Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Faglegt álit um blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna

Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu hefur skilað heilbrigðisráðherra faglegu áliti sínu um það hvort slaka beri á reglum sem gilda hér á landi um blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna.

Heilbrigðisráðherra óskaði í nóvember síðastliðnum eftir afstöðu ráðgjafanefndarinnar til þess hvort slaka beri á þeim reglum, sem gilda hér á landi um blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna líkt og gerst hefur annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Einnig var óskað eftir því að í áliti ráðgjafanefndarinnar kæmi fram til hvaða varúðarráðstafana þurfi að grípa og hvaða viðmiðanir þurfi að viðhafa komi til afnáms banns við blóðgjöfum samkynhneigðra karlmanna.

Í stuttu máli leggur nefndin til að rýmka megi reglur Blóðbankans hvað þetta varðar en telur að fara beri varlega í sakirnar. Nefndin telur nauðsynlegan tíma þar til reglum verði breytt vera eitt til tvö ár héðan í frá þar sem áður þurfi skilyrðislaust að fara fram margvíslegur undirbúningur, líkt og rakið er í álitinu sem birt er hér að neðan.

Heilbrigðisráðuneytið vinnur vinnur nú að því að kostnaðargreina tillögur fagráðsins, þ.e. að meta hvaða kostnaður fylgi því að breyta reglum með þeim ráðstöfunum sem ráðgjafanefndin telur nauðsynlegar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að álit ráðgjafanefndarinnar liggi nú fyrir. Málið þurfi að vinna faglega og taka ákvarðanir í samræmi við það.

Álit ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu:

Ráðgjafanefnd hefur fjallað um málið á fundum sínum 19. nóvember 2018 og 17. janúar 2019. Meðlimir ráðgjafanefndar hafa haft aðgang að og kynnt sér mikið magn gagna sem fjalla um blóðgjafir samkynhneigðra karla í mörgum löndum. Hér má nefna Kanada, Bandaríkin, Bretland, Nýja-Sjáland, Norðurlöndin auk fleiri landa innan Evrópusambandsins. Þá hafa nefndarmenn kynnt sér samskipti yfirlæknis Blóðbankans við ráðuneyti heilbrigðismála og Sóttvarnalækni. Þá liggur fyrir afstaða Sóttvarnalæknis sbr. minnisblað Sóttvarnalæknis til ráðuneytisins dags. 3. september s.l. um sama efni. Loks hafa nefndar meðlimir leitað álits fundar smitsjúkdómalækna og sýklafræðinga sem haldinn var 9. janúar 2019 á Landspítala.

Það er ljóst að grundvallaratriði í framleiðslu Blóðbankans á blóði og blóðhlutum er og verður að tryggja öryggi þeirra sem þurfa á blóðhlutagjöf að halda. Öll umræða í samfélaginu um heilsufar og kynhegðun einstaklinga sem hyggjast gefa blóð skal ávallt miða að því að tryggja heilbrigði þess blóðs sem gefið er í Blóðbankanum. Rétturinn til að fá öruggt blóð er alltaf ríkari en rétturinn til þess að mega gefa blóð. Þá ber að hafa í huga að ekki er heldur alvarlegur skortur á blóðhlutum hér á landi.

Það eru ekki til samræmdar reglur um blóðgjafir allra hópa samfélagsins hvorki á Íslandi né erlendis. Reglur um heimildir samkynhneigðra karla (e. men who have sex with men, MSM) kveða á um allt frá ævilöngu banni við blóðgjöfum niður í tímabundna frávísun[1] (deferral) í 4 mánuði fyrir gjöf blóðs. Tilgangur tímabundinnar frávísunar er að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir sýkingar sem berast með kynmökum. Sýkingar sem að berast á milli MSM koma yfirleitt fram á blóðprófum innan 90 daga frá smitun við kynmök. Þess vegna hafa heilbrigðisyfirvöld sumra landa heimilað blóðgjöf að undangenginni 120 daga frávísun. Um þetta eru fræðimenn ekki sammála. Í Svíþjóð og Kanada eru fræðimenn á því að frávísun MSM í 5 ár væri nær lagi þar sem það gæfi svigrúm til að greina óþekkt smitefni sem gæti smitast við kynmök MSM. Þessir sömu fræðimenn benda á að það hafi tekið 7 ár frá því að alnæmi kom fram þar til að HIV veiran hafi verið uppgötvuð og áreiðanleg greiningarpróf voru framleidd.

Þrátt fyrir breytilega afstöðu alþjóða fræðasamfélagsins og heilbrigðisyfirvalda landa sem við berum okkur saman við hefur reynslan af því að hverfa frá algjöru banni við blóðgjöfum MSM og heimila þær að undangenginni 6 til 12 mánaða frávísun ekki gefið tilefni til afturhvarfs að fyrra horfi. Það hafa ekki komið fram blóðbornar sýkingar sem tengja má við þennan hóp sérstaklega. Samhliða framangreindum breytingum hafa flest samfélög tekið upp næmari greiningaraðferðir smitsjúkdóma á blóði blóðgjafa með að markmiði að tryggja áframhaldandi öryggi blóðs og blóðhluta.

Nefndin leggur því til að rýmka megi reglur Blóðbankans varðandi blóðgjafir MSM. Það er álit nefndarinnar að fara beri varlega í sakirnar með að breyta reglunum. Nefndin leggur til að tímabundna frávísun MSM í 12 mánuði fyrir blóðgjöf sé hæfilegt fyrsta skref. Þá telur nefndin nauðsynlegan tíma þar til reglum verði breytt vera 1-2 ár héðan í frá enda margvíslegur undirbúningur sem skilyrðislaust þarf fram að fara að mati nefndarinnar áður en til þess kemur að MSM verði leyft að gefa blóð.

Samtímis ákvörðun um að rýmka reglur um blóðgjafir MSM þarf að grípa til eftirfarandi ráðstafana til að tryggja áfram gæði blóðs og blóðhluta sem Blóðbankinn framleiðir;

Í fyrsta lagi telur nefndin mikilvægt að yfirfara og meta tímabundnar frávísanir vegna annarra þátta s.s. húðmyndskreytingar (tattoo), íhluta í húð og slímhúðir, maga- og ristilspeglunar, kynmökum við fólk í sérstakri áhættu, ferðalögum á malaríusvæði og fleiri þátta. Það er í samræmi við vinnulag í fjölmörgum öðrum löndum þar sem gerðar hafa verið breytingar á hæfi MSM til blóðgjafa, þannig að samræmi sé í reglum með tilliti til ýmissa áhættuþátta þar sem það er mögulegt. Blóðbankinn sér um þennan þátt.

Í öðru lagi þarf að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að tryggja áfram gæði þeirra blóðhluta sem Blóðbankinn framleiðir með því að efla rannsóknir á blóði blóðgjafa. Í dag er skimað fyrir blóðbornum sýkingum á borð við HIV, lifrarbólgu B og C og sárasótt (sýfilis). Skimunin í dag byggir á því að blóðgjafinn hafi myndað mótefni fyrir ákveðnum sýkingum sem tekur sinn tíma. Lagt er til að bæta við svonefndum kjarnsýruprófunum (e. nucleic acid testing: NAT) á öllum blóðhlutum. Sú skimun byggir á því að sýna fram á kjarnsýrur helstu sýkingarvalda sem blóðgjöfum getur stafað hætta af. Slík ráðstöfun styrkir blóðbankaþjónustuna og eykur öryggi blóðþega. Í allflestum löndum sem leyfa blóðgjafir MSM með tímabundnum frávísunum er NAT hluti af öryggiskerfi blóðbanka. Þessi framkvæmd skapar enn frekar samræmi milli verklags hér á landi og í öðrum löndum.

NAT skimun eykur á öryggi blóðhluta, þó að ekkert próf sé 100% öruggt. Framangreindar tillögur hafa í för með sér fyrirsjáanlegan kostnaðarauka fyrir framleiðslu blóðs og blóðhluta. Lagt er til að Blóðbankinn geri kostnaðaráætlun vegna NAT skimunar. Blóðbankinn hefur jafnframt kynnt möguleika á því að með nýstárlegum hætti megi stytta enn frekar tímabundna frávísun af ýmsum ástæðum s.s. MSM, húðmyndskreytingar, ferðalögum, speglunum ofl. Þar er um að ræða möguleika á smithreinsun (PI, pathogen inactivation; PR, pathogen reduction) blóðhluta. Nú þegar fer fram slík smithreinsun á blóðflöguþykknum og plasma í Blóðbankanum. Samhliða því að Blóðbankinn geri kostnaðaráætlun með tilliti til NAT er þess óskað að hann geri kostnaðaráætlun fyrir slíka smithreinsun rauðkornaþykkna, með samanburði á kostnaði þessara tveggja valkosta.

Í þriðja lagi er mikilvægt að fram fari kynning og umræða um fyrirhugaðar breytingar í samfélaginu (t.d. í fjölmiðlum, meðal hagsmunahópa og annarra sem þurfa þykir). Eðlilegt er að Heilbrigðisráðuneytið hafi forgöngu um skipulag slíkrar kynningar og umræðu. Samráð við mikilvæga hagsmunaaðila s.s. fagsamtök heilbrigðisstarfsmanna, sjúklingasamtök, samtök samkynhneigðra og annarra aðila.

Á sama tíma mun nefndin ræða við heilbrigðisyfirvöld og aðra fagaðila um samstarf á sviði áhættugreiningar (risk analysis) á HIV og annars blóðborins smits á Íslandi, í takt við það sem fjölmörg önnur lönd hafa gert. Hugmyndin er sú að skapa samstarfsgrundvöll yfirvalda, stofnana og háskólasamfélags um áhættumat sambærilegt því sem fram kemur í samþykkt ráðherranefndar Evrópuráðsins árið 2013 og sóttvarnayfirvalda fjölmargra landa. Nefndin telur að slíkt samstarf geti skapað frjóan jarðveg fyrir nýja þekkingu í íslensku samfélagi, auk þess að auðvelda heilbrigðisyfirvöldum stefnumótun og framkvæmdaáætlun á sviði sóttvarna og blóðbankaþjónustu. Mikilvægir þættir í starfsemi blóðbanka um heim allan byggja á trausti, gagnkvæmu trausti. Þar má nefna nauðsyn þess að blóðbankar geti treyst því að blóðgjafar hlíti reglum (e. compliance) og að blóðgjafi greini satt og rétt frá upplýsingum um heilsufar og hegðun sína og að almenningur beri fullt traust til rannsókna á blóði gjafa til að tryggja öryggi blóðþega.

F.h. ráðgjafanefndar,

Már Kristjánsson, formaður


[1] Hér er átt við kynlíf MSM

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum