Hoppa yfir valmynd
10. júní 2022 Brussel-vaktin

Nýr forgangslisti hagsmunagæslu fyrir Ísland gefinn út

Að þessu sinni er fjallað um:

  • nýjan forgangslista vegna hagsmunagæslu á vettvangi EES
  • fund vinnuhóps EFTA um fjármálaþjónustu
  • umsögn EFTA-ríkjanna um græn skuldabréf
  • fyrstu Schengen stöðuskýrsluna
  • árlega úttekt framkvæmdastjórnarinnar á fiskveiðum
  • gagnrýni á bóluefnasamninga ESB

Forgangslisti hagsmunagæslu fyrir 2022-2023 samþykktur

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun nýjan forgangslista vegna hagsmunagæslu á vettvangi EES fyrir 2022-2023. Listinn var undirbúinn af stýrihópi um framkvæmd EES-samningsins og nær til mála sem eru í lagasetningarferli á vettvangi Evrópusambandsins og metin hafa verið sem forgangsmál út frá hagsmunum Íslands. Forgangslistinn er mikilvægt leiðarljós fyrir starfsemi sendiráðsins í Brussel.

Við undirbúning listans hefur verið haft að markmiði að greina þau mál sem eru í undirbúningi á vettvangi ESB þar sem íslenskir hagsmunir eru sérstaklega í húfi. Einstaka mál eru lengra komin og bíða upptöku í EES-samninginn. 

Eins og gerð var grein fyrir í síðasta forgangslista hefur framkvæmdastjórn ESB sett fram metnaðarfullar þverfaglegar áætlanir til að styrkja stöðu ESB á alþjóðavettvangi, eins og græna sáttmálann og stafræna starfsskrá sem báðar varða að miklu leyti EES-samstarfið. Í kjölfarið hafa margar tillögur á þessum sviðum verið lagðar fram sem eru að finna á forgangslistanum. Aðrir málaflokkar á listanum varða fjármálastarfsemi, jafnréttismál, lyfjamál, matvælaöryggi, orkumál, peningaþvætti, rannsóknir og nýsköpun og vinnumarkaðinn.  

Samráð var haft í samráðsgátt og við utanríkismálanefnd Alþingis. Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.

Mörg verkefni á sviði fjármálaþjónustu hjá ESB

Ekkert lát er á nýjum reglugerðum eða breytingum á þeim eldri þegar staðan á sviði fjármálaþjónustu er skoðuð. Meirihluti þeirra hefur áhrif á íslenskan fjármálamarkað. Nýverið hélt vinnuhópur EES/EFTA (e. Working Group on Financial Services) fund á Íslandi auk ráðstefnu undir yfirskriftinni „Digital finance and cyber security in critical times“. Á henni var fjallað um nokkur af stóru málunum sem nú eru efst á baugi á vettvangi fjármálaþjónustu. Þar ber sérstaklega að nefna netöryggi og hvaða hættur blasa við fjármálafyrirtækjum í þeim efnum. Fram kom að Norðurlöndin eru í samstarfi á því sviði. Staða Íslands á sviði rafrænnar þjónustu (e. Digital Iceland) var einnig kynnt og sömuleiðis hinn svokallaði „FinTech“ pakki sem mikið er fjallað um á vettvangi ESB þessa dagana. Að lokum var áhugaverður fyrirlestur um gervigreind og hvernig nýta má þá tækni þegar kemur að netöryggi.

Á fundi EES/EFTA vinnuhópsins um fjármálaþjónustu og sömuleiðis starfshópsins um upptöku reglugerða (e. Task Force on Financial Services)  var farið yfir stöðu mála og hvernig mætti gera enn betur. Í umræðunni um mikinn upptökuhalla hefur fjármálaþjónustan gjarnan verið nefnd sem eftirbátur annarra málefnasviða hvað hann varðar. Þá gleymist gjarnan að benda á að stöðugt koma nýjar gerðir frá ESB á þessu sviði þannig að fjöldatala ein og sér segir ekki alla söguna. Þar skiptir aldur/gildistaka mun meira máli, en mikill meirihluti þeirra gerða sem nú eru útistandandi eru frá þessu ári og því síðasta. Sem dæmi má taka að í upphafi yfirstandandi árs voru 122 gerðir útistandandi á sviði fjármálaþjónustu en voru í byrjun júní samtals 107 þrátt fyrir talsverða viðbót það sem af er ári. Til samanburðar var þessi tala 169 í júní 2019, 94 í júní 2020, 118 í júní 2021. Á fundi starfshópsins voru margvísleg úrræði rædd til að bæta stöðuna enn frekar og verður fróðlegt að fylgjast þróun þessa málaflokks á næstu mánuðum.

EFTA-umsögn um tillögur um græn skuldabréf

Ísland, Liechtenstein og Noregur skiluðu 25. maí sl.  sameiginlegri umsögn um tillögur um evrópsk græn skuldabréf. Tillögurnar eru hluti af stefnu framkvæmdastjórnar ESB varðandi sjálfbæra fjármögnun. Þar er að finna sameiginlegar reglur um hvenær megi auðkenna skuldabréf með þessu tiltekna hætti.

Í umsögn sinni segjast EFTA-ríkin styðja viðleitni framkvæmdastjórnarinnar til að styrkja markað fyrir græn skuldabréf með því að þau lúti gæðaaðhaldi utanaðkomandi aðila.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að ESMA, evrópsk eftirlitsstofnun með skuldabréfamörkuðum, taki á móti skráningum og annist eftirlit með þeim utanaðkomandi aðilum sem munu veita gæðaaðhald. Í umsögn EFTA-ríkjanna er lögð áhersla á að eftirlitsaðilar í hverju ríki eigi einnig að gegna hlutverki vegna þekkingar á aðstæðum á hverjum stað. ESMA geti hins vegar haft samræmingarhlutverki að gegna.

Þá hafa ríkin áhyggjur af því nýju reglurnar eigi að taka gildi skömmu eftir birtingu. Ekki verði hægt að taka þær upp í EES-samninginn og innleiða á þeim 20 dögum sem ráðgerðir eru. Til að tryggja að nýju reglurnar virki um leið á öllu svæðinu á á markaði sem er mjög þvert á landamæri sé skynsamlegra að miða við 18 mánaða frest.

Fyrsta Schengen stöðuskýrslan

Hinn 25. maí sl. kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sína fyrstu Schengen skýrslu, en stöðuskýrslan, sem gefin verður út árlega, er liður í að efla eftirlit með innleiðingu og framkvæmd Schengen-samningsins og er unnin á grundvelli nýrrar Schengen-stefnu ESB sem var kynnt á síðasta ári. Skýrslan var til umræðu bæði á Schengen Forum 2. júní sl. og á ráðherraráðsfundi dóms- og innanríkisráðherra í dag, 10. júní.

Fyrir tímabilið 2022-2023 leggur framkvæmdastjórnin megináherslu á styrka stjórn ytri landamæra, að upptaka eftirlits á innri landamærum verði síðasta úrræðið sem varir í takmarkaðan tíma og að styrkja innra öryggi svæðisins með auknu lögreglusamstarfi. Þá er einnig lögð áhersla á innleiðingu nýrra upplýsingakerfa og samhæfingu þeirra (e. interoperability), kerfisbundna skoðun á ytri landamærum og að endi sé bundinn á langvarandi eftirlit á innri landamærum.

Framkvæmdastjórnin leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að samþykkja nýjar og endurbættar Schengen-gerðir, s.s. um reglugerð um för yfir landamæri (e. Schengen Borders Code), um aukna lögreglusamvinnu og um forskoðun umsókna á ytri landamærum (e. Screening). 

Skýrslan skiptist í 5 kafla. Í fyrsta kafla er farið yfir aukið stjórnunar- og eftirlitskerfi Schengen (e. Schengen governance). Í öðrum kafla er vikið að framgangi Schengen stefnunnar sem gefin var út á síðasta ári og í kafla þrjú er farið almennt yfir stöðuna innan Schengen-svæðisins. Farið er almennt yfir stöðuna á ytri landamærum svæðisins, stöðuna á innri landamærum svæðisins, mikilvægi þess að samþykkja þau aðildarríki sem standa utan við Schengen en uppfylla skilyrðin, þ.e. Króatíu, Búlgaríu, Rúmeníu og síðar Kýpur. Í fjórða kafla er vikið að Schengen eftirlitskerfinu, niðurstöðum Schengen úttekta undanfarin ár og helstu forgangsmálum í þeim efnum. Í fimmta og síðasta kaflanum er vikið að næstu skrefum en þar kemur fram að fyrst og fremst sé mikilvægt að aðildarríki vinni að því að innleiða Schengen regluverkið með fullnægjandi hætti.

Á sama tíma og  skýrslan um stöðu Schengen var gefin út birti framkvæmdarstjórnin stefnuskjal fyrir samþætta landamærastjórnun (e. Policy document - developing a multiannual strategic policy for European integrated border management) og skýrslu um kerfisbundna skoðun og uppflettingar í viðeigandi gagnagrunnum (e. report as regards the reinforcement of checks against relevant databases at external borders).

Fiskveiðar: Framkvæmdastjórnin sér batamerki

Samkvæmt árlegri úttekt framkvæmdastjórnar ESB á fiskveiðum urðu almennt framfarir á árinu 2021 í þá átt að bæta ástand fiskistofna í aðildarríkjum sambandsins. Er þá Eystrasaltið undanskilið þar sem mikilvægum nytjastofnum hnignar vegna ástands í umhverfismálum. Einnig er á brattan að sækja í Miðjarðarhafi vegna langvarandi ofveiði þótt ástand hafi heldur skánað á liðnu ári.

Kallað eftir betri samningum um kaup á bóluefnum gegn Covid-19

Í fréttamiðlum hefur komið fram að tíu Austur-Evrópuríki hafi farið þess á leit við Stellu Kyriakides framkvæmdarstjóra heilbrigðis og matvælaöryggis hjá Evrópusambandinu að framkvæmdastjórnin endurskoði samninga um kaup á bóluefnum gegn Covid-19 til þess að þeir þjóni betur tilgangi sínum. Bæði sé um offramboð á bóluefnaskömmtun að ræða auk þess sem staða ríkisfjármála aðildarríkja megi alls ekki við því að almannafé sé sólundað.

Bent er á að sá möguleiki ætti að vera fyrir hendi að segja mætti kaupsamningunum upp þegar hvorki heilsufarsleg sjónarmið eða faraldursfræðileg rök eru lengur fyrir þeim.  Í öðrum tilvikum ætti að vera mögulegt að draga úr pöntunum þannig að þær endurspegli raunverulega eftirspurn eða þörf.

Talið er að Pólland hafi átt frumkvæði að málaleitan þessari en að henni standi einnig Búlgaría, Króatía, Eistland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía.

Áður höfðu mörg ríki Austur-Evrópu vakið athygli á málinu og haft áhyggjur af að núverandi samningar um kaup á bóluefnum voru undirritaðir þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst og Evrópusambandið undir miklum þrýstingi frá almennum borgurum um að útvega bóluefni. Aðstæðurnar hafi í reynd þvingað sambandið til að tryggja kaup á allt of miklu magni bóluefna sem ekki er lengur þörf á. Fram kemur framkvæmdastjórnin hafi tryggt kaup á allt að 4,2 milljörðum skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni, sem jafngildir því að vera tíu sinnum íbúafjöldi sambandsins. Í febrúar síðastliðnum höfðu 1,3 milljarðar verið afhentir.

Þó heimsfaraldurinn sé á niðurleið og viðunandi bólusetningarhlutfalli ríkjanna sé náð fela samningarnir í sér kaup á magni bóluefna sem fer langt umfram þörf og getu aðildarríkjanna til að nota þau.

Er því haldið fram að hætta sé á að bóluefnin renni út ónotuð og í því felist mikil sóun á fjármunum sem erfitt er að útskýra fyrir hinum almenna borgara. Einnig er bent á vandamál sem tengjast því að bóluefnin eru í einhverjum tilvikum afhent þegar stutt er í að þau fyrnist. Minnt er á að það hafi verið Eystrasaltslöndin sem vöktu fyrst athygli á vandkvæðunum sem þessu fylgdu og gera þyrfi kröfur um lágmarks geymsluþol efnanna í samningunum.

Þá snúa ábendingar aðildarríkjanna um betri samninga við framleiðendur einnig að því að tryggja að bóluefnin sem keypt verði verndi gegn nýjustu afbrigðum kórónaveirunnar.  Auk þess er bent á nauðsyn þess að Evrópustofnun neyðarviðbúnaðar og viðbragða vegna heilsuvár (HERA) komi upp sameiginlegum birgðum á bóluefnum með kaupum á ónotuðum efnum til að takast á við næstu vá og einnig til að geta útvegað öðrum heimshlutum bóluefni með samræmdum hætti.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum