Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2022 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Matvælaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Önnur eftirfylgniskýrsla um uppbyggingu innviða

Önnur eftirfylgniskýrsla um stöðu verkefna í aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða hefur verið birt. Aðgerðaáætlunin var samþykkt af ríkisstjórninni í lok febrúar 2020 en hún var sett fram í kjölfar fárviðrisins sem geisaði í desember 2019. Þar eru settar fram 287 aðgerðir um uppbyggingu innviða.

Vinnu við rúmlega 60% skammtímaaðgerða var að fullu lokið í lok síðasta árs og vinna var hafin við þær allar. Þá var vinna hafin við 95% langtímaaðgerða og er hún vel á veg komin við 30% aðgerða. Vinna við ríflega 100 aðgerðir hefur tafist, m.a. vegna heimsfaraldursins.

Aðgerðirnar snúa m.a. að úrbótum á varaafli, auknum áreiðanleika raforku- og fjarskiptakerfa, skilgreiningu á hlutverki og mönnun fyrirtækja og stofnana, samræmingu skipulags innviða, eflingu almannavarnakerfisins, fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og eflingu rannsókna og vöktunar á náttúruvá.

Meðal þeirra verkefna sem er lokið er yfirferð á stöðu og skipulagi mikilvægra fjarskiptastaða, greining á þörf á endurbótum stoðþjónustu sendistöðva RÚV og fjarskiptafélaganna og verkefni um eflingu heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.

Viðgerðum á raforkukerfinu í formi flýtingar jarðstrengjavæðingar er lokið með 10 aðgerðum á Norðurlandi. Fimm færanlegar varaaflsstöðvar eru nú í rekstri þegar á þarf að halda og aðrar fimm eru væntanlegar til landsins á fyrstu mánuðum ársins.

Þá er viðgerðum á sjóvarnargörðum á Norður- og Austurlandi á yfir 10 stöðum ýmist lokið eða næstum lokið sem og 13 aðgerðum sem lúta að öryggi vegfarenda, öryggi flugvalla og öryggi sjófarenda.

Nánari upplýsingar um einstök verkefni er að finna á sérstöku vefsvæði um uppbyggingu innviða.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum