Hoppa yfir valmynd
8. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Bráðabirgðafríverslunarsamningur við Bretland undirritaður

Sturla Sigurjónsson, sendiherra í Lundúnum, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. - myndUtanríkisráðuneytið

Íslensk og bresk stjórnvöld undirrituðu í dag bráðabirgðafríverslunarsamning sem tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við Bretland. Samningurinn mun taka gildi um áramót þegar aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir fagnaðarefni að kjarnahagsmunir íslenskra fyrirtækja hafi nú verið tryggðir.

Samningurinn sem undirritaður var í Lundúnum í dag byggist á samningi sem upphaflega var gerður í apríl 2019 og stóð til að tæki gildi ef útganga Bretlands úr ESB hefði verið án samnings. Þar sem Bretland gekk úr Evrópusambandinu með útgöngusamningi þann 31. janúar sl. kom aldrei til þess að sá samningur tæki gildi. Í október sl. náðist samkomulag um að bráðabirgðasamningurinn taki gildi um áramót uns fríverslunarsamningurinn er tilbúinn og með undirrituninni í dag er sú ákvörðun fest í sessi.

„Ég fagna því að kjarnahagsmunir íslenskra fyrirtækja í viðskiptum við Bretland hafi verið tryggðir með bráðabirgðafríverslunarsamningi.“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „ Markmið okkar er hins vegar að klára víðtækan fríverslunarsamning sem fyrst enda er Bretland einn mikilvægasti útflutningsmarkaður íslenskra fyrirtækja.“

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að styrkja enn frekar og byggja upp sambandið við Bretland eftir útgöngu. Bráðabirgðafríverslunarsamningurinn tryggir að inn- og útflutningur til og frá Bretlandi lúti ekki hærri tollum en í dag. Markmið samningsins er þannig að viðhalda gildandi kjörum þar til samið hefur verið um nýjan og viðameiri fríverslunarsamning á milli ríkjanna. Noregur á jafnframt aðild að samningnum.

Fríverslunarviðræður Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES, Noregs og Liechtenstein, við Bretland standa nú yfir. Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn hafa viðræður gengið vel og eru langt komnar. Samninganefndir hafa hist ört og reglulega á rafrænum fundum með það að markmiði að ljúka viðræðum svo fljótt sem auðið er.  

Fríverslunarviðræður Bretlands og Evrópusambandsins eru yfirstandandi og enn er óvíst hvort takist að ljúka samningum fyrir áramót. Bretar og Evrópusambandið hafa ekki tilkynnt um sambærilegar bráðabirgðaráðstafanir til að brúa bilið þangað til samningar eru í höfn. 

Þar sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) mun ekki gilda lengur um Bretland frá og með 1. janúar 2021 þurfa Íslendingar að huga að nokkrum atriðum í því sambandi, sérstaklega þeir sem búa á Bretlandi eða hyggjast flytja þangað á næstunni og þeir sem stunda viðskipti við Bretland eða eiga þar annara hagsmuna að gæta. Utanríkisráðuneytið hefur tekið saman gátlista af því tilefni.

 
  • Sturla Sigurjónsson, sendiherra í Lundúnum, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum