði gengið vel. Þegar hefðu ellefu aðildarríki skilað drögum að endurreisnaráætlunum sínum (Recovery Plans), en formlega samþykktar áætlanir þurfa að liggja fyrir áður en aflað verður lánsfjár til að fjármagna sjóðinn. Vonast er til að Evrópuþingið samþykki reglugerð um stofnun sjóðsins í febrúar fyrir formlega samþykkt leiðtogaráðsins þannig að hún komi til framkvæmda fyrir lok febrúar. Áhugavert verður að fylgjast með framvindu þessa flókna og viðamikla verkefnis á næstu vikum. Hér verður án efa tekist á um útfærslur einstakra ríkja á áætlunum og sömuleiðis um útgreiðslureglur sjóðsins (disbursement rates).

Áherslumál portúgölsku formennskunnar tóku líka mikið pláss á fundinum, en innleiðing Bjargráðasjóðsins er eitt af þeim. Annað mikilvægt mál er styrking efnahags- og myntbandalagsins þar sem sameiginlegur innstæðutryggingasjóður er ofarlega á blaði. Frekari aðgerðir gegn peningaþvætti eru líka ræddar undir þessum hatti. Þriðja áherslumálefni Portúgala er að takast á við nýjar áskoranir, þ.á m. á sviði umhverfis- og stafrænna umbreytinga. Þar kennir ýmissa grasa eins og stafræn og sjálfbær þróun fjármálamarkaðarins og áframhaldandi vinna við skattalegar áskoranir í stafrænu hagkerfi. Einnig undirbúningur að upptöku nýrra tekjustofna sem tengist fjármögnun Bjargráðasjóðsins. Þar má, auk stafræna skattsins, nefna upptöku kolefnisskatts yfir landamæri og fleiri umhverfisskatta.

Lán í vanskilum/frystingu, og meðferð þeirra eftir kórónaveirukreppuna, voru einnig rædd á fundinum, en hlutfall þeirra af eignasöfnum bankanna hefur farið hækkandi. Árið 2017 samþykkti leiðtogaráðið aðgerðaáætlun varðandi meðferð slíkra lána, en ljóst er að hana þarf að endurbæta og hraða þeim aðgerðum sem út af standa í ljósi ástandsins nú. Þar er sérstaklega horft til þess að skapa eftirmarkað fyrir slík lán til að skapa betri möguleika á að viðskiptabankar geti losað sig við slík lán úr eignasöfnum sínum. Öðru vísi verða þeir vart tilbúnir til að fjármagna þær nýju fjárfestingar sem nauðsynlegt er að fara í til að efnahagshjólin fari að snúast á ný. Í tengslum við þessa umræðu fóru ráðherrarnir yfir stöðu lagafrumvarpa á sviði fjármálaþjónustu, þar meðal innstæðutryggingar og fjártæknipakkann (FinTech package).

Að lokum má nefna umræðu um kerfisáhættuskýrslu 2021 og tilmæli um efnahagsaðgerðir á evrusvæðinu. Í sambærilegri skýrslu frá í febrúar 2020 kemur fram að níu aðildarríki hafi fengið formlegar viðvaranir (in-depth reviews; IDRs) um að grípa til aðgerða (Frakkland, Holland, Írland, Króatía, Portúgal, Rúmenía, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland) og nú bætast a.m.k. þrjú við, þ.e. Grikkland, Ítalía og Kýpur. Nokkur önnur lönd eru talin í hættu eins og Danmörk og Ungverjaland. Eftirfarandi er slóð á kerfisáhættuskýrsluna 2021 ec.europa.eu/info/sites/info/files/economy-finance/alert_mechanism_rep.

Utanríkissamskipti á sviði loftslags- og orkumála

Sem upptaktur í undirbúningi ESB fyrir loftslagsráðstefnuna í Bretlandi síðar á þessu ári (COP 26) hefur staðið yfir þróun á áherslum ESB í utanríkissamskiptum á sviði loftslags- og orkumála. Á ráðherrafundi 25. janúar sl.  voru samþykktar ítarlegar niðurstöður sem nálgast má hér: www.consilium.europa.eu//media/48057/st05263-en21.pdf?utm_source=dsms-auto&utm_medium=email&utm_campaign=Council+adopts+conclusions+on+climate+and+energy+diplomacy.

Áherslur ESB lúta m.a. að hvatningu til allra ríkja heims að auka skuldbindingar sínar þegar kemur að takmörkun útblásturs. Þá er vísað til tengingar loftslagsmála við öryggis- og varnarmál og mikilvægi þess að styrkja samstarf á því sviði, sérstaklega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þá er vísað til framlags ESB þegar kemur að því að hraða alþjóðlegri fjármögnun á sviði loftslagsmála. Í orkumálum mun ESB leggja áherslu á hröðun orkuumbreytingar í heiminum og tækniþróun þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum. Hluti af þeirri stefnu verður að letja fjárfestingar í innviðum sem tengjast jarðefnaeldsneyti í þriðju ríkjum, með áherslu á Afríku.

Samráð um innstæðutryggingar

Framkvæmdastjórn ESB efnir nú til samráðs um endurskoðun reglna um innstæðutryggingar. Þar er meðal annars leitað eftir afstöðu almennings og hagsmunaaðila til þess hvort taka eigi upp evrópskt innstæðutryggingakerfi. Þetta málefni er á forgangslista ríkisstjórnarinnar.

Innri markaðurinn í brennidepli

Á meðal þess sem fram kemur í iðnaðarstefnu ESB frá 2020 (e: Industrial Strategy) er að sterkur innri markaður sé lykillinn að því að ná megi markmiðum ESB um grænar sem stafrænar áherslur.

Til að styðja aðildarríki ESB og EFTA löndin enn frekar við innleiðingu og framkvæmd allra þeirra reglna sem gilda um innri markaðinn hefur verið sett á laggirnar sérstakur hópur, SMET (Single Market Enforcement Task-force), sem er ætlað að greina helstu hindranir á virkni innri markaðsins.

Ljós sé að Evrópa þurfi að þétta raðirnar enn frekar og nýta sameiginlegan kraft innri markaðarins. Stök ríki standi ekki undir þeim viðfangsefnum sem við blasa. Bregðast þurfi hratt við nýjustu tæknibyltingunni, sem stendur fyrir dyrum, og tryggja verði að hún verði borgurum ESB happadrjúg. Því þurfi öfluga, en jafnframt skýra, stefnu svo takast megi á við stór mál eins og aðgang að orku, hráefni, tölfræðilega gagnagrunna og ekki síst nauðsyn þess að mannauðurinn búi yfir réttu færninni.

Evrópskur iðnaður þarf að taka stefnu ESB um kolefnishlutleysi og sjálfbærni föstum tökum svo álfan verði reiðubúin fyrir framtíðina og hæf í alþjóðlegri samkeppni. Stafræna byltingin, sem og grænar áherslur, skapar ný tækifæri en einnig áskoranir, sérstaklega ef halda á samstöðu og forðast mismunun á milli þjóðfélaga. Það er ljóst að sum svæði verða fyrir meiri áhrifum en önnur og þá er mikilvægt að skilgreina vel þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er í iðnaði og huga að þjálfun og endurmenntun starfsmanna.

Samkvæmt áætluninni er hvorki stefnt að því að vernda ósamkeppnishæfan iðnað né styðja verndarstefnu, heldur skapa réttar aðstæður fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndum í framkvæmd og fyrir fyrirtæki af öllum stærðum til að vaxa og dafna. Þá er hnykkt á því að evrópskur iðnaður megi ekki sofna á verðinum gagnvart ríkjum eða starfsemi utan ESB sem grefur undan sanngjarnri samkeppni á innri markaðinum eða alþjóðlega. Ekki liggur fyrir hvernig sætta á þessi markmið en ljóst að samkeppnisreglur þurfa með einhverjum hætti að rúma hvort tveggja ríkisaðstoð og samruna stórra fyrirtækja.

EFTA löndunum hefur verið boðið að taka þátt í starfi SMET og eru vonir bundnar við að á fundi SMET nú í lok þessari viku takist að ná betur utan um þetta víðfeðma verkefni. Ísland tekur þátt í starfi SMET.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum