Hoppa yfir valmynd
28. apríl 1999 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu

SKÝRSLA UM SÉRSTAKAR RANNSÓKNARAÐFERÐIR LÖGREGLU

DÓMS- OG KIRKJUMÁLARÁÐUNEYTIРAPRÍL 1999


EFNISYFIRLIT

1. KAFLI
Skipun nefndar um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu og tilhögun nefndarstarfs
1.1. Aðdragandi að skipun nefndarinnar
1.2. Verksvið og störf nefndarinnar
1.3. Efnisskipan skýrslunnar

2. KAFLI
Samantekt um tillögur nefndarinnar

2.1. Breytingar á ákvæðum 86.-88. gr. laga um meðferð opinberra mála
2.2. Reglur um upplýsingagjafa
2.3. Reglur um tálbeitu
2.4. Reglur um afhendingu undir eftirliti
2.5. Alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni
2.6. Lagabreytingar og önnur úrræði til að stuðla að vitnavernd


3. KAFLI
Um hugtakið óhefðbundnar eða sérstakar rannsóknaraðferðir

3.1. Ástæður fyrir þörf á nýjum rannsóknaraðferðum
3.2. Hugtakið "óhefðbundin" eða "sérstök" rannsóknaraðferð
3.3. Hvaða rannsóknaraðferðir eru sérstakar aðferðir?
3.4. Sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og réttaröryggi

4. KAFLI
Afbrotaþróun í Reykjavík á undanförnum árum


5. KAFLI
Gildandi löggjöf og reglur og beiting sérstakra rannsóknaraðferða hjá lögreglu
5. 1. Helstu ákvæði um rannsóknaraðferðir lögreglu í lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála
5.2. Símhleranir, skráning á notkun síma, hljóðupptökur, myndatökur og opnun póstsendinga
5.2.1. Lagaákvæði um rannsóknaraðferðirnar
5.2.2. Fjöldi dómsúrskurða í héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 86. og 87. gr. oml. á árunum 1995-1998
5.2.2.1. Fjöldi úrskurða 1995-1998
5.2.2.2. Hvaða aðgerðum er beitt?
5.2.2.3. Grundvöllur heimildar
5.2.2.4. Tímabil heimildar
5.2.2.5. Skylda til að tilkynna um aðgerð þegar henni er lokið sbr. 2. mgr. 88. gr.
5.2.3. Dómsúrskurðir á grundvelli 80. gr. oml. um opnun póstsendinga á árunum 1995-1998
5.3. Upplýsingagjafar
5.3.1. Hugtakið upplýsingagjafi
5.3.2. Þörfin fyrir samskipti lögreglu við upplýsingagjafa
5.3.3. Gildandi reglur um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa
5.3.3.1. Greiðslur til upplýsingagjafa
5.3.3.2. Lækkun refsingar
5.3.3.3. Afplánun refsingar
5.4. Tálbeitur
5.4.1. Hugtakið tálbeita
5.4.2. Gildandi reglur um heimildir til notkunar á tálbeitum
5.5. Afhending undir eftirliti
5.5.1. Skilgreining á afhendingu undir eftirliti
5.5.2. Ákvæði alþjóðasamninga um afhendingu undir eftirliti
5.5.3. Nauðsyn úrræðisins í alþjóðlegri lögreglusamvinnu
5.5.4. Heimildir íslenskrar lögreglu til þátttöku í afhendingu undir eftirliti

5.6. Alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni
5.7. Skygging og flugumenn

5.7.1. Skygging
5.7.2. Flugumenn

5.8. Notkun eftirfararbúnaðar
5.9. Vitnavernd

5.9.1. Þörf fyrir vitnavernd
5.9.2. Helstu flokkar vitna
5.9.3. Samvinna Evrópuríkja um vitnavernd
5.9.4. Ákvarðanir Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða vitnavernd
5.9.5. Úrræði hér á landi til að veita vitnavernd


6. KAFLI
Erlend löggjöf og reglur um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu
6.1. Yfirlit yfir heimildir til sérstakra rannsóknaraðferða í Evrópuríkjum
6.1.1. Hlerun síma og fjarskiptabúnaðar
6.1.2. Myndataka og hlerun

6.1.3. Upplýsingagjafar

6.1.4. Afhending undir eftirliti
6.1.5. Tálbeitur
6.1.6. Sýndarviðskipti
6.1.7. Skygging
6.1.8. Vitnavernd
6.2. Löggjöf einstaka ríkja um sérstakar rannsóknaraðferðir
6.2.1. Inngangur
6.2.2. Noregur
6.2.2.1. Símhlerun
6.2.2.2. Annars konar hlerun
6.2.2.3. Myndatökur
6.2.2.4. Notkun eftirfararbúnaðar
6.2.2.5. Skygging, flugumenn, tálbeitur og afhending undir eftirliti
6.2.2.6. Vitnavernd
6.2.2.7. Frestun á að kynna grunuðum um rannsókn
6.2.3. Danmörk
6.2.3.1. Símhlerun
6.2.3.2. Annars konar hlerun
6.2.3.3. Notkun tálbeitu
6.2.3.4 Vitnavernd
6.2.3.5. Afhending undir eftirliti
6.2.3.6. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu
6.2.3.7. Endurskoðun á lögum
6.2.4. Svíþjóð
6.2.4.1. Símhlerun
6.2.4.2. Annars konar hlerun
6.2.4.3. Frestun á að kynna grunuðum um rannsókn
6.2.4.4. Notkun tálbeitu
6.2.4.5. Afhending undir eftirliti
6.2.4.6. Vitnavernd
6.2.5. Finnland
6.2.5.1. Símhlerun
6.2.5.2. Aðrar hlerunaraðferðir
6.2.5.3. Afhending undir eftirliti
6.2.5.4. Notkun tálbeitu
6.2.5.5. Vitnavernd
6.2.5.6. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu
6.2.6. Holland
6.2.6.1. Símhlerun
6.2.6.2. Afhending undir eftirliti
6.2.6.3. Notkun tálbeitu
6.2.6.4. Vitnavernd
6.2.6.5. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu
6.2.7. Bretland
6.2.7.1. Símhlerun
6.2.7.2. Afhending undir eftirliti
6.2.7.3. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu
6.2.8 Frakkland
6.2.8.1. Símhlerun
6.2.8.2. Afhending undir eftirliti
6.2.8.3. Notkun tálbeitu
6.2.8.4. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu


7. KAFLI
Tillögur nefndarinnar um sérstakar rannsóknaraðferðir

7.1. Breytingar á ákvæðum X. kafla oml. varðandi símhleranir, aðrar hleranir, myndatökur, eftirfararbúnað o.fl

7.1.1. Inngangur

7.1.2. Heimild til notkunar eftirfararbúnaðar bætt við 86. gr. oml. og rannsóknaraðgerðir skilgreindar nánar

7.1.3. Tímamörk aðgerða, talning brota sem réttlæta aðgerðir o.fl. breytingar á 87. gr. oml
7.1.4. Sérstakur lögmaður við dómsmeðferð kröfu lögreglunnar um heimild til að beita sérstakri rannsóknaraðferð
7.1.5. Skylda til að tilkynna um rannsóknaraðgerð eftir lok hennar og heimild til þess að víkja frá henni

7.2. Reglur um upplýsingagjafa
7.2.1. Áhrif upplýsingagjafar á ákvörðun refsingar

7.2.2. Áhrif upplýsingagjafar á afplánunarstað refsidóms
7.2.3. Samskipti lögreglu við upplýsingagjafa
7.2.3.1 Tillögur nefndarinnar að reglum um samskipti við upplýsingagjafa
7.2.3.2. Skilgreining upplýsingagjafa
7.2.3.3. Skráning samskipta við upplýsingagjafa
7.2.3.4. Skipulag á samskiptum við upplýsingagjafa
7.2.3.5. Peningagreiðslur til upplýsingagjafa
7.3. Tálbeitur

7.4. Afhending undir eftirliti
7.5. Alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni
7.6. Skygging og notkun flugumanna
7.7. Vitnavernd
7.7.1. Sérstök refsivernd vegna ógnana gagnvart vitnum
7.7.2. Heimildir til að víkja sakborningi úr þingsal

7.7.3. Nafnleynd vitnis
7.7.4. Takmarkaðar persónuupplýsingar um vitni í gögnum máls eða skýrslutöku fyrir dómi
7.7.5. Ráðstafanir í tengslum við mætingu vitna í þinghöld
7.7.6. Lokuð þinghöld
7.7.7. Bann við birtingu á nafni vitnis
7.7.8. Lögregluvernd
7.7.9. Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfinu


FYLGISKJAL I:
Tillögur um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um meðferð opinberra mála o.fl.

FYLGISKJAL II:
Tillögur að reglum um upplýsingagjafa

FYLGISKJAL III:
Tillögur að fyrirmælum um tálbeitur

FYLGISKJAL IV:
Tillögur að reglum um afhendingu undir eftirliti

FYLGISKJAL V:
Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (97) 13 um ógnanir gegn vitnum og réttindi varnarinnar5




______________________

Sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu.


1. KAFLI
Skipun nefndar um óhefðbundar rannsóknaraðferðir lögreglu
og tilhögun nefndarstarfs.

1.1. Aðdragandi að skipun nefndarinnar.

Aðferðir lögreglu við rannsókn brotamála hafa á síðustu árum hlotið aukna athygli og umræðu. Á árinu 1997 urðu miklar umræður um starfsemi ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnnar í Reykjavík, einkum um starfshætti hennar og aðferðir við að upplýsa brotamál og að setja þyrfti reglur um svokallaðar óhefðbundnar eða sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu.

Í umræðum á Alþingi um málefni þetta kom fram að setja þyrfti skýrari reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu og lýsti dómsmálaráðherra því yfir að hann myndi fela ríkislögreglustjóra að taka mál þessi til athugunar. Í kjölfar þessara umræðna fól dómsmálaráðherra ríkislögreglustjóra, í júlímánuði 1997, að kanna hvort og þá með hvaða hætti ætti að setja reglur á þessu sviði. Með bréfi ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dags. 31. desember 1997, barst svar ríkislögreglustjóra um efnið. Var því lýst í bréfinu að farið hefði verið yfir þetta málasvið, rannsóknaraðferðir lögreglu, til þess að meta hvernig væri rétt að skipa þessum málum. Víða hefði verið leitað upplýsinga og heimilda enda væru rannsóknaraðferðir lögreglu ofarlega á baugi í flestum nágrannalöndum okkar, ekki síst á Norðurlöndum þar sem öflugar nefndir hefðu unnið að athugunum og tillögugerð á þessu sviði. Með vísan til þessa lagði ríkislögreglustjóri til að skipuð yrði nefnd fimm manna, einkum saksóknara, en einnig fyrirsvarsmanna í lögreglu til þess að kanna rækilega rannsóknir og rannsóknaraðferðir lögreglu í baráttunni gegn afbrotum, sérstaklega nýjum eða nýlegum tegundum afbrota, fara yfir heimildir lögreglunnar til rannsókna og til að beita óhefðbundnum rannsóknaraðferðum. Nefndin skyldi einnig gera tillögur um fyrirkomulag óhefðbundinna rannsóknaraðferða og lagabreytingar sem kunna að þykja nauðsynlegar til að lögreglan geti með fullnægjandi hætti tekist á við nýjustu afbrotaaðferðir.

Í samræmi við tillögur ríkislögreglustjóra skipaði dómsmálaráðherra, þann 26. janúar 1998, nefnd til þess að fjalla um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu.
Í nefndina voru skipuð Björg Thorarensen skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu sem jafnframt var formaður, Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, Bogi Nilsson ríkissaksóknari, Björn Halldórsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og Egill Stephensen saksóknari hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Í aprílmánuði 1998 lét Björn Halldórsson af störfum í nefndinni vegna löggæslustarfa í Bosníu og Herzegovinu. Í hans stað var skipaður af hálfu ríkislögreglustjóra Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri.

1.2. Verksvið og störf nefndarinnar.
Verkefni nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi hennar var tvíþætt:
· Að kanna rannsóknir og rannsóknaraðferðir lögreglu í baráttunni gegn afbrotum, sérstaklega í nýjum eða nýlegum tegundum afbrota og fara yfir heimildir lögreglunnar til rannsókna og til að beita óhefðbundnum rannsóknaraðferðum.
· Að gera tillögur um reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir og lagabreytingar sem kunna að þykja nauðsynlegar til að lögreglan geti með fullnægjandi hætti tekist á við nýjustu afbrotaaðferðir.

Nefndin hélt alls 20 fundi á árunum 1998 og 1999. Á vegum hennar fór fram víðtæk gagnaöflun, einkum um reglur annarra Norðurlanda á þessu sviði svo og nokkurra annarra Evrópuríkja og þá vinnu sem þar stendur yfir við gerð nýrra reglna. Einnig var litið til vinnu undirnefndar um fíkniefni sem starfað hefur á vegum ríkjanna í Schengen samstarfinu og hefur gert tillögur um samræmingu á ákveðnum rannsóknaraðferðum lögreglu í baráttu gegn fíkniefnum og alþjóðlegt samstarf Schengen ríkja á því sviði. Aflað var allra úrskurða frá Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 86. ogr. 87. gr. laga 19/1991 um meðferð opinberra mála varðandi hleranir, hlustanir, myndatökur og hljóðupptökur á árabilinu 1995-1998 til að kanna hvernig þessum lagaákvæðum er beitt. Upplýsinga um afbrotaþróun og tölfræði um fjölda mála á undanförnum árum var aflað hjá forvarna- og fræðsludeild embættis lögreglustjórans í Reykjavík.
Á fund nefndarinnar komu til viðræðna um einstök viðfangsefni hennar Þorsteinn A. Jónsson fangelsismálastjóri, Steinþór Haraldsson yfirlögfræðingur hjá ríkisskattstjóra og Hermann Guðmundsson og Gottskálk Ólafsson frá ríkistollstjóra.

1.3. Efnisskipan skýrslunnar.
Uppsetning skýrslu þessarar verður með eftirfarandi hætti. Í 2. kafla er samantekt um tillögur nefndarinnar. Í 3. kafla er fjallað um hugtakið óhefðbundnar/sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og hvaða aðferðir teljast venjulega til þessa flokks. Í 4. kafla er lýst þróun afbrota í Reykjavík undanfarinn áratug. Í 5. kafla verður fjallað um þær reglur eða venjur sem hafa gilt um þessar rannsóknaraðferðir lögreglu hér á landi. Í 6. kafla er fjallað um hvaða reglur gilda á þessu sviði í helstu nágrannalöndum. Í 7. kafla er loks fjallað um tillögur nefndarinnar um einstaka rannsóknaraðferðir lögreglunnar. Í fylgiskjölum við skýrsluna eru birtar tillögur nefndarinnar að sérstökum reglum eða breytingum á lögum sem varða sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu. Einnig birtist í fylgiskjali með skýrslunni þýðing á tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R97(13) um ógnanir gegn vitnum og réttindi varnarinnar.


2. KAFLI
Samantekt um tillögur nefndarinnar.

Hér verðar dregnar saman helstu tillögur nefndarinnar. Um nánari lýsingu á tillögunum og rökstuðning fyrir þeim er vísað til umfjöllunar í 7. kafla.

2.1. Breytingar á ákvæðum 86.-88. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Nefndin leggur til ýmsar breytingar á 86.-88. gr. laga um meðferð opinberra mála sem fjalla um sérstakar rannsóknaraðgerðir s.s. símhleranir og aðrar hleranir, hljóðupptökur og myndatökur.

1) Heimild til notkunar eftirfararbúnaðar verði bætt við 86. gr.
Notkun eftirfararbúnaðar hjá lögreglu við rannsókn brota hefur færst í vöxt á undanförnum árum en ekki er getið um þessa rannsóknaraðferð í lögum um meðferð opinberra mála. Nefndin leggur til að í e-lið 86. gr. laganna verði kveðið á um heimild til þess að koma fyrir eftirfararbúnaði inni í bifreið eða öðru farartæki, varningi eða á manni eða fara inn í læsta geymslu eða hirslur til þess að koma slíkum búnaði fyrir. Yrði heimild til slíkra aðgerða þó háð því að dómsúrskurður liggi fyrir sbr. 1. mgr. 87. gr. laganna Verði eftirfararbúnaði hins vegar komið fyrir með því að festa hann á ökutæki eða varning á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að megi þó falla frá skilyrði um dómsúrskurð, sbr. tillögu nefndarinnar um efni 5. mgr. 87. gr. 2) Skýrari reglur um heimildir til leynilegrar myndatöku í 86. gr. Nefndin leggur til að ákvæði um myndatökur í d-lið 86. gr. og í 87. gr. laganna verði gerð skýrari er nú er. Samkvæmt núgildandi 3. mgr. 87. gr. er heimilt að taka myndir í þágu rannsóknar á almannafæri eða stöðum sem almenningur á aðgang að án dómsúrskurðar. Nefndin leggur til að gildissvið ákvæðisins verði nánar afmarkað. Ákvæðið eigi því ekki við þegar myndataka fer fram á almannafæri ef beitt er sérstökum tækjabúnaði til myndatöku, t.d. aðdráttarlinsu á myndavél, eða notaður er sjálfvirkur eða fjarstýrður myndupptökubúnaður með leynd til þess að taka myndir af mönnum. 3) Hlerunaraðgerðum, myndatökum o.fl. aðgerðum skv. 86. gr. markaður
hámarkstími mest fjórar vikur í senn.
Nefndin leggur til að þeim rannsóknaraðgerðum sem taldar eru 86. gr., þ.e. heimildum til símhlerunar og annarrar hlerunar, hljóðupptöku, myndatöku og notkun eftirfararbúnaðar, verði markaður ákveðinn tími í lögum sem verði lengst fjórar vikur í senn.
Samkvæmt núgildandi lögum er skylt að setja aðgerð ákveðin tímamörk í dómsúrskurði en þau eru ekki nánar tilgreind þar. Með því að festa í lög ákveðinn hámarkstíma sem aðgerðir geta varað er bæði dómstólum og lögreglu veitt ákveðið aðhald í þessum efnum. Verði þörf á lengri tíma fyrir aðgerð getur lögregla óskað eftir dómsúrskurði um framlengingu en rökstyðja þarf rannsóknarþarfirnar fyrir dómi.



4) Nánari afmörkun brota sem réttlæta símhleranir, aðrar hleranir, myndatökur, notkun eftirfararbúnaðar o.fl. aðgerðir skv. 86. gr.
Nefndin leggur til að skilyrði símhlerunar og annarra aðgerða skv. 86. gr. verði gerð afdráttarlausari í 87. gr. laganna. Eftir sem áður verði miðað við að ástæða sé til að ætla að upplýsingar sem miklu skipti fyrir rannsókn máls fáist með þessum hætti og rannsókn þurfi að beinast að broti sem varðað getur að lögum 8 ára fangelsi. Nefndin leggur hins vegar til að fallið frá þeirri tilhögun að almenn tilvísun til almanna- og einkahagsmuna geti réttlætt þessar aðgerðir þegar brot varða lægri refsingu en 8 árum. Með því er í reynd opnað fyrir nokkuð óheft svigrúm til að fallast á aðgerðir sem nefndin telur óheppilegt að sé til staðar þegar um ræðir svo alvarlega skerðingu á friðhelgi einkalífs. Af þeirri ástæðu leggur hún til að tilgreina beri sérstaklega í c-lið 2. mgr. og 3. mgr. 87. gr. þau brot almennra hegningarlaga sem réttlætt geti símhlerun ef refsimörk þeirra eru lægri en 8 ára fangelsi.

5) Strangari skilyrði sett fyrir öðrum hlerunum en símhlerunum.
Nefndin leggur til að sérstaklega ströng skilyrði verði sett fyrir rannsóknaraðgerðum skv. c-lið 86. gr. sem fjallar um annars konar hleranir en símhleranir, svo sem herbergjahlerun og hljóðupptöku af orðræðum manns og samræðum fólks. Þar sem þessi aðgerð þykir ganga einna lengst í skerðingu á friðhelgi einkalífs er lagt til það viðbótarskilyrði í 4. mgr. 87. gr. að rannsókn verði að beinast að broti sem þegar hefur stofnað eða getur stofnað lífi manns í hættu eða ógnað velferð manna eða verulegum almannahagsmunum.

6) Skylda póst- og fjarskiptafyrirtækja til þess að aðstoða lögreglu við aðgerðir skv. 86. og 87. gr.
Nefndin leggur til að skýrt sé kveðið á um skyldu aðila sem reka póst- og fjarskiptaþjónustu til þess að aðstoða lögreglu við aðgerðir sem heimilaðar eru í 86. og 87. gr. hvort heldur eftir beinni lagaheimild eða dómsúrskurði. Auk þess leggur nefndin til að aðila sem rekur fjarskiptaþjónustu verði gert skylt að veita lögreglu upplýsingar um hvaða símtækjum eða símanúmerum einstaklingur er skráður fyrir. Þannig yrði skylt, án undangengins dómsúrskurðar, að veita upplýsingar t.d. um hvert væri leyninúmer manns eða önnur númer sem skráð eru á nafni hans. sbr. tillögu þessa efnis um breytingar á 6. og 7. mgr. 87.gr. laganna.

7) Lögmaður skipaður við dómsmeðferð kröfu lögreglunnar um heimild til að beita sérstakri rannsóknaraðgerð skv. 86. og 87. gr.
Þegar kröfur lögreglunnar um heimild til aðgerða skv. 86. gr. eru teknar fyrir á dómþingi, hvílir leynd yfir málinu, sakborningur er ekki staddur þar og honum er hvorki kynnt krafa lögreglunnar né úrskurður réttarins að svo stöddu.
Nefndin leggur til að samkvæmt nýju ákvæði laga um meðferð opinberra mála, 87. gr. a, beri dómara að skipa þeim lögmann sem þessar alvarlegustu rannsóknaraðgerðir eiga að beinast gegn þegar beiðni um heimild til aðgerðar er tekin fyrir á dómþingi. Tekur tillaga þess m.a. mið af skipan danskra réttarfarslaga svo og tillögum sem settar hafa verið fram í Noregi um skipun lögmanns við þessar aðstæður.
Hlutverk lögmannsins myndi vera í því fólgið að kanna þau gögn sem fylgja kröfu lögreglunnar, tjá sig um hana og eftir atvikum lýsa efasemdum um réttmæti hennar. Fær dómarinn þannig fram andstæð sjónarmið fram í málinu áður en hann kveður upp úrskurð sinn. Lögmaðurinn hefði síðan heimild til að kæra úrskurð dómara til Hæstaréttar. Störf skipaðs lögmanns ættu að stuðla að því að lagafyrirmælum verði fylgt á umræddu sviði og þannig efla þau réttaröryggi borgaranna. Skipaður lögmaður má hins vegar ekki hafa neitt samband við þann sem aðgerð á að beinast gegn eða aðra nema með samþykki lögreglu.

8) Skýrari reglur um skyldu til að tilkynna sakborningi um rannsóknaraðgerð skv. 86. gr. eftir að henni lýkur og heimildir til að víkja frá henni eða fresta henni samkvæmt ákvörðun dómara.
Nefndin leggur til að skylda sem kveðið er á um í 2. mgr. 88. gr. til þess að tilkynna um rannsóknaraðgerð skv. 86. gr. eftir að henni er lokið verði gerð afdráttarlausari og að dómstólum verði falið að annast tilkynningu eða birtingu úrskurðar fyrir sakborningi. Útbúin verði sérstök stöðluð tilkynning í þessu skyni.
Jafnframt verði kveðið skýrt á um heimildir í 3. mgr. 88. gr. til þess að fresta slíkri tilkynningu eða ef sérstaklega ríkar ástæður mæla með því að tilkynning eða birting úrskurðar fari ekki fram. Lagt er til að ákvörðunarvald um slíka frestun eða niðurfellingu tilkynningar verði í höndum dómara.

2.2. Reglur um upplýsingagjafa.
Nefndin mælir með auknu samstarfi lögreglu við upplýsingagjafa en telur jafnframt að skýrar reglur verði að gilda um samskipti lögreglu og upplýsingagjafa og um greiðslur eða aðra umbun fyrir upplýsingar.

1) Breytingar á almennum hegningarlögum sem kveða á um heimild dómstóla til að lækka refsingu vegna upplýsingagjafar.
Það er mat nefndarinnar að lagaákvæði sem stefna að því að brotamaður hafi hag af samvinnu við lögreglu og dómstóla til að upplýsa mál séu æskileg í þágu rannsókna á fíkniefnabrotum og öðrum brotaflokkum. Um refsingu verður ekki samið fyrirfram, en reynslan sýnir að dómstólar taka ríkt tillit til afstöðu sakbornings til ákæru og persónulegra aðstæðna við ákvörðun refsingar. Því er mikilvægt að lögregla upplýsi, í rannsóknargögnum, með upplýsingaskýrslum eða öðrum hætti, um framferði sakbornings við rannsókn og viðleitni hans við að upplýsa afbrot sem hann á aðild að sem og önnur afbrot.
Nefndin leggur til að í 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verði bætt nýjum málslið um að dómstólar megi meta sérstaklega til refsilækkunar ef maður upplýsir um aðild annarra að broti sem hann er sakaður um.

2) Áhrif upplýsingagjafar á afplánunarstað.
Nefndin leggur til að í tilvikum þar sem sakborningur, sem upplýsir um þátt annarra í máli, er útlendingur og heimaríki hans er aðili að Evrópusamningi um fullnustu refsidóma, verði unnt að lýsa vilja íslenskra stjórnvölda til að fara þess á leit við stjórnvöld í heimaríki hans að hann afpláni refsidóminn þar. Einnig verði sakborningi gert ljóst að í beiðni íslenskra stjórnvalda til erlends ríkis um afplánun refsidóms sé það skilyrði sett að íslenski refsidómurinn verði afplánaður samkvæmt efni sínu.

3) Samskipti við upplýsingagjafa og greiðslur frá lögreglu fyrir upplýsingar.
Nefndin hefur samið tillögur að reglum um upplýsingagjafa sem hún telur rétt að ríkissaksóknari gefi út sem verklagsreglur fyrir lögreglu. Er þar viðurkennt mikilvægi upplýsingasöfnunar með föstu eða atviksbundnu sambandi lögreglumanns við upplýsingagjafa sem þó fari ávallt fram undir eftirliti og á ábyrgð yfirmanns. Í fyrrgreindum tillögum eru upplýsingagjafar lögreglu skilgreindir, fjallað er um nafnleynd, skipulag og skráningu samskipta við upplýsingagjafa og um peningagreiðslur til upplýsingagjafa. Nefndin leggur til að hámark greiðslu fyrir upplýsingar verði 150.000 kr. en að almennt nemi greiðslur aðeins hluta af þeirri fjárhæð. Greiðslu verði aldrei lofað fyrirfram án tillits til árangurs og hún verði ávallt háð því skilyrði að upplýsingagjöf hafi skilað árangri.

4) Breytingar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt vegna greiðslna til upplýsingagjafa.
Nefndin leggur til, með hliðsjón af mikilvægi nafnleyndar upplýsingagjafa og trúnaðar við hann, að brýnt sé að undanþiggja þessar greiðslur skattskyldu með breytingu á ákvæðum laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Að öðrum kosti verði þetta nauðsynlega rannsóknarúrræði ekki virkt. Lagt er til að undanþágu vegna greiðslnanna verði bætt í 4. tölulið A liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

2.3. Reglur um tálbeitu.
Nefndin álítur að þótt nauðsynlegt sé að fara að öllu með gát við notkun tálbeitu sé ekki nauðsynlegt að mæla fyrir um þessa rannsóknaraðferð í settum lögum. Telur nefndin skynsamlegra að setja fram leiðbeiningarreglur innan marka gildandi laga að teknu tilliti til dómsúrlausna.
Nefndin gerir tillögur um nokkrar meginreglur sem ávallt verði lagðar til grundvallar við notkun tálbeitu og að ríkissaksóknari gefi út fyrirmæli til lögreglustjóra byggð á þeim tillögum. Er þar m.a. kveðið skýrt á um hvaða yfirmenn taka ákvörðun um notkun tálbeitu og nánar rakin skilyrði fyrir beitingu úrræðisins. Það grundvallarskilyrði er haft að leiðarljósi að tálbeita verði ekki notuð til að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin.

2.4. Reglur um afhendingu undir eftirliti.
Nefndin leggur til að settar verði skýrar reglur eða fyrirmæli um heimildir íslenskra yfirvalda til þess að beita megi afhendingu undir eftirliti. Hefur hún samið tillögur að reglum þessum. Lagt er til að ríkissaksóknari gefi fyrirmælin út.
Í tillögum nefndarinnar um afhendingu undir eftirliti er ráðgert að að íslensk stjórnvöld geti bæði óskað eftir og tekið við beiðnum erlendra stjórnvalda um afhendingu undir eftirliti. Lagt er til að ríkislögreglustjóri taki ákvörðun um afhendingu undir eftirliti hvort heldur ef beiðni berst frá erlendum ríkjum um þátttöku íslenskra lögregluyfirvalda eða ef íslensk yfirvöld eiga frumkvæði að samvinnu við önnur ríki. Ríkislögreglustjóri mæli síðan fyrir um stjórn aðgerðarinnar fari hún fram hér á landi. Samþykki ríkissaksóknara og ríkistollstjóra verði áskilið áður en ákvörðun er tekin um að beiðast eða verða við afhendingu undir eftirliti. Meðal annarra atriða sem rakin eru í tillögum að reglum eru skilyrði fyrir beitingu slíkrar lögregluaðgerðar, form og efni beiðni frá erlendu ríki og framkvæmd og stjórn aðgerðarinnar.

2.5. Alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni.
Nefndin leggur til að íslenskum yfirvöldum verði gert kleift að taka þátt í alþjóðlegum sýndarviðskiptum með fíkniefni og að ríkissaksóknari setji fyrirmæli í því skyni. Geta fyrirmæli um afhendingu undir eftirliti gilt um þessa rannsóknaðferð eftir því sem við á. Ber að beina beiðni erlendra yfirvalda um slíka aðgerð til ríkislögreglustjóra. Er lagt til að að þátttaka íslenskrar lögreglu í alþjóðlegum sýndarviðskiptum með fíkniefni lúti stjórn ríkislögreglustjóra í samráði við lögreglustjóra í því umdæmi sem aðgerðin fer fram í. Nauðsynlegt er að ríkissaksóknari samþykki þátttöku íslenskrar lögreglu í aðgerðinni og þá áætlun sem gerð hefur verið um hana.

2.6. Lagabreytingar og önnur úrræði til að stuðla að vitnavernd.
Nefndin leggur til ýmsar breytingar á lögum og verklagsreglum til þess að stuðla að vitnavernd. Ljóst er að ógnanir gagnvart vitnum hér á landi eru ekki stórfellt vandamál heldur alger undanteking. Engu að síður telur nefndin nauðsynlegt að hafa ákveðin úrræði til staðar á þessu sviði ef á reynir og er það í samræmi við þróun í nágrannalöndunum.1) Sérstök refsivernd í almennum hegningarlögum vegna ógnana gagnvart
vitnum. Nefndin leggur til að í ákvæði almennra hegningarlaga verði bætt nýju ákvæði í 108. gr., sem leggur allt að sex ára fangelsi við því að hóta manni ofbeldi eða beita ofbeldi, ólögmætri nauðung skv. 225. gr. laganna, hótunum skv. 233. gr. eða fremja önnur refsiverð brot gagnvart honum vegna skýrslutöku hans hjá lögreglu eða fyrir dómi. Sama refsivernd nái til fjölskyldu vitnis og annarra tengdum vitninu sem er hótað.2) Heimildir til að víkja sakborningi úr þingsal þegar skýrsla er tekin af
vitni. Nefndin gerir tillögu um viðbætur við 6. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála sem veiti dómara heimild til að ákveða að víkja sakborningi úr þinghaldi þegar skýrsla er tekin af vitninu ef sérstök ástæða er til að ætla að því hafi verið hótað hefndaraðgerðum þannig að hætt sé við að framburður þess verði ekki óþvingaður í nærveru sakbornings. Þó verði sakborningi ávallt gert kleift að fylgjast með skýrslutöku, t.d. í gegnum hljóðkerfi og koma að spurningum til vitnisins.3) Takmarkaðar persónuupplýsingar um vitni í gögnum máls. Nefndin leggur til breytingar í 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála og á 11. gr. reglugerðar um réttarstöðu handtekinna manna nr. 395/1997. Samkvæmt því verði mögulegt að lögreglumenn og aðrir opinberir starfsmenn sem bera vitni starfs síns vegna geri aðeins grein fyrir nafni sínu, starfi og starfsstöðu en ekki heimilisfangi og símanúmeri við skýrslutöku fyrir lögreglu og dómi. Það sama gildir um önnur vitni ef sérstök á ástæða er til þess til hlífðar vitninu. Rök að baki tillögunni eru einkum þau að hótanir í garð lögreglumanna sem rannsaka refsimál hafa færst í vöxt, m.a. í kjölfar þess að greint er upphátt frá persónulegum upplýsingum s.s. heimilisfangi þeirra fyrir dómi.

4) Ráðstafanir vegna mætingar vitnis fyrir dómi og lokun þinghalda.
Nefndin leggur til að eftir föngum verði reynt að koma til móts við óskir vitnis um að mæta ekki öðrum vitnum í tengslum við meðferð máls fyrir dómi vegna ótta um að því verði ógnað. Með sama hætti leggur nefndin til að beitt verði heimildum 8. gr. laga um meðferð opinberra mála til þess að loka þinghöldum til hlífðar vitni ef hætta er á að nærvera manna er talin valda því að vitni segi ekki sannleikann.

5) Banni við opinberri birtingu á nafni vitnis. Nefndin leggur til að unnt verði að víkja frá opinberri nafnbirtingu vitnis í dómi ef ástæða er til að ætla að hún geti stofnað öryggi þess í hættu. Með nýlegri breytingu á 10. gr. laga um meðferð opinberra mála er unnt að verða við þessu.


6) Lögregluvernd og þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfinu. Nefndin leggur til að skýrt verði kveðið á um í verklagsreglum lögreglu að unnt sé að bjóða vitnum lögregluvernd ef sérstaklega rík ástæða er til þess vegna raunhæfrar hættu á hefndaraðgerðum gagnvart vitni.
Nefndin telur mjög mikilvægt að vitni séu veittar greinargóðar upplýsingar um réttindi sín og skyldur á fyrstu stigum, er það kemur til lögreglu til skýrslugjafar og um úrræði sem eru til staðar ef það telur sig vera í hættu vegna vitnisburðarins. Til þess að tryggja megi að vitni fái þær upplýsingar leggur nefndin til að gefinn verði út bæklingur sem unnt er að afhenda vitnum áður en til skýrslutöku kemur.
Loks leggur nefndin til að einum eða fleiri starfsmönnum hjá lögreglu verði falið hlutverk ráðgjafa fyrir vitni og veitt sérstök þjálfun í því skyni.


3. KAFLI
Um hugtakið óhefðbundnar
eða sérstakar rannsóknaraðferðir.

3.1. Ástæður fyrir þörf á nýjum rannsóknaraðferðum

.
Það er stjórnvöldum í flestum vestrænum ríkjum áhyggjuefni að þrátt fyrir ómælda vinnu og fjármuni sem lagðir eru í baráttu við afbrot virðist brotastarfsemi færast í aukana, einkum skipulögð glæpastarfsemi sem fer fram án tillits til landamæra. Hefur það leitt til aukinnar alþjóðlegrar samvinnu um samræmdar aðgerðir til að uppræta slíka starfsemi og leita nýrra leiða til þess að bregðast við þeim nýju aðferðum sem beitt er í brotastarfseminni. Í flestum Evrópuríkjum er nú verið að endurskoða rannsóknaraðferðir lögreglunnar í því augnamiði að efla þær til þess að lögregla verði hæfari til þess að takast á við rannsókn brotamála og auka samvinnu. Frá Norðurlöndunum má nefna sem dæmi frá síðustu árum samvinnu starfshóps á vegum norrænu embættismannanefndarinnar um samræmdar aðgerðir til þess að uppræta skipulagða glæpastarfsemi bifhjólagengja (rockerkriminalitet). Hefur umfang og brotastarfsemi glæpahringja af þessu tagi aukist verulega á undanförnum árum á Norðurlöndum sem og skipulögð glæpastarfsemi í flestum Evrópuríkjum.
Þær rannsóknaraðferðir sem lögregla notar við rannsókn sakamála taka mið af afbrotaaðferðum sem notaðar eru hverju sinni í brotastarfsemi og þróast í takt við þær. Einnig ber að hafa í huga að eðli afbrota hefur einnig breyst að ýmsu leyti. Þar má fyrst nefna verulega aukningu í ávana- og fíkniefnabrotum þar sem koma við sögu margvísleg ný fíkniefni sem taka örum breytingum. Með skipulagðri glæpastarfsemi eykst einnig hættan á þróuðum fjármunabrotum, s.s. peningaþvætti þar sem reynt er að dylja eða koma undan ávinningi af fíkniefnabrotum og öðrum brotum. Jafnframt reyna þeir sem stunda afbrot að færa sér í nyt öra þróun tækninnar, t.d. þá möguleika sem eru fólgnir í rafrænum viðskiptum við meðferð ólögmæts ávinnings af brotastarfsemi. Einnig má nefna, sem dæmi um nýlegar afrotaaðferðir, brotastarfsemi sem felst í birtingu og útbreiðslu efnis á Alnetinu. Er lögreglu oft verulega erfitt um vik að takast á við slíka brotastarfsemi og kallar hún á nána samvinnu milli ríkja.

3.2. Hugtakið "óhefðbundin" eða "sérstök" rannsóknaraðferð.
Engin ákveðin skilgreining er til á hugtakinu óhefðbundin eða sérstök rannsóknaraðferð lögreglu eða tæmandi talning á því hvað rannsóknaraðferðir tilheyra þessum flokki. Fram til þessa hefur orðnotkunin "óhefðbundin" einkum verið skýrð með því að um ræði nýjar eða nýlegar rannsóknaraðferðir sem gripið hefur verið til í rannsókn afbrota og þá sérstaklega í baráttu við fíkniefnabrot. Af því má ráða að rannsóknaraðferðir þessar séu til komnar vegna nýrra aðferða við framningu brota þar sem hefðbundnar aðferðir séu ekki í öllum tilvikum fullnægjandi í baráttu gegn alvarlegum afbrotum. Á hinn bóginn má segja að orðið "óhefðbundin" hafi á sér ákveðinn neikvæðan blæ. Er því álitaefni hvort álykta megi að hefðbundin rannsóknaraðferð lögreglu sé sú aðferð sem rúmast innan leyfilegra marka og ramma laganna á meðan óljóst sé hvort það getur átt við um óhefðbundna rannsóknaraðferð. Orðnotkunin "sérstakar" rannsóknaraðferðir hefur hefur hins vegar þá skýringu að þar er rætt um aðferðir sem aðeins verður beitt í sérstökum tilvikum, þ.e. við rannsókn tiltekinna alvarlegra brota. Þannig þurfa slíkar rannsóknaraðferðir ekki að vera óhefðbundnar heldur getur skapast hefð fyrir því að þeim sé beitt í sérstökum málaflokkum.
Á fyrstu stigum í starfi nefndarinnar kom til umræðu hvort heitið bæri að nota um þetta meginviðfangsefni nefndarinnar. Urðu nefndarmenn ásáttir um að heitið "sérstakar" rannsóknaraferðir lýsti betur eðli þessara aðferða en "óhefðbundnar", enda hefur þegar skapast hefð fyrir beitingu margra þeirra hér á landi. Jafnframt er ljóst að flestum þessara aðferða er beitt í mjög afmörkuðum flokkum afbrota og þá einkum vegna rannsóknar fíkniefnabrota og í skipulagðri glæpastarfsemi.

3.3. Hvaða rannsóknaraðferðir eru sérstakar aðferðir?
Eins og áður var nefnt er ekki unnt að telja sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu með tæmandi hætti. Helstu rannsóknaraðferðir sem koma til álita í þessu sambandi og fjallað verður um eru símhleranir og herbergjahleranir, samskipti lögreglu við upplýsingagjafa og greiðslur til þeirra, tálbeitur, afhending undir eftirliti, alþjóðleg sýndarviðskipti, skygging og notkun eftirfararbúnaðar, myndatökur, flugumenn, endurkaup á þýfi, kaup á fíkniefnasýnum og sýning peninga. Oft er rætt um að sérstakar rannsóknaraðferðir séu nauðsynlegt tæki í starfi svokallaðra leynilegra rannsóknara (e. under cover agents). Án þess að tilraun verði gerð hér til þess að skilgreina með tæmandi hætti hvaða rannsóknaraðferðir lögreglu teljast sérstakar rannsóknaraðferðir, er ljóst að eitt megineinkenni þeirra er að yfir þeim hvílir ákveðin leynd. Þessu tengjast síðan óhjákvæmilega álitaefni um það hvort rétt sé veita vitnum sérstaka vernd vegna hættu á hefndaraðgerðum, t.d. að unnt sé að heita þeim nafnleynd gagnvart sakborningi í opinberu máli. Jafnvel kemur til álita að lögreglumaður sem starfað hefur sem leynilegur rannsóknari njóti slíkrar nafnleyndar við meðferð málsins fyrir dómi. Vikið verður að nauðsyn á sérstökum verndarráðstöfunum gagnvart vitnum og uppljóstrunum vegna hættu á hefndaraðgerðum í umfjöllum um vitnavernd.
Annað einkenni sem gjarnan er talið vera á sérstökum rannsóknaraðferðum er að þær gangi nær persónuvernd og friðhelgi einkalífs manna heldur en aðrar rannsóknaraðferðir lögreglu. Vissulega á þetta einkenni fyllilega við um sumar þeirra, sérstaklega símhleranir, myndatökur og fleiri rannsóknararaðferðir sem byggja á því að fylgjast með grunuðum mönnum og persónulegum samskiptum þeirra við aðra. Leyndin sem hvílir yfir aðferðunum leiðir til þess að sá sem þær beinast gegn fær ekki vitneskju um þær fyrr en eftir á og hugsanlega aldrei ef lögreglurannsókn leiðir ekki til höfðunar sakamáls. Ljóst er að þungvæg rök þurfa að liggja þessum rannsóknaraðferðum til grundvallar og að þeim verði ekki beitt nema sérstaklega eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
· rökstuddur grunur sé um afbrot,
· um ræði rannsókn alvarlegra afbrota,
· aðrar rannsóknaraðferðir séu ekki nægjanlegar,
· beiting aðferðanna hafi verulega þýðingu fyrir rannsókn máls,
· þær stuðli ekki að brotum sem ella hefðu ekki verið framin,
· ákvörðun um þær verði tekin af lögreglustjóra eða lögfræðingi hans sem sinnir ákæruvaldsstörfum.
Í þeim tilvikum þar sem dómsúrskurð þarf þess að beita tilteknum aðgerðum, t.d. símhlerunum, hefur komið til álita hvort rétt er að skipa þeim sem rannsóknin beinist að sérstakan verjanda svo unnt sé að gæta réttaröryggis. Hlutverk verjandans er þá fyrst og fremst að starfa í þágu réttaröryggisins almennt, þ.e. að réttra aðferða sé gætt við ákvörðun og um framkvæmd þessara aðgerða.

3.4. Sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og réttaröryggi.
Lögreglurannsóknir vekja ætíð upp spurningar um réttaröryggi og nýjar rannsóknaraðferðir lögreglunnar kunna að skerða friðhelgi einkalífs og persónuvernd einstaklinga sem vernduð er í 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. stjskl. nr. 97/1995 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. l. nr. 62/1994, eða snerta það frekar en gömlu aðferðirnar hafa gert. Einnig ber að hafa í huga að öflun sönnunargagna með ólögmætum hætti sem síðar verði lögð fram í refsimáli fyrir dómstólum kann að brjóta gegn ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólunum, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Í refsilöggjöfinni er reynt er að sporna við því að ólöglegum aðferðum verði beitt við öflun sönnunargagna við rannsókn opinbers máls. Í 131. gr. almennra hegningarlaga (hér eftir skammstöfuð alm. hgl.) eru lagðar sektir eða allt að þriggja ára fangelsi við því að opinber stafsmaður beiti ólöglegri aðferð til þess að koma manni til játningar eða sagna, framkvæmir ólöglega handtöku, fangelsan eða rannsókn eða leggur að ólögum hald á skjöl eða aðra muni. Í 132. gr. alm. hgl. er eins árs fangelsi lagt við því ef opinber starfsmaður gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, leit, fangelsan, framkvæmd refsingar eða haldsetningu eða brýtur aðrar þess konar reglur. Frekari ákvæði almennra hegningarlaga sem gætu átt við um ólöglegar rannsóknaraðferðir lögreglu eru í 134., 135. og 138. gr. alm. hgl.
Gæta ber réttaröryggisins og réttinda sakborninga en þó er óhjákvæmilegt að hafa í huga að afbrot fela oftast í sér brot gegn friðhelgi einkalífs manna, brotaþolanna. Ljóst er að hér vegast á hagsmunir þeirra manna sem grunaðir eru um afbrot og hagsmunir samfélagsins af því að upplýsa afbrot. Uppljóstrun afbrota og aðgerðir til að koma í veg fyrir afbrot eru nauðsynlegir liðir í því að vernda viðurkennd gæði, virðingu fyrir mannslífum, heilsu manna og frelsi þeirra. Eiga dómstólar eins og endranær síðasta orðið um það hvar markalínan á milli þessara hagsmuna liggur.



4. KAFLI
Afbrotaþróun í Reykjavík á undanförnum árum.

Þegar fjalla á um þróun afbrota er það frumskilyrði að fyrir hendi sé aðgengilegur grunnur sem hefur að geyma upplýsingar um fjölda og tegundir afbrota og að skráningu sé hvarvetna hagað með samræmdum hætti. Er með því átt við að brotaflokkar séu alls staðar hinir sömu, skilgreiningar á hugtökum þær sömu og talning brota sé samræmd. Í janúar 1998 náðist sá áfangi að öll lögregluembætti á landinu tengdust tölvukerfi lögreglunnar. Á næstu árum er því í fyrsta sinn unnt að vænta raunhæfs samanburðar á brotum eftir umdæmum með vinnslu tölfræðiupplýsinga úr samræmdri málaskrá lögreglu í öllum umdæmum landsins.
Mat á þróun afbrota í landinu undanfarin ár er ýmsum örðugleikum bundið, einkum í ljósi þess að skráning á fjölda afbrota á síðastliðnum áratug hefur verið ábótavant, skráð hefur verið út frá ólíkum forsendum og ekki náðist samræmd skráning fyrir landið í heild fyrr en í byrjun síðasta árs eins og áður var lýst. Til þess að leita marktækra tölfræðiupplýsinga um afbrotaþróun undanfarinna ára er því helst að líta til umdæmis lögreglustjórans í Reykjavík Bæði er þar um að ræða langstærsta lögregluumdæmi landsins auk þess töluverð vinna hefur verið lögð í söfnun og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga úr málaskrá embættisins.
Í þeirri stuttu samantekt sem fer hér á eftir verður því aðeins litið til þróunar afbrota innan lögsagnarumdæmis Lögreglunnar í Reykjavík en skráning upplýsinga hefur ekki verið samræmd allt tímabilið og verður að taka mið af því við mat á þeim upplýsingum sem fjallað er um hér. Einnig verður að taka tillit til þeirra margþættu breytinga sem átt hafa sér stað í umdæminu á undanförnum árum. Til að mynda hefur íbúum í umdæminu fjölgað úr 106.516 árið 1990 í 118.680 árið 1998 og nokkrar sveiflur hafa verið í atvinnu- og efnahagsástandi á tímabilinu. Á undanförnum árum hafa einnig orðið nokkrar breytingar á skipulagi lögreglunnar og nýjar áherslur hafa komið fram í starfsaðferðum og skráningu brota. Allar tölulegar upplýsingar um þróun afbrota þarf að meta út frá þessum þáttum enda ljóst að breytingar á tölum geta orsakast af öðrum þáttum en beinlínis fjölgun eða fækkun einstakra afbrota. Opinberar tölur eru þó ekki alveg gagnslausar því þær geta að minsta kosti gefið grófa mynd af veruleika afbrota eins og hann birtist í gögnum lögreglunnar.
Á töflunni má sjá þróun í nokkrum brotaflokkum á árunum 1990-1998. Þar má sjá að nokkur fjölgun hefur orðið á málafjölda í flestum brotaflokkum þótt tölur í einstaka brotaflokkum geti verið nokkuð sveiflukenndar milli ára. Vert er að hafa í huga að breytingar á tölum þurfa ekki endilega að þýða raunverulega aukningu eða fækkun á brotum því þættir eins og aukning í tilkynningum í kjölfar átaks, breytingar í skráningu, aukin umræða um brot í samfélaginu o.s.frv. geta haft töluverð áhrif á málafjölda. Þessi þættir hafa þó misjafnlega mikil áhrif eftir eðli þeirra brota sem flokkast í hvern málaflokk.




Þróun afbrota í nokkrum brotaflokkum 1990-1998.

 
1990
1991
1992
1993
1994
1995
1996
1997
1998
Innbrot
1114
1051
1417
1543
1620
1724
1884
1726
1378
Þjófnaðir
1571
1518
1615
1659
1940
2041
2123
2298
2364*
Rán
14
16
15
16
18
24
16
22
17
Kynferðisbrot
44
52
55
56
68
57
52
76
82
Fíkniefnamál
82
104
116
208
255
329
581
349
344
Ölvunarakstur
1089
959
842
871
818
786
791
862
993

* (Í þjófnaðarbrotum er eingöngu fjallað um þau mál þar sem þjófnaður er skráður aðaðlbrot þar sem algegnt er að þjófnaður sé einnig skráður með innbrotum.)

Brotum er flokkast sem fíkniefnabrot hefur fjölgað jafnt og þétt frá 1990. Þróunin virðist tiltölulega hæg fram til 1993 er nokkur aukning verður á fjölda mála. Töluverð aukning virðist aftur verða 1995 og ári seinna verður aukningin rúmlega 46% en málafjöldi fellur síðan aftur niður 1997 og er svipaður 1998. Þessa miklu aukningu 1996 má að mestu skýra með aukinni áherslu á handtökur neytenda. Þannig komu upp 500 mál er varða vörslu og neyslu fíkniefna í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík 1996 en sambærilegur málfjöldi 1997 og 1998 er 266 mál. Í öðrum brotaflokkum er varða fíkniefni verður lítil breyting milli þessara ára.
Breytingar í fjölda mála er varða kynferðisbrot virðast litlar frá 1990. Þegar litið er á töfluna vekur athygli að málum virðist hafa farið fjölgandi undanfarin tvö ár en vera má að breyttar forsendur í skráningu frekar en aukin tíðni brota valdi þessu. Þó er ekki ólíklegt að aukin umræða um kynferðisbrot og bætt aðgengi að aðstoð hafi leitt til þess að kynferðisbrot séu frekar tilkynnt nú en áður.
Þegar fjöldi innbrota frá 1990 er skoðaður á töflunni vekur athygli að innbrotum fækkar um rúmlega 8% 1996 til 1997 eftir stöðuga aukningu í málafjölda frá 1991. Þannig fjölgaði innbrotum um 26% frá 1991-1992 en síðan þá hefur aukningin verið milli 5 og 10% á ári. Á sama tíma hefur ránum lítið fjölgað enda um fá tilfelli að ræða á hverju ári. Nær ómögulegt er að segja til um það hvað veldur þessum breytingum m.a. vegna þess að málaflokkurinn nær til ólíkra tegunda innbrota. Þannig eru ekki fyrirliggjandi upplýsingar um það hversu stór hluti þessara innbrota eru innbrot í bíla, einkahúsnæði eða fyrirtæki.
Þegar litið er á fjölda mála er varða þjófnað má sjá að töluverð aukning hefur orðið í fjölda mála í þessum málaflokki frá 1990. Ekki er þó víst að raunveruleg aukning brota sé svo mikil þar sem þessi flokkur nær til brota eins og búðarhnupls og reiðhjólastuldar og því líklegt að aukningin felist að einhverju leyti í aukningu á tilkynningum slíkra brota.
Eins og fram kemur á töflunni eru tiltölulega fá rán framin á hverju ári og breytilegt milli ára hvort um fjölgun eða fækkun brota er að ræða. Eðli og umfang rána á umráðasvæði Lögreglunnar í Reykjavík hafa ekki verið könnuð nýlega en á árunum 1994 og 1995 var ítarleg úttekt gerð á þessum málaflokki. Þar kom meðal annars fram að um 40% þeirra sem handteknir voru fyrir rán 1995 voru handteknir á svipuðum tíma fyrir fíkniefnabrot. Þótt erfitt sé að segja til um samspil fíkniefna og annarra brota, þá sérstaklega auðgunarbrota, ýtir þessi niðurstaða undir grunsemdir manna um samspil fíkniefnabrota og annarra brota. Alls voru 137 rán kærð til lögreglu á tímabilinu 1987 til 1994 og voru 36 menn handteknir vegna þessara mála þar af 8 undir 18 ára aldri eða 22% handtekinna. Í þeim hópi var ein stúlka. Það sem vekur mesta athygli er að öll mál þessa unga fólks eru frá árunum eftir 1992. Helmingur hópsins hafði feril hjá lögreglu vegna ofbeldisverka fyrir ránið, en hinir voru að fremja sín fyrstu ofbeldisverk sem kunn voru yfirvöldum.
Þegar litið er til þróunar í ölvunarakstri frá 1990 má sjá að eftir töluverða fækkun í málaflokknum fram til 1996 hefur málum fjölgað nokkuð síðastliðin tvö ár. Málafjöldinn hefur þó ekki náð því hámarki sem hann var í árið 1990. Vera má að almennt sé ölvunarakstur að aukast en einnig má vera að aukningu í málafjölda megi skýra með meiri áherslu lögreglu á þennan málaflokk á síðastliðnum árum.
Hafa ber í huga að athugun á tíðni afbrota segir lítið til um eðli þeirra eða umfang. Þannig má vera að líkamsmeiðingum og fíkniefnabrotum fjölgi ekki aðeins heldur hafi umfang slíkra brota og alvarleiki orðið meiri. Þetta er hins vegar erfitt að meta án nánari greiningar á þáttum eins og alvarleika meiðsla, tíðni og magni neyslu, og ásetningi.



5. KAFLI
Gildandi löggjöf og reglur
og beiting sérstakra rannsóknaraðferða hjá lögreglu.

5. 1. Helstu ákvæði um rannsóknaraðferðir lögreglu í lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 (hér eftir skammstöfuð oml.) eru lagafyrirmæli um rannsókn opinberra mála. Í IX. kafla laganna eru almennar reglur um rannsókn. Í 66. gr. er fjallað um upphaf rannsóknar opinbers máls, en skv. 2. mgr. ákvæðisins skal lögregla, hvenær sem þess er þörf, hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið, hvort sem henni berst kæra eða ekki. Í ákvæðum IX. kafla er einkum fjallað um markmið rannsóknar, þar eru almennar reglur um skýrslutöku af sakborningi og vitnum, reglur um hvernig einstaka rannsóknaraðgerðir verði bornar undir dóm og loks er þar fjallað um lok rannsóknar og höfðun refsimáls.
Lagaákvæði þar sem fjallað er sérstaklega um tilteknar rannsóknaraðgerðir lögreglu við rannsókn opinberra mála eru í X. kafla laganna um hald á munum o.fl. og í XI. kafla laganna um leit. Meginmarkmið ákvæða þessara tveggja kafla er að setja skýrar reglur um öflun lögreglu á sýnilegum sönnunargögnum vegna rannsóknar opinbers máls. Eru þessar aðgerðir gjarnan nefndar samheitinu þvingunarráðstafanir í þágu rannsóknar opinberra mála. Til dæmigerðra þvingunarráðstafana teljast haldlagning, leit, handtaka og gæsluvarðhald, sbr. X.-XIII. kafla oml. Þrátt fyrir að heiti þetta feli í sér þvingun er í reynd algengt að þessar ráðstafanir fari fram með samþykki þess sem í hlut á. Tilvísunin til þvingunar á þá skýringu að samþykki manns er ekki skilyrði þess að aðgerð fari fram og unnt er að knýja hana fram gegn vilja hans.
Þær rannsóknaraðferðir lögreglu sem kallast sérstakar teljast ekki endilega til þvingunaraðgerða, svo sem að fylgjast náið með grunuðum manni um tiltekinn tíma eða að nota tálbeitu til að ljóstra upp um brot. Aðgerðir sem augljóslega ganga á rétt manns til friðhelgi einkalífs, s.s. símhleranir myndu hins vegar kallast þvingunarráðstafanir í þágu opinbers máls, jafnvel þótt sá sem aðgerðin beinist að hafi ekki vitneskju um hana og hann sæti ekki beinni þvingun vegna hennar.
Eins og fram kemur í 78. gr. oml. er markmið haldlagningar að afla muna eða skjala sem ætla má að hafi sönnunargildi í opinberu máli. Meginreglan er að hald megi leggja á muni án dómsúrskurðar, en skv. 79. gr. oml. er þó unnt að bera ágreining um haldlagningu undir dómara. Í 80. gr. oml. er gerð krafa um lágmarks refsinæmi brots til þess hald megi leggja á bréf, símskeyti og aðrar sendingar sem eru í vörslum Pósts og síma, þ.e. að brot varði þyngri refsingu en sektum. Fari haldlagning fram án vitneskju sendanda og viðtakanda skal hún tilkynnt þeim svo fljótt sem verða má. Eigi að rannsaka efni og innihald slíkra sendinga verður úrskurður dómara þó að liggja fyrir. Loks er sú krafa gerð að ávallt þurfi dómsúrskurð til þess að hald verði lagt á prentað mál til undirbúnings upptöku samkvæmt ákvæðum laga um prentrétt. Reglur um skráningu og varðveislu haldlagðra muna og afléttingu á haldi er fjallað í 81. og 82. gr. Samkvæmt 83. gr. oml. er lögreglu heimilt að grípa til ákveðinna aðgerða í þágu rannsóknar, svo sem að loka ákveðnum húsum eða svæðum. Í 84. gr. er fjallað um heimildir lögreglu til að svipta mann tímabundið atvinnuskírteini ef hann fer með ákveðinn starfa og brýtur þær öryggisreglur sem hafa verið settar um hann. Loks er fjallað um heimildir til að kyrrsetja eignir sakbornings til tryggingar greiðslu sektar, skaðabóta, sakarkostnaðar og upptöku.
Lokaákvæði kaflans um hald á munum eða 86.-88. gr. fjalla um símhleranir, skráningu símnotkunar, aðrar hleranir og myndatökur. Í reynd er hér ekki um eiginlega haldlagningu muna eða skjala að ræða heldur sérstök afskipti sem lögreglu er heimilt að hafa af tjáskiptum sakbornings. Eru ákvæðin því í reynd nokkuð í ætt við 80. gr. oml um hald á póstsendingum. Í löggjöf sumra landa er rannsóknaraðferðum lögreglu af þessu tagi gjarnan skipað saman í sérstakan kafla, sbr. t.d. 71. kafli dönsku réttarfarslaganna (indgreb i meddelelseshemmeligheden) sem geymir ítarlegar reglur um framangreindar rannsóknaraðferðir. Þar sem þær rannsóknaraðferðir sem heimilaðar eru í þessum ákvæðum eru taldar fela í sér mun meiri skerðingu á friðhelgi einkalífsins en aðrar aðferðir, auk þeirrar leyndar sem nauðsynlegt er að þær njóti til að ná tilgangi sínum, þurfa þær að uppfylla strangari skilyrði en aðrar rannsóknaraðferðir. Verður sérstök umfjöllun um beitingu þessara úrræða hér á eftir.
Í 89. gr. oml., sem er upphafsákvæði XI. kafla um leit er lýst því markmiði leitar að handtaka sakborning, rannsaka ummerki brots eða hafa uppi á munum eða gögnum til að leggja hald á. Samkvæmt 89. og 90. gr. oml. skal leit lögreglu í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum skipum og öðrum farartækjum ákveðin með úrskurði dómara nema sá sem í hlut á samþykki hana. Þó er heimilt að leita án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Sambærilegar reglur gilda um líkamsleit og líkamsrannsókn, sbr. 92. og 93. gr. laganna.
Hér á landi hafa aldrei verið settar heildstæðar reglur um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu eða afmarkað nákvæmlega hvaða rannsóknaraðferðir teljist til þessa flokks rannsóknaraðferða. Þeirra helstu var getið í umfjöllun í 2. kafla að framan en þar má nefna símhleranir og aðrar hleranir, notkun upplýsingagjafa og greiðslur til þeirra, tálbeitur, afhending undir eftirliti, alþjóðleg sýndarviðskipti, skygging og notkun eftirfararbúnaðar, myndatökur, flugumenn, endurkaup á þýfi, kaup á fíkniefnasýnum og sýning peninga. Líkt og í nágrannalöndum okkar hefur ekki verið talin þörf á því hér á landi að heimildir til slíkra rannsóknaraðferða séu lögfestar nema að litlu leyti en í sumum tilvikum þarf dómsúrskurð til beitingar þeirra. Í áðurgreindum ákvæðum X. og XI. kafla sem fjalla um leit og haldlagningu er aðeins að hluta til fjallað um þær rannsóknaraðferðir lögreglu sem teljast til sérstakra rannsóknaraðferða.
Það eru því einkum þau ákvæði sem fjalla um símhleranir, aðrar hleranir, hljóðupptökur og önnur afskipti af tjáskiptum sakborningi sem koma til álita við mat á því hvaða aðferðir þurfa sérstaka lagaheimild. Hér á eftir verður lýst helstu ákvæðum laga um meðferð opinberra mála sem lúta að þessum rannsóknaraðferðum. Því næst verða reifaðar þær ólögfestu verklagsreglur eða venjur sem gilda um aðrar sérstakar rannsóknaraðferðir og hvernig þeim hefur verið beitt á undanförnum árum.

5.2. Símhleranir, skráning á notkun síma, hljóðupptökur, myndatökur og opnun póstsendinga.

5.2.1. Lagaákvæði um rannsóknaraðferðirnar.
Eins og lýst var að framan eru ákvæði um skilyrði og framkvæmd símhlerana, skáningu á notkun síma, hljóðupptökur og myndatökur í þeim kafla oml. sem fjalla um haldlagningu, í 86.-88. gr. Þessi ákvæði eru svohljóðandi:

86. gr.
Með þeim skilyrðum sem greind eru í 87. gr., er heimilt í þágu rannsóknar:

a. að leggja fyrir yfirvöld að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl við tiltekinn síma eða tekin séu upp önnur fjarskipti við tiltekið fjarskiptatæki,
b. að fá upplýsingar hjá yfirvöldum um símtöl við tiltekinn síma eða fjarskipti við tiltekið fjarskiptatæki,
c. að taka upp samtöl eða nema annars konar hljóð eða merki með því að nota til þess sérstaka hljóðupptökutækni eða sambærilega tækni án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því,
d. að taka myndir, hvort sem er ljósmyndir eða kvikmyndir, án þess að þeir sem myndaðir eru viti af því.

87. gr.
[1. Til aðgerða sem taldar eru upp í 86. gr. þarf úrskurð dómara. Þó ber að veita lögreglu upplýsingar skv. b-lið þeirrar greinar án dómsúrskurðar ef fyrir liggur samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis. Í úrskurði skal m.a. taka fram hvaða tiltekinn síma eða fjarskiptatæki sé um að ræða, sbr. a- og b-lið, og hvar og með hverjum hætti samtöl, hljóð eða merki skulu numin eða myndir teknar sbr. c- og d-lið. Í úrskurði skal setja aðgerð ákveðin tímamörk.] 1)
2. Eftirfarandi skilyrði verða að vera fyrir hendi svo gripið verði til aðgerða skv. 86. gr.:

a. að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þessum hætti,
b. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi eða ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.

3. Heimilt er að taka upp hljóð og taka myndir í þágu rannsóknar á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að án þess að skilyrðum 1. og 2. mgr. sé fullnægt.
1) L. 36/1999, 25. gr.
88. gr.
1. Upptökur af símtölum, hljóðupptökur, myndir eða annað, sem aflað er á grundvelli 86. gr., skal eyðileggja jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf í þágu máls, enda hafi þau gögn ekki verið lögð fram í dómi.
2. Þegar aðgerð skv. 86. gr. er lokið skal þeim sem aðgerð beinist að, þar á meðal sakborningi og eiganda eða umráðamanni síma eða fjarskiptatækis, birtur úrskurður um hana eða tilkynnt hún og skal það gert svo fljótt sem verða má, þó
þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins.

Þær heimildir lögreglu sem mælt er fyrir um í 86. gr. eru nokkuð skýrari og ítarlegri en reglur um sambærilegar aðgerðir í eldri lögum um meðferð opinberra mála nr. 74/1974. Var fyrirmynd núgildandi laga einkum sótt í ákvæði 71. kafla dönsku réttarfarslaganna. Skilyrðið um refsimörk brots, sbr. b-lið 2. mgr. 87. gr., sem þó er frávíkjanlegt ef ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjast, kom nýtt inn í núgildandi lög, en í eldra ákvæði 47. gr. oml var sett skilyrði um öryggi ríkisins eða að um væri að ræða mikilsverð sakamál. Að auki bætti 86. gr. oml. við nýjum úrræðum sem ekki voru orðuð í eldri lögum, svo sem um hljóðupptökur og myndatökur og heimild var veitt til myndatöku á almannafæri í 3. mgr. 87. gr. án dómsúrskurðar.
Með lögum nr. 36/1999 voru þrengd nokkuð skilyrði þess að víkja megi frá dómsúrskurði skv. 1. mgr. 87. gr. laganna. Var þá gert að fortakslausu skilyrði að lögregla þurfi alltaf að afla dómsúrskurðar til þess að hlera síma og önnur fjarskiptatæki og breytir þar engu samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis fyrir aðgerðinni, eins og áður var heimilað í ákvæðinu. Með þeirri skipan þótti ekki nægilega tryggð sú réttarvernd sem dómsúrskurður samkvæmt 87. gr. á að veita.
Í a- og b-liðum 86. gr. er vísað til þess að unnt sé að leggja fyrir yfirvöld að leyfa hlustun eða veita upplýsingar um notkun á síma. Vegna breyttra aðstæðna í rekstri símafyrirtækja hér á landi hér á landi á ekki lengur við að tala um yfirvöld í þessu sambandi. Í dómi Hæstaréttar frá 13. nóvember 1998 var litið til þess að þótt það hefði aðeins verið á færi yfirvalda að leyfa slíkar aðgerðir þegar lögin voru samin, hefðu orðið breytingar á þessu sviði. Þótt einkafyrirtæki ætti í hlut í máli þessu var talið unnt að beita ákvæðinu með lögjöfnun.
Loks má árétta að í 80. gr. oml. er kveðið á um að hald megi leggja á bréf símskeyti og aðrar sendingar sem eru í vörslum Pósts og síma, enda sé það gert vegna rannsóknar á broti sem varðað getur þyngri refsingu en sektum. Hafi sendandi og viðtakandi ekki verið staddir við haldlagningu skal hún tilkynnt þeim svo fjótt sem verða má, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins. Í 2. mgr. ákvæðisins er það skilyrði sett að rannsókn á efni og innihaldi slíkra sendinga megi einungis fara fram samkvæmt úrskurði dómara.

5.2.2. Fjöldi dómsúrskurða í Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 86. og 87. gr. oml. á árunum 1995-1998
Hér á eftir verður lýst niðurstöðum könnunar sem nefndin gerði á úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur um heimildir til aðgerða sem taldar eru í 86. og 87. gr. svo og 80. gr. oml. í Héraðsdómi Reykjavíkur á árunum 1995 – 1998.

5.2.2.1. Fjöldi úrskurða 1995-1998.
Á undanförnum árum hefur beiting rannsóknarúrræðana sem getið er í 86. gr. oml. aukist mjög og dómsúrskurðum samkvæmt 87. gr. laganna fjölgað verulega á nokkurra ára tímabili. Nefndin aflaði allra úrskurða frá Héraðsdómi Reykjavíkur sem kveðnir voru upp á grundvelli 87. gr. oml. á fjögurra ára tímabili, þ.e. 1995-1998.

1. tafla.
Fjöldi dómsúrskurða 1995-1998:

  Heimild veitt Heimild hafnað Alls
1995 12   12
1996 17 2 19
1997 47   47
1998 54 2 56
Alls 130 4 134

Aðeins í fjórum tilvikum á þessu fjögurra ára tímabili var kröfu um beitingu rannsóknarúrræða hafnað. Í úrskurðunum tveimur frá 1996 var ástæðan sú að ekki var nægilega sýnt fram á að upplýsingar sem skiptu miklu fyrir rannsókn máls fengjust með aðgerðinni og skilyrði a-liðar 1. mgr. 87. gr ekki uppfyllt. Í fyrri úrskurðinum frá 1998 var kröfu hafnað vegna þess að afstaða um samþykki eiganda síma sem grunaður var um ónæði og hótanir lá ekki fyrir. Í síðari úrskurðinum frá 1998 var kröfunni hafnað vegna þess að brotið varðaði hvorki átta ára fangelsi né heldur þóttu almannahagsmunir nægilegir skv. b-lið 2. mgr. 87. gr.
Ljóst er að þar sem úrskurður á grundvelli 87. gr. gengur nánast undantekningarlaust án vitneskju þess sem úrræðið beinist gegn er enginn til þess að verjast kröfu um slíkan úrskurð eða til þess kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Verði heimild á hinn bóginn hafnað getur lögreglan þó neytt slíkar kæruheimildar, sbr. nýlegan dóm Hæstaréttar frá 8. desember 1998. Um var að ræða rannsókn á innbroti í tölvukerfi og varðaði dómurinn skyldu alnetsfyrirtækis til þess að veita upplýsingar sem skrár í vélrænni skráningu vefþjóna fyrirtækisins höfðu að geyma. Verður nánar vikið að þeim dómi síðar.

5.2.2.2. Hvaða aðgerðum er beitt?
Eins og lýst að ofan eru aðgerðir sem 86. gr. oml. heimilar í meginatriðum fjórþættar og taldar í fjórum stafliðum. Ef kannað er hverju þessar fjögurra úrræða er helst beitt á undanförnum árum í Reykjavík kemur eftirfarandi í ljós:

2. tafla.
Hvaða aðgerðum skv. 86. gr. oml er beitt?

  1995 1996 1997 1998 ALLS
a-liður; símhlerun       3 3
b-liður; uppl. um notkun 1 9 42 38 90
c-liður; hljóðupptaka 3 1 2 5 11
d-liður; myndataka          
a- og b-liður 8 6 2 6 22
a- og c-liður       1 1
a-b og c-liður   1     1
b- og c-liður       1 1
c- og d-liður     1   1
Alls 12 17 47 54 130

Ljóst er að framan af á þessu árabili er algengast að óskað sé eftir heimild til að fá upplýsingar um notkun síma en minna fer fyrir úrskurðum sem heimila hlerun á síma. Kemur þetta m.a. til af því að hlerun GSM-síma, sem langmest er notaður meðal þeirra sem grunaðir eru um fíkniefnabrot, er bundin ýmsum tæknilegum vandkvæðum og notkun slíkra síma hefur aukist verulega undanfarinn áratug. Athyglisvert er að aðeins einu sinni var óskað úrskurðar um heimild til myndatöku vegna rannsóknar opinbers máls samhliða heimild til hljóðupptöku skv. c-lið. Bendir það til þess að heimild lögreglu skv. 3. mgr. 87. gr. til þess að taka myndir í þágu rannsóknar á almannafæri, sé beitt í flestum tilvikum.
Einnig er athyglisvert að dómstólar hafa í úrskurðum sínum tekið af skarið um það að b-liður 86. gr. taki til skráningar á upplýsingum sem alnetsfyrirtæki geyma í vélrænni skráningu vefþjóna, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá 8. desember 1998. Er því ljóst að hægt hefur verið að fella tiltölulega nýlega tækni, sem þróast hefur mjög ört á undanförnum árum, undir ákvæði laganna án vandkvæða, enda ljóst að um fjarskiptatæki er að ræða.

5.2.2.3. Grundvöllur heimildar.
Þegar kannað er á hvaða grundvelli heimild er veitt sést að í miklum meirihluta tilvika er um að ræða rannsóknir fíkniefnamála. Í langflestum tilvikum er heimild veitt með tilvísun í 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem fjallar um stórfelld fíkniefnabrot. Þar sem brotið getur varðað 10 ára fangelsi er uppfyllt skilyrði fyrri málsliðar b-liðar 2. mgr. 87. gr. oml. Á hinn bóginn er ekki unnt að fá heimild til aðgerða samkvæmt 86. gr. laganna ef rannsókn beinist einvörðungu að broti á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 þar sem hámark refsingar er sex ára fangelsi. Þó ber að hafa í huga að sé skilyrðinu um átta ára refsiramma ekki fullnægt er engu að síður unnt að beita heimildinni ef ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjast þess.
Hér má sjá á hvaða grundvelli úrskurðir hafa verið kveðnir upp á árunum 1995-1998.

3. tafla.
Á hvaða grundvelli er heimildin veitt?

  1995 1996 1997 1998 ALLS
173. gr. a alm. hgl.
sbr. fyrri málslið
b-lið 87. gr.
6 8 40 34 88
Ríkir almanna- eða einkahagsmunir, sbr. seinni málsl. b-lið 2. mgr. 87. gr.   1 1 7 9
Almenn tilvísun; ótilgreint í 86. og/eða 87. gr. 6 8 5 12 31
Annað     1 1 2
Alls 12 17 47 54 130

Í ofangreindum tölum vekur athygli almenn tilvísun í úrskurðum til 86. og 87. gr. laganna, þar sem ekki er sérgreint nákvæmlega í rökstuðningi fyrir niðurstöðu á hvaða grundvelli úrskurðurinn hvílir. Í langflestum þessara tilvika er þó eins og endranær um að ræða rannsókn fíkniefnabrota og í kröfu um úrskurð hefur þá verið lagt til grundvallar að grunur leiki á stórfelldu fíkniefnabroti, sbr. 173. gr. a alm. hgl.
Þótt útlit sé fyrir á rannsóknarstigi máls að um stórfellt fíkniefnabrot sé að ræða er í reynd mun fátíðara að ákæra sé gefin út vegna brota á þessu ákvæði. Í meginþorra refsimála vegna fíkniefnabrota er ákært vegna brota á ávana- og fíkniefnalögum. Á undanförnum árum hefur fjöldi útgefinna ákæra og fjöldi ákærðra manna vegna brota á 173. gr. a alm. hgl. verið eftirfarandi:

4. tafla.
Fjöldi útgefinna ákæra og ákærðra.

  Ákærur Fjöldi ákærðra
1995 1 1
1996 6 10
1997 2 5
1998 3 7
Alls 12 23


5.2.2.4. Tímabil heimildar.

Í 1. mgr. 87. gr. segir að í úrskurði um aðgerðir sem taldar eru í 86. gr. skuli setja aðgerð ákveðin tímamörk. Þegar kannað er hvaða tímamörk voru sett í úrskurðum á umræddu fjögurra ára tímabili, kemur eftirfarandi í ljós:

5. tafla.
Tímabil heimildar

  0-30 d. 1-2 mán 2-3 mán 3-4 mán 4-5 mán 5-6 mán 6-7 mán ótímabundið
a-liður 7 15 2   1      
b-liður 23 28 13 10 17 8 14 1
c-liður 4   1   1 1   8
d-liður 1              

Hafa ber í huga að hver stafliður 86. gr. í töflunni er talinn sérgreint, en í mörgum úrskurðum veitir dómsúrskurður heimild til aðgerða á grundvelli fleiri en eins stafliðs eins og sjá má í 2. töflu að framan. Einnig ber að hafa í huga að í nokkrum tilvikum er um framlengingu aðgerðar að ræða gagnvart sama/sömu mönnum. Hér vekur athygli að þrátt fyrir fortakslaus fyrirmæli um að aðgerð skuli setja ákveðin tímamörk eru engin tímamörk sett í níu dómsúrskurðum, þar af átta sem lúta að heimildum til annarra hlerana en símhlerana, sbr. c-lið 86. gr. Að öðru leyti eru algengustu tímamörk sem ákveðin eru á bilinu 1-2 mánuðir.

5.2.2.5. Skylda til að tilkynna um aðgerð þegar henni er lokið sbr. 2. mgr. 88. gr.
Samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála er skylt að aflétta þeirri leynd sem hvílir yfir aðgerðum skv. 86. gr. laganna þegar þeim er lokið. Þannig mælir 2. mgr. 88. gr. fyrir um að þegar aðgerð er lokið skuli þeim sem hún beindist að, þ. á m. sakborningi og eiganda eða umráðamanni síma eða fjarskiptatækis, birtur úrskurður um hana. Ákvæðið tiltekur ekki afdráttarlaus tímamörk en úrskurð skal birta svo fljótt sem verða má eftir lok aðgerðar, en þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins.
Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað hafa engar venjur skapast um það hvernig er sinnt þeirri skyldu að birta úrskurði eftir á, sbr. 2. mgr. 88. gr., og lögreglu hafa ekki verið settar verklagsreglur um hvernig beri að uppfylla þá skyldu. Í reynd virðist sem skyldu þessari sé lítið eða ekki sinnt af hálfu þeirra sem fara með rannsókn opinbers máls. Ein ástæða þess að sérstaklega vandmeðfarið er að sinna skyldunni er að þeir sem slíkar aðgerðir beinast að eru gjarnan áfram undir grun eftir að þeim lýkur og aðgerðirnar í mörgum tilvikum framlengdar með nýjum úrskurði. Yrði sakborningi í slíkum tilvikum ávallt tilkynnt um aðgerð er henni lýkur er augljóst að það myndi skaða frekari rannsókn málsins. Ljóst er að hér á landi er fíkniefnaheimurinn enn tiltölulega lítill og ákveðinn hópur manna er til staðar í fíkniefnaumhverfi sem segja má að nánast stöðugt leiki grunsemdir um að taki þátt fíkniefnabrotum. Með því að tilkynna um símhlerun lögreglu eftir að henni lýkur gæti það dregið verulega úr árangri slíks rannsóknarúrræðis síðar gagnvart sama einstaklingi.
Á hinn bóginn má halda því fram að réttaröryggi sé stefnt í hættu með því að fylgja ekki eftir fyrirmælum 2. mgr. 88. gr. Vafasamt er að merkja einstakling með þeim hætti að vegna fyrri brotamála og tengsla í fíkniefnaheiminum liggi hann stöðugt undir grun um að fremja fíkniefnabrot og að rannsókn opinbers máls standi því óslitið yfir. Leyndinni sem hvílir yfir þessum aðgerðum verður þar með aldrei aflétt og viðkomandi sakborningum gefst ekki færi á að koma að vörnum.
Í 3. mgr. 87. gr. oml. eru veittar heimildir til þess að taka upp hljóð og myndir á almannafæri eða stöðum sem almenningur á aðgang sem eru undanþegnar skilyrði 1. mgr. um dómsúrskurð og 2. mgr. um lágmarks alvarleika brots. Ekki er nánar skýrt í ákvæðinu hvað er átt við með orðinu almannafæri eða staði sem almenningur á aðgang að en ljóst er að erfitt getur verið að afmarka hvað getur fallið undir þetta.
Myndatökur og hljóðupptökur með þeim hætti sem lýst er í 3. mgr. 87. hafa verið nauðsynlegt tæki fyrir lögreglu í þágu rannsókna opinberra mála og þá sérstaklega vegna rannsóknar alvarlegri fíkniefnamála. Nefna má sem dæmi að ferðir fólks og viðkoma þess á heimili grunaðs manns geta veitt upplýsingar sem skipta miklu fyrir rannsókn máls. Myndbandsupptökur af því hverjir fara um ákveðið svæði eða koma á ákveðna staði hafa verið taldar rúmast innan heimildar 3. mgr. 87. gr. enda séu lögreglumenn með myndatökubúnað staðsettir þar sem almenningur hefur einnig aðgang. Öðruvísi horfir við ef beitt er tækjabúnaði sem gerir lögreglu kleift, t.d. með aðdráttarlinsu eða hljóðmögnunartækjum, að nema mynd eða hljóð á almannafæri sem án slíks búnaðar væri ómögulegt að nema. Þannig fellur t.d. utan heimildar 3. mgr. 87. gr. að beita aðdráttarlinsu myndavélar með þeim hætti frá götu eða öðru almannafæri, að teknar séu nærmyndir í gegnum glugga á íbúðarhúsi t.d. af íbúum eða munum. Er þá tvímælalaust komið undir svið d-liðar 86. gr. um myndatökur sem dómsúrskurð þarf til. Af þessu er ljóst að ýmis álitaefni geta skapast um mörk þess hvort mynda- eða hljóðupptaka fellur undir d-lið 86. gr. eða 3. mgr. 87. gr. Ekki hafa verið settar sérstakar reglur um notkun myndatöku- eða hljóðupptökubúnaðar hjá lögreglunni eða fyrirmæli um að hver ákveði slíka rannsóknaraðferð. Sú venja hefur þó skapast, eins og áður segir, að beita slíkum tæknibúnaði aðeins við rannsókn alvarlegri brota. Í ljósi þess að aðeins einu sinni hefur verið óskað eftir dómsúrskurði vegna myndatöku, sbr. d-lið 86 gr., á undanförnum fjórum árum má ætla að heimild til að taka myndir á almannafæri sé túlkuð rúmt.

5.2.3. Dómsúrskurðir á grundvelli 80. gr. oml. um opnun póstsendinga á árunum 1995-1998.
Eins og áður var rakið er það skilyrði sett í 80. gr. oml. að rannsókn á efni og innihaldi bréfa, símskeyta og annara sendinga í vörslum Pósts og síma megi einungis fara fram samkvæmt úrskurði dómara.
Á árabilinu 1995-1998 hefur aðeins einu sinni verið verið lögð krafa fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um dómsúrskurð fyrir þessari heimild, en það var á árinu 1998 vegna rannsóknar á stórfelldu fíkniefnabroti.

5.3. Upplýsingagjafar.

5.3.1. Hugtakið upplýsingagjafi.
Með hugtakinu uppljóstrari eða upplýsingagjafi er venjulega átt við mann sem gefur lögreglu eða ákæruvaldi upplýsingar um fyrirhuguð eða þegar framin brot sem hann hefur ekki átt hlut að sjálfur. Er þar einkum átt við menn sem gefa upplýsingar eftir fyrirfram gerðu samkomulagi við lögregluna. Í öllum vestrænum ríkjum þar sem lögregluyfirvöld kljást við rannsókn fíkniefnabrota hefur verið viðurkennt það úrræði lögreglunnar að greiða upplýsingagjöfum fyrir upplýsingar. Eru slíkar heimildir venjulega ekki bundnar í lög. Notkun upplýsingagjafa fylgja yfirleitt ekki lagaleg vandamál og ekkert ákvæði laga um meðferð opinberra mála er því til fyrirstöðu að lögreglan notfæri sér upplýsingar fengnar á þennan hátt. Víðast hvar hafa lögreglu verið settar ákveðnar verklagsreglur á þessu sviði. Er þar venjulega rík áhersla lögð á að gengið sé úr skugga um áreiðanleika upplýsingagjafa og að samskipti hans við lögregluna séu skráð skilmerkilega. Almennt er gert að skilyrði að greiðsla til upplýsingagjafa sé ekki innt af hendi fyrr en árangur af upplýsingagjöfinni hefur komið í ljós. Einnig er í slíkum reglum tekið af skarið um hvaða yfirmanni er heimilt að ákveða í hverju tilviki hvort greiða skuli fyrir upplýsingar. Loks er lögð áhersla á að lögregla gæti mikillar varfærni í samskiptum við upplýsingagjafa.

5.3.2. Þörfin fyrir samskipti lögreglu við upplýsingagjafa.
Við rannsókn alvarlegra afbrota, einkum fíkniefnabrota, er virk upplýsingaöflun afar þýðingarmikil. Brýnt er að lögregla afli vitneskju um skipulag og eðli fíkniefnabrota, þekki umhverfi innflytjenda fíkniefna, sölumanna og neytenda og geti þannig bæði komið í veg fyrir afbrot og upplýst um afbrot. Í þessu skyni er ljóst að lögreglumenn þurfa að ná tengslum við og umgangast menn sem þekkja til í fíkniefnaheiminum. Í dag er lögð rík áhersla á að almenningur veiti lögreglu upplýsingar um meint fíkniefnabrot og getur almenningur hringt inn upplýsingar nafnlaust. Þessi upplýsingaleið hrekkur ekki til ein sér og fyrir liggur að lögreglumenn eiga bæði í atviksbundnu og föstu upplýsingasambandi við menn í fíkniefnaheiminum sem eru tilbúnir að veita upplýsingar en vilja margir hverjir endurgjald í einhverju formi. Hér koma bæði til menn sem hafa orðið uppvísir að fíkniefnabrotum og aðrir. Ganga má út frá því að samskipti við áreiðanlega upplýsingagjafa séu einkar mikilvægt rannsóknarúrræði sem lögregla verður í æ ríkara mæli að reiða sig á til að upplýsa stöðugt vaxandi og alvarlegri fíkniefnabrot og önnur alvarleg afbrot. Samband við upplýsingagjafa er jafnframt veigamikill þáttur til að virkja almenning til varnar gegn fíkniefnabölinu.

5.3.3. Gildandi reglur um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa.

5.3.3.1. Greiðslur til upplýsingagjafa.
Eins og áður er lýst koma greiðslur til upplýsingagjafa helst til álita í rannsókn fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi sem tengist þeim. Reynir því eðli málsins samkvæmt helst á þetta úrræði í starfsemi ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Framan af giltu engar skráðar reglur eða venjur hjá lögreglunni í Reykjavík á þessu sviði, en nokkur dæmi voru um að greiddar hefður verið lágar fjárhæðir fyrir upplýsingar. Á árinu 1997 varð mikil opinber umræða um starfshætti fíkniefnadeildarinnar, m.a. um samskipti hennar við upplýsingagjafa, þar sem gagnrýnt var að engar reglur væru til um hvernig slíkum samskiptum ætti að vera háttað og hvar mörkin lægju í heimildum lögreglunnar til þess að beita þessu úrræði. Þann 18. ágúst 1997 voru gefnar út hjá lögreglunni í Reykjavík reglur um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa. Voru þar m.a. hafðar til hliðsjónar reglur lögreglunnar í Kent á Englandi um sama efni. Þar koma fram nokkrar grundvallarreglur um upplýsingagjafa. Áhersla er lögð á að samskiptum við upplýsingagjafa verði stjórnað af lögreglunni. Hafa verði í huga að upplýsingagjafar hafi oft sjálfir verið í brotastarfsemi eða tengist aðilum með slíkan bakgrunn og því beri að sýna mikla varkárni í öllum samskiptum við þá. Sérstaklega er varað við hættulegum upplýsingagjöfum. Öll samskipti við upplýsingagjafa skulu vera skráð en þó skal tryggja nafnleynd þeirra. Nokkur sjónarmið eru sett um mat á gildi upplýsinga og af hvaða hvötum upplýsingar eru gefnar. Í reglunum er ekki tiltekið sérstaklega hvaða fjárhæðir er heimilt að greiða upplýsingagjafa og hvenær greiðsla á að fara fram. Ekki kemur það heldur fram hver er bær til þess að taka ákvarðanir um greiðslu.
Nánari reglur um peningagreiðslur fyrir upplýsingar voru settar hjá lögreglunni í Reykjavík á miðju ári 1998. Þar kemur fram það skilyrði að upplýsingar þurfi að vera til uppljóstrunar á mjög alvarlegu sakarefni. Hámarksgreiðsla er kr. 150.000, en almennt fari greiðslur þó ekki fram úr kr. 50.000. Er greiðsla ekki látin af hendi fyrr en árangur er kominn í ljós. Einnig eru þar fyrirmæli um feril og ákvarðanatöku og ber lögreglufulltrúa ávana- og fíkniefnadeildar að skila yfirlögregluþjóni rökstuddri beiðni um greiðslu. Endanlega ákvörðun um greiðslu tekur lögreglustjóri. Loks eru nokkuð ítarlegar reglur um það hvenær og hvernig afhending peninga fer fram, hvernig greiðsla er færð í bókhald og að sérstök leynd hvíli yfir þeim gögnum sem varða skráningu og greiðslur til upplýsingagjafa.
Frá því að reglur voru settar um greiðslur til upplýsingagjafa hefur ekki reynt mikið á þær, en þó er ávallt byggt á þeim í samskiptum við upplýsingagjafa. Hafa upplýsingagjafar ekki enn sem komið er verið markvisst skráðir. Á þessum tíma hefur lögreglan þrívegis ákveðið að ganga til samstarfs við upplýsingagjafa gegn greiðslu. Tvívegis varð árangur af slíku samstarfi og var greiðsla innta af hendi en í þriðja tilvikinu reyndust upplýsingar rangar þannig að ekki kom til greiðslu.


5.3.3.2. Lækkun refsingar.
Það er stefna lögreglunnar í Reykjavík að semja ekki um aðra umbun til upplýsingagjafa en greiðslu fyrir upplýsingar. Mörg álitaefni geta komið upp þegar kannað er hvort unnt er að umbuna upplýsingagjafa með öðrum hætti en greiðslu peninga. Sérstaklega er varasamt ef sá sem veitir lögreglu upplýsingar er sjálfur flæktur í brotastarfsemi og óskar sérstakrar umbunar fyrir að veita upplýsingar til að upplýsa þátt annarra í máli sem hann er sjálfur grunaður um aðild að eða þátt annarra í óskyldum málum. Kemur þar helst til skoðunar hvort ívilna megi sakborningi við rannsókn opinbers máls með einhverjum hætti ef hann upplýsir um þátt annarra í málinu. Í 2. mgr. 33. gr. oml. er lagt bann við því að gefa sakborningi fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi ef hann meðgangi, enda séu slík fyrirheit ólögleg eða ekki á valdi yfirheyranda að veita þau. Í 5. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu er þetta áréttað enn frekar. Þar segir að lögreglumaður megi ekki veita sakborningi rangar upplýsingar eða beita loforðum, hótunum eða nauðung. Ekki megi gefa sakborningi í skyn að draga megi úr sakarefni ef hann játi eða gefi aðrar mikilvægar upplýsingar.
Það er aðeins á valdi dómstóla að ákveða hvort samstarf sakbornings við lögreglu um að upplýsa mál leiði til þess að hann fái vægari refsingu. Samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. skal við ákvörðun refsingar taka tillit til hegðunar sakbornings að undanförnu. Samkvæmt 8. tölulið sama ákvæðis skal taka tillit til þess hvernig framferði hans hefur verið, eftir að hann hafði unnið verkið. Loks er unnt samkvæmt 9. tölulið 74. gr. alm. hgl. að færa refsingu niður úr lágmarki, sem kveðið er á um í lögum, ef maður segir af sjálfsdáðum til brots síns og skýrir hreinskilnislega frá öllum atvikum að því. Í framkvæmd dómstóla eru mörg dæmi um það að refsing hafi verið færð niður á þessum grundvelli og hvað fíkniefnabrot varðar má sérstaklega nefna dóm Hæstaréttar frá 26. mars 1998 í máli nr. 505/1997. Þar leiddi hreinskilnisleg játning annars vegar og afdráttarlaus neitun hins vegar til mjög mismunandi refsinga.

5.3.3.3. Afplánun refsingar.
Aðrar dæmigerðar beiðnir frá sakborningi sem óskar sérstakrar umbunar fyrir að veita upplýsingar um þátt annarra í máli, eða jafnvel um þátt annarra í öðrum og óskyldum brotum, er að hann fái í staðinn sérstök vilyrði um afplánunarstað eða sérstök forréttindi í fangelsinu meðan á afplánun stendur, að honum verði veitt reynslulausn úr fangelsi fyrr en ætla mætti eftir reglum um veitingu reynslulausnar, að hann fái að afplána refsidóm í heimalandi sínu ef hann er útlendingur eða jafnvel að látið sé liggja milli hluta að rannsaka önnur brot sem hann er grunaður um þátttöku í. Ljóst er að síðastnefnda atriðið er með öllu andstætt lögum og í reynd myndi slíkt samkomulag við sakborning baka þeim lögreglumanni sem í hlut ætti refsiábyrgð.
Stór þáttur þeirrar umræðu sem varð um starfshætti fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík á fyrri hluta ársins 1997 laut að því hvort lögregla hefði samið við sakborning um að fella niður rannsókn mála á hendur honum gegn upplýsingum. Það leiddi til þess að dómsmálaráðherra setti sérstakan rannsóknarlögreglustjóra til þess að staðreyna hvort viðkomandi brotamaður stundaði umfangsmikil fíkniefnaviðskipti með vitund og samþykki lögreglunnar og sannreyna hvort lögreglumenn hefðu, einn eða fleiri, gerst sekir um brot í opinberu starfi eða eftir atvikum gerst brotlegir við refsilög. Skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra var send ríkissaksóknara haustið 1997 en það varð niðurstaða ríkissaksóknara að ekki væri tilefni til aðgerða af hálfu ákæruvalds gagnvart einstaka lögreglumönnum.
Ekki er óeðlilegt að sá sem upplýsir um þátt annarra í afbrotum telji sig í hættu ef hann afplánar refsingu á sama stað og þeir. Fangelsismálastofnun tekur ákvörðun um afplánunartíma og afplánunarstað samkvæmt ákveðnum reglum. Sú meginregla gildir hjá Fangelsismálastofnun að taka ekki þátt í fyrir fram gerðu samkomulagi við lögreglu á rannsóknarstigi máls um það hvenær afplánun viðkomandi sakbornings hefst eftir uppkvaðningu refsidóms eða hvar refsidómur verði afplánaður. Svigrúm stofnunarinnar til þess að skipta mönnun niður á þau tvö fangelsi sem eru til staðar, Litla Hraun og Kvíabryggju, er mjög takmarkað. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu í reynd að koma til móts við óskir frá lögreglu ef unnt er þegar afplánun hefst og finnast reyndar dæmi um slíkt. Hvað varðar heimildir stofnunarinnar til þess að hliðra til með afplánunartíma, þ.e. að hann hefjist síðar en venjulegar reglur segja til um, þá er svigrúmið minna. Vilyrði um upphaf afplánunartíma gefur stofnunin hvorki fyrirfram né heldur eftir að dómur fellur. Með því væri farið á svig við jafnræði sem mikilvægt er að gildi á þessu sviði, auk þess sem öll frávik frá reglum um afplánunartíma vekja athygli hjá öðrum sem afplána dóma eða dæmdir eru til refsingar í sama máli og upplýsingagjafi. Það sama gildir um reynslulausn. Í 40. gr. alm. hgl. eru reglur um reynslulausn, þar sem svigrúm er veitt til þess í 2. mgr. að veita reynslulausn ef sérstaklega stendur á þegar liðinn er helmingur refsitímans, en meginreglan er skv. 1. mgr. að reynslulausn skuli veita þegar fangi hefur tekið út 2/3 hluta refsitímans. Fangelsismálastofnun tekur ákvörðun um reynslulausn. Engin fyrirheit verða veitt á rannsóknarstigi máls eða síðar um frávik frá almennum reglum um reynslulausn.
Þess má loks geta að dæmi eru um að fyrirheit hafi verið veitt á rannsóknarstigi máls um að kannað yrði hvort viðkomandi sakborningur fengi að afplána refsidóm í heimalandi sínu gegn því að hann veitti upplýsingar. Samkvæmt lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma nr. 56/1993 geta íslensk stjórnvöld farið þess á leit við annað samningsríki að þegn þess sem dæmdur hefur verið til fangelsisrefsingar hér á landi afpláni dómi í heimalandi sínu. Samkvæmt lögunum er það dómsmálaráðuneytið sem setur fram slíka beiðni. Í tilvikum, líkt og eitt sinn hefur reynt á, þar sem ráðuneytið veitir fyrirfram fyrirheit um að senda slíka beiðni til heimaríkis sakbornings er að sjálfsögðu ekki hægt að ábyrgjast hver verða viðbrögð viðkomandi ríkis við beiðninni. Einnig er ljóst að í beiðni íslenskra stjórnvalda til erlends ríkis um afplánun refsidóms er það skilyrði sett að íslenski refsidómurinn verði afplánaður samkvæmt efni sínu, þ.e. sú fangelsisrefsing sem þar er dæmd, en ekki að dómstólum viðkomandi ríkis verði gert að færa brotið til þeirra viðurlaga sem gilda samkvæmt refsilögum þess. Þetta getur skipt máli þar sem viðurlög vegna t.d. fíkniefnainnflutnings geta verið all mismunandi milli landa og leitt til þess að sakborningur sem dæmdur er til þungrar fangelsisvistar hér á landi fengi mun styttri fangelsisvist í heimalandi sínu fyrir sama brot vegna vægari refsiviðurlaga þar í landi.

5.4. Tálbeitur.

5.4.1. Hugtakið tálbeita.
Notkun tálbeitu sem sérstakrar rannsóknaraðferðar lögreglu við að upplýsa fíkniefnabrot hefur færst í vöxt í flestum Evrópuríkjum á undanförnum árum. Í umfjöllun Jónatans Þórmundssonar um tálbeitur í ritinu Opinbert réttarfar er skilgreining á hugtakinu, en í víðustu merkingu (agent provocateur) er þar átt við þann sem kemur manni til að fremja afbrot í því skyni að afhjúpa hann og framselja. Þannig er með hugtakinu átt við þann sem kemur grunuðum manni til að fremja (nýtt)brot í áðurnefndum tilgangi. Tálbeita getur verið jafnt lögreglumaður sem almennur borgari. Maður getur þó vart talist tálbeita ef hann fær hinn grunaða til að fremja brot sem er alls óskylt því broti sem hann er grunaður um.
Gerður hefur verið greinarmunur á virkum og óvirkum tálbeitum. Óvirk tálbeita kemur fram sem eins konar agn eða fórnarlamb í gildru sem sett er á svið, t.d. til að hafa hendur í hári árásarmanns. Er almennt talið heimilt að nota óvirka tálbeitu án þess að tiltekinn maður sé grunaður. Verður óvirkri tálbeitu t.d. beitt þannig að hún gangi um undir eftirliti lögreglunnar á svæði þar sem margar líkamsárásir eða nauðganir hafa verið framdar og ætla má, í ljósi nýliðinna atburða, að brotamaður láti aftur til skarar skríða. Vekur notkun óvirkrar tálbeitu með þessum hætti sjaldnast upp mörg álitaefni líkt og á við um notkun virkrar tálbeitu. Á hinn bóginn reynir mun meira á notkun virkrar tálbeitu, einkum í tengslum við rannsókn fíkniefnabrota. Virk tálbeita kemur ekki fram sem fórnarlamb, heldur sem þátttakandi í broti aðalmanns sem aðgerð beinist gegn. Við rannsókn fíkniefnabrota kemur sérstaklega til álita að nota tálbeitu með þessum hætti, þ.e. að hún kom fram sem viðtakandi fíkniefna. Einnig kemur til álita að maður sem handtekinn er af lögreglu við tilraun til að flytja fíkniefni til landsins taki upp samvinnu við lögreglu um að afhenda fíkniefnin væntanlegum kaupanda undir eftirliti lögreglu til þess að afla megi sönnunar um brot þess síðarnefnda. Er síðarnefnda atriðið samofið þeirri rannsóknaraðferð lögreglu sem kölluð er afhending undir eftirliti og nefndin kannaði einnig sérstaklega. Verður sjónarmiðum um afhendingu undir eftirliti lýst sérstaklega í kafla 5.5. Loks ber að gæta að því að notkun tálbeitu getur skarast við það rannsóknarúrræði sem felst í notkun flugumanna. Eru mörk þessara tveggja rannsóknarúrræða ekki alltaf glögg, eins og nánar verður fjallað um í umfjöllun um flugumenn í kafla 5.7.2.
Notkun tálbeitu við lögreglurannsóknir getur verið varhugaverð og verður að meta í hverju tilviki hvort beiting þessa úrræðis sé lögmæt lögregluaðgerð. Mikilvægasta atriðið sem hefur verið lagt til grundvallar við mat á því hvort tálbeituaðferð er lögmæt er að með henni sé aflað sönnunar um brot sem hefði að öllum líkindum verið framið án tillits til þátttöku tálbeitunnar. Ef tálbeita kallar fram brot sem ætla má að hefði ekki verið framið nema fyrir tilstilli hennar er komið út fyrir mörk lögmætra aðgerða. Af þessum ástæðum verður tálbeita almennt að haga aðgerðum sínum þannig að verulegar líkur séu á því að brot það, sem hún stuðlar að, hefði verið framið hvort sem var, sama brot eða annað hliðstætt. Annað skilyrði, sem í reynd er nátengt hinu fyrra, er að rökstuddur grunur verður að liggja fyrir gagnvart þeim sem tálbeituaðgerðin beinist gegn. Þannig má ætla að lögreglu væri óheimilt að fá virkri tálbeitu það hlutverk að leita uppi fíkniefnasala, án þess að nokkur sérstakur lægi undir grun sem seldi tiltekin fíkniefni eða magn fíkniefna í því skyni að unnt væri að handtaka hann við framningu brots. Þess má geta að álitaefni af þessum toga kom til skoðunar í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 9. júní 1998 í málinu Teixera de Castro gegn Portúgal. Í málinu hafði lögregla útbúið tvo lögreglumenn sem tálbeitur til þess að leita uppi heróínsala án þess að nokkur sérstakur lægi undir grun. Það kom þeim á slóð manns sem hafði aldrei verið grunaður um fíkniefnabrot en hann var handtekinn eftir sölu heróíns til tálbeitanna. Varð það niðurstaða Mannréttindadómstólsins að sú rannsóknaraðferð lögreglunnar að nota tálbeitu með með þessum hætti og afla þannig sönnunargagna í refsimáli bryti í bága við rétt hans til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

5.4.2. Gildandi reglur um heimildir til notkunar á tálbeitum.
Eins og nánar verður lýst í umfjöllun um erlend lög og reglur um rannsóknaraðferðir lögreglunnar eru heimildir til notkunar tálbeitu venjulega viðurkenndar innan ákveðinna marka. Reglur þessar eru almennt ekki bundnar í löggjöf heldur byggir lögreglan á ákveðnum verklagsreglum. Undantekningu er þó að finna í Danmörku, þar sem reglur um tálbeitur (agenter) eru festar í réttarfarslög en það skilyrði sett að einungis lögreglumenn geti gegnt því hlutverki. Nokkrir dómar hafa fallið í Danmörku um beitingu þessara lagaákvæða og um framkvæmd lögreglunnar á þessari rannsóknaraðferð. Hefur þar m.a. hefur verið deilt um það hvort tálbeita hafi kallað fram brot sem ella hefði ekki verið framið og þannig farið út fyrir þær lagaheimildir sem henni eru veittar á þessu sviði.
Hér á landi er ekki getið um tálbeitur sem rannsóknarúrræði í réttarfarslöggjöfinni. Lögreglunni hafa ekki verið sett sérstök fyrirmæli á þessu sviði eða ákveðnar venjur skapast, en dæmi eru um að þessari rannsóknaraðferð hafi verið beitt. Álitaefni um það hvar mörk lögreglunnar liggi við notkun tálbeitu komu sérstaklega til skoðunar í dómi Hæstaréttar í H 1993/1081. Segir þar m.a. um rannsóknaraðferðir lögreglunnar í málinu:

" [B] lögreglufulltrúi annaðist rannsókn á gerðum ákærða, allt frá því að grunur vaknaði um brot í lok júlí 1992 og þar til 27. ágúst, en með bréfi ríkissaksóknara daginn áður var Rannsóknarlögreglu ríkisins falin rannsóknin. [B] hafði samstarf við [J], sem á þessum tíma hafði verið ákærður fyrir fíkniefnabrot, en frá þessum manni bárust [B] fyrst upplýsingar um hugsanlegt brot ákærða, sem ekki hafði verið grunaður um fíkniefnabrot. [B] hafði ekki allt til 18. ágúst, svo að séð verði, samband við yfirmenn lögreglunnar í Reykjavík aðra en [S] aðallögfræðing, sem virðist hafa afhent eða látið afhenda [B] nokkurt fé til að nota í þágu rannsóknarinnar. [S] kom ekki fyrir dóm, og óvíst er, hvort honum var gerð grein fyrir fyrirkomulagi þessarar rannsóknar. [J] gaf fyrst upplýsingar, en kom síðan fram að ósk [B] gagnvart ákærða sem væntanlegur kaupandi kókaínsins. Verður ekki um það efast, að vegna aðgerða hans í samráði við [B] tók ákærði ákvörðun um að selja [J] allt það magn af kókaíni, sem vitað er um, að hann hafi þá haft í vörslum sínum, setti það á einn stað og þá á þann hátt, að það komst í hendur lögreglunnar.
Rannsóknaraðgerðir þær, sem [B] stóð fyrir, voru í því skyni að upplýsa innflutning og dreifingu, sem ráðin var, sem fyrr segir, stuttu eftir 4. febrúar 1992, á miklu magni af kókaíni, sem er mjög hættulegt ávana- og fíkniefni. Tilraunir lögreglunnar til að hefta innflutning og dreifingu slíkra efna eru erfiðleikum háðar, og atvik voru með þeim hætti, að ekki var líklegt, að auðvelt yrði að leggja hald á það efni, sem grunur var á, að ákærði hefði í vörslum sínum. Þegar að því kom, að [J] fékk ákærða til athafna fyrir hvatningu [B], var sterkur grunur kominn upp um, að ákærði hefði framið ávana- og fíkniefnabrot. Ekki verður talið, að [J] hafi lokkað ákærða til brots, sem hann hafði ekki ásetning ella til að fremja, eða breytt eðli þess. [J] hefur gefið bæði lögregluskýrslu og dómskýrslu í málinu, og varð kunnugt um þátt hans í því stuttu eftir atburðina aðfaranótt 18. ágúst. Þau atriði, sem hér hafa verið talin, eru innan þeirra marka, sem rannsóknaraðferðir lögreglu við svo sérstakar aðstæður verða að vera. Um slíkar rannsóknir eru ekki lagareglur á Íslandi og verður því að meta þær eftir almennum réttaröryggisreglum. Þess er aftur á móti að geta, að ekki virðast hafa verið næg samráð milli yfirmanna lögreglunnar í Reykjavík um rannsóknina. Er slíks jafnan þörf, til að öruggt eftirlit sé með þessari rannsóknaraðferð, og þess var sérstök þörf í þessu máli, þar sem [J] hafði verið ákærður, sem fyrr greinir."

Eins og sjá má af þessu eina dæmi þar sem dómstólar hafa tekið á notkun tálbeitu sem rannsóknaraðferð lögreglu, þá var hún innan þeirra marka sem setja verður rannsóknaraðferðum lögreglu við þessar aðstæður. Hins vegar var fundið að því að skort hafi á nægilegt samráð milli yfirmanna lögreglunnar í Reykjavík um rannsóknina.




5.5. Afhending undir eftirliti.

5.5.1. Skilgreining á afhendingu undir eftirliti
Með afhendingu undir eftirliti (controlled delivery) er átt við rannsóknaraðgerð lögreglunnar sem felst í því að fresta að leggja hald á en hafa undir stöðugu eftirliti fíkniefnasendingu eða aðra ólöglega eða grunsamlega vörusendingu á leið til landsins, um landið eða úr landi. Er tilgangur aðgerðarinnar að upplýsa um viðtakanda sendingarinnar, aðferðir við flutning hennar og hugsanlegt dreifikerfi þannig að afla megi sönnunargagna um refsiverða háttsemi. Í íslenskri réttarfarslöggjöf er ekki vikið að þessari rannsóknaraðferð lögreglu, né heldur í fyrirmælum eða verklagsreglum lögreglunnar. Hins vegar er rannsóknaraðferðin viðurkennt úrræði í flestum nágrannaríkjum. Þótt reglur um hana séu almennt ekki festar í lögum hafa lögregluyfirvöld flestra ríkja sett um hana verklagsreglur fyrir lögreglu, einkum í milliríkjasamstarfi lögregluyfirvalda.

5.5.2. Ákvæði alþjóðasamninga um afhendingu undir eftirliti.
Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1988 gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni (hér eftir nefndur fíkniefnasamningur SÞ). Í g.-lið 1. gr. er eftirfarandi skilgreining á þessari lögregluaðgerð:

"Afhending undir eftirliti" merkir þá starfsaðferð að hindra ekki að ólöglegar eða grunsamlegar sendingar fíkniefna, skynvilluefna, efna sem skráð eru í skrá I eða skrá II með samningi þessum, eða efna sem koma í þeirra stað, séu send frá, um eða inn í landsvæði eins eða fleiri ríkja með vitund og undir eftirliti lögbærra yfirvalda þeirra, í því skyni að bera kennsl á fólk sem á hlut að afbrotum þeim sem lýst er í 1. mgr. 3. gr. samningsins."

Í 11. gr. samningsins er síðan sérstaklega hvatt til þess að samningsaðilar beiti afhendingu undir eftirliti við rannsókn fíkniefnabrota en ákvæðið er svohljóðandi:


1. Ef meginreglur hvers um sig leyfa, skulu aðilar eftir því sem þeim er unnt gera nauðsynlegar ráðstafanir til að beita megi með viðeigandi hætti afhendingu undir eftirliti á alþjóðlegum vettvangi á grundvelli samninga eða tilhögunar sem samkomulag þetta hefur náðst um, til þess að þekkja deili á mönnum sem tengjast brotum sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. og til að sækja þá til saka.
2. Ákvarðanir um afhendingu undir eftirliti skulu teknar í hverju tilviki fyrir sig og má þegar þörf krefur taka til athugunar fjárhagslega tilhögun og samkomulag varðandi beitingu lögsögu þeirra aðila sem mál varðar.
3. Ólöglegar sendingar sem samþykkt er að afhenda undir eftirliti má með samþykki þeirra aðila sem mál varðar stöðva í flutningi og senda síðan áfram þannig að fíkniefnin eða skynvilluefnin séu að nokkru leyfi látin óhreyfð eða fjarlægt, eða annað látið í þeirra stað.

Þótt algengast sé að afhendingu undir eftirliti sé beitt við rannsókn fíkniefnabrota og eina alþjóðlega skilgreiningin á úrræðinu sé í fíkniefnasamningi SÞ er rannsóknarúrræðið ekki bundið við þá tegund brota. Er aðferðinni einnig beitt t.d. í málum sem varða ólöglegar vopnasendingar, sprengiefni, þýfi og peninga svo eitthvað sé nefnt.

5.5.3. Nauðsyn úrræðisins í alþjóðlegri lögreglusamvinnu.
Afhending undir undir eftirliti er meðal þeirra rannsóknaraðferða lögreglu sem fjallað hefur verið um í nefnd um fíkniefni á vegum Schengen samstarfsins sem Ísland hefur tekið þátt í. Hefur nefndin unnið handbók um þetta efni með leiðbeiningum um framkvæmd í öllum aðildarríkjum Schengen.
Afhending undir eftirliti er sérstaklega mikilvægt rannsóknarúrræði í samvinnu á milli lögregluyfirvalda í tveimur eða fleiri ríkjum. Hún kemur einkum til álita þegar uppgötvast við landamæri að innihald vörusendingar er ólöglegt, t.d. fíkniefnasending. Verði hald lagt á sendinguna þá þegar dregur það úr líkum á því að náist til þeirra sem standa að henni, enda er nafn móttakanda sendingarinnar venjulega einhvers konar gervinafn eða notað í yfirskini án þess að það gefi vísbendingu um raunverulegan móttakanda hennar, þann sem ætlað er að taka við fíkniefnunum.Verði sendingin hins vegar send áfram, undir órofa eftirliti lögreglunnar allt til viðtakenda fíkniefnanna, eru meiri líkur á að hægt sé að finna þá sem raunverulega standa að baki henni. Verður með þessum hætti aflað sönnunargagna gegn þeim, sem ella gæti reynst illmögulegt þar sem er örðugt er að bendla þá við sendinguna með einhverjum öðrum hætti. Eftirlit lögreglunnar með sendingunni verður að fara fram með ítrustu leynd til þess að aðgerðin nái tilgangi sínu. Ákvörðun um að sending haldi áfram undir eftirliti skapar alltaf einhverju áhættu á því að eftirlit lögreglunnar rofni. Því er mögulegt að sendingin nái áfangastað sínum eða gripið sé inn í hana til að ná í fíkniefnin og að þau komist þannig í dreifingu. Til að takmarka þessa áhættu sem mest setja sum ríki það skilyrði fyrir beitingu úrræðisins að skipt sé um efni í sendingunni þegar uppgötvast um innihald hennar. Með því að taka fíkniefni úr sendingu og láta í þeirra stað gervi-fíkniefni að öllu leyti eða hluta skapast a.m.k ekki hætta á að fíkniefni komist í umferð í viðkomandi ríki.
Ákvörðun um að ólögleg vörusending haldi áfram yfir landamæri undir eftirliti lögreglunnar kallar á náið samstarf á milli lögreglu- og tollyfirvalda þess ríkis sem sendingin fer frá og sömu yfirvalda í því ríki sem sendingin fer til, eða jafnvel í nokkrum ríkjum sem sendingin fer um. Í ljósi þess að þessi aðstaða getur krafist skjótra ákvarðana hefur mikil áhersla verið lögð á það í alþjóðlegu samstarfi lögreglu að fyrir liggi skýrar reglur um það hvort heimilt er að beita rannsóknaraðferðinni í viðkomandi ríki, til hvaða yfirvalds beri að leita um slíkar aðgerðir og hvaða skilyrði eru sett fyrir henni. Hefur einnig verið reynt að samræma reglunar eftir því sem unnt er.

5.5.4. Heimildir íslenskrar lögreglu til þátttöku í afhendingu undir eftirliti.
Fram til þessa hafa íslensk yfirvöld ekki geta getað gefið skýrar línur um það að hvaða marki þau geta tekið þátt í afhendingu undir eftirliti þar sem engar ákveðnar reglur hafa verið settar um efnið hér á landi. Ekki eru dæmi um að íslensk lögregluyfirvöld hafi tekið þátt í skipulagðri alþjóðlegri lögregluaðgerð af þessu tagi. Þó finnast dæmi um tilvik þar sem erlend tollyfirvöld hafa gert viðvart um minniháttar póstsendingar þar sem fíkniefni hafa fundist og íslensk lögregla hefur óskað eftir því að pakki verði sendur áfram til þess að hafa upp á viðtakanda. Þess má líka geta að í nokkrum tilvikum þegar lögreglu hefur fundið fíkniefni á mönnum við komu til landsins, sem gjarnan ganga undir nafninu "burðardýr" að eftir handtöku taki þeir þátt í áframhaldandi lögregluaðgerð þar sem afhending fíkniefnanna fer fram undir eftirliti lögreglu svo afla megi sönnunargagna gegn móttakandanum. Hér er reyndar komið að rannsóknaraðferð sem tengist frekar notkun á tálbeitu og eru mörkin á milli þessara tveggja rannsóknaraðferða ekki alltaf skýr.
Sýnt er að íslensk löggjöf stendur því ekki í vegi að beitt sé afhendingu undir eftirliti, enda er ekki afdráttarlaus skylda í lögum um meðferð opinberra mála til að leggja hald á sendingu á sömu stundu og upp kemst um ólöglegt innihald hennar. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. oml. skal lögregla hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni berst kæra eða ekki. Ekki er litið svo á að með afhendingu undir eftirliti sé slegið á frest upphafi rannsóknar, heldur er hér einmitt um að ræða rannsóknaraðgerð í tengslum við tiltekna rannsókn opinbers máls.

5.6. Alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni.
Með alþjóðlegum sýndarviðskiptum með fíkniefni (transnational bogus drug deals) er átt við viðskipti með fíkniefni sem sett eru á svið fyrir tilstilli lögregluyfirvalda í tveimur eða fleiri ríkjum. Hér er um að ræða rannsóknaraðferð sem er nátengd tálbeituúrræðinu og afhendingu undir eftirliti, þar sem lögregla, eða einhver í samstarfi við lögreglu, sviðsetur fíkniefnaviðskipti, t.d. kemur fram sem kaupandi fíkniefna til þess að afla sönnunargagna í rannsókn á fíkniefnabrotum.
Með alþjóðlegum sýndarviðskiptum er átt við að lögregluyfirvöld tveggja eða fleiri ríkja komi að lögregluaðgerð þar sem slík sýndarviðskipti með fíkniefnum fara fram. Þeir sem stunda fíkniefnaviðskipti milli landa reyna vitanlega að dylja þau fyrir lögreglu og torvelda rannsókn þeirra með öllum ráðum. Meðal leiða sem þekktar eru í fíkniefnaheiminum er að brjóta upp sjálf fíkniefnaviðskiptin, þ.e. að afhending fíkniefna fari fram í öðru ríki en greiðslan fyrir þau, en að hvort tveggja eigi sér þó stað á sama tímapunkti. Þannig má taka sem dæmi að leynilegum rannsóknara lögreglu eða tálbeitu þarf að að vera unnt að sýna peninga tilteknum aðila, þ.e. á vegum fíkniefnasalans í einu ríki á meðan fíkniefni eru afhent í öðru ríki.
Eins og áður hefur við lýst hefur Ísland tekið þátt í starfi nefndar um fíkniefni á vegum Schengen samstarfsins. Eru alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni meðal þeirra viðfangsefna sem nefndin hefur tekist á við. Hér á landi hafa engar reglur verið settar eða venjur skapast um samvinnu við erlend lögregluyfirvöld vegna alþjóðlegra sýndarviðskipti með fíkniefni af því tagi sem lýst hér að ofan. Aldrei hefur reynt á beiðni frá erlendum yfirvöldum um slíka samvinnu. Ljóst er að íslensk löggjöf hindrar ekki samstarf um alþjóðleg sýndarviðskipti, ekki frekar en þegar tálbeitur eru notaðar við rannsókn máls. Hins vegar skortir á það í alþjóðlegu samstarfi að skýrt liggi fyrir hvort og að hvaða marki íslenskri lögreglu er heimilt að taka þátt í slíkri aðgerð.

5.7. Skygging og flugumenn.

5.7.1. Skygging.
Með skyggingu er átt við rannsóknaðferð sem felst í því að hafa leynilegt, og stöðugt eftirlit með einstaklingi, farartæki, stað eða hlut. Markmið skyggingar er að afla upplýsinga um athafnir grunaðra manna. Skygging er nátengd og er beitt samhliða afhendingu undir eftirliti, enda er þá fíkniefnasending höfð undir stöðugu leynilegu eftirliti til að finna flutningsaðila eða flutningsleiðir, geymslustað fíkniefna, móttakanda eða vitorðsmenn í fíkniefnamisferli. Skyggingum hefur gjarnan verið skipt niður í þrjá megin flokka. Í fyrsta lagi hreyfanlega skyggingu, þegar rannsóknaðili fylgir grunuðum á fæti eða í farartæki. Í öðru lagi staðbundna skyggingu, þegar rannsóknaraðili fylgist með grunuðum manni, húsnæði eða hlut frá ákveðnum stað og loks í þriðja lagi tæknilega skyggingu, en þá er tæknibúnaður notaður til að fylgjast með grunaða, vistarverum hans eða vinnustað. Um eina aðferð til tæknilegrar skyggingar, notkun eftirfararbúnaðar, verður fjallað nánar kafla 5.8.
Heimildir lögreglu til skyggingar eru ekki orðaðar sérstaklega í lögum um meðferð opinberra mála og á það sama við um flest Evrópulönd. Hefur almennt verið litið svo á að skygging rúmist innan þeirra heimilda sem lögregla hefur lögum samkvæmt, án þess að sérstakra lagaheimilda sé þörf. Hér er í reynd ekki um beina þvingunaraðgerð að ræða og ljóst er að skygging nær ekki markmiði sínu nema leynd hvíli yfir henni. Þó ber að hafa í huga að aðferðir við skyggingu geta vegið nærri friðhelgi einkalífs þess sem í hlut á. Þær sérstöku aðferðir sem notaðar eru samhliða skyggingu, s.s. myndataka eða hleranir eru einnig ávallt háðar skilyrðum 86. og 87.gr. oml. um dómsúrskurð.
Skyggingu hefur verið beitt sem rannsóknaraðferð lögreglu hér á landi í nokkrum mæli. Engar ákveðnar reglur hafa þó verið settar um hvenær heimilt er að beita skyggingu og með hvaða hætti. Ljóst er þó að skyggingu er ekki beitt nema við rannsóknir alvarlegra brotamála, einkum fíkniefnamála.

5.7.2. Flugumenn.
Með flugumönnum (infiltration) er átt við að leynilegur rannsóknari (under cover agent) villir á sér deili og kemur sér inn í raðir þeirra manna sem liggja undir grun til þess að afla sönnunargagna um refsiverða háttsemi. Þessi rannsóknaraðferð er viðurkennd í flestum Evrópulöndum og þarf ekki sérstaka lagaheimild til hennar. Ýmis álitaefni geta þó vaknað við notkun flugumanna. Til að rannsóknaraðferðin nái árangri sínum getur flugumaður þurft að koma fram undir röngu nafni og getur verið nauðsynlegt að hann beri skilríki sem bera með sér rangt nafn og persónuuplýsingar, ef hann þarf að sanna á sér deili gagnvart grunaðum mönnum sem hann kemst í kynni við. Þess ber einnig að gæta að mjótt getur verið á munum hvort maður kemur fram sem flugumaður eða tálbeita, t.d. ef hann tekur þátt í lögregluaðgerð þar sem fíkniefnakaup fara fram og brot er þannig framið með beinni þátttöku flugumannsins/tálbeitunnar.
Hér á landi er notkun flugumanna í þeim tilgangi að komast inn í raðir grunaðra manna tiltölulega fátíð rannsóknaraðferð hjá lögreglu enda er hún háð ýmsum annmörkum. Kemur þar helst til að í litlu samfélagi eins og hér á landi er örðugt að villa á sér deili og vinna sem leynilegur rannsóknari um lengri tíma í umhverfi brotamanna. Brotaumhverfið er tiltölulega smátt í sniðum miðað við það sem gerist annars staðar og rannsóknarar lögreglu eru lítill hópur sem brotamenn læra fljótlega að þekkja.
Flugumenn er einnig hægt að nota með einfaldari hætti án nokkura aðgerða sem miða að því að breyta nafni og auðkennum manns. Þannig getur borgaralega klæddur lögreglumaður komið sér inn í eða fylgst náið með hópi manna á stað þar sem aðgangur er opinber, t.d. á skemmtistað eða knattspyrnuleikvangi, án þess að nærstaddir viti um hlutverk hans. Við þessar aðstæður er í reynd um að ræða samspil skyggingar og notkun flugumanns.
Í löndum þar sem meiri hefð er fyrir notkun flugumanna, sem rannsóknaraðferð lögreglu, er almennt ekki sett að skilyrði að flugumaður sé lögreglumaður. Þegar flugumaður er ekki lögreglumaður skarast þessi rannsóknaraðferð óneitanlega við notkun lögreglu á upplýsingagjöfum, enda veitir flugumaðurinn lögreglu upplýsingar um það sem hann verður áskynja í hlutverki sínu, í sumum tilvikum væntanlega gegn greiðslu. Eru mörkin á milli þessara tveggja rannsóknaraðferða við þessar aðstæður þannig ekki alltaf glögg.

5.8. Notkun eftirfararbúnaðar.
Með notkun eftirfararbúnaðar er átt við að tæki/sendir sem sendir frá sér merki er fest við hlut sem stefnt er að því að fylgjast með. Með sérstökum tækjabúnaði er unnt að taka við sendingu frá sendinum og sjá staðsetningu hlutarins sem hann er festur á. Umræddir sendar eru smáir í sniðum og er tiltölulega auðvelt að koma þeim fyrir á eða í farartækjum eða öðrum hlutum, jafnvel í handtösku, án þess að sá sem fylgst er með verði þess var.
Notkun eftirfararbúnaðar er nauðsynlegt rannsóknarúrræði sem auðveldar lögreglunni að fylgjast með ferðum farartækis eða vörusendingar úr fjarlægð og styður hana við uppljóstran alvarlegra afbrota. Aðferðin, sem er liður í skyggingu, eykur jafnframt öryggi lögreglumanna enda þurfa lögreglumenn ekki að vera eins nálægt hinum grunuðu við eftirför og ella. Þá sparar aðferðin vinnukraft en víst er að skygging án hjálpartækja kallar oftast á talsverðan mannafla og farartæki.
Þess má geta að á undanförnum árum hefur þessari tækni verið beitt í æ ríkara mæli til þess að hafa upp á stolnum bifreiðum og færist í vöxt að bílaframleiðendur komi fyrir slíkum tækjabúnaði í bifreiðum á framleiðslustigi.
Notkun eftirfararbúnaðar er viðurkennt rannsóknarúrræði í flestum Evrópuríkjum. Virðist allur gangur vera á því hvort aðferðin er fest í lög, en þó er algengara að aðferðin sé ólögfest. Rannsóknaraðferðinni hefur verið beitt á öllum Norðurlöndum. Um hana er aðeins fjallað í lögum í Finnlandi.
Hér á landi hefur þessi rannsóknaraðferð verið notuð í nokkrum mæli. Tækjabúnaðar af þessum toga er hvergi getið í lögum um meðferð opinberra mála. Í c-lið 86. gr. oml. er fjallað um heimildir til þess að taka upp samtöl eða nema annars konar hljóð eða merki með því að nota til þess sérstaka hljóðupptökutækni eða sambærilega tækni án þess þeir sem í hlut eiga viti af því. Er þó varla hægt að túlka þetta ákvæði sem svo að það nái til eftirfararbúnaðar enda er hér fyrst og fremst um að ræða heimildir sem lúta að skerðingu eða eftirliti með tjáskiptafrelsi manna. Raunhæft er að ætla að þeir tæknilegu möguleikar sem eftirfararbúnaður býður upp á hafi verið lítt þekktir hér á landi og lítil reynsla á hann kominn þegar lögin voru samin. Á síðasta áratug hefur tækninni hins vegar fleygt fram í þessum efnum. Engar sérstakar verklagsreglur gilda hjá lögreglu um það hvenær og hvernig er heimilt að nota eftirfararbúnað.
Notkun eftirfararbúnaðar hefur gjarnan verið skipt upp í þrjá flokka eftir því hversu langt aðgerðin gengur, en þeir eru eftirfarandi.
1. Búnaður er festur á farartæki eða vörur til þess að mögulegt sé að fylgjast með hreyfingum hlutarins úr fjarlægð.
2. Farið er inn í farartæki, til þess að unnt sé að koma búnaði fyrir, hann t.d. tengdur við rafkerfi bifreiðar eða farið inn í læsta bílageymslu til að koma búnaði fyrir í eða á bíl.
3. Búnaði er komi fyrir í veski eða handtösku grunaðs manns eða á grunuðum, fatnaði hans eða honum sjálfum.

Nokkur dæmi finnast hér á landi um að dómstólar hafa heimilað lögreglu að koma eftirfararbúnaði fyrir inni í bíl. Hefur þá verið vísað til c-liðar 86. gr. oml. en meginefni úrskurðanna hefur þá samhliða varðað heimild til að koma hlerunartækjum fyrir í bifreiðinni.
Í Noregi hefur að undanförnu verið unnið að endurskoðun á reglum um notkun eftirfararbúnaðar. Samkvæmt tillögum sem þar hafa komið fram er talið nauðsynlegt að þær aðgerðir sem lýst er í 2. og 3. lið hér að ofan þarfnist lagaheimildar og dómsúrskurðar. Hér er um að ræða mikla skerðingu á friðhelgi einkalífs þess sem aðgerðin beinist gegn, ekkert síður en þegar beitt er símhlerunum og öðrum hlerunum.




5.9. Vitnavernd

5.9.1. Þörf fyrir vitnavernd.
Meðal grundvallarréttinda sakbornings við meðferð refsimáls fyrir dómstólum er að hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Birtist regla þessi í d.-lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og er meðal mikilvægustu þátta í rétti manns til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólunum, sem tryggð er í 1. mgr. 6. gr. sáttmálans og 70. gr. stjskr. Í framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur þessi regla þó ekki verið afdráttarlaust túlkuð svo að ávallt beri að leiða vitni í refsimáli fram í réttarsal að viðstöddum sakborningi, þótt gera beri það undir öllum venjulegum kringumstæðum. Þau réttindi eru einnig tryggð sakborningi sem liði í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 6. gr. að hann eða verjandi hans fái fullan aðgang að öllum gögnum sem lögð eru fram í málinu og rétt til að kynna sér það sem þar stendur.
Á undanförnum árum hefur skipulögð glæpastarfsemi, einkum í tengslum við fíkniefnabrot, náð að skjóta rótum í Evrópuríkjum í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Á sama tíma hafa lögregla og aðrir sem vinna að uppljóstran brota þurft að reiða sig á að menn sem þekkja til og koma frá brotaumhverfinu sjálfu séu viljugir að til þess að veita upplýsingar. Vitni í refsimálum sem veitir nauðsynlegar upplýsingar til að upplýsa mál er á hinn bóginn líklegt til þess að verða fyrir þrýstingi frá sakborningi í málinu eða öðrum sem honum tengjast. Er þá reynt að fá vitnið til þess að falla frá því að gefa vitnisburð með því að heita því umbun fyrir að þegja eða hóta því hefndaraðgerðum.
Ógnanir eða hótanir gagnvart vitnum í brotamálum hafa í sumum Evrópuríkjum orðið vandamál sem steðjar að réttarvörslukerfinu og hindrar að upplýsa megi um brot. Það hefur kallað á aðgerðir til þess að veita megi vitnum sérstaka vernd sem er nauðsynleg til að tryggja öryggi þeirra, einkum þegar líf þeirra er í húfi. Þær aðgerðir sem lengst ganga í þeim efnum er að veita vitnum algera nafnleynd og að þau þurfi ekki að gefa skýrslu fyrir dómi heldur er byggt á skýrslum þeirra fyrir lögreglu. Í sumum ríkjum hefur verið gengið svo langt að setja lög sem gera vitnum kleift að skipta um nafn, auðkenni og vinnu og breyta skráningu í þjóðskrá þannig að þau geti byrjað nýtt líf á öðrum stað án tengsla við fortíðina. Vægari aðgerðir í þágu vitnaverndar eru þær sem stefna að því að víkja frá meginreglunni um að vitni mæti sakborningi augliti til auglitis við meðferð máls, unnt sé að loka þinghöldum og að atriða sem varða vitni, s.s. heimilsfangs og annarra auðkenna sé ekki getið í gögnum máls eða í dómum. Loks hefur verið tilhneiging til þess að veita vitnum sérstaka refsivernd með því að gera ógnanir og hótanir gegn vitnum að sjálfstæðu refsiverðu broti.
Þrátt fyrir að að ógnanir gagnvart vitnum í refsimálum hafi færst í vöxt á undanförnum árum ber að hafa í huga að hér er þó aðeins um lítið hlutfall mála að ræða, þegar litið er á heildina af þeim refsimálum sem rekin eru fyrir dómstólum. Sérstakar verndaraðgerðir í þágu vitna eru því úrræði sem aðeins er þörf á í undantekningartilvikum.

5.9.2. Helstu flokkar vitna.
Í umfjöllun um vitnavernd hefur vitnum gjarnan verið skipað í nokkra flokka eftir því hvernig þau koma að eða tengjast máli. Flokkarnir eru eftirfarandi:

1. Vitni sem eru brotaþolar.
2. Vitni sem eru að einhverju leyti þátttakendur í brotinu,
3. Vitni sem koma frá sama umhverfi og brotamaður, oft afbrotaumhverfi.
4. Lögreglumenn sem hafa komið að rannsókn málsins
5. Vitni sem eru upplýsingagjafar.
6. Vitni sem hafa komið að máli af tilviljun, en veigra sér við að koma fram.
Einn meginþáttur í vitnavernd hefur einkum beinst að úrræðum til þess að vernda 1. flokkinn, þ.e. brotaþolana sjálfa, og búa svo í haginn að þeir veigri sér ekki við að kæra brot heldur veita þeim nauðynlegan stuðning til þess að ganga í gegnum meðferð refsimáls fyrir dómstólum. Þörf fyrir vitnavernd og sérstakan stuðning við vitni vaknar sérstaklega í málum sem eru brotaþolunum viðkvæm af persónulegum ástæðum, svo sem kynferðis- og ofbeldisbrot innan veggja heimilis og fjölskyldu.
Vernd vitna sem talin eru í öðrum flokkum hér að ofan getur á hinn bóginn þurft að vera enn ríkari og veita möguleika á að ganga lengra. Á það einkanlega við ef um ræðir rannsókn skipulagðrar brotastarfsemi. Unnt er að finna ýmis sameiginleg einkenni á þessum tvenns konar aðstæðum sem kalla á vitnavernd, þ.e. skipulegri glæpastarfsemi og brot framin innan fjölskyldunnar. Við báðar þessar aðstæður eru allir þeir sem sem tilheyra hópnum bundnir ákveðnum tryggðaböndum og þagnarskyldu þar sem þau óskráðu lög gilda að tala ekki um málefni hópsins út á við, síst af öllu við lögreglu. Í því eru fólgin ákveðin svik við fjölskylduna sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem í hlut á, ekki aðeins útskúfun heldur einnig hótanir um að vitnið sjálft eða einhver sem stendur því nærri bíði tjón af.
Í starfi nefndarinnar og umfjöllun í skýrslu þessari hefur verið lögð sérstök áhersla á þann þátt vitnaverndarinnar sem lýtur að skipulagðri brotastarfsemi, og hættu á hefndaraðgerðum gagnvart vitnum í refsimálum vegna fíkniefnabrota. Koma þar líka sérstaklega til skoðunar ógnanir gagnvart þeim sem vinna við uppljóstrun mála og gefa skýrslu fyrir dómi eins og á við um lögreglumenn.

5.9.3. Samvinna Evrópuríkja um vitnavernd.
Eins og önnur Evrópuríki hefur Ísland tekið þátt í samstarfi á vegum Evrópuráðsins gegn skipulagðri brotastarfsemi. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að ríki grípi til virkra aðgerða til þess að veita vitnum raunhæfa vernd fyrir hefndaraðgerðum. Í þessu markmiði samþykkti ráðherranefnd Evrópuráðsins á árinu 1997 tilmæli nr. R(97)13 um ógnanir gagnvart vitnum og um réttindi varnarinnar (Intimidation of witnesses and the rights of the defence). Eru tilmælin birt í íslenskri þýðingu í fylgiskjali VI með skýrslunni. Þar eru aðildarríki Evrópuráðsins m.a. hvött til eftirfarandi aðgerða:

· Að tryggja að vitni gefi framburð sinn óþvinguð og án þess að sitja undir hótunum og sérstakar verndarráðstafanir séu mögulegar í þessu skyni.
· Að ógnanir gagnvart vitnum til þess að þau falli frá vitnisburði varði sérstakri refsingu í refsilöggjöfinni.
· Að í réttarfarslögum sé sérstaklega gert ráð fyrir því að ógnanir sem vitni hefur orðið fyrir hafi áhrif á vitnisburð þess.
· Að mögulegt sé að yfirheyra vitni fyrir dómi án þess að það mæti sakborningi augliti til auglitis, t.d. í aðskildu herbergi.
· Að starfsfólk í réttarvörslukerfinu fái þjálfun í að bregðast við ógnunum í gagnvart vitnum.

Í tilmælunum er sérstaklega vikið að því að ríki íhugi möguleika á að dómstólar byggi á utanréttarskýrslum vitna sem talin eru í hættu vegna hefndaraðgerða og að nöfn þeirra verði ekki leidd í ljós fyrr en eins seint og mögulegt er. Eins verði unnt að loka réttarhöldum vegna slíkra hagsmuna vitnisins. Í algerum undantekningartilvikum, þar sem leitt sé í ljós að líf vitnis sé í alvarlegri hættu eða hlutverki leynilegs rannsóknara lögreglunnar (under cover agent) verði spillt, verði hægt að fallast á nafnleynd vitnis. Gert verði mögulegt að yfirheyra nafnlaust vitni í réttarsal, t.d. bak við skilrúm eða með því að andlit þess verði hulið og rödd þess breytt. Þó verði að gera að skilyrði að vitnisburður nafnlauss vitnis sé ekki lykilsönnunargagn til sakfellingar í máli, heldur verði önnur sönnunargögn að vera honum stuðnings.
Á vegum Evrópusambandsins hefur einnig verið gripið til aðgerða til þess að efla vitnavernd. Í ályktun ráðherraráðsins (23 nóvember 1995, 95/C/327/04) er fjallað um vitnavernd í baráttunni við skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi. Eru aðildarríki sambandsins hvött til þess að grípa til viðeigandi aðgerða til þess að veita vitnum raunhæfa vernd, m.a. með möguleika á nafnleynd og öðrum sérstökum aðgerðum. Þess má einnig geta að þann 19. desember 1996 samþykkti ráðið aðra ályktun þar sem sérstaklega er fjallað um einstaklinga sem vinna með réttarvörslukerfinu við uppljóstrun afbrota. Þar eru aðildarríki sambandsins hvött til þess að taka upp samvinnu við einstaklinga sem þekkja til í brotaheiminum og þiggja upplýsingar frá þeim um skipulag og starfsemi glæpahringja og tengsl þeirra innbyrðis en veita þeim peningagreiðslu og nauðsynlega vernd þess í stað.

5.9.4. Ákvarðanir Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða vitnavernd.
Í samræmi við þá þróun sem áður hefur verið lýst hefur Mannréttindadómstóll Evrópu í auknum mæli þurft að takast á við álitaefni sem tengjast vitnavernd. Þau tengjast sérstaklega spurningunni um hversu langt má ganga í því að víkja frá meginreglu 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmálans um að vitni séu leidd fyrir dóm og spurð af verjanda sakbornings og um aðgang sakbornings að gögnum máls, hvort byggja megi á skýrslum vitna gefnum hjá lögreglu fyrir dómi svo og hvort veita megi vitnum nafnleynd.
Álitaefni um nafnleynd vitna í refsimálum hafa einkum verið tvenns konar. Annars vegar er mögulegt að alger nafnleynd ríki, þ.e. hvorki verjandi né sakborningur fái vitneskju um nafn vitnis. Við þessar kringumstæður er skýrsla vitnis fyrir lögreglu gefin með því skilyrði að því verði heitin nafnleynd á öllum stigum máls. Þannig kemur nafnlaust vitni aldrei fyrir dóm og leyndinni verður því ekki aflétt gagnvart dómara, heldur verður byggt á skýrslum þess sem gefnar eru hjá lögreglu. Verjandi kann að hafa átt kost á að koma skriflegum spurningum til vitnis á rannsóknarstigi málsins, en hefur ekki átt þess kost að öðru leyti að meta áreiðanleika vitnisins eða trúverðugleika. Hins vegar er mögulegt að nafnleynd vitnis gildi aðeins gagnvart sakborningi en að vitnið verði leitt fyrir dómara og spurt af ákæruvaldi og verjanda en sú skylda sé lögð á verjanda hans að halda nafninu leyndu gagnvart sakborningi.
Af nokkrum dómum Mannréttindadómstólsins sem gengið hafa á undanförnum árum á þessu sviði hafa verið dregnar eftirfarandi ályktanir. Stefnumarkandi dómar Mannréttindadómstólsins á undanförnum árum þar sem tekið hefur verið á álitaefnum um vitnavernd eru m.a.: Van Mechelen o.fl. gegn Hollandi, frá 23. apríl 1997, Doorson gegn Hollandi, frá 26. mars 1996, Lüdi gegn Sviss, frá 15. júní 1992, Windisch gegn Austurríki, frá 27. september 1990 og Kostovski gegn Hollandi, frá 20. nóvember 1989.
· Verjandi verður alltaf að eiga kost á því að spyrja vitni, annað hvort beint eða t.d. gegnum hljóðkerfi. Ekki virðist nægilegt að sakborningur/verjandi geti sent nafnlausu vitni skriflegar spurningar sem svarað verði skriflega.
· Heimilt er að leggja þá skyldu á verjanda að hann greini brotamanni ekki frá nafni vitnisins, ef honum er kunnugt um það.
· Ekki er fallist á að vitnisburður nafnlausa vitnisins/vitnanna séu einu sönnunargögnin sem lögð eru fram í málinu og ráði úrslitum um sekt í málinu. Framburðurinn verður því að vera til stuðnings öðrum sönnunargögnum í málinu.
· Ef sakborningur þekkir vitni í útliti er minni ástæða til þess víkja frá meginreglunni um að það komi fyrir dóm en eftir sem áður er hægt að halda nafni þess leyndu.
· Dómari verður að eiga þess kost að ræða beint við vitni ef unnt er að koma því við til þess að geta lagt mat á trúverðugleika og áreiðanleika þess.
· Sýna þarf fram á að vitni hafi raunhæfa ástæðu til þess að óttast hefndaraðgerðir ef það nýtur ekki nafnleyndar.

5.9.5. Úrræði hér á landi til að veita vitnavernd.
Með lögum nr. 36/1999 voru gerðar víðtækar breytingar á ákvæðum laga um meðferð opinberra mála sem höfðu það markmið að styrkja réttarstöðu brotaþola. Stefndu breytingarnar einkum að því að veita börnum sem hafa verið þolendur kynferðisafbrota sérstaka vernd. Mörg ákvæða fyrrgreindra laga breyta ákvæðum laga um meðferð opinberra mála sem varða stöðu brotaþola sem vitna í refsimálum. Voru m.a. settar skýrari reglur um að upplýsingum um persónulega hagi brotaþola sem fram koma sem vitni í refsimálum verði haldið leyndum. Einnig var ákvæðum laganna um lokuð þinghöld breytt, m.a. á þann veg að brotaþoli geti krafist þess að réttarhald fari fram fyrir luktum dyrum. Loks var sú regla sett að þegar skýrsla er tekin af brotaþola sem er yngri en 18 ára skuli ákærandi, sakborningur og verjandi ekki eiga fortakslausan rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð, heldur skuli gefa þeim kost á að fylgjast með skýrslutökunni um leið og hún fer fram. Framangreindar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála stefndu sem áður segir sérstaklega að því að vernda rétt barna sem vitna, en tóku hins vegar ekki sérstaklega á því hvernig bregðast eigi við hótunum eða ógnunum í garð vitna t.d. í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi.
Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. oml. er öllum skylt að koma fyrir dóm í opinberu máli og bera þar vitni, með nokkrum undantekningum sem raktar eru í 50. gr. og lúta að tengslum vitnis við sakborning. Samkvæmt lögunum er vitni ekki skylt að gefa skýrslu fyrir lögreglu en því er eftir sem áður skylt að mæta fyrir dóm á grundvelli 49. gr. oml. Hér á landi hafa engar ákveðnar reglur verið settar eða venjur skapast um það hvernig lögreglu eða ákæruvaldi beri að bregðast við þegar vitni neitar að gefa skýrslu fyrir lögreglu, nema því verði tryggð nafnleynd af ótta við að gripið verði til hefndaraðgerða. Hvergi er því vikið að heimildum eða skyldum lögreglu til þess að veita vitnum sérstaka vernd af þessum ástæðum.
Hafa ber í huga að í mörgum tilvikum getur lögregla nýtt sér upplýsingar frá upplýsingagjöfum, sem leiða hana á rétt spor við rannsókn máls, t.d. til að finna fíkniefni, án þess að geta þurfi þess í gögnum málsins hvaðan upplýsingarnar komu upprunalega. Við þær aðstæður getur lögregla heitið upplýsingagjafa nafnleynd, enda er það væntanlega tíðast forsenda fyrir því að upplýsingar séu veittar. Í dómi Hæstaréttar í H 1985/1436 var talið að lögreglumanni sem bar vitni í refsimáli bæri ekki skylda að rjúfa trúnað gagnvart upplýsingagjafa sem veitt hafði upplýsingar við rannsókn málsins gegn fyrirheiti um að ekki yrði skýrt frá nafni hans. Þótti vitnið ekki verða skyldað til þess að rjúfa þennan trúnað, en þó er tekið fram að héraðsdómari yrði að meta hvort upplýsingarnar gætu talist sönnunargögn gegn ákærða við úrlausn málsins.
Öðruvísi horfir við ef framburður vitnis, t.d. brotaþola eða samstarfsmanns sakbornings í afbroti, er nauðsynlegt sönnunargagn í málinu um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað. Þess hefur orðið vart við rannsóknir fíkniefnamála að vitni veigri sér við að koma fram fyrir dómi af þeirri ástæðu að það óttist hefndaraðgerðir frá sakborningi eða öðrum úr tengdri brotastarfsemi. Þó er ekki talið að enn sem komið er séu ógnanir í garð vitna orðnar svo stórfellt vandamál hér á landi að það standi lögreglu alvarlega fyrir þrifum í rannsóknum brotamála. Engu að síður hafa hótanir í garð vitna færst í vöxt á undanförnum árum og veldur það lögreglu áhyggjum. Tiltæk verndarúrræði eru ekki mörg þegar vitni eða samstarfsmenn sakbornings í afbrotum verða fyrir ógnunum og hótunum. Í tilvikum þar sem vitni treystir sér til að kæra er málið rannsakað og tekin skýrsla af þeim sem grunaður er um að hafa beitt hótunum. Í mörgum tilvikum eru mál þó lögð upp vegna sönnunarskorts. Hjá lögreglu eru þekkt dæmi um að grunur leiki á að uppljóstrarar og vitni hafi orðið fyrir líkamsmeiðingum þegar uppvíst verður um samvinnu þeirra við lögregluna. Vandamálið felst hins vegar í því að slíkar hefndaraðgerðir eru ekki kærðar til lögreglu af ótta vitnisins, brotaþolans, um enn frekari hefndaraðgerðir. Vegna skorts á sönnunargögnum nær málið þá aldrei lengra í rannsókn lögreglu.
Ákvæði almennra hegningarlaga veita vitnum ekki sérstaka réttarvernd og ógnanir eða hótanir um hefndargerðir í garð vitna til þess að þau falli frá því að gefa skýrslu eru þannig ekki sjálfstætt brot. Þau ákvæði laganna sem ná yfir hótanir í garð vitna eru almenn ákvæði um nauðung í 225. gr. og um hótanir í 233. gr. laganna. Ákvæðin eru svohljóðandi:


225. gr.

Ef maður neyðir annan mann til þess að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta hjá líða að gera eitthvað með því að beita líkamlegu ofbeldi eða hóta honum að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi eða frelsissviptingu eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér sökum þess málefnis, sem hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 2 árum.
1)L. 82/1998, 117. gr.

233. gr.

Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 2 árum.
1)L. 82/1998, 125. gr.

Ekki eru dæmi um að ákæra hafi verið gefin út á grundvelli þessara lagaákvæða vegna hótana gegn vitnum í refsimáli. Í þessu sambandi má þó nefna dóm Hæstaréttar í H 1995/2336. Um var að ræða ákæru vegna brots á 1. mgr. 106 gr. og 233. gr. laganna vegna endurtekinna líflátshótana tiltekins síbrotamanns í garð yfirmanns í lögreglunni og fjölskyldu hans. Var maðurinn dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir brot á framangreindum ákvæðum.
Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að lögreglumenn sem rannsaka brot og eru starfs síns vegna vitni við meðferð refsimáls fyrir dómi verði fyrir hótunum frá sakborningi um hefndaraðgerðir gegn þeim eða fjölskyldum þeirra. Veldur það lögreglumönnum óþægindum, er þeir mæta fyrir dómi sem vitni og segja upphátt, í viðurvist sakbornings, til nafns og stöðuheitis og þurfa jafnframt að greina frá kennitölu og heimilisfangi. Ekki er fátítt að sakborningar leggi sérstakt hatur á þá lögreglumenn sem hafa rannsakað og upplýst mál þeirra. Hótanir í garð lögreglumanna, t.d. um að þeir "fái heimsóknir" frá sakborningum eða öðrum þeim tengdum eru til þess fallnar að vekja ugg hjá lögreglumönnum um velferð þeirra og fjölskyldna þeirra. Dæmi finnast um eignaspjöll sem lögreglumenn hafa orðið fyrir og talin eru tengjast slíkum hefndaraðgerðum, t.d. skemmdir á bifreiðum, en erfitt er um sönnun.
Fjallað er um yfirheyrslu vitna hjá lögreglu í 11.-15. gr. reglugerðar um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu nr. 395/1997. Í 2. mgr. 11. gr. er ákvæði þess efnis að spyrja skuli vitni um nafn, kennitölu, stöðu, vinnustað, heimilisfang, símanúmer og önnur tengsl við sakborning og brotaþola.
Í VIII. kafla laga um meðferð opinberra mála er fjallað um vitni, mat og skoðun. Meginákvæði laganna um framkvæmd skýrslutöku af vitni fyrir dómi er 59. gr. laganna og er hún svohljóðandi:

1. Dómari lætur vitni fyrst gera grein fyrir nafni sínu, kennitölu, stöðu og heimili. Síðan brýnir hann alvarlega fyrir vitninu skyldu þess til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli skiptir. Enn fremur skýrir hann fyrir vitninu þá siðferðilegu ábyrgð og refsiábyrgð sem það kann að baka sér með vísvitandi eða gáleysislega röngum framburði.
2. Að svo búnu spyr dómari vitni um sakaratriði. Dómara er rétt að leggja fyrir vitni spurningar sem ákærandi og verjandi óska, en einnig getur hann gefið þeim kost á að spyrja vitni beint. Dómari skal gæta þess að spurningar hans og annarra séu ákveðnar, ekki tvíræðar eða veiðandi, ekki særandi eða móðgandi framar en efni standa til og ekki sýnilega þýðingarlausar.
3. Nú hefur vitni eða aðrir áður gefið skýrslu fyrir lögreglumanni eða fyrir dómi í málinu og kynnir dómari þá slíkar skýrslur og önnur sakargögn ekki fyrir vitni fyrr en honum þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess. Utanréttarvottorðum þess sem skylt er að koma fyrir sem vitni má dómari ekki veita viðtöku nema sérstaklega standi á, svo sem þegar ekki er kostur að fá vitni fyrir dóm til að gefa skýrslu.
4. Hvert vitni skal prófa sér og ekki láta önnur vitni hlýða á. Dómari getur þó ákveðið að samprófa vitni við sakborning og aðra ef á greinir.
5. Nú er dómþing háð fyrir opnum dyrum og spurning er svo löguð að svar við henni varðar einkahagi vitnis sjálfs eða annarra og getur dómari þá lagt spurningu skriflega fyrir vitni og leyft því að svara skriflega og bóka svarið, enda eigi vitni kost á að sannfæra sig um rétta bókun án þess að svarið sé lesið upp.
6. Dómari getur ákveðið að sakborningi verði vikið úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis er tekin, ef þess er krafist, og dómari telur að nærvera sakbornings geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess.
[7. Þegar skýrsla er tekin af brotaþola yngri en 18 ára getur dómari kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku. Þá eiga ákærandi, ákærði og verjandi hans ekki rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð hans. Í því tilviki skal dómari sjá til þess að málsaðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og er honum rétt að leggja fyrir brotaþola þær spurningar sem þeir óska. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um tilhögun skýrslutöku samkvæmt þessari málsgrein.]1)
1) Lög 36/1999, 18. gr.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. oml. virðist ekki útiloka að vitni geri grein fyrir sér með því að framvísa persónuskilríkjum. Hins vegar er ákvæðið fortakslaust að því leyti að nafn vitnis verður ávallt að koma fram í skjölum málsins. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna á verjandi sakbornings alltaf rétt til að fá endurrit af öllum skjölum málsins svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verða endurrituð. Þó má ekki láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum efni þess nema dómari eða rannsóknari samþykki. Af þessu má ráða að alger nafnleynd vitnis er ekki möguleg að óbreyttum lögum.
Í 6. mgr. 59. gr. laganna er heimilað að veita vitnum sérstaka vernd með því að víkja sakborningi úr þinghaldi og er þetta undantekning frá meginreglu 4. mgr. 129. gr. laganna um að ákærði eigi rétt á því að vera við aðalmeðferð máls. Skilyrði þess að beita megi þessari heimild er að dómari telji nærveru sakbornings vera vitninu sérstaklega til íþyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess. Í þeim fáu tilvikum þar sem heimildinni hefur verið beitt hefur það verið af tilliti til vitna í kynferðisbrotamálum, sbr. t.d. H 1993/1316, H 1997/1215 og H 1997/3231. Miðað við orðalag ákvæðisins er þó ekki útilokað að beita megi reglunni ef fyrri hótanir og ógnanir sakbornings gegn vitni teljast líklegar til að hafa áhrif á framburð þess sé hann viðstaddur skýrslutökuna. Á hinn bóginn er tæplega mögulegt að óbreyttum lögum að halda nafni vitnis leyndu fyrir sakborningi og að leggja þagnarskyldu á verjanda um nafn þess. Hefur ekki reynt á álitaefni þetta fyrir íslenskum dómstólum svo vitað sé.
Sérregla um vitnavernd þegar börn eiga í hlut er í 7. mgr. 59. gr. laganna. Ákvæðið kom nýtt inn með lögum nr. 36/1999. Lögin öðlast gildi 1. júlí 1999 þannig að engin reynsla er komin á beitingu þess enn sem komið er.
Frekari verndarákvæði í garð vitna eru í ákvæðum III. kafla oml. um þinghöld birtingar o.fl. Samkvæmt 8. gr. er dómara rétt að ákveða að dómþing skuli haldið fyrir luktum dyrum, svo sem til hlífðar vitnum og ef sérstök hætta þykir á sakarspjöllum ef þing væri háð fyrir opnum dyrum. Einnig getur dómari takmarkað fjölda áhorfenda og synjað um aðgang þótt þinghald fari fram fyrir opnum dyrum, svo sem ef ætla má að nærvera manna valdi hættu á því að vitni segi ekki sannleikann. Eftir breytingar sem gerðar voru á 2. mgr. 8. gr. laganna með lögum nr. 36/1999, er nú kveðið á um að dómari geti tekið ákvörðun um lokað þinghald að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola. Samkvæmt þessu er vitnum sem eru brotaþolar kleift að krefjast lokaðs þinghalds, en ekki öðrum vitnum.
Samkvæmt 10. gr. er óheimilt að skýra frá því sem fram fer í lokuðu þinghaldi og einnig getur dómari bannað opinbera frásögn af atriðum í öðrum þinghöldum ef ætla má að frásögn geti valdið mönnum sem ekki eru fyrir sökum hafðir verulegum þjáningum eða óþægindum. Með lögum nr. 36/1999 bættist ný málsgrein við ákvæðið, svohljóðandi.

[3. Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eru afhent öðrum en aðilum máls og brotaþola skal ef sérstök ástæða er til afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að fari leynt með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.]1)
1) L. 36/1999, 2. gr.

Í skýringum frumvarpsins með breytingaákvæði þessu kemur fram að það eigi m.a. við ef þörf er á því í ákveðnum tilvikum að nema brott hluta af skýrslum sem sakborningur, brotaþoli og vitni hafa gefið fyrir dómi eða lögreglu, en í öðrum tilfellum væri nægilegt að afmá nöfn og önnur sérkenni sem tengjast máli. Ætlast er til að slík atriði verði numin á brott úr endurritum sem t.d. eru afhent fjölmiðlum, en komið hefur fyrir að svo hafi ekki verið gert. Með lögum nr. 36/1999 voru gerðar samsvarandi breytingar á 14. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í 11. gr. oml. eru lagðar sektir við því að brjóta gegn því banni dómara svo og að tálma eða reyna að tálma á ólögmætan hátt rannsókn máls eða hafa að öðru leyti ólöglega áhrif á hana eða málsúrslit. Fágætt er að reyni á réttarfarssektir þær sem lýst er í 11. gr. oml. og hefur ekki reynt á þær í tengslum við hótanir í garð vitna.

6. KAFLI
Erlend löggjöf og reglur
um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu

Umfjöllun sem hér fer á eftir er tvíþætt. Í kafla 6.1. er stutt yfirlit yfir sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu í nágrannalöndum. Kannað er hvaða háttur er almennt hafður á í helstu Evrópuríkjum, t.d. hvort mælt er fyrir um þær í löggjöf eða í verklagsreglum innan lögreglu, hvort dómsúrskurð þurfi til beitingar þeirra eða hvort lagaheimild nægi o.s.frv. Í kafla 6.2. er reifuð í ítarlegra máli löggjöf og verklagsreglur sem gilda á öðrum Norðurlöndum og nokkrum öðrum Evrópuríkjum á þessu sviði.

6.1. Yfirlit yfir heimildir til sérstakra rannsóknaraðferða í Evrópuríkjum.

6.1.1. Hlerun síma og fjarskiptabúnaðar.
Hlerun síma og fjarskiptabúnaðar er hefðbundið rannsóknarúrræði í Evrópu við rannsókn alvarlegri brota. Það er almennt háð ströngum skilyrðum sem ávallt eru bundin í lög. Dómsúrskurð þarf almennt til hlerunar og meint brot þarf yfirleitt að varða fangelsisrefsingu.
Upplýsingar sem aflað er með hlerun síma og fjarskiptabúnaðar eru almennt ekki notaðar sem sönnunargögn fyrir dómi þótt undantekningar séu frá þeirri meginreglu.

6.1.2. Myndataka og hlerun.
Myndataka, bæði ljósmyndun og myndbandsupptaka, er hefðbundið úrræði til rannsókna í ríkjum Evrópu en mismunandi hvernig og hvenær það er heimilt. Er almennt mælt fyrir um heimildir til myndatöku í lögum.
Öðru máli gildir um hljóðupptöku/herbergjahlerun. Í sumum löndum er úrræðið notað með ströngum skilyrðum og krafist er dómsúrskurðar fyrirfram. Í öðrum löndum er úrræðið bannað með lögum. Ljóst er að heimildir til myndatöku eru mun rýmri en til hljóðupptöku.

6.1.3. Upplýsingagjafar.
Lögreglu- og tollyfirvöld í Evrópulöndum notfæra sér upplýsingagjafa í umtalsverðum mæli. Reglur þar að lútandi eru mismunandi, einkum með tilliti til þess hvort upplýsingagjafar gefi skýrslur fyrir dómi. Það heyrir þó fremur til undantekninga og yfirleitt er lögð rík áhersla á trúnað við upplýsingagjafa. Reglur um upplýsingagjafa virðast ekki lögfestar nema í Grikklandi en til að mynda í Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Portúgal og Svíþjóð hafa verið settar leiðbeinandi reglur ýmist af lögreglu, tollyfirvöldum, ákæruvaldi og innanríkis- eða dómsmálaráðuneytum. Þá virðist sem greiðslur til upplýsingagjafa séu almennar.

6.1.4. Afhending undir eftirliti.
Hér er um að ræða viðurkennt rannsóknarúrræði í Evrópuríkjum sem m.a. er mælt fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var 19. desember 1988 gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og Schengen-samningnum. Nefnd á vegum Schengen um fíkniefni hefur unnið handbók um afhendingu undir eftirliti þar sem er að finna leiðbeiningar um framkvæmd í öllum aðildarríkjum Schengen. Í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð starfa löggæslu- og tollyfirvöld eftir leiðbeinandi reglum um afhendingu undir eftirliti og Norræna lögreglu- og tollasamstarfsnefndin, PTN, hefur tekið saman yfirlit þar að lútandi þar sem meginreglum er lýst. Í Þýskalandi, Bretlandi, Hollandi og mörgum fleiri Evrópulöndum eru í gildi leiðbeinandi reglur um afhendingu undir eftirliti. Má vænta þess að ríki Evrópu taki upp samræmdar reglur um afhendingu undir eftirliti og eru reglur sem nefndin hefur samið í samræmi við þá réttarþróun.

6.1.5. Tálbeitur.
Notkun tálbeitu er venjubundið úrræði til að berjast gegn alvarlegum glæpum. Úrræðið er háð mörgum ströngum skilyrðum. Eitt þeirra er að löggæslumenn mega ekki stuðla að afbroti með notkun tálbeitu sem ella hefði ekki verið framið. Almennt virðist heimild til notkunar tálbeitu ekki vera bundin í lög. Þó eru undantekningar frá því s.s. ákvæði um notkun virkrar tálbeitu í dönsku réttarfarslögunum.

6.1.6. Sýndarviðskipti.
Um sýndarviðskipti gilda svipuð sjónarmið og um tálbeitur og eru heimildir til sýndarviðskipta almennt ekki lögfestar.

6.1.7. Skygging.
Notkun þessa rannsóknarúrræðis er almenn og lítt takmörkuð. Um þetta úrræði gilda yfirleitt ekki sérstakar formlegar reglur.

6.1.8. Vitnavernd.
Um vitnavernd gilda mismunandi reglur og framkvæmd. Vernd vitna er almennt á ábyrgð rannsóknaraðila. Í Þýskalandi hefur þó verið komið á fót sérstökum starfshópi sem sérhæfir sig í vitnavernd. Danir hafa nýlega hugað að þessu máli og benda á ýmis úrræði til verndar vitnum. Hér má nefna upplýsingar til vitna fyrirfram um vitnaskyldu, vitnaábyrgð og framkvæmd skýrslutöku, fylgd lögreglumanna með vitnum til og frá dómhúsi og viðveru þeirra þar meðan meðan á skýrslutöku stendur, sérstakan aðbúnað í dómhúsum fyrir vitni sem hafa þörf fyrir vernd og fleira.

6.2. Löggjöf einstaka ríkja um sérstakar rannsóknaraðferðir.

6.2.1. Inngangur.
Hér verður reynt að varpa nokkru ljósi á hvernig háttað er beitingu sérstakra rannsóknaraðferða lögreglu í helstu nágrannalöndum, aðallega á öðrum Norðurlöndum. Eins og áður hefur verið lýst eru mikla hræringar í þessum efnum á Vesturlöndum og nýlega hafa mörg ríki yfirfarið lög og reglur í þessu sambandi og jafnframt ákveðið skipan mála á svipaðan hátt og verið er að gera hér á landi. Sem dæmi má nefna að í danska þinginu liggur nú fyrir frumvarp til breytinga á réttarfarslögum að undangenginni úttekt m.a. á því hvað af þessum aðferðum þurfi að hafa lagastoð.
Árið 1997 lauk störfum nefnd sem skipuð var af dómsmálaráðherra Noregs 1994 og hafði m.a. það hlutverk að gera tillögur um rannsóknaraðferðir lögreglunnar í baráttu gegn glæpastarfsemi. Birtast niðurstöður og tillögur nefndarinnar í ítarlegri skýrslu hennar í NOU 1997:15 (Etterforskningsmetoder for bekjempelse av kriminalitet). Tillögur hennar til lagabreytinga og annarra breytinga á reglum um rannsóknaraðferðir hafa enn ekki náð fram að ganga, en unnið er að gerð lagafrumvarps á grundvelli þeirra í norska dómsmálaráðuneytinu.
Í reifun á löggjöf og reglum nágrannalandanna hér á eftir hefur aðallega verið stuðst við norsku skýrsluna, skýrslu Europol frá ágúst 1996, svör dómsmálaráðuneyta Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar við fyrirspurnum sem nefndin sendi þeim um efnið og önnur gögn sem nefndinni hafa áskotnast í starfi sínu.

Rétt er að geta þess að nefndinni hefur verið nokkur vandi á höndum varðandi notkun hugtaka um nokkrar hinna sérstöku rannsóknaraðferða. Sumar þeirra eru nær óþekktar hér á landi og um aðrar hefur hugtakanotkun verið á reiki. Um sumar hafa verið notuð hugtök, sem ekki er víst að séu heppileg. Í hinum erlendu gögnum sem nefndin hefur stuðst við virðist hugtakanotkunin sömuleiðis ekki nógu markviss. Hafa verður þetta í huga við lestur skýrslunnar. Í 5. kafla er fjallað um þessar aðferðir með íslenskum heitum og verður svo einnig gert í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir, en erlendra heita getið ef það mætti verða til glöggvunar. Þeir örðugleikar sem hér hafa verið nefndir eiga t.d. við um hugtökin flugumaður og tálbeita, en horfið hefur verið frá því að gera greinarmun á þessum hugtökum hér, nema að því er varðar Noreg. Í stað þess að reyna að gera greinarmun á þessu tvennu varðandi önnur lönd hefur verið tekinn sá kostur að nefna aðferðirnar einungis "notkun tálbeitu".

6.2.2. Noregur.
Í umfjöllun um Noreg er fyrst gerð grein fyrir núverandi stöðu varðandi hverja rannsóknaraðferð fyrir sig og síðan lýst viðhorfum og tillögum nefndarinnar sem samdi fyrrnefnda skýrslu.

6.2.2.1. Símhlerun.

Gildandi reglur.
Í norskri löggjöf er annars vegar fjallað um símhleranir í lögum nr. 15, 1915 om kontroll med post- og telegrafforsendelse, sem heimila símhlerun og eftirlit með pósti í málum sem varða öryggi ríkisins og hins vegar í 16. kafla a. í réttarfarslögum (straffeprosessloven) varðandi símhleranir í fíkniefnamálum.
Samkvæmt lögunum frá 1915 er heimilt að beita símhlerunum á friðartímum við rannsókn tiltekinna brota. Heimild réttarfarslaganna var fyrst tímabundin með lögum frá 1976, en ótímabundin frá 1992. Samkvæmt breytingu á réttarfarslögum frá 1985 nær heimildin ekki einungis til hefðbundinna síma heldur einnig til "teleksanlegg eller lignende anlegg for telekommunikasjon", þ.e. heimildin nær til þess að fylgjast með öllu sem unnt er að senda um símkerfi hvort sem það er í opinberri eigu eða einkaeign. Heimildin tekur einnig til hilmingar í fíkniefnamálum samkvæmt lagabreytingu frá 1993.
Það skilyrði er sett varðandi fíkniefnamálin að fyrir liggi að brot hafi verið framið. Ekki nægir að sterkur grunur sé um að brot verði framið. Lögin takmarka í sjálfu sér ekki notkun símhlerana eftir alvarleika brota gegn fíkniefnalöggjöfinni, en þeim mun þó einungis beitt þegar um er að ræða gróf brot. Fleira kemur þar til skoðunar en magn fíkniefna eins og t.d. hvar og hvernig efnunum hefur verið dreift.
Dómsúrskurð þarf til að beita símhlerun og verður hún ekki heimiluð til lengri tíma en 4 vikna í senn. Ef aðgerð þolir ekki bið eftir dómsúrskurði er gert ráð fyrir því í lögunum að ákæruvaldið geti fyrirskipað hlerun, en þá er skylt að afla heimildar dómara eftir á.
Upplýsingar um notkun ákveðins síma er heimilt að nota sem sönnunargögn fyrir dómi. Aðrar upplýsingar sem koma fram við símhleranir er hins vegar ekki heimilt að nota sem sönnunargögn fyrir dómi, en þær má nota við rannsóknir mála. Upplýsingar sem fram koma við símhlerun og varða annað mál en það sem var grundvöllur hlerunarheimildar (overskuddsinformasjon), er lögreglu heimilt að nota við rannsókn.
Einungis er heimilt að hlera síma sem hinn grunaði á sjálfur eða síma sem líklegt er að hann muni nota. Ekki er heimilt að hlera þá síma, sem líklegt er að hinn grunaði muni hringja í. Hinum grunaða er ekki tilkynnt um kröfu um símhlerun. Ekki er tilnefndur sérstakur lögmaður til að gæta réttar hans við úrlausn kröfunnar fyrir dómi. Frá 1985 hefur starfað nefnd, sem hefur eftirlit með beitingu lögreglu og ákæruvalds á heimildum til símhlerana samkvæmt réttarfarslögunum. Sérstakar reglur um verksvið nefndarinnar eru frá 1995 (forskrift om telefonkontroll i narkotikasaker).

Tillögur nefndarinnar um rannsóknaraðferðir lögreglu.
Norska nefndin um rannsóknaraðferðir lögreglu telur að það hafi tvímælalaust í för með sér vandamál að heimild til símhlerunar í réttarfarslögunum sé takmörkuð við fíkniefnabrot og brot er snerta öryggi ríkisins, sbr. fyrrgreind lög frá 1915.
Nefndin leggur til að heimildin verði látin ná til fleiri brota en fíkniefnabrota og að hún verði takmörkuð með hliðsjón af refsiramma. Mælt er með að heimildin nái til brota sem varðað geta meira en 6 ára fangelsi. Í Danmörku er miðað við 6 ár, í Svíþjóð 2 ár og í Finnlandi eru tiltekin þau brot sem við eiga. Mælt er með að ákvæðin í lögunum frá 1915 verði felld inn í réttarfarslögin. Að því er varðar heimild til að afla upplýsinga um notkun ákveðins síma þá leggur nefndin til að meginreglan verði sú, að brotið geti varðað þyngri refsingu en 3 ára fangelsi.
Samkvæmt réttarfarslögunum verður ekki veitt heimild til hlerunar í lengri tíma en 4 vikur í senn, en samkvæmt lögunum frá 1915 eiga úrskurðir dómara að vera tímamarkaðir, en hámarkstími er ekki tiltekinn í lögunum. Nefndin leggur til að aðalreglan verði áfram sú sama, þ.e. 4 vikna hámarkstími, en að bætt verði í lögin heimild til að hafa tímann lengri ef sérstaklega stendur á.
Nefndin leggur til að heimilt verði að hlusta þá síma sem talið er að hinn grunaði muni hringja í. Nefndin leggur einnig til að rýmkuð verði heimild til að nota upplýsingar, sem aflað er með símhlerunum og að heimildin taki bæði til að nota þær sem sönnunargögn við lögreglurannsókn og fyrir dómi. Í þessu sambandi leggur nefndin til að kærði eigi að hafa möguleika á að kynna sér þau gögn sem aflað er með símhlerunum. Heimilt eigi þó að vera að neita kærða um slíkt ef það þykir vera varasamt með hliðsjón af rannsóknarhagsmunum lögreglu, hagsmunum erlends ríkis eða þriðjamanns. Það verði þó sett sem skilyrði að synjun á aðgangi að gögnum megi ekki koma niður á vörn hins kærða. Nefndin var þeirrar skoðunar að aðalreglan ætti að vera sú að neita kærða um aðgang að þessum gögnum, ef það væri augljóst að það gæti ekki haft áhrif á vörn hans. Hugsanlega ætti lögmaður kærða að fá að kynna sér gögnin, en hann mætti ekki kynna þau fyrir kærða. Þessar ákvarðanir ætti dómstóll að taka.
Í skýrslu sinni leggur nefndin til að tekin verði upp sama skipan og í Danmörku og tilnefna sérstakan lögmann þegar um er að ræða ákvarðanir um hleranir á símum og í herbergjum og aðrar ákvarðanir sem ekki má kynna fyrir kærða og hann getur því ekki komið að sínum sjónarmiðum sem grunaður. Tekið er fram, að þessi skipan hafi reynst vel í Danmörku.





6.2.2.2. Annars konar hlerun.

Gildandi reglur.
Í norskum lögum er gerður greinarmunur á símhlerun og annars konar hlerun (annen avlytting). Með annars konar hlerun er m.a. átt við herbergishlerun. Ekki eru ákvæði í lögum um heimild lögreglu til að beita þessum hlerunum í Noregi. Heimildarákvæði laganna eru bundin við símhleranir. Samkvæmt norsku hegningarlögunum er leynileg hlerun með hjálp tæknibúnaðar ólögleg og refsiverð og tekur ákvæði laganna til lögreglu ekki síður en annarra. Undantekningar eru frá þessu. Manni er t.d. heimilt að taka upp samtal sitt við annan mann. Það telst heimilt að lögreglumaður eða borgari, sem samþykkir það, beri á sér upptökubúnað í þessu skyni og getur það bæði verið gert út frá öryggissjónarmiðum og einnig í því skyni að afla sönnunargagna. Upptöku með samtölum, sem aflað er með þessum hætti, er heimilt að nota sem sönnunargagn fyrir dómi. Norska nefndin telur, að beiting herbergishlerunar sem rannsóknarúrræðis á grundvelli neyðarréttar eða neyðarvarnar í því skyni að koma í veg fyrir alvarleg brot sé heimil og að upptökur fengnar við þær aðstæður verði notaðar sem sönnunargögn fyrir dómi.

Tillögur nefndarinnar um rannsóknaraðferðir lögreglu.
Í skýrslu sinni leggur nefndin til að lögfest verði heimild til annars konar hlerunar en símhlerunar, en að heimildin verði takmörkuð við brot sem varðað geta a.m.k. 10 ára fangelsi. Áfram eigi að vera möguleiki á herbergishlerunum á grundvelli neyðarréttar. Nefndin leggur til að dómari úrskurði um herbergishlerun og að hinum grunaða verði tilnefndur lögmaður. Eftirlit með beitingu þessa úrræðis ætti að vera í höndum sérstakrar nefndar. Í skýrslu nefndarinnar er sérstaklega fjallað um vandamál tengd því að koma fyrir búnaði til herbegishlerana (t.d. húsbrot). Nefndin telur að heimild dómara til herbergishlerunar feli í sér heimild til að koma fyrir hlerunarbúnaði. Lagt er til að ríkissaksóknari setji reglur m.a. um hvernig búnað megi nota, hverjir megi vinna við búnaðinn og hvernig eigi að koma honum fyrir.
Nefndin leggur til, að heimild til herbergishlerunar verði ekki veitt til lengri tíma en 14 daga í senn.

6.2.2.3. Myndatökur.
Hvers kyns leynilegar myndatökur eru refsiverðar samkvæmt 390. gr. b. í norsku hegningarlögunum. Dómstólar geta þó veitt lögreglu heimild til að nota myndatökubúnað til eftirlits (fjernsynsövervåking) á almannafæri (offentlig sted) þegar um er að ræða rökstuddan grun um brot sem varðað getur þyngri refsingu en 6 mánaða fangelsi, sbr. 202. gr. a. réttarfarslaganna.

6.2.2.4. Notkun eftirfararbúnaðar.

Gildandi reglur.
Í Noregi er hvorki heimilað né bannað með lögum að koma fyrir og nota eftirfararbúnað. Árið 1985 komust norski ríkissaksóknarinn og dómsmálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu, að ekki þyrfti lagaheimild til að beita þessari aðferð að uppfylltum vissum skilyrðum. Er þetta í samræmi við það sem tíðkast í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Í janúar 1990 gaf ríkissaksóknarinn út reglur um notkun eftirfararbúnaðar við rannsóknir. Reglurnar hafa ekki verið gerðar opinberar. Skilyrðin eru m.a. þau, að ekki sé gengið lengra en lög heimila. Eftirfararbúnaði verður t.d. ekki komið fyrir inni í bifreið, ef brjótast þarf inn í bifreiðina í þessu skyni. Grunur um alvarlegt brot verður að vera fyrir hendi. Búnað má ekki festa á mann eða handtösku og miðað er við að búnaðurinn miðli ekki hljóði eða mynd.
Meginreglan er sú, að lögreglustjórar taka ákvörðun um notkun eftirfararbúnaðar.

Tillögur nefndarinnar um rannsóknaraðferðir lögreglu.
Nefndin leggur til að lögfest verði ákvæði um notkun eftirfararbúnaðar burt séð frá því hvernig honum er komið fyrir. Lagt er til að notkun þessa búnaðar verði takmörkuð við rannsókn brota sem varðað geta þyngri refsingu en 3 ára fangelsi. Nefndin mælir með því að veitt verði heimild til að koma búnaði fyrir í farangri hins grunaða, t.d. handtösku, og jafnvel í fatnaði hans. Ekki þykja efni til að heimila að koma búnaðinum fyrir á líkama hins grunaða. Til að koma búnaði fyrir í fatnaði hins grunaða og farangri þurfi dómsúrskurð, en annars eigi ákvörðun lögreglustjóra að duga. Ef aðgerðin þolir ekki bið eigi að heimila ákæruvaldi að taka ákvörðun um hana, enda verði leitað heimildar dómara eftir á. Ekki þykir ástæða til að leggja til hversu lengi nota megi búnaðinn í hvert sinn.
Ef rannsókn leiðir ekki til málshöfðunar leggur nefndin til að hinum grunaða verði kynnt að búnaðinum hafi verið beitt, ef dómsúrskurður lá fyrir um notkun hans, en ef notkunin byggðist á ákvörðun lögreglustjóra verði hinum grunaða ekki kunngjört um beitingu búnaðarins.
Ef leitað er heimildar dómara ber að áliti nefndarinnar að tilnefna hinum grunaða lögmann.

6.2.2.5. Skygging, flugumenn, tálbeitur og afhending undir eftirliti.

Gildandi reglur.
Ekki er mælt fyrir um þessar rannsóknaraðferðir í lögum í Noregi. Skygging (spaning) og notkun flugumanna eru taldar heimilar rannsóknaraðferðir í Noregi. Skygging er eftirlitsaðferð þar sem lögreglan hefur alls engin áhrif á framvindu mála.
Samkvæmt skilgreiningu Johs Andenæs er um að ræða flugumenn þegar lögreglumenn eða aðrir á hennar vegum koma sér inn í (infiltrerer) samfélag brotamanna til að afla upplýsinga sem ekki fengjust með venjulegum rannsóknaraðferðum. Lögreglumaðurinn leggur þá gjarnan áherslu á sérstakan klæðaburð, útlit og framkomu til að geta umgengist brotamenn, t.d. fíkniefnafólk, án þess að vekja tortryggni. Í sambandi við notkun flugumanna vakna spurningar um heimildir lögreglu til háttsemi sem undir venjulegum kringumstæðum er refsiverð, t.d. notkunar tilbúinna (rangra) skilríkja og kaupa og vörslu á fíkniefnum. Norski ríkissaksóknarinn hefur sett reglur um þessi atriði og við sérstakar kringumstæður er lögreglu t.d. heimilt að kaupa fíkniefni og hafa þau í vörslum sínum.
Notkun tálbeitu er heimil í Noregi svo framarlega sem aðgerðin leiði ekki til þess að brot sé framið sem ella hefði ekki verið framið. Þetta er á norsku kallað "etterforsking med provokasjonstilsnitt". Um þessa aðferð hefur norski ríkissaksóknarinn sett reglur, sem taka einungis til fíkniefnamála, en í sérstökum tilvikum getur hann heimilað að reglunum verði beitt við rannsókn annarra brota.
Afhending undir eftirliti er heimil í Noregi og eiga Norðmenn aðild að reglum PTN samstarfsins (politi-, toll- og narkotika- samarbeidet) um þessa rannsóknaraðferð.



Tillögur nefndarinnar um rannsóknaraðferðir lögreglu.
Nefndinni þótti ekki ástæða til að mæla með breytingum á reglum um skyggingu, notkun flugumanna eða notkunar á tilbúnum skilríkjum í rannsóknarskyni.
Nefndin velti fyrir sér hvort taka ætti upp sömu skipan og í Danmörku varðandi tálbeitu og setja lög um þessa aðferð. Niðurstaðan varð sú að mæla ekki með því að sú leið verði farin og telur nefndin að ekki hafi vel tekist til hjá Dönum í þessu tilliti. Nefndin skoðaði líka hvort reglurnar um notkun tálbeitu ættu að taka til annarra brota en fíkniefnabrota. Talið var að miklar breytingar væru ekki æskilegar en að notkun þessarar aðferðar ætti að vera möguleg við rannsókn annarra brota.

6.2.2.6. Vitnavernd.
Í Noregi gilda engar almennar reglur um það hvernig lögregla og ákæruvald eigi að bregðast við ef vitni telur að því sé hætta búin. Nefndin telur, að þó lögreglan geti ekki heitið vitni fullkominni nafnleynd takist oft að hagræða málum þannig að nafn þess komi ekki fram. Ef mál stendur og fellur með framburði vitnis eru þó ekki leiðir til að leyna nafni þess við sönnunarfærslu fyrir dómi.
Nefndin gerði ekki sérstakar breytingatillögur varðandi vitnavernd, en mælti með að þetta yrði skoðað frekar.

6.2.2.7. Frestun á að kynna grunuðum um rannsókn.
Talsverð umfjöllun er um þetta atriði í norsku skýrslunni. Almenna reglan er sú, að ekki er heimilt að fresta því að kynna grunuðum um rannsókn. Í Svíþjóð er heimilt að fresta kynningu en í Danmörku er ekki lagaheimild til frestunar, en mun eitthvað tíðkað þar í sambandi við herbergjahleranir og þá með samþykki dómara. Nefndin leggur til að heimilað verði að fresta kynningu um rannsókn í málum vegna brota sem varðað geta meira en 6 ára fangelsi og brota sem varða sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og brota gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.
Kynning á að eiga sér stað svo fljótt sem það má verða án skaða fyrir rannsóknina. Nefndin leggur til að frestun á kynningu verði ekki lengri en 2 mánuðir í hvert sinn. Komi í ljós að þörf sé á frekari frestun verði dómstólar að heimila það. Ekki er mælt með því að heimilt verði að kynna hinum grunaða alls ekki um rannsókn. Þó telur nefndin, að við rannsókn brota sem varða sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og brota gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess kunni að vera ástæða til að hafa þessa heimild. Í þessu sambandi bendir nefndin á, að við rannsóknir fíkniefnamála sé heimilt að kynna hinum grunaða ekki um símhleranir.

6.2.3. Danmörk.

6.2.3.1. Símhlerun.
Samkvæmt 783. gr. réttarfarslaganna (retsplejeloven) er símhlerun heimil við rannsóknir brota sem varðað geta a.m.k. 6 ára fangelsi eða þyngri refsingu og nokkur önnur sérstaklega tilgreind brot. Ákvörðun um símhlerun er tekin af dómstólum að kröfu ákæruvalds. Ef aðgerðin þolir ekki bið getur lögreglan (ákæruvaldið) tekið ákvörðun um símhlerun, en verður þá að leggja málið fyrir dóm svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi innan sólarhrings.
Tilnefna verður hinum grunaða lögmann, sem kemur að dómsmeðferðinni. Án samþykkis lögreglunnar er honum óheimilt að setja sig í samband við hinn grunaða eða gefa öðrum upplýsingar um málið. Ef málið snertir öryggi ríkisins er lögmaður valinn úr sérstökum hópi þeirra.
Upplýsingar, sem aflað er með símhlerun, er heimilt að nota sem sönnunargögn fyrir dómi. Upplýsingar, sem fram koma við símhlerun og varða annað brot en það sem var tilefni símhlerunar, er heimilt að nota í rannsóknarskyni. Slíkar upplýsingar er heimilt að nota sem sönnunargögn fyrir dómi, ef um er að ræða aðstæður sem hefðu í sjálfu sér getað verið grundvöllur símhlerunar.

6.2.3.2. Annars konar hlerun.
Um herbergjahlerun gilda samsvarandi lögfestar reglur og um símhleranir, sbr. 780. gr. réttarfarslaganna. Við vissar kringumstæður er heimilt að fresta því að kynna grunuðum um rannsókn. Heimildin er ekki lögbundin en byggir á réttarvenju. Árið 1995 var lagt til að ákvæði um heimild til slíkra frestana yrðu lögfest.

6.2.3.3. Notkun tálbeitu.
Í 754. gr. réttarfarslaganna er fjallað um virkar tálbeitur (agenter). Danir eru eina þjóðin í Evrópu, sem sett hefur lagareglur um notkun á tálbeitum við rannsóknir sakamála. Skilyrði er að brotið, sem verið er að rannsaka, varði 6 ára fangelsi eða þyngri refsingu. Einungis er heimilt að nota lögreglumenn sem tálbeitu og hefur það haft þau áhrif að heimildin er lítið notuð.

6.2.3.4. Vitnavernd.
Meginreglan er sú að nafnleynd vitna fyrir dómi er ekki heimil í Danmörku. Með dómi Hæstaréttar Danmerkur frá desember 1983 var því þó slegið föstu, að í sérstökum undantekningartilvikum væri heimilt að leiða vitni sem ákærði fengi ekki að vita nein deili á. Árið 1994 var til meðferðar í danska þinginu frumvarp til breytinga á réttarfarslögunum í þá veru að dómstólum væri heimilt að ákveða að upplýsingum um vitni yrði haldið leyndum fyrir ákærða, ef það skerti ekki möguleika hans á að koma að vörnum og hagsmunir vitnisins væru í húfi. Frumvarpið var fellt í þinginu, en álitaefnið er enn til skoðunar.
Á síðasta ári skilaði starfshópur skipaður af danska dómsmálaráðuneytinu skýrslu með tillögum um hvernig megi bæta vitnavernd og bregðast við hótunum gegn vitnum. Er þar m.a. lagt til, að starfsfólk réttarvörslukerfisins fái sérstaka þjálfun í að leiðbeina vitnum um viðbrögð við hótunum. Lagt er til heimildum til þess að loka þinghöldum verði beitt í ríkara mæli og að lögum verði breytt á þann veg að dómari geti ákveðið bann við nafnbirtingu vitnis. Mælt er með því að víkja megi sakborningi úr réttarsal meðan skýrsla er tekin af vitni og að hann geti hlýtt á skýrslutöku í gegnum hljóðkerfi. Einnig er gerð tillaga um að vitni geti notið lögregluverndar við sérstakar aðstæður.

6.2.3.5. Afhending undir eftirliti.
Afhending undir eftirliti er viðtekin rannsóknaraðferð lögreglu í Danmörku varðandi fíkniefnabrot og hefur ríkissaksóknarinn þar sett reglur um framkvæmd hennar. Yfirvöld verða að samþykkja flutning fíkniefna um landið og danska lögreglan verður að taka þátt í aðgerðinni.

6.2.3.6. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu.
Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. dönsku hegningarlaganna er mögulegt við vissar kringumstæður að færa niður refsingu hins ákærða ef hann hefur aðstoðað lögreglu. Í dómi Hæstaréttar Danmerkur frá 17. júní 1998 er fjallað um þetta atriði. Varð niðurstaða réttarins sú, að við refsiákvörðun megi taka tillit til upplýsinga frá ákæruvaldinu um að sakborningur hafi veitt lögreglu og ákæruvaldi aðstoð við rannsókn málsins.

6.2.3.7. Endurskoðun á lögum.
Í október 1998 var lagt fram í danska þinginu frumvarp til breytinga á réttarfarslögunum. Í lagafrumvarpinu er m.a. fjallað um heimildir lögreglu til að nota myndir við rannsóknir, t.d. að sýna vitnum myndir úr myndasafni lögreglu, sakbendingar, aðferðir við að lýsa eftir mönnum í tengslum við sakamál, eftirlit með grunuðum og eftirfararbúnað. Lagt er til að breytingar verði gerðar á 71. kafla laganna. Við 791. gr. eigi að bæta ákvæði um heimild lögreglu til að taka myndir af mönnum eða nota sjónauka eða annan búnað til að fylgjast með mönnum, sem ekki eru staddir á almannafæri. Skilyrði er að þetta skipti miklu máli fyrir rannsóknina og að brotið geti varðað fangelsi. Til að beita megi fjarstýrðum búnaði verður brotið að varða 18 mánaða fangelsi eða þyngri refsingu. Enn strangari skilyrði eru sett ef viðkomandi er staddur á heimili eða í öðru húsrými, m.a. að brotið geti varðað a.m.k. 6 ára fangelsi.
Lagt er til að lögfest verði í 812.-814. gr. ákvæði um myndbirtingar bæði af grunuðum og vitnum. Heimildin til að birta myndir af grunuðum fyrir öðrum en lögreglu er háð þeim skilyrðum að viðkomandi sé undir rökstuddum grun um brot sem varðar ákæru og að aðgerðin hafi verulega þýðingu fyrir rannsóknina. Lögregla taki ákvörðun um myndbirtinguna. Að því er varðar myndbirtingar af brotaþola og öðrum vitnum, sem ekki hafa samþykkt myndbirtingu, verður brotið að geta varðað a.m.k. 18 mánaða fangelsi og birtingin verður að vera mjög þýðingarmikil fyrir rannsóknina. Lagt er til að dómari taki ákvörðun um slíka myndbirtingu og að vitnið fái tækifæri til að tjá sig áður en ákvörðun er tekin.
Lagt er til að í 818-819. gr. laganna komi fram hvenær lögregla má gefa upplýsingar um hinn grunaða og auglýsa eftir honum. Sé um að ræða sterkan grun um að ákveðinn maður hafi framið brot, sem varðað getur a.m.k. 18 mánaða fangelsi, verði lögreglu heimilt að auglýsa eftir manninum í fjölmiðlum, ef það þykir hafa afgerandi þýðingu við að hafa hendur í hári hans eða til að koma í veg fyrir frekari brot hans af sama toga. Ákvörðun um þessi atriði taki lögreglan.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram, að markmiðið sé m.a. að lögfesta ákvæði um tilteknar rannsóknaraðferðir lögreglu og kanna hvort ástæða sé til lagabreytinga varðandi það sem þegar er lögbundið og enn fremur er fjallað um aðferðir sem ekki þykir ástæða til að fjallað sé um í lögum. Er m.a. talið að ekki sé ástæða til að festa í lög ákvæði um eftirfararbúnað (pejling). Er í því sambandi vísað til dóms í Vestri-Landsrétti frá 16. september 1996, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu, að beiting þessarar aðferðar væri ekki réttarfarslegt þvingunarúrræði sem krefðist lagaheimildar og ekki þyrfti heldur að leita heimildar dómara.
Hér má bæta því við, að talið er að notkun hunda við lögreglurannsóknir krefjist ekki lagaheimildar. Ríkissaksóknarinn hefur sett reglur um notkun hunda, sbr. meddelelse nr. 2/1998.

6.2.4. Svíþjóð.

6.2.4.1. Símhlerun.
Heimilt er samkvæmt 27. kafla réttarfarslaganna (rättegångsbalken) að beita símhlerun við rannsókn brota sem varðað geta 2 ára fangelsi eða þyngri refsingu. Aðeins má hlera síma sem hinn grunaði er skráður fyrir eða líklegt er að hann muni nota. Ekki er heimilt að hlera síma sem líklegt er að grunaði muni hringja í. Komið hefur fram tillaga frá ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara um að þessu verði breytt í þá veru að einnig verði heimilt að hlera þá síma. Dómari tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við kröfu ákæruvalds um símhlerun. Heimild til símhlerunar er ekki veitt til lengri tíma en til 1 mánaðar í senn. Ákæruvaldið hefur ekki heimild til að fyrirskipa hlerun meðan beðið er úrskurðar dómara. Heimilt er að afla upplýsinga um notkun tiltekins síma ef brotið sem til rannsóknar er varðar a.m.k. 6 mánaða fangelsi eða ef um fíkniefnabrot er að ræða.
Símhlerun er einnig heimil samkvæmt lögum frá 1952 (särskilda bestemmelser om tvångsmedel i vissa brottmål). Lögin vísa til almennu ákvæðanna í réttarfarslögunum, en heimila að beitt sé hlerunum vegna brota sem þau lög taka ekki á. Er þar um að ræða tiltekin brot sem varða almannahættu og öryggi ríkisins þar sem lágmarkrefsing er undir 2 ára fangelsi. Í lögunum er heimild fyrir ákæruvaldið til að fyrirskipa hlerun ef aðgerð þolir ekki bið eftir úrskurði dómara. Slíkar ákvarðanir skal bera undir dómara, sem tekur ákvörðun um hvort hlerun verður haldið áfram.
Heimilt er að nota upplýsingar sem aflað er með símhlerunum sem sönnunargögn fyrir dómi og það sama á við um upplýsingar sem fram koma, en varða annað brot en það sem var tilefni hlerunarinnar.

6.2.4.2. Annars konar hlerun.
Í Svíþjóð er herbergjahlerun ekki heimil rannsóknaraðferð. Sönnunargögn sem allt að einu er aflað með slíkri hlerun virðist þó vera unnt að leggja fram með vísan til reglunnar um frjálsa sönnunarfærslu. Tillögur um að herbergjahlerun verði heimil rannsóknaraðferð í alvarlegum brotum hafa oft komið fram á undanförnum árum.

6.2.4.3. Frestun á að kynna grunuðum um rannsókn.
Í Svíþjóð er heimilt að framkvæma rannsókn gegn grunuðum manni án þess að honum sé kynnt um það fyrr en það er talið óhætt vegna rannsóknarhagsmuna.

6.2.4.4. Notkun tálbeitu.
Reglur um þessa rannsóknaraðferð eru ekki lögfestar í Svíþjóð en hún er notuð við rannsóknir alvarlegra fíkniefnabrota. Samþykki ríkissaksóknara eða yfirmanns lögreglu þarf til. Skilyrði er að tálbeita (undercover agent) sé sænskur lögreglumaður. Afdráttarlausar reglur skilja þessa rannsóknaraðferð frá ólögmætri hvatningu til brota (ulovlig provokasjon).
Unnið er að endurskoðun á reglum á þessu sviði í því skyni að samhæfa þær reglum um lögreglusamvinnu á vegum Evrópusambandsins.

6.2.4.5. Afhending undir eftirliti.
Heimild til afhendingar undir eftirliti er ekki bundin í lög í Svíþjóð. Telst hún heimil rannsóknaraðferð lögreglu og tollgæslu vegna fíkniefnabrota. Samþykki ríkissaksóknara verður að liggja fyrir. Beiðnum um að fá að beita þessari aðferð er unnt að beina til lögreglu eða tollgæslu.

6.2.4.6. Vitnavernd.
Nafnleynd vitna er ekki heimil í Svíþjóð. Vernd vitna er að nokkru leyti lögákveðin. Dómari getur ákveðið að vitni, sem hefur verið hótað, verði látið í té skilríki, sem ekki gefi til kynna réttar upplýsingar um vitnið.



6.2.5. Finnland.

6.2.5.1. Símhlerun.
Í Finnlandi er heimilt að beita símhlerunum vegna rannsókna á tilgreindum brotum, m.a. manndrápum og grófum ránum. Leita verður heimildar dómara til símhlerunar og getur hlerunarheimild verið til allt að eins mánaðar í senn.
Hinum grunaða er hvorki kynnt að óskað hafi verið heimildar til hlerunar né að heimild hafi verið veitt. Þegar hleruninni lýkur ber að tilkynna honum um hana nema dómari hafi ákveðið að því skuli fresta eða að honum skuli alls ekki tilkynnt um hana.
Upplýsingar, sem fram koma við símhlerun er heimilt að nota sem sönnunargögn. Hvað varðar upplýsingar sem fram koma við símhlerun og snerta annað brot en það sem var tilefni hlerunar er meginreglan sú, að slíkar upplýsingar megi því aðeins nota að þær hefðu í sjálfu sér getað verið grundvöllur símhlerunar.

6.2.5.2. Aðrar hlerunaraðferðir.
Með lagabreytingum árið 1995 (tvångsmedelslagen og polislag) var lögreglu heimilað að nota tæknibúnað við eftirlit (teknisk observasjon). Í því felst m.a. hlerun með tæknibúnaði (teknisk avlyssing), sem ætla verður að heimili m.a. herbergjahlerun. Heimild til að slíkra hlerana er bundin því skilyrði að um sé að ræða rökstuddan grun um brot sem varðað getur a.m.k. 4 ára fangelsi, fíkniefnabrot eða tilraun til brota af þessu tagi. Ekki er nauðsynlegt að leita til dómstóla varðandi þessar hleranir. Ákvörðun er tekin af stjórnanda rannsóknar og ber honum að kynna yfirmanni sínum innan lögreglunnar um það innan sólarhrings.
Heimildin til að beita þessum hlerunum er skilyrðum háð einkum með tilliti til staðsetningar. Hlerun er t.d. ekki heimil í bifreið, sem notuð er af hinum grunaða, og ekki á heimili hans. Heimilt er að hlera grunaða, sem staddir eru á almannafæri og hótelherbergi og viðlíka staði má hlera. Við sérstakar aðstæður veita finnsku lögreglulögin undanþágu frá þessum reglum og heimila hlerun á þeim stöðum sem annars er óheimilt að hlera.
Upplýsingar, sem aflað er með hlerunum, er heimilt að nota sem sönnunargögn fyrir dómi. Meginreglan varðandi upplýsingar, sem fram koma við hlerun og varða annað brot en það sem var tilefni hlerunar, er sú að þeim ber að eyða, en heimilt er að nota þær við vissar kringumstæður. Sömu reglur gilda um tilkynningar til hins grunaða varðandi þessar hleranir og símhleranir.

6.2.5.3. Afhending undir eftirliti.
Ekki er mælt fyrir um afhendingu undir eftirliti í lögum í Finnlandi. Heimilt er að beita þessari rannsóknaraðferð við rannsóknir fíkniefnabrota og grundvallast það á reglugerðum og gagnkvæmum milliríkjasamningum. Samþykki finnskra yfirvalda, ríkisrannsóknarlögreglu, ríkistollgæslu eða höfuðstöðva landamæravörslu, verður að liggja fyrir.

6.2.5.4. Notkun tálbeitu
Engar reglur gilda um notkun tálbeitu í Finnlandi. Rannsóknaraðferðinni hefur þó verið beitt í takmörkuðum mæli við rannsókn grófra fíkniefnabrota samkvæmt ákvörðun yfirmanns í lögreglu eða tollgæslu. Finnsk lög heimila ekki þátttöku tálbeita (flugumanna) í afbrotum.


6.2.5.5. Vitnavernd.
Engar reglur gilda um vitnavernd í Finnlandi. Nafnleynd vitna er ekki möguleg.

6.2.5.6. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu.
Samkvæmt finnsku hegningarlögunum er heimilt að færa niður refsingu hins ákærða, ef hann hefur aðstoðað lögreglu við rannsókn máls á hendur sér.

6.2.6. Holland.

6.2.6.1. Símhlerun.
Símhleranir eru heimilar eftir hollenskum rétti við rannsóknir allra brota sem varðað geta þyngri refsingu en 4 ára fangelsi og er beiting aðferðarinnar háð samþykki dómara. Sérstakar reglur eru um símhleranir við rannsóknir brota sem snerta þjóðaröryggi.

6.2.6.2. Afhending undir eftirliti.
Afhending undir eftirliti er viðtekin aðferð lögreglu vegna fíkniefnabrota sem ríkissaksóknari verður að samþykkja fyrirfram. Flutningur fíkniefna yfir landamæri er mögulegur samkvæmt Schengen samningnum, en skilyrði er að hollenskum yfirvöldum sé tilkynnt um hann fyrirfram. Sett hefur verið á fót nefnd til að yfirfara og samþykkja beitingu sérstakra rannsóknaraðferða í hverju máli fyrir sig. Þingnefnd hefur skoðað beitingu ákveðinna "viðkvæmra" rannsóknaraðferða og var það til meðferðar í hollenska þinginu 1996 samkvæmt skýrslu Europol.

6.2.6.3. Notkun tálbeitu.
Strangar reglur gilda um þessa rannsóknaraðferð lögreglu, sem starfar samkvæmt leiðbeiningum ríkissaksóknara að þessu leyti. Lögreglumenn einir virðast geta verið tálbeitur og lögð er áhersla á að þeir hvetji ekki til brota.

6.2.6.4. Vitnavernd.
Samkvæmt skýrslu Europol var unnið að löggjöf um þetta 1996. Þá var heimilt í sérstökum tilvikum, svo sem ef vitni var talið í lífshættu að halda nafni vitnis leyndu við dómsmeðferð.

6.2.6.5. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu.
Ef sakborningur vitnar gegn samverkamanni að broti er ákæruvaldi heimilt að falla frá málsókn gegn honum.

6.2.7. Bretland.

6.2.7.1. Símhlerun.
Heimild til símhlerana var lögfest í Bretlandi árið 1985 (Interception of Communications Act). Ráðherra (Secretary of State) ákveður hvort símhlerun skuli beitt. Til að leyfi fáist verður að liggja fyrir, að brotið sem verið er að rannsaka varði þjóðaröryggi, að verið sé að koma í veg fyrir eða upplýsa alvarlegan glæp eða að með aðgerðinni sé verið að vernda fjárhagslegt öryggi Bretlands. Samþykki annars aðilans að símtali nægir til að hlerun símtalsins teljist lögmæt.
Það er algert og lögfest bann við því að nota upplýsingar sem fást með símhlerunum sem sönnunargögn fyrir dómi og ekki er heldur heimilt að upplýsa að hlerun hafi átt sér stað.

6.2.7.2. Afhending undir eftirliti.
Afhending er undir eftirliti er viðtekin rannsóknaraðferð lögreglu og tollgæslu við rannsókn fíkniefnabrota. Ef aðferðinni er beitt vegna inn- og útflutnings er það á ábyrgð tollgæslu, en ef um flutning innanlands er að ræða er það bæði á ábyrgð tollgæslu og lögreglu.

6.2.7.3. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu.
Dómari getur fært niður refsingu sakbornings í fíkniefnamáli, sem vitnað hefur gegn samverkamönnum sínum. Um þetta gilda sérstakar reglur frá ríkissaksóknara (Attorney General}s guidelines).

6.2.8. Frakkland.

6.2.8.1. Símhlerun.
Í Frakklandi er heimilt að beita símhlerunum við rannsókn brota sem varðað geta 2 ára fangelsi eða þyngri refsingu. Leita verður heimildar dómara. Upplýsingar sem fram koma við símhlerun er heimilt að nota sem sönnunargögn. Um sérstök brot svo sem hryðjuverk og skipulagða brotastarfsemi gilda sérstakar reglur. Heimild til símhlerana vegna slíkra brota veitir ríkisstjórnin og upplýsingar sem fram koma verða ekki notaðar sem sönnunargögn.

6.2.8.2. Afhending undir eftirliti.
Afhending undir eftirliti er lögfest rannsóknaraðferð lögreglu og tollgæslu vegna fíkniefnabrota, háð eftirliti dómsmálaráðuneytisins. Samkvæmt Schengen samningnum er flutningur fíkniefna yfir landamæri heimill, en tilkynna verður frönskum yfirvöldum um hann. Að öðrum kosti er flutningurinn ólögmætur.

6.2.8.3. Notkun tálbeitu.
Bæði lögreglu og tollgæslu er heimilt að nota þessa rannsóknaraðferð samkvæmt lögum frá desember 1991, en hún er háð samþykki ríkissaksóknara. Skilyrt er að tálbeitan (flugumaðurinn) hvetji ekki til brota sem ella hefðu ekki verið framin.

6.2.8.4. Aðstoð við lögreglu – áhrif á refsingu.
Ef ákærður maður hefur á rannsóknarstigi aðstoðað lögreglu með umtalsverðum hætti á hann samkvæmt lögum rétt á að refsing hans verði lækkuð um allt að helmingi. Ef aðstoð hins ákærða kemur til síðar í málsmeðferðinni, t.d. við dómsmeðferð, en skiptir samt máli, getur ákærði átt von á lægri refsingu en ella en þó ekki í sama mæli sem í fyrrgreinda tilvikinu.


7. KAFLI
Tillögur nefndarinnar um sérstakar rannsóknaraðferðir

7.1. Breytingar á ákvæðum X. kafla laga oml. varðandi símhleranir, aðrar hleranir, myndatökur, eftirfararbúnað o.fl.

7.1.1. Inngangur.

Á rúmum tveimur áratugum hefur réttur sakborninga við rannsókn opinbers máls verið styrktur verulega í íslenskri löggjöf. Síðustu meginbreytingar í þessu efni tóku gildi 1. júlí 1992 með lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Ýmis ákvæði laganna fólu í sér skýrari fyrirmæli en áður höfðu verið fest í lög um rétt og skyldu sakborninga og verjenda þeirra svo og um rannsóknarheimildir lögreglunnar.
Með lagaákvæðum og öðrum fyrirmælum um sérstakar rannsóknarferðir lögreglunnar vakna enn spurningar sem lúta að réttaröryggi borgaranna enda sýnt að þessar sérstöku rannsóknaraðferðir sem um er fjallað geta snert og skert friðhelgi einkalífs og persónuvernd og þá sérstaklega 86.-88. gr. laganna sem fjalla um símhleranir og aðrar hleranir, hljóðupptökur, myndatökur o.fl. Með lögum 36/1999 voru gerðar breytingar á 87. gr. oml. sem miða að því að tryggja frekar rétt sakborninga gagnvart símhlerunum þar sem fallið var frá þeirri skipan að samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma nægði til þess víkja frá skilyrði um dómsúrskurð.
Í tillögum sínum leggur nefndin áherslu á að réttaröryggi borgaranna sé varið og treyst gagnvart sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglunnar, einkum í fyrrgreindum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála. Ákvæðin sem fjalla um framangreindar rannsóknaraðferðir eru í þeim kafla laganna sem fjalla um um hald o.fl. Nefndin leggur til að við heildarendurskoðun laganna um meðferð opinberra mála verði þessum ákvæðum skipað í sérstakan kafla, ásamt ákvæði 80. gr. laganna sem fjallar um heimildir lögreglu til þess að leggja hald á og rannsaka innihald póstsendinga. Myndi heiti slíks kafla bera með sér að þar væri um að ræða heimild til að skerða rétt sakbornings til leynilegra tjáskipta.
Í ljósi þess hversu mikilvæg skerðing á friðhelgi einkalífs er fólgin í 86.- 88. gr. oml. og hversu algeng beiting þessara ákvæði er í raun leggur nefndin til að kaflaheiti X. kafla laganna beri með sér að þar sé fjallað um þessar aðgerðir. Er eðlilegt að þessara mikilvægu en jafnframt vandmeðförnu rannsóknarheimilda sé getið með einhverjum hætti í heiti kaflans og er því lagt til að það verði: Hald á munum, símhlerun, önnur hlerun o.fl.
Einnig leggur nefndin til að orðalagi í ákvæðum 80. og 87. gr. oml. verði breytt í það horf að tekið verði tillit til breyttrar skipunar póst- og símamála hér á landi. Í stað þess að rætt sé um Póst og síma, sbr. 1. mgr. 80. gr. og um yfirvöld í 86. gr., verði rætt í einu lagi um aðila sem rekur póst- eða fjarskiptaþjónustu. Sækir hið nýja orðalag fyrirmynd sína í lög nr. 142/1996 um póstþjónustu og lög nr. 143/1996 um fjarskipti.

7.1.2. Heimild til notkunar eftirfararbúnaðar bætt við 86. gr. oml. og rannsóknaraðgerðir skilgreindar nánar.
Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 86. gr. oml. Lagt er til að bætt verði við ákvæðið heimild til notkunar á eftirfararbúnaði. Að öðru leyti er breytingunum ætlað að skilgreina ítarlegar rannsóknaðgerðir samkvæmt ákvæðinu, einkum heimildir til myndatöku. Leggur nefndin til að 86. gr. verði svohljóðandi:

Í þágu rannsóknar máls og með þeim skilyrðum sem greind eru í 87. gr. getur lögreglan:
a. hlerað, tekið upp og afritað símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma eða annað fjarskiptatæki,
b. aflað upplýsinga um hvaða símar eða önnur fjarskiptatæki tengjast eða hafa tengst tilteknum síma eða öðru fjarskiptatæki,
c. hlerað, tekið upp og afritað önnur samtöl, aðra orðræðu eða annars konar hljóð eða merki með sérstökum tæknibúnaði,
d. tekið myndir af fólki eða fylgst með fólki í sjónauka eða með sjálfvirkum eða fjarstýrðum myndatökubúnaði eða öðrum sambærilegum tæknibúnaði á stað sem almenningur á ekki aðgang að,
e. komið fyrir búnaði til eftirfarar inni í bifreið eða öðru farartæki, varningi eða á manni, t.d. í veski, handtösku eða í fatnaði hans, eða farið inn í læsta geymslu eða hirslur til að koma slíkum búnaði fyrir.

Eins og lýst var í kafla 5.8. að framan hefur notkun lögreglu á eftirfararbúnaði bæði hér á landi og í nágrannaríkjum færst í vöxt á undanförnum árum. Tækjabúnaðar af þessum toga er þó hvergi getið í lögum um meðferð opinberra mála. Nefndin leggur til að í e-lið 86. gr. laganna verði veitt heimild til þess að koma fyrir eftirfararbúnaði inni í bifreið eða öðru farartæki, varningi eða á manni eða fara inn í læsta geymslu eða hirslur til þess að koma slíkum búnaði fyrir. Yrði heimild til slíkra aðgerða þó háð því að dómsúrskurður liggi fyrir eins og nánar verður rakið í umfjöllun um breytingar á 87. gr. oml. Verði eftirfararbúnaði hins vegar komið fyrir þannig að hann sé festur á ökutæki eða varning á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að megi þó falla frá skilyrði um dómsúrskurð. Verður gerð nánari grein fyrir þeirri tillögu nefndarinnar í umfjöllun breytingar á 87. gr.oml.
Nefndin leggur til, samhliða fyrrgreindum tillögum að lagabreytingum, að ríkissaksóknari setji nánari fyrirmæli eða verklagsreglur fyrir lögreglustjóra um notkun eftirfararbúnaðarins.
Loks leggur nefndin til að ákvæði um myndatöku í d-lið 86. gr. verði gert skýrara er nú er. Stefnt er að því að ákvæðið nái til þeirrar aðstöðu að beitt sé sérstökum tækjabúnaði til myndatöku, t.d. aðdráttarlinsu á myndavél, eða notaður er sjálfvirkur eða fjarstýrður myndatökubúnaður með leynd til þess að taka myndir af mönnum jafnvel þótt slíkt eigi sér stað á almannafæri. Það sama gildir ef teknar eru myndir af manni á stað sem almenningur á ekki aðgang að.

7.1.3. Tímamörk aðgerða, talning brota sem réttlæta aðgerðir o.fl. breytingar á 87. gr. oml.
Nefndin leggur til nokkuð umfangsmiklar breytingar á 87. gr. oml. og að ákvæðið verði svohljóðandi:

1. Til aðgerða sem taldar eru upp í 86. gr. þarf úrskurð dómara. Þó ber að veita lögreglu upplýsingar skv. b-lið þeirrar greinar án dómsúrskurðar ef fyrir liggur samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis. Í úrskurði skal m.a. taka fram hvaða síma eða fjarskiptatæki sé um að ræða, sbr. a- og b-lið, og hvar og með hverjum hætti samtöl, önnur orðræða, hljóð eða merki skulu numin eða myndir teknar, sbr. c-, d- og e-lið. Heimild til aðgerðar skal standa lengst í fjórar vikur og skulu tímamörk ákveðin í úrskurðinum. Tímamörkin má framlengja með dómsúrskurði, lengst til fjögurra vikna hverju sinni.
2. Eftirfarandi skilyrði verða að vera fyrir hendi svo heimila megi aðgerð skv. 86. gr.:
a. að ástæða sé til að ætla að á þann hátt sem um ræðir hafi grunaði samskipti við aðra eða aðrir við hann,
b. að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þessum hætti,
c. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi, ásetningsbroti gegn X. kafla og 262. gr. almennra hegningarlaga eða brotum gegn XI. kafla, 108. gr., 1. mgr. 111. gr., 112. gr., 1. mgr. 168. gr., 1. mgr. 176. gr, 225. gr., 233. gr. og 251. gr. almennra hegningarlaga.
3. Að uppfylltum skilyrðum a- og b-liðar má ennfremur heimila að aflað verði upplýsinga um tengingu eða samskipti tiltekinna síma ef um er að ræða ítrekað brot gegn 232. gr. almennra hegningarlaga. Sama gildir um brot gegn 249. gr. a, 1. og 2. mgr. 257. gr. og 2. mgr. 259. gr. ef brot er framið með því að notuð er fjarskiptaþjónusta.
4. Hlerun samkvæmt c-lið 86. gr. má einungis heimila þegar rannsókn beinist að broti sem þegar hefur stofnað eða getur stofnað lífi manns í hættu eða það ógnar velferð manna eða verulegum almannahagsmunum.
5. Í þágu rannsóknar má lögreglan taka upp hljóð, taka myndir og festa eftirfararbúnað á bifreið eða annað farartæki eða varning á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að án þess að skilyrðum 1. og 2. mgr. sé fullnægt.
6. Aðilum sem reka póst- og fjarskiptaþjónustu, opinberum eða einkareknum ber að aðstoða lögregluna, eftir því sem þörf krefur, við aðgerðir sem fjallað er um í þessum kafla laganna og ráðist er í samkvæmt heimild í dómsúrskurði eða samkvæmt beinni lagaheimild, sbr. 2. málslið 1. mgr. 87. gr.
7. Aðilum sem reka fjarskiptaþjónustu er skylt að veita lögreglu upplýsingar um fyrir hvaða símtækjum og símanúmerum tiltekinn einstaklingur er skráður sem eigandi, umráðamaður eða notandi þótt hvorki nafn hans né viðkomandi símanúmer komi fram í símaskrá sem almenningur hefur aðgang að.

Nefndin leggur til að þeim rannsóknaraðgerðum sem taldar eru 86. gr. oml. verði markaður ákveðinn tími í lögum, sbr. 1. mgr. 87. gr. Samkvæmt núgildandi lögum er skylt að setja aðgerð ákveðin tímamörk í dómsúrskurði en þau eru ekki nánar tilgreind þar. Eins og fram kemur í yfirliti um notkun þessara aðferða á undanförnum árum í kafla 5.2.2. er algengast að heimildir séu veittar til 0-30 daga og allt að 2 mánuði, en dæmi eru þó um mun lengri tímabil eða allt að 7 mánuði í senn. Þrátt fyrir skýr lagaákvæði um að aðgerð skuli marka tíma eru líka nokkur dæmi um að heimild til símhlerunar eða annarrar hlerunar hafi verið veitt án tilgreindra tímamarka. Nefndin leggur til að tímabil heimildar sem ákveðið verði í lögum um meðferð opinberra mála verði fjórar vikur. Er hér m.a. tekið mið af löggjöf annarra Norðurlanda um tímamörk aðgerðar svo og fyrrgreindum tölulegum upplýsingum um þau tímamörk sem algengast er að dómstólar úrskurði. Með því að festa í lög ákveðinn hámarkstíma sem aðgerðir geta varað er bæði dómstólum og lögreglu veitt ákveðið aðhald í þessum efnum. Verði þörf á lengri tíma fyrir aðgerð getur lögregla óskað eftir dómsúrskurði um framlengingu en rökstyðja þarf rannsóknarþarfirnar fyrir dómi.
Veigamestu tillögur til breytinga á 87. gr. oml. lúta að 2. mgr. ákvæðisins. Í a-lið ákvæðisins er breytt lítillega orðalagi um skilyrði aðgerða. Samkvæmt því skal liggja fyrir, t.d. við úrskurð um símhlerun, að grunaði eigi símtækið sem um er að ræða eða sé umráðamaður þess og/eða að líklegt sé að hann muni nota það. Þótt þetta ákvæði hafi ekki verið orðað í lagagreininni áður er ekki talið að það feli í sér ný skilyrði. Í b-lið ákvæðisins er lagt til að eftir sem áður verði miðað við rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum 8 ára fangelsi. Nefndin leggur hins vegar til að fallið sé frá þeirri tilhögun að almenn tilvísun til almanna- og einkahagsmuna geti réttlætt þessar aðgerðir þegar brot varða lægri refsingu en 8 árum. Með slíkri tilvísun er í reynd opnað fyrir nokkuð óheft svigrúm til að fallast á aðgerðir sem nefndin telur óheppilegt að sé til staðar þegar um ræðir svo alvarlega skerðingu á friðhelgi einkalífs. Af þeirri ástæðu leggur hún til að tilgreina beri þau brot almennra hegningarlaga sérstaklega sem réttlætt geti símhlerun ef refsimörk þeirra eru lægri en 8 ára fangelsi. Þessi brot eru öll ásetningsbrot gegn ákvæðum X. kafla um landráð sem hafa lægri refsimörk en 8 ára fangelsi og öll brot gegn ákvæðum XI. kafla um brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess sem hafa lægri refsimörk en 8 ára fangelsi. Einnig er vísað til stórfellds skatta- og tollalagabrots í 262. laganna, 1. mgr. 111. gr. um aðstoð við að frelsa handtekinn mann eða fanga, 112. gr. um aðstoð við eftirför, 1. mgr. 168. gr. röskun á öryggi samgöngutækja, 1. mgr. 176. gr. um truflun á rekstri samgöngutækja, samskiptafyrirtækja og orkuveitna, nauðungarbrots í 225. gr., hótunarbrots í 1. mgr. 233. gr. og 251. gr. laganna um fjárkúgun. Loks er talin í ákvæðinu 108. gr. laganna, sbr. tillögu nefndarinnar um nýtt ákvæði með því greinarnúmeri sem lýsi refsiverðar ógnanir gagnvart vitnum.
Í 3. mgr. 87. gr. er, auk þeirra tilvika sem áður er getið, ráðgert að unnt sé að beita aðgerðum skv. 86. gr. þegar um ræðir brot sem eru beinlínis fólgin í því að nota fjarskiptaþjónustu, t.d. tölvubrot.
Í 4. mgr. 87. gr. er nýmæli sem miðar að því að þrengja nokkuð þá aðgerð sem lýst er í c.-lið 86 gr. og fjallar um annars konar hleranir en símhleranir svo sem herbergjahlerun og hljóðupptöku af orðræðum manns og samræðum fólks. Þar sem þessi aðgerð þykir ganga einna lengst í skerðingu á friðhelgi einkalífs er lagt til að rannsókn verði að beinast að broti sem þegar hefur stofnað eða getur stofnað lífi manns í hættu eða ógnað velferð manna eða verulegum almannahagsmunum.
Nefndin telur notkun eftirfararbúnaðar sem lýst er í 5. mgr. 87. gr. heimila sem lið í skyggingum lögreglu án lagaheimildar. Hefur eftirfararbúnaði verið beitt um nokkurt skeið hér á landi með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu. Nefndin telur þó tryggara að taka af allan vafa í þessum efnum og að í lögum sé gert ráð fyrir notkun eftirfararbúnaðar. Hafa ber einnig í huga að eftirfararbúnaðar er einnig getið í e.-lið 86. gr. samkvæmt tillögu nefndarinnar, en notkun hans með þeim hætti sem þar er lýst krefst dómsúrskurðar skv. 1. og 2. mgr. 87. gr.
Í 6. mgr. 87. gr. leggur nefndin til að skýrt sé kveðið á um skyldu aðila sem reka póst- og fjarskiptaþjónustu, til þess að aðstoða lögreglu við aðgerðir sem heimilaðar eru í 86. og 87. gr. hvort heldur eftir beinni lagaheimild eða dómsúrskurði.
Loks leggur nefndin til að sérstaklega verði kveðið á um það í 7. mgr. 87. gr. að aðilum sem reka fjarskiptaþjónustu sé skylt að veita lögreglu upplýsingar um hvaða símtækjum eða símanúmerum einstaklingur er skráður fyrir. Þannig yrði slíkum aðila skylt, án undangengins dómsúrskurðar, að veita upplýsingar t.d. um hvert væri leyninúmer manns eða önnur númer sem skráð eru á nafni hans. Sami maður getur verið skráður fyrir mörgum númerum og getur slík skráning tekið örum breytingum. Eftir að upplýsingar hafa verið veittar um hvaða símanúmerum maður er skráður fyrir ber að sjálfsögðu eftir sem áður að leita dómsúrskurðar um hlerun viðkomandi síma eða til að fá upplýsingar um notkun viðkomandi símanúmers.

7.1.4. Sérstakur lögmaður við dómsmeðferð kröfu lögreglunnar um heimild til að beita sérstakri rannsóknaraðferð.
Til þess að beita þeim sérstöku rannsóknaraðferðum sem ætla má að hafi í för með sér alvarlegustu röskunina á friðhelgi einkalífs og persónuvernd, svo sem símhlerun og aðra hlerun, þarf lögreglan heimild dómstóla skv. 87. gr. oml. eins og áður hefur verið lýst. Þegar kröfur lögreglunnar um heimild til aðgerðanna eru teknar fyrir á dómþingi er grunaði þar ekki og honum er að sjálfsögðu hvorki kynnt krafa lögreglunnar né úrskurður réttarins að svo stöddu.
Nefndin hefur íhugað hvort leggja beri til að mælt verði fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála að skipa beri lögmann fyrir þann sem þessar alvarlegustu rannsóknaraðgerðir eiga að beinast gegn þegar beiðni um heimild til aðgerðar er tekin fyrir á dómþingi. Í dönsku réttarfarslögunum, 784. og 785. gr., er mælt fyrir um slíka skipan. Nefnd á vegum norska dómsmálaráðuneytisins sem fjallaði um rannsóknaraðferðir lögreglunnar og skilaði tillögum í mars 1997 lagði til að þetta fyrirkomulag yrði tekið upp.
Hlutverk lögmannsins myndi vera í því fólgið að kanna þau gögn sem fylgja kröfu lögreglunnar, tjá sig um hana og eftir atvikum andmæla eða andæfa henni og lýsa efasemdum um réttmæti hennar. Fær dómarinn þannig andstæð sjónarmið fram í málinu áður en hann kveður upp úrskurð sinn. Lögmaðurinn hefði síðan heimild til að kæra úrskurð dómara til Hæstaréttar. Störf skipaðs lögmanns ættu að stuðla að því að lagafyrirmælum verði fylgt á umræddu sviði og þannig efla þau réttaröryggi borgaranna. Skipaður lögmaður má hins vegar ekki hafa neitt samband við þann sem aðgerð á að beinast gegn eða aðra nema með samþykki lögreglu. Í reynd má segja að hann sé ekki einvörðungu talsmaður þess manns heldur einnig fulltrúi almennings eða borgaranna við meðferð dómkröfunnar.
Niðurstaða nefndarinnar er að leggja til að nýtt ákvæði, 87. gr. a, komi í lögin svohljóðandi:


1. Áður en dómari tekur ákvörðun um heimild til aðgerða skv. 86. gr. ber að skipa þeim sem aðgerðin varðar lögmann og skal honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna.
2. Tilkynna ber skipuðum lögmanni um þinghöld í málinu og gefa honum kost á að kynna sér gögn málsins, fá afrit þeirra og taka til varna. Dómari getur með úrskurði ákveðið að afrit málsgagna verði ekki afhent ef rökstuddir rannsóknarhagsmunir krefjast þess eða ástæða er til sérstaks trúnaðar.
3. Þagnarskylda hvílir á lögmanninum um málið og er honum óheimilt að veita þeim sem aðgerðin beinist gegn eða öðrum upplýsingar er það varða eða aðgang að gögnum.
4. Um skipun lögmanns samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti sömu reglur og um skipun verjanda samkvæmt lögum þessum. Dómari getur ákveðið að kröfu lögreglu að lögmaðurinn megi ekki síðar gegna starfi verjanda fyrir sakborning eða aðra sem sem tengjast málinu.

7.1.5. Skylda til að tilkynna um rannsóknaraðgerð eftir lok hennar og heimild til þess að víkja frá henni.

Með 2. mgr. 88. gr. laga um meðferð opinberra mála er mælt fyrir um að birta skuli úrskurð um aðgerð samkvæmt 86. gr. laganna, svo sem herbergjahlerun og símhlerun, fyrir þeim sem aðgerð beinist gegn eða tilkynna þeim um hana svo fljótt sem verða má eftir að aðgerð er lokið, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum segir um þetta ákvæði: "Þetta síðastnefnda atriði ætti að tryggja að ekki verði gripið til þeirra ráðstafana sem hér um ræðir, nema í algerum undantekningartilvikum."
Nefndin leggur ekki dóm á hvort þetta ákvæði í 2. mgr. 88. gr. laga um meðferð opinberra mála hafi leitt til þess sem að var stefnt og hefur ekki kannað rækilega hvort lögreglan hefur fylgt fyrirmælum lagaákvæðisins nákvæmlega. Í umræðum nefndarinnar hefur verið bent á að lögreglan sjálf meti hvenær birta megi úrskurð eða tilkynna um aðgerð þannig að ekki skaði frekari rannsókn og kunni að vera tilhneiging til þess hjá lögreglunni að draga slíkar aðgerðir á langinn. Sýnt er að misbrestur er á því að ákvæðið gildi fortakslaust í framkvæmd. Nefndin fellst á þau sjónarmið að við sérstakar aðstæður geti það spillt fyrir störfum lögreglu að tilkynna grunuðum manni formlega að rannsóknaraðgerð hafi farið fram þegar t.d. tímabili símhlerunar lýkur. Á það einkum við um þau mál sem grunaður maður, sem enn er talinn virkur í brotastarfsemi, kann að tengjast. Nefndin telur hins vegar heppilegra að ákvörðun um að nauðsynlegt sé að víkja frá tilkynningaskyldu sé í höndum dómstóla frekar en lögreglu og að bein lagaheimild sé til slíks fráviks. Það sama á við ef verulegar tafir verða á því að senda slíka tilkynningu til þess að rannsókn máls skaðist ekki. Í núgildandi 2. mgr. 88. gr. er gert ráð fyrir að annaðhvort sé úrskurður birtur eða tilkynnt um aðgerð, án þess að nánar sé tilgreint hvorri aðferðinni skuli beita. Telur nefndin óþarft að gera sérstakan greinarmun á þessu tvennu enda óljóst hvaða rök liggja honum að baki. Til þess að framfylgja tilkynningaskyldu samkvæmt ákvæðinu telur nefndin nægilegt að sakborning sé send tilkynning um að rannsóknaraðgerð hafi farið fram. Rétt er að útbúin verði stöðluð tilkynning í þessu skyni. Óski sakborningur eftir því að sjá úrskurðinn verði skylt að láta honum úrskurðinn í té.
Þá virðist nefndinni eðlilegt fyrirkomulag að ákveðið verði að dómstóllinn annist að tilkynna um aðgerðina þegar henni er lokið sbr. 2. mgr. 88. gr. Ekki kemur nú fram í núgildandi lagaákvæði hver eigi að sjá um birtingu eða tilkynningu en sýnt þykir að dómstólar hafa ekki talið það viðfangsefni sitt.
Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið leggur nefndin til að 2.-4. mgr. 88. gr. verði svohljóðandi:


2. Þegar aðgerð skv. 86. gr. er lokið skal þeim sem aðgerð beinist að, þar á meðal sakborningi og eiganda eða umráðamanni síma, fjarskiptatækis, staðar eða húsnæðis tilkynnt um hana. Tilkynna skal um aðgerð eins fljótt og mögulegt er, hafi lögreglan ekki, í síðasta lagi 14 dögum áður en tímabilið sem aðgerðin stendur rennur út, sett fram beiðni um að tilkynning falli niður eða verði frestað, sbr. 4. mgr. Senda ber skipuðum lögmanni skv. 87. gr. a. afrit tilkynningar.
3. Dómari getur ákveðið að kröfu lögreglu að ekki verði tilkynnt um aðgerð eða því frestað um nánar tiltekinn tíma ef sýnt er fram á að sérstaklega ríkar ástæður mæli gegn því, t.d. að stefnt sé í hættu rannsókn máls eða tengdra mála. Ber að veita skipuðum lögmanni skv. 87. gr. a. kost á að tjá sig um frestun eða niðurfellingu tilkynningar áður en dómari tekur ákvörðun.
4. Héraðsdómur, þar sem úrskurður skv. 87. gr. er kveðinn upp, skal annast sendingu tilkynningar um aðgerð.

7.2. Reglur um upplýsingagjafa.

7.2.1. Áhrif upplýsingagjafar á ákvörðun refsingar.

Nefndin telur ástæðu til þess að hugað verði að því hvort ekki sé rétt að lögfesta jákvæð ákvæði í hegningarlögum sem mæli fyrir um heimild til að færa niður refsingu þegar maður upplýsir um aðild sína og annarra að broti eða um önnur brot eða brot sem fyrirhugað er að drýgja og aðild að þeim. Koma hér einkum til skoðunar ákvæði 70. gr. og 74. gr. alm. hgl. Einnig má telja eðlilegt í þessu sambandi að íhuga breytingar á lagaákvæðum um skilorðsbundna frestun ákæru, skilorðsbundna dóma, samfélagsþjónustu og reynslulausn. Ennfremur er hugsanlegt að hreinskilnisleg játning og upplýsingar um aðild að broti hafi áhrif á tímasetningu afplánunar og afplánunarstað. Meðal annars kemur hér til athugunar hvort erlendum ríkisborgara verði leyft að afplána refsingu í heimalandi sínu. Þessi úrræði snúa að mönnum sem uppvísir verða að afbrotum og stuðla að því að afbrot og aðild að þeim upplýsist til hlítar með minni fyrirhöfn og kostnaði en ella.
Jákvæð lagaákvæði í þá veru að brotamaður hafi hag af samvinnu við lögreglu og dómstóla til að upplýsa mál verða að teljast mjög æskileg í þágu rannsókna á fíkniefnabrotum og öðrum brotaflokkum. Um refsingu verður ekki samið fyrirfram, en reynslan sýnir að dómstólar taka ríkt tillit til afstöðu sakbornings til ákæru og persónulegra aðstæðna. Því er mikilvægt að lögregla upplýsi, í rannsóknargögnum, með upplýsingaskýrslum eða öðrum hætti, um framferði sakbornings við rannsókn og viðleitni hans við að upplýsa afbrot sem hann á aðild að sem og önnur afbrot.
Með hliðsjón af framansögðu leggur nefndin til eftirfarandi breytingar á 70. gr. alm. hgl. þannig að við 8. tölul. 1. mgr. ákvæðisins bætist nýr málsliður svohljóðandi:

Sérstaklega má meta til refsilækkunar ef maður upplýsir um aðild annarra að brotinu.

Ríkissaksóknari í Danmörku hefur gefið ákærendum leiðbeiningar um að kynna megi sakborningi formlega að upplýsingagjöf hans geti leitt til refsilækkunar er dómstólar ákveða refsingu. Lagt er til að ríkissaksóknari sendi slíkar leiðbeiningar til ákærenda hér á landi. Markmið þeirra er að kynna sakborningi að ákæruvaldið muni gera grein fyrir því að hann hafi veitt aðstoð með upplýsingum um samseka sem er atriði er áhrif getur haft til refsimildunar. Þetta á ekki að gera nema í alvarlegustu málum, t.d. meiri háttar fíkniefnamálum, málum um alvarleg ofbeldisbrot og manndráp eða í málum varðandi umfangsmikil og alvarleg efnahagsbrot. Ennfremur skal einungis kynna þetta þegar það er talið nauðsynlegt með tilliti til rannsóknarinnar eftir raunmat á aðstæðum í málinu. Skilyrði er að háttsettur lögfræðingur í lögregluliðinu, lögreglustjóri, varalögreglustjóri eða aðalfulltrúi taki ákvörðun um að kynna skuli sakborningi þennan möguleika. Það sama á við ef um ræðir rannsókn brota hjá ríkislögreglustjóra. Kynninguna fyrir sakborningi annast lögfræðingur. Verjandi sakbornings á rétt á að vera viðstaddur eða honum tilkynnt um að þetta muni verða gert þannig að honum gefist tækifæri til að vera til staðar. Það á að koma skýrt fram gagnvart sakborningi að ekki sé tryggt að upplýsingar um aðra þátttakendur í brotinu muni leiða til refsimildunar þar eð sú ákvörðun sé dómstólsins. Lögfræðingurinn sem annast hefur kynninguna á að rita minnisblað um það sem fram fór á fundinum þ.á.m. um efni kynningarinnar.
Við meðferð refsimála gegn mönnum sem sakaður maður hefur bent á, eða gefið íþyngjandi (sakfellandi) upplýsingar um eftir kynningu skal leggja fram minnisblaðið um kynninguna með gögnum málsins á hendur annarra sakborninga þannig að verjandinn fái vitneskju um kynninguna. Hafi upplýsingar sakaðs manns, sem fengnar eru í kjölfar kynningar, þýðingu sem sönnunargagn gegn öðrum sökuðum í málinu ber ákæruvaldinu að upplýsa dóminn um kynninguna í umfjöllun um ástæður til refsimildunar við aðalmeðferð málsins.

7.2.2. Áhrif upplýsingagjafar á afplánunarstað refsidóms.
Eins og áður hefur verið rakið er lögreglu ókleift að gefa sakborningi fyrirheit um það hvar hann muni afplána væntanlegan refsidóm. Útlendingur er þó í nokkuð sérstakri aðstöðu að þessu leyti þar sem mögulegt er að hann geti afplánað dóminn í heimaríki sínu, sé það aðili að Evrópusamningi um fullnustu refsidóma. Telur nefndin ekki óeðlilegt að unnt sé að lýsa þeim vilja íslenskra stjórnvalda fyrir sakborningi á rannsóknarstigi máls, gegn því að hann veiti upplýsingar, að senda beiðni til stjórnvalda í heimalandi hans að hann afpláni refsidóminn þar, sbr. heimildir í lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma nr. 56/1993. Samkvæmt lögunum setur dómsmálaráðuneytið fram slíka beiðni. Þó verði að gera sakborningum ljóst að beiðni til erlends ríkis um afplánun refsidóms felur í sér að íslenski refsidómurinn verði afplánaður samkvæmt efni sínu, þ.e. sú fangelsisrefsing sem þar er dæmd en ekki að dómstólum viðkomandi ríkis verði gert að færa brotið til þeirra viðurlaga sem gilda samkvæmt refsilögum þess. Að sjálfsögðu verður ekki hægt að gefa fyrirheit um viðbrögð stjórnvalda í heimaríki sakbornings við slíkri beiðni.


7.2.3. Samskipti lögreglu við upplýsingagjafa.

7.2.3.1. Tillögur nefndarinnar að reglum um samskipti við upplýsingagjafa.
Nefndin hefur fjallað sérstaklega um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa og greiðslur fyrir upplýsingar. Í Evrópulöndum er lögreglu almennt heimilt að vera í sambandi við fasta upplýsingagjafa. Reglur um samskipti lögreglu og upplýsingagjafa eru yfirleitt ekki lögfestar heldur byggja á leiðbeiningum sem lögregluyfirvöld setja. Hér á landi hefur ekki verið til að dreifa reglum um samskipti við upplýsingagjafa ef frá eru taldar leiðbeiningar frá lögreglustjóranum í Reykjavík dags. 18. ágúst 1997 sem lýst var að framan.
Nefndin var sammála um að æskilegt væri að settar væru samræmdar reglur um samskipti við upplýsingagjafa og um greiðslur fyrir upplýsingar. Hefur nefndin samið tillögur að slíkum reglum og fylgja þau nefndaráliti þessu. Við samningu umræddra regludraga hefur nefndin haft til hliðsjónar upplýsingar frá Norðurlöndum um samskipti við upplýsingagjafa og greiðslur til þeirra. Jafnframt hefur verið stuðst við leiðbeiningarreglur frá breska innanríkisráðuneytinu, gögn frá nefnd á vegum Schengen-samstarfsins og fleiri tengd gögn. Leitast hefur verið við að fyrirliggjandi regludrög séu í anda leiðbeinandi reglna sem Evrópulönd hafa sett sér á þessu sviði.
Telur nefndin rétt að ríkissaksóknari gefi út leiðbeinandi reglur á grundvelli þessara draga til eftirbreytni fyrir lögreglu. Nánari verklagsreglur verði ákveðnar af viðkomandi lögreglustjórum.
Í tillögum nefndarinnar að reglum um upplýsingagjafa er fjallað um markmið, skilgreiningar, stofnun og slit upplýsingasambands, skráningu, samskiptareglur, greiðslur til upplýsingagjafa og ábyrgð og eftirlit. Meginmarkmið reglnanna er að fyrirbyggja brotastarfsemi, upplýsa um brot og ekki síst að tryggja öryggi lögreglumanna og upplýsingagjafa og vitneskju yfirmanns um upplýsingasambandið. Með reglunum er viðurkennt mikilvægi upplýsingasöfnunar með föstu eða tilfallandi sambandi lögreglumanns við upplýsingagjafa sem þó fari ævinlega fram undir eftirliti og á ábyrgð yfirmanns. Upplýsingaaðilar geta til að mynda verið almennir borgarar, starfsmenn opinberrar stofnana og einkafyrirtæka og brotamenn og fólk tengt þeim. Gengið er út frá því að almennt ekki sé stofnað til upplýsingasambands ef unnt er að upplýsa mál með öðrum hætti. Upplýsingasamband er skilgreint sem tvíhliða samband lögreglumanns og upplýsingagjafa undir eftirliti yfirmanns. Fastur upplýsingagjafi er skilgreindur sem einstaklingur sem af sjálfsdáðum gefur lögreglu reglubundnar upplýsingar um afbrot eða menn sem tengjast brotastarfsemi og getur ætlast til nafnleyndar og trúnaðar. Hafa verður í huga að upplýsingagjafi í fíkniefnamálum kann að hafa átt aðild að fíkniefnabrotum og neyslu. Taka regludrögin bæði til upplýsingagjafa í föstu og viðvarandi upplýsingasambandi og til annarra upplýsingagjafa eftir því sem við á.

7.2.3.2. Skilgreining upplýsingagjafa.
Þegar til fasts upplýsingasambands er stofnað er mikilvægt að skilgreina markmið þess, hvatir upplýsingagjafa, feril, trúverðugleika og líklegan árangur samstarfsins. Þá þarf að kanna fyrirfram hvort unnt sé með fullri vissu að tryggja öryggi lögreglumanns og upplýsingagjafa. Hvatir upplýsingagjafa til samstarfs kunna að vera óæskilegar, svo sem að ná sér niðri á keppinaut, ná fram hefnd, afla upplýsinga um starfsaðferðir lögreglu, villa um fyrir henni í rannsókn máls og þar fram eftir götunum. Mælt er gegn því að lögregla sé í föstu upplýsingasambandi við svonefnda virka afbrotamenn, það er einstaklinga sem hafa orðið uppvísir að afbrotum og ástæða er til að ætla að þeir hafi ekki látið af brotastarfsemi. Ekkert mælir hins vegar gegn því að lögregla leiti tilfallandi upplýsinga hjá virkum afbrotamönnum. Einhlít skilgreining er ekki fyrir hendi á virkum afbrotamanni og er það lagt í mat lögreglu eftir aðstæðum í hverju tilviki. Hvað fíkniefnabrot varðar telur nefndin óæskilegt að stofnað sé til fasts upplýsingasambands við aðila sem ætla má að standi að innflutningi og sölu fíkniefna. Hvatir slíkra aðila að upplýsingasambandi geta verið að ryðja samkeppnisaðila úr vegi, dreifa athygli lögreglu af sér og svo framvegis. Um þá sem eingöngu hafa orðið uppvísir að neyslu horfir öðruvísi við. Þá er ætlast til að einungis reyndir lögreglumenn stofni til fasts upplýsingasambands og að því skuli slitið ef það skilar ekki tilætluðum árangri eða forsendur þess bresta að öðru leyti. Reglulega skal leggja mat á árangur fasts upplýsingasambands.

7.2.3.3. Skráning samskipta við upplýsingagjafa.
Í tillögunum er kveðið á um skráningu fasts upplýsingasambands og gert er ráð fyrir nafnleynd upplýsingagjafa og samskiptaskráningu. Skilyrt er að upplýsingar um upplýsingagjafa séu aðeins aðgengilegar viðkomandi lögreglumanni og næsta yfirmanni hans, það er lögreglufulltrúa í viðkomandi deild, yfirlögregluþjóni deildarinnar og lögreglustjóra. Í samskiptaskrá skal meðal annars bóka upplýsingar um upplýsingagjafa og feril hans, forsendur upplýsingasambandsins, fundi lögreglumanns og upplýsingagjafa, samráð við yfirmann og mótteknar upplýsingar, árangur og önnur atriði sem máli kunna að skipta og eins og nánar er lýst í regludrögunum. Reglunum er ætlað að tryggja nafnleynd og trúnað gagnvart upplýsingagjafa og út frá öryggissjónarmiðum verður honum ekki gert að gefa skýrslu fyrir lögreglu eða koma fram sem vitni fyrir dómi nema hann samþykki það sjálfur.

7.2.3.4. Skipulag á samskiptum við upplýsingagjafa.
Samskipti við upplýsingagjafa eru vandmeðfarin og þurfa ætíð að vera skipulögð og stjórnað af lögreglu á hennar forsendum í nánu samráði viðkomandi lögreglumanns við yfirmann sinn. Ætíð verður að ganga út frá því að upplýsingasamband sé í þágu lögreglu en ekki einstakra lögreglumanna. Við stofnun upplýsingasambands er nauðsynlegt að upplýsingagjafa sé gerð skýr grein fyrir reglum sem gilda um samskiptin og tilgang lögreglu með þeim. Lögreglumaður skal ekki eiga önnur samskipti við upplýsingagjafa en varða beinlínis starf hans. Nauðsynlegt er að meta jafnharðan sannleiksgildi móttekinna upplýsinga og endurmeta sambandið reglulega meðal annars með tilliti til árangurs og áhættu. Gert er ráð fyrir að yfirmaður komi ekki að samskiptum við upplýsingagjafa nema í undantekningartilvikum. Sérstök áhersla er lögð á að lögreglumaður gæti ítrustu varkárni í öllum samskiptum við upplýsingagjafa með tilliti til öryggis beggja aðila. Loks er mælt gegn því að lögreglumaður sé í upplýsingasambandi við aðila af gagnstæðu kyni.

7.2.3.5. Peningagreiðslur til upplýsingagjafa.
Nefndin leggur til að heimilt verði að greiða upplýsingagjafa fyrir upplýsingar sem leiða til þess að komið sé í veg fyrir að alvarlegt afbrot sé framið eða að það upplýsist. Slíkar greiðslur hafa tíðkast í undantekningartilvikum bæði hér landi og flestum löndum Evrópu og afbrotaþróun, einkum á sviði fíkniefnabrota, kallar á þetta úrræði. Leggur nefndin til að fjárhæð greiðslu verði metin í hverju tilviki með tilliti til vægis upplýsinganna, eðlis og alvarleika brots, vinnu og kostnaðar upplýsingagjafa og áhættu sem hann tekur. Nefndin telur rétt að hámark greiðslu fyrir upplýsingar sé 150.000 kr., sem er svipuð fjárhæð og gildir hjá nágrannaþjóðum okkar. Greiðsla sé háð því skilyrði að upplýsingagjöf hafi skilað árangri, enda verði að reikna með því að peningagreiðsla freisti upplýsingagjafa til að gefa upplýsingar sem ekki eru haldbærar. Greiðslu verði aldrei lofað fyrirfram án tillits til árangurs. Að sama skapi verður lögregla að gjalda varhug við upplýsingum sem fengnar eru fyrir tilstilli greiðslna frá þriðja aðila. Endanlega ákvörðun um greiðslu taki lögreglustjóri og greiðsla skal innt af hendi af viðkomandi lögreglumanni að viðstöddum yfirmanni hans. Nefndin er þeirrar skoðunar að almennt nemi greiðslur aðeins hluta af tilgreindu hámarki. Ekki er talin þörf á að lögfesta heimild til greiðslna fyrir upplýsingar.
Nefndin leitaði til embættis ríkisskattstjóra varðandi álitaefni um skattskyldu slíkra greiðslna. Er ljóst að hér er um staðgreiðslu-, framtals- og skattskyldar greiðslur að ræða og einnig er skylt að gefa þær upp á launamiða til skattyfirvalda. Það er álit nefndarinnar með hliðsjón af mikilvægi nafnleyndar upplýsingagjafa og trúnaðar við hann að brýnt sé að undanþiggja þessar greiðslur skattskyldu með breytingu á ákvæðum laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Ætla má að ella yrði þetta nauðsynlega rannsóknarúrræði ekki virkt. Í 4. tölulið A liðar 7. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt eru undanskildar frá skattskyldum tekjum tækifærisgjafir og verðlitlir vinningar í almennum happdrættum og keppnum. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að 3. málsliður, 4. töluliðar A liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981 verði svohljóðandi:

Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir, verðlitlir vinningar í almennum happdrættum og keppnum svo og greiðslur frá lögreglu fyrir aðstoð við uppljóstran afbrota.

7.3. Tálbeitur.

Í umfjöllun að framan um gildandi venjur á þessu sviði var því lýst að lögreglu hafa ekki verið gefin skrifleg fyrirmæli eða leiðbeiningarreglur um notkun tálbeitu. Ekki hafa heldur skapast ákveðnar venjur á þessu sviði í ljósi þess hversu sjaldgæft er að lögregla beiti þessari rannsóknaraðferð.
Nefndin hefur kannað hvort rétt væri að setja reglur um notkun tálbeitu í réttarfarslöggjöf. Eins og áður hefur komið fram hafa Danir sett lagareglur sem lúta að notkun á tálbeitum í þágu rannsóknar sakamála, sbr. greinar 754, b, c, d og e í dönsku réttarfarslögunum. Voru reglur þessar festar í lög að tillögum opinberrar nefndar um refsiréttarfar og urðu að lögum árið 1986. Við meðferð tillagnanna á þjóðþingi Dana var sú breyting gerð að eingöngu lögreglumaður getur tekið að sér hlutverk tálbeitu. Á þeim tólf árum sem liðin eru síðan hefur komið í ljós að árangur þessara lagaheimilda er minni en vænst var við setningu þeirra. Hefur það m.a. verið skýrt með því að skilyrðið um að tálbeita sé lögreglumaður dragi mjög úr líkum á því að árangur náist með þessari rannsóknaraðferð.
Nefndin álítur að þótt nauðsynlegt sé að fara að öllu með gát við notkun tálbeitu, virðist ekki vera fýsilegt að mæla fyrir um þessa rannsóknaraðferð í settum lögum. Skynsamlegra virðist vera að setja fram leiðbeiningarreglur innan marka gildandi laga að teknu tilliti til dómsúrlausna þar sem reynt hefur á þetta rannsóknarúrræði hér á landi, en einnig má líta til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu og danskra dómstóla um efnið. Hafa önnur ríki valið þessa leið og má m.a. hafa hliðsjón af tillögum norsku nefndarinnar um rannsóknaraðferðir lögreglu um efni fyrirmæla ríkissaksóknara Noregs varðandi tálbeitur.
Af dómi Hæstaréttar í H 1993/1081 hafa verið dregnar nokkrar meginreglur um notkun tálbeitu. Nefndin leggur til að með hliðsjón af þeim dómi, svo og úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu og danskra dómstóla, verði lögreglu heimilt að nota tálbeitu við rannsókn opinbers máls að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:

1. Ákvörðun um notkun tálbeitu skal tekin af lögreglustjóra eða staðgengli hans. Ef ákvörðun þolir ekki bið og ekki næst í lögreglustjóra eða staðgengil hans má víkja frá þessu skilyrði en nauðsynlegt er að leita staðfestingar frá viðkomandi yfirmönnum á beitingu úrræðisins svo fljótt sem kostur er.
2. Heimilt er að nota tálbeitu þegar sterkur grunur er um að verið sé að fremja eða reynt verði að fremja alvarlegt brot.
3. Ef um fíkniefnabrot er að ræða verða fíkniefnin að vera komin til Íslands.
4. Ef fíkniefni eru keypt verða fjármunir að koma úr sjóðum lögreglunnar en ekki frá einkaaðilum.
5. Ástæða verður að vera til að ætla að með notkun tálbeitu fáist upplýsingar sem skipt geta verulega miklu fyrir rannsókn máls.
6. Ætla verður að venjuleg rannsóknarúrræði, önnur en notkun tálbeitu, dugi ekki til að fá slíkar upplýsingar.
7. Rannsókn verður að beinast að broti sem varðað getur átta ára fangelsi. Ef um fíkniefnabrot er að ræða verður að vera um umtalsvert magn að ræða og fíkniefnin ætluð til dreifingar eða efnin sérstaklega hættuleg þannig að brotið varði við 173. gr. a alm. hgl.
8. Ekki má nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin.

Vert er að árétta að síðasttalda skilyrðið er alger grundvallarregla um notkun tálbeitu og ræður úrslitum um það hvort rannsóknaraðferðin er lögmæt eða ekki.
Nefndin leggur til að ríkissaksóknari gefi út fyrirmæli til lögreglustjóra með hliðsjón af framanrituðum skilyrðum. Reglunum er einnig ætlað að gilda um rannsókn mála hjá ríkislögreglustjóra og er það þá ríkislögreglustjóri eða staðgengill hans sem tekur ákvörðun um rannsóknarúrræðið.

7.4. Afhending undir eftirliti.
Í alþjóðlegri lögreglusamvinnu hefur á það skort að íslensk yfirvöld geti gefið skýrar upplýsingar til annarra ríkja um það hvort mögulegt er að veita afhendingu undir eftirliti liðsinni og að hvaða skilyrðum uppfylltum.
Nefndin leggur til að settar verði skýrar reglur eða fyrirmæli um heimildir íslenskra yfirvalda til þess að beita megi afhendingu undir eftirliti. Birtast tillögur að reglum þessum í fylgiskjali við skýrslu þessa. Lagt er til að ríkissaksóknari gefi fyrirmælin út. Við gerð tillagnanna voru einkum hafðar til hliðsjónar danskar og norskar reglur um sama efni.
Í tillögum nefndarinnar um afhendingu undir eftirliti kemur m.a. fram skilgreining þessarar lögregluaðgerðar sem er eftirfarandi:

Afhending undir eftirliti er rannsóknaraðgerð lögreglu sem felst í því að fresta að leggja hald á, en hafa undir stöðugu eftirliti, fíkniefnasendingu eða aðra ólöglega eða grunsamlega vörusendingu á leið til landsins, um landið eða úr landi. Tilgangur afhendingar undir eftirliti er að upplýsa um viðtakanda sendingar, aðferðir við flutning og hugsanlegt dreifikerfi og afla þannig sönnunargagna um refsiverða háttsemi.

Lagt er til að íslensk stjórnvöld geti bæði óskað eftir og tekið við beiðnum erlendra stjórnvalda um afhendingu undir eftirliti. Ætla má að þegar reynir á íslenskar reglur um efnið sé í flestum tilvikum um að ræða beiðni frá erlendu ríki um að eftirlit sé haft með sendingu á leið hingað til lands eða á leið um landið. Má ætla ólíklegra að sending, t.d. með fíkniefnum, finnist á leið héðan úr landi þannig að íslensk lögregluyfirvöld þurfi að beiðast samvinnu um afhendingu undir eftirliti við annað ríki. Þó ber að hafa í huga að fíkniefnasending sem hefur viðkomu hér á landi á leið til annars ríkis getur uppgötvast fyrst hér á landi. Með reglunum verður íslenskum lögregluyfirvöldum gert kleift að óska samvinnu við það ríki sem sendingin á eftir að fara í gegnum eða þar sem lokaáfangastaður hennar er.
Lagt er til að ríkislögreglustjóri taki ákvörðun um afhendingu undir eftirliti hvort heldur ef beiðni berst frá erlendum ríkjum um þátttöku íslenskra lögregluyfirvalda eða ef íslensk yfirvöld eiga frumkvæði að samvinnu við önnur ríki. Ríkislögreglustjóri mæli síðan fyrir um stjórn aðgerðarinnar fari hún fram hér á landi. Samþykki ríkissaksóknara og ríkistollstjóra verði áskilið áður en ákvörðun er tekin um að beiðast eða verða við beiðni um afhendingu undir eftirliti.
Í tillögum að reglum um afhendingu undir eftirliti er lýst skilyrðum þess að orðið verði við beiðni erlends ríkis um afhendingu undir eftirliti. Þarf að liggja fyrir rökstuddur grunur um alvarlegt refsivert brot og aðgerðin þarf að vera nauðsynlegur þáttur í öflun sönnunargagna. Til þess að draga sem mest úr hættu á því að fíkniefni í slíkri sendingu komist í dreifingu ef eftirlitið rofnar, verður að sýna fram á að a.m.k hafi verið kannað hvort unnt er að skipta út efnunum í sendingunni.
Ráðgert er að beiðni frá erlendu ríki um afhendingu þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði um form og efni, s.s. rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að aðgerð fari fram, nákvæmar upplýsingar um innihald sendingarinnar og hvernig stefnt er að því að haga eftirliti með sendingunni á leið til landsins. Í ljósi þess að skjótra aðgerða getur verið þörf er þó veitt heimild til þess að beiðni verði sett fram í símtali ef aðstæður eru þannig að aðgerð þoli enga bið, en í kjölfarið verði síðan að útbúa og senda beiðnina með formlegum hætti.
Framkvæmd aðgerðarinnar hér á landi og stjórn hennar er nánar lýst í tillögum nefndarinnar. Er því m.a. lýst að hvaða marki erlendir lögreglumenn geta unnið við aðgerðina undir stjórn ríkislögreglustjóra og með sama hætti hvernig unnt er að heimila íslenskum lögreglumönnum að koma að aðgerð í erlendu ríki. Skýrt er kveðið á um það í tillögunum að stöðva beri afhendingu undir eftirliti tafarlaust, leggja hald á sendinguna og handtaka grunaða hafi þeir komist að því að sendingin sé undir eftirliti, hætta steðji að þeim sem taka þátt í aðgerðinni eða hætta sé á því að eftirlitið með sendingunni rofni þannig að þeir sem að henni standa komist undan með efni hennar.
Loks er ráðgert í reglunum sem nefndin leggur til að aðgerðir sem tengjast afhendingu undir eftirliti séu ítarlega skráðar. Skal allt ferli hverrar aðgerðar skráð og að henni lokinni skal ríkislögreglustjóri gera skýrslu um hana og afhenda ríkissakóknara.
Þótt framangreindar tillögur að reglum fjalli sérstaklega um afhendingu undir eftirliti sem alþjóðlega rannsóknaðgerð, er einnig ráðgert að slík lögregluaðgerð geti átt sér stað innanlands. Þannig er lögreglu unnt að fylgjast leynilega með t.d. fíkniefnasendingu sem fer á milli landshluta en fresta því að leggja hald á hana til þess að upplýsa megi um endanlega viðtakanda hennar. Lagt er til að samþykki ríkissakóknara sé áskilið fyrir aðgerðum innanlands af þessu tagi.
Ljóst er að framkvæmd afhendingar undir eftirliti sem fram fer á milli tveggja eða fleiri ríkja kallar á nána samvinnu á milli lögreglu og tollgæslu. Má ætla að í mörgum tilvikum verði uppvíst um ólöglega sendingu við tolleftirlit, eða að erlend tollyfirvöld tilkynni um ólöglega sendingu á leið til landsins til íslenskra tollyfirvalda. Er þá mikilvægt að viðbrögð tollgæslu séu skjót, svo sem með tilkynningu til ríkislögreglustjóra, svo lögregluyfirvöld geti skipulagt afhendingu undir eftirliti án þess að sendingin sjálf tefjist óeðlilega. Er ella hætt við því að hún nái ekki árangri sínum. Nefndin hafði samráð við ríkistollstjóra í undirbúningi sínum að framangreindum tillögum og óskaði umsagnar hans um drög að tillögunum. Var full samstaða um þær tillögur sem nefndin leggur fram um efnið.

7.5. Alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni.
Nefndin leggur til að íslenskum yfirvöldum verði gert kleift að taka þátt í alþjóðlegum sýndarviðskiptum með fíkniefni og að ríkissaksóknari setji fyrirmæli í því skyni. Geta fyrirmæli um afhendingu undir eftirliti gilt um þessa rannsóknaðferð eftir því sem við á.
Í fyrirmælum ríkissaksóknara komi fram að íslensk lögregluyfirvöld geti tekið þátt í alþjóðlegri lögregluaðgerð þar sem beitt er alþjóðlegum sýndarviðskiptum með fíkniefni, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Líkt og við á um stjórn aðgerða um afhendingu undir eftirliti er rétt að beiðni erlendra yfirvalda um sýndarviðskipti með fíkniefni verði send ríkislögreglustjóra. Meginreglan yrði að slík beiðni yrði borin fram skriflega.Í tilvikum þar sem aðgerð þolir ekki bið er unnt að setja beiðni fram í símtali, en þó verði alltaf útbúin skrifleg beiðni eftir á.
Lagt er til að þátttaka íslenskrar lögreglu í alþjóðlegum sýndarviðskiptum með fíkniefni lúti stjórn ríkislögreglustjóra í samráði við lögreglustjóra í því umdæmi sem aðgerðin fer fram í. Áður en ákvörðun er tekin um sýndarviðskipti ber ríkislögreglustjóra að gera ríkissaksóknara grein fyrir skipulagi aðgerðarinnar. Nauðsynlegt er að ríkissaksóknari samþykki þátttöku í aðgerðinni og þá áætlun sem gerð hefur verið um hana.
Sett verði að skilyrði að þátttaka í alþjóðlegum sýndarviðskiptum af þessu tagi byggi á því að grunur liggi fyrir um að verið sé að fremja eða reynt verði að fremja brot. Aðgerðin megi aldrei leiða til þess að sakborningur verði lokkaður til þess að fremja brot sem hann hafði ekki ásetning ella til að fremja. Gilda hér sömu viðmið þegar rætt er um skilyrði fyrir notkun tálbeitu. Brotið þarf að vera alvarlegt og varða a.m.k. 8 ára fangelsi. Er því ljóst að grunur verður að leika á stórfelldu fíkniefnabroti, sbr. 173. gr. a alm. hgl.
Ekki er fortakslaust skilyrði að sá sem tekur þátt í sýndarviðskiptum sé lögreglumaður, frekar en við á um tálbeitur. Þó er ávallt tryggara að notast við lögreglumann nema sýnt sé að það geti stefnt aðgerðinni í hættu. Nauðsynlegt er að hægt sé að afhenda þeim sem tekur þátt í aðgerðinni af hálfu lögregluyfirvalda peninga til sýningar. Þó verður að gæta þess að peningar verði ekki afhentir neinum sem ekki tekur þátt í aðgerðinni af hálfu lögregluyfirvalda. Verði íslensk yfirvöld að leggja til peninga til sýningar, þarf slík heimild að vera til staðar og verður slíkt ákvörðunarvald í hendi ríkissaksóknara eins og önnur atriði sem snúa að samþykki fyrir aðgerð.
Eins og lagt er til í reglum um afhendingu undir eftirliti er ekkert því til fyrirstöðu að erlendur lögreglumaður eða maður á vegum lögregluyfirvalda annarra ríkja taki þátt í aðgerðinni, en hann getur þó ekki farið með lögregluvald hér á landi. Eins þykir eðlilegt að íslenskur lögreglumaður geti tekið þátt í aðgerð erlendis. Þó verður að leggja áherslu á að með þátttöku sinni í erlendu ríki fari íslenskur lögreglumaður ekki út fyrir þann lagaramma sem gildir í viðkomandi ríki, né heldur út fyrir þær skorður sem íslensk löggjöf og reglur setja þessu úrræði.
Loks leggur nefndin til að aðgerðir sem tengjast þátttöku íslenskra lögregluyfirvalda í alþjóðlegum sýndarviðskiptum með fíkniefni séu ítarlega skráðar. Skal allt ferli einstaka aðgerðar skráð og að henni lokinni skal ríkislögreglustjóri gera skýrslu um hana og afhenda ríkissakóknara.


7.6. Skygging og notkun flugumanna.
Nefndin telur ekki þörf á því að lögfesta sérstakar reglur um skyggingu og notkun flugumanna, enda eru þessar aðferðir innan þess ramma sem löggjöfin veitir fyrir rannsóknaraðferðir lögreglu. Nefndin er þeirrar skoðunar að þær venjur sem gilt hafa um skyggingu hér á landi þarfnist ekki sérstakrar endurskoðunar. Ekki virðast hafa komið upp álitaefni sem krefjast þess að fastmótaðar reglur skorti á þessu sviði enda er rannsóknaraðferðin þess eðlis að hún hlýtur að byggjast að miklu leyti á atvikum hvers máls. Byggja verður á því meginsjónarmiði, að skyggingu verði aðeins beitt í alvarlegri brotamálum og leita verði til dómstóla eins og endranær ef grípa þarf til símhlerana, hlustunar eða annarra aðgerða skv. 86. gr. oml.
Hvað varðar notkun flugumanna sem hafa það markmið að koma fram undir röngu nafni til að stofna til sambanda í brotaheiminum til að afla sönnunargagna, þá gerir nefndin þá tillögu að ákvörðun um notkun slíkrar aðferðar sé ávallt háð samþykki lögreglustjóra. Ef nauðsynlegt er að framvísa röngum skilríkjum verði ófrávíkjanlega að leita samþykkis ríkissaksóknara.
Loks verður ávallt að hafa í huga að mörkin á notkun flugumanna og tálbeitu eru stundum óljós. Þegar flugumaður hefur tekið á sig hlutverk tálbeitunnar gilda að sjálfsögðu þær grundvallarreglur sem nefndin leggur til um skilyrði á notkun tálbeitu, og er þá eitt mikilvægasta skilyrðið að hún hvetji ekki til eða komi af stað broti sem ella hefði ekki verið framið.

7.7. Vitnavernd.
Nefndin hefur kannað ýmsa möguleika á því að efla vitnavernd með sérstökum aðgerðum. Hefur einkum verið litið til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins og nýlegra aðgerða í nágrannalöndunum til hliðsjónar á þessu sviði. Annars vegar hefur nefndin hugað að því hvort þörf sé á sérstökum lagabreytingum til að þess að sporna megi við þeirri þróun að vitni skorist undan því að gefa skýrslur vegna hótana. Hins vegar hefur verið litið til þess hvort unnt er að grípa til aðgerða til þess að vernda vitni innan þess svigrúms sem gildandi löggjöf veitir. Hér á eftir verður lýst helstu tillögum nefndarinnar sem hafa það markmið að efla vitnavernd.

7.7.1. Sérstök refsivernd vegna ógnana gagnvart vitnum.
Nefndin leggur til að í ákvæði almennra hegningarlaga verði bætt nýju ákvæði sem leggur refsingu við því að ógna eða hóta vitni til þess að fá það til að falla frá skýrslutöku hjá lögreglu eða fyrir dómi. Með því að sérgreina þessa tegund nauðungar- og hótanabrota frá almennum ákvæðum laganna í 225. og 233. gr. þeirra er undirstrikuð áhersla löggjafans á því að berjast gegn brotum sem beinast að vitnum, enda grafi þau ótvírætt undan réttarvörslukerfi landsins og ógni þar með almannahagsmunum. Sama refsivernd nái til fjölskyldu vitnis og annarra tengdum vitninu sem er hótað.
Lagt er til að ákvæðið verði staðsett í þeim kafla almennu hegningarlaganna sem fjallar um brot gegn valdstjórninni, í 108. gr., og verði svohljóðandi:

Ef maður hótar öðrum manni, eða öðrum sem honum tengjast, ofbeldi eða beitir ofbeldi, ólögmætri nauðung skv. 225 gr., hótunum skv. 233. gr. eða fremur önnur refsiverð brot gagnvart honum, eða öðrum sem honum tengjast, vegna skýrslutöku hans hjá lögreglu eða fyrir dómi þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 árum.

Til þess að leggja áherslu á alvöru hótunarbrota gagnvart vitnum er lagt til að slík brot varði allt að sex ára fangelsi. Er það sami háttur og hafður er á í danskri refsilöggjöf.

7.7.2. Heimildir til að víkja sakborningi úr þingsal.
Eins og áður hefur verið lýst veitir 6. mgr. 59. gr. oml. dómara heimild til þess að víkja sakborningi úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis er tekin ef þess er krafist og dómari telur að nærvera sakbornings geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess. Ákvæði þessu hefur verið beitt afar varlega af dómstólum og í öllum tilvikum hefur verið um kynferðisbrotamál að ræða. Hafa verður í huga að ákvörðun um að víkja sakborningi úr þinghaldi er veigamikil undantekning frá rétti manns til réttlátrar málsmeðferðar. Því var einnig lýst að framan að með lögum nr. 36/1999 bættist ný málsgrein við 59. gr., 7. mgr., sem tryggir afdráttarlaust þennan rétt vitnis, þegar um ræðir skýrslutöku af brotaþola undir 18 ára aldri.
Ætla má að orðalag 6. mgr. 59. gr. oml. geti náð til þeirrar aðstöðu að nærvera sakbornings sem hefur ógnað vitni eða hótað hefndaraðgerðum geti haft áhrif á framburð vitnisins. Það getur orðið vitni um megn að mæta sakborningi augliti til auglitis við þessar aðstæður. Ógnanir eða hótanir gegn vitni geta því hugsanlega orðið ástæða þess að dómari ákveður að víkja sakborningi úr þinghaldi á grundvelli ákvæðisins. Nefndin leggur þó til að orðalag 6. mgr. 59. gr. verði gert afdráttarlausara að þessu leyti og nýr málsliður bætist við málsgreinina, svohljóðandi.

Dómari getur einnig ákveðið að víkja sakborningi úr þinghaldi þegar skýrsla er tekin af vitni, ef sérstök ástæða er til að ætla að því hafi verið ógnað eða hótað hefndaraðgerðum eða verði síðar fyrir slíkri ógnun vegna skýrslutökunnar, þannig að hætt sé við að framburður þess verði ekki óþvingaður í nærveru sakbornings. Verði sakborningi vikið úr þinghaldi skal dómari sjá til þess að hann geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og er honum rétt að leggja fyrir vitni þær spurningar sem hann óskar.

Með því að hafa sérstaka heimild í lögum til þess að víkja sakborningi úr þinghaldi vegna hótana og ógnana í garð þess er undirstrikaður skilningur á aðstæðum vitnis sem lendir í þessari aðstöðu. Jafnframt er með slíku ákvæði viðurkennt að hótanir gegn vitnum krefjast ákveðinna aðgerða og sérgreind úrræði þurfi að vera til staðar í löggjöfinni til þess að vernda vitni við þessar aðstæður.
Ljóst er að ekki verður vikið frá meginreglunni um að verjandi sakbornings hafi ávallt heimild til þess að spyrja vitni. Þegar sakborningi er vikið úr þinghaldi hefur það augljóslega í för með sér þá vankanta að verjandi getur ekki ráðfært sig við sakborning um það jafnharðan hvernig beri að haga spurningum með hliðsjón af svörum vitnisins. Með nútímatæki er þó unnt að ráða bót á þessum vanda. Í stærri dómhúsum á landinu hefur verið sett upp hljóðkerfi sem gerir mögulegt að yfirheyra vitni án viðveru sakbornings. Er þá unnt að hlýða á vitnisburðinn í gegnum hljóðkerfi í öðrum sal eða herbergi, en jafnframt er nauðsynlegt að sakborningur geti jafnharðan ráðfært sig við verjanda sinn og komið að spurningum.
Í dómi Hæstaréttar í H 1997/3231 var vísað til þess að unnt væri að gæta hagsmuna sakbornings sem vikið var úr þinghaldi í meðferð refsimáls fyrir dómi með því að láta hann hlýða annars staðar á framburð vitnisins og að hann geti komið spurningum sínum að, annað hvort í sama eða síðara þinghaldi. Nefndin álítur eðlilegt að löggjöf taki mið af þeim tæknilegu möguleikum sem eru til staðar, til þess að tryggja megi sem mest rétt sakbornings við þær undantekningaraðstæður að honum sé vikið úr þinghaldi. Í hinu nýja ákvæði laganna, 7. mgr. 59. gr. sbr. l. 36/1999 með sérreglu um skýrslutöku af brotaþola undir 18 ára aldri er ráðgert að skýrslutaka fari fram með þessum hætti.

7.7.3. Nafnleynd vitnis.
Alger nafnleynd vitnis í refsimáli er eitt viðurhlutamesta frávikið frá réttlátri málsmeðferð sakbornings sem gripið er til vegna nauðsynjar á vitnavernd. Kemur þar helst til álita að lögð verði fram sem sönnunargagn í refsimáli skýrsla nafnlauss vitnis sem gefin er hjá lögreglu, og hvorki dómari, ákærandi né sakborningur þekki á því deili. Ekkert Norðurlandanna hefur enn gengið svo langt að festa í lög heimildir til algerrar nafnleyndar vitna og að lögregla geti heitið vitni nafnleynd áður en það gefur skýrslu. Þegar litið er til framkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu má draga þá ályktun að alger nafnleynd vitnis fái ekki staðist ákvæði 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu eða 70. gr. stjskr. eins og rakið var að framan, nema verjandi sakbornings hafi fengið að spyrja vitnið beint á rannsóknarstigi máls. Meira svigrúm virðist vera til þess að beita vægari aðgerðum, þ.e. að nafn vitnis komi hvergi fram í gögnum máls, að sakborningur víki úr réttarsal á meðan vitni er spurt fyrir dómi að viðstöddum verjanda og ákæranda og lögð sé skylda á verjanda til að greina sakborningi ekki frá nafni vitnis.
Nefndin telur ekki tímabært að svo stöddu að leggja til lagabreytingar hér á landi sem heimila nafnleynd. Mjög sterk rök verða að liggja til grundvallar nafnleynd vitna, einkum að sýnt sé fram á að raunhæf, yfirvofandi lífshætta sé yfirvofandi fyrir vitni. Reynsla hér á landi hefur a.m.k. ekki enn sýnt fram á að lífi vitna hafi verið stefnt svo alvarlega í hættu að nafnleynd sé eina úrræðið sem geti veitt vitni nauðsynlega vernd. Nefndin leggur því áherslu á önnur úrræði til þess að sporna megi við ógnunum gegn vitnum og hefndaraðgerðum í þeirra garð.
Í umfjöllun um vitnavernd hefur verið fjallað um þá möguleika sem eru til staðar í löggjöf sumra ríkja að leyna nafni og uppruna vitnis, s.s. með nafnbreytingu í þjóðskrá og aðstoð við að flytja og byrja nýtt líf í öðrum landshluta til þess að komast undan hugsanlegum hefndaraðgerðum, Nefndin telur útilokað að slíkar aðgerðir geti orðið raunhæfar hér á landi í ljósi smæðar hins íslenska samfélags auk þess sem ógnanir gegn vitnum eru ekki svo aðkallandi vandamál hér á landi að þörf sé úrræða af þessu tagi.

7.7.4. Takmarkaðar persónuupplýsingar um vitni í gögnum máls eða skýrslutöku fyrir dómi.
Í 1. mgr. 59. gr. oml. er því lýst hvernig dómari lætur vitni gera grein fyrir sér þegar skýrsla er tekin fyrir dómi. Þannig ber dómara að láta vitni fyrst gera grein fyrir sér með nafni sínu, kennitölu, stöðu og heimili.
Samhliða þeirri þróun, að vitni í refsimálum geti átt á hættu hefndaraðgerðir, hefur orðið æ algengara, að lögreglumönnum sé hótað í tengslum við rannsókn máls bæði utan sem innan réttar. Á þetta sérstaklega við fíkniefnamál. Lögreglumenn sem vinna að rannsókn slíkra mála hafa kvartað undan skyldu að greina frá heimilisfangi sínu og kennitölu er þeir gefa skýrslu fyrir dómi. Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu eru vitni sem lögregla yfirheyrir einnig krafin um símanúmer og á það jafnt við um lögreglumenn sem önnur vitni. Lögreglumenn hafa þá sérstöðu, starfs sína vegna, að vera oft kallaðir til skýrslugjafar hjá lögreglu og fyrir dóm til að bera vitni. Oft bera sakborningar kala til þeirra lögreglumanna sem hafa rannsakað mál þeirra og er lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra oft hótað vegna starfs síns. Það eykur hættu á slíkum hótunum og truflunum á friðhelgi heimilis lögreglumanns ef sakborningur hefur aðgang að persónulegum upplýsingum um hann, s.s. um heimilisfangi og síma. Ef lögreglumaður gefur upp stöðu sína skv. 1. mgr. 59. gr. og þó sérstaklega ef hann gefur upp starfsstöð er ljóst að allar nauðsynlegar upplýsingar sem hann varða liggja fyrir hjá viðkomandi lögregluembætti. Af þessari ástæðu er vart þörf á því staðreyna sérstaklega frekari deili á lögreglumanni.
Ríkislögreglustjóri hefur tekið undir umkvartanir lögreglustjóra og lögreglumanna um að lögreglumenn sem vitna vegna starfs síns geti skorast undan því að veita aðrar upplýsingar fyrir dómi og hjá lögreglu en um nafn, stöðu og starfsstað.
Nefndin telur rétt að koma til móts við þessi sjónarmið til þess að sporna sem mest við óþægindum sem lögreglumenn hafa vegna starfa sinna í tengslum við rannsókn alvarlegra mála. Því leggur nefndin til að í lögum um meðferð opinberra mála og fyrrgreindri reglugerð verði heimiluð frávik frá reglu um að veita persónuupplýsingar um heimilisfang og símanúmer þegar lögreglumaður á í hlut en upplýst verði hver er starfsstöð hans. Eins verði heimilað við sérstakar aðstæður að önnur vitni geti skorast undan því að að greina upphátt frá heimilisfangi sínu í skýrslutöku fyrir dómi. Í alvarlegri tilvikum getur verið nauðsynlegt að halda þessum persónuupplýsingum vitna utan við gögn málsins að öllu leyti ef alveg sérstakar ástæður krefjast þess, s.s. raunhæf hætta á að þau verði fyrir hefndaraðgerðum.
Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til þær breytingar á 59. gr. oml. að nýir 2. og 3. málsliðir komi inn í 1. mgr. ákvæðisins, svohljóðandi:

Dómari getur ákveðið að lögreglumenn og aðrir opinberir starfsmenn sem bera vitni starfs síns vegna geri aðeins grein fyrir nafni sínu, stöðu og starfsstöð. Einnig getur dómari ákveðið að víkja frá skyldu annarra vitna til að gera grein fyrir kennitölu og heimili ef sérstök ástæða er til þess til hlífðar vitninu.

Með sama hætti er lögð til breyting á 11. gr. reglugerðarinnar um réttarstöðu handtekinna manna að þar bætist í 2. mgr. nýr 2. málsliður svohljóðandi.


Heimila má lögreglumönnum og öðrum opinberum starfsmönnum sem bera vitni starfs síns vegna að víkja frá skyldu til að gefa upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer. Einnig er heimilt að víkja frá skyldu annarra vitna til að gera grein fyrir kennitölu, heimili og símanúmeri ef sérstök ástæða er til þess til hlífðar vitninu.

7.7.5. Ráðstafanir í tengslum við mætingu vitna í þinghöld.

Reynslan sýnir að það getur haft þvingandi áhrif á vitni að mæta öðrum vitnum í tengslum við meðferð máls fyrir dómi. Biðsalur utan við dómsal þar sem tvö eða fleiri vitni hittast getur komið vitni í óþægilega aðstöðu og orðið vettvangur ógnana af hálfu annarra vitna, t.d. með látbragði þeirra eða augnaráði í því skyni að hafa áhrif á framburð vitnis.
Nefndin leggur til að reynt verði eftir föngum að koma til móts við óskir vitnis um að hitta ekki fyrir önnur vitni í tengslum við meðferð máls. Ekki er þörf breytinga á lögum eða reglum til þess að veita slíka möguleika, öllu heldur er hér um framkvæmdaatriði að ræða. Nefndir leggur því til að hægt verði bjóða vitnum sem óttast ógnanir og hótanir að koma inn um sérstakan inngang í dómshús og því verði gert kleift að bíða í sérstöku herbergi eftir því að það verði kallað til skýrslutöku.

7.7.6. Lokuð þinghöld.
Í 8. gr. oml. eru veittar nokkuð rúmar heimildir til þess að loka þinghöldum. Veitir ákvæðið bæði heimild til þess að loka þinghaldi til hlífðar vitni, t.d. þannig að fjölmiðlar og aðrir sem ekki eru aðilar máls fái ekki vitneskju um efni vitnisburðar, sbr. b-lið 1. mgr. 8. gr. Einnig er dómara heimilt að loka þinghaldi með vísan til c-liðar, 3. mgr. 8. gr. oml. fyrir mönnum sem ætla má að valdi hættu á því með nærveru sinni að sakborningur eða vitni segi ekki sannleikann.
Í ljósi þeirra heimilda sem þegar eru veittar í lögum leggur nefndin ekki til sérstaka lagabreytinga, en mælir með því að heimildum þessum sé beitt ef ástæða er til.

7.7.7. Bann við birtingu á nafni vitnis.
Nefndin leggur til að unnt verði að víkja frá nafnbirtingu vitnis í dómi, ef ástæða er til að ætla að hún geti stofnað öryggi þess í hættu. Ef vitni óskar þess sérstaklega að nafn þess verði ekki birt í dóminum sjálfum telur nefndin rétt að dómari geti fallist á slíka beiðni, enda sé sýnt fram á að vitni hafi rökstudda ástæðu til að ætla að nafnbirting geti orðið því til tjóns. Á undanförnum árum hefur fjölmiðlaumfjöllun um rekstur dómsmála og niðurstöður dóma færst verulega í vöxt, sérstaklega í refsimálum. Auk þess er orðið algengara að dagblöð birti dóma annað hvort í heild sinni eða að hluta. Á sama tíma fer útbreiðsla dóma á alnetinu ört vaxandi með því að dómstólar stofna heimasíður þar sem úrlausnir þeirra eru birtar jafnharðan.
Á tímum hraðrar þróunar í miðlun upplýsinga vex þörfin fyrir að vitni sem óttast hefndaraðgerðir frá mönnum úr brotaumhverfi sem sakborningur og jafnvel vitnið sjálft kemur frá, njóti verndar fyrir því að nafn þeirra sé opinberlega birt. Jafnvel þótt ekki verði hjá því komist að sakborningi sé kunnugt um nafn vitnis geta hagsmunir vitnisins af því að nafni þess verði haldi leyndu út á við verið umtalsverðir.
Í kafla 5.9.5. að framan var því lýst að með lögum 36/1999 var bætt við 10. gr. oml. nýrri málsgrein, sem heimilar að áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eru afhent öðrum en aðilum máls og brotaþola skuli afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að fari leynt með tilliti til almannna- eða einkahagsmuna.
Nefndin telur að þetta nýja ákvæði laganna geti þjónað þeim tilgangi að vernda vitni fyrir nafnbirtingu ef ástæða er til að birting nafns þess geti stofnað öryggi þess í hættu.

7.7.8. Lögregluvernd.
Þess finnast dæmi að vitni hafi óskað eftir lögregluvernd í lengri eða skemmri tíma vegna hræðslu við hefndaraðgerðir vegna upplýsinga sem það hefur veitt lögreglu. Hafa ákvarðanir um slíkt verið teknar eftir því sem nauðsynlegt þykir í algerum undantekningartilvikum. Stöðug lögregluvernd er að sjálfsögðu dýrt úrræði og hefur hún aðeins verið veitt ef sýnt er fram á raunhæfa hættu á lífi og limum eða eignatjóni vegna hótana og aðeins í mjög skamman tíma. Nefndin leggur til að skýrt sé kveðið á um það í verklagsreglum lögreglu að unnt sé að bjóða vitnum sérstaka lögregluvernd ef mjög rík ástæða er til. Einnig verði unnt að bjóða vitnum lögreglufylgd á leið til og frá réttarsal í tengslum við skýrslutöku fyrir dómi.

7.7.9. Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfinu.
Það getur verið vitni nokkur þolraun að koma til lögreglu og gefa skýrslu og síðar að koma fram fyrir dómi. Fæstir lenda nokkurn tíma í þeirri aðstöðu að vera vitni í dómsmáli. Fyrir vitnið er umhverfi lögreglu og dómstóla venjulega framandi og lagareglur sem brýndar eru fyrir því um réttindi og skyldur vitna ekki alltaf auðskiljanlegar. Þegar vitni þarf að auki að þola ógnanir eða hótanir sem beinast að því eða fjölskyldu þess vegna vitnisburðarins frá brotamanni eða öðrum kann skýrslugjöf vitnisins að baka því mikil óþægindi og ótta.



Eins og áður er rakið er reglum um yfirheyrslu vitna fyrir lögreglu lýst í reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu nr. 395/1997. Í 11. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að kynna skuli vitninu reglur laganna um meðferð opinberra mála, s.s. um vitnaskylduna og undanþágur frá henni og refsiábyrgð við því að gefa ranga skýrslu fyrir dómi. Nefndin telur mjög mikilvægt að vitni séu veittar greinargóðar upplýsingar um réttindi sín og skyldur á fyrstu stigum, er það kemur til lögreglu til skýrslugjafar og um úrræði sem eru til staðar ef það telur sig vera í hættu vegna vitnisburðarins. Til þess að tryggja megi að vitni fái þær upplýsingar leggur nefndin til að gefinn verði út bæklingur sem vitnum er afhentur áður en til skýrslutöku kemur. Í bæklingnum verði gerði grein fyrir helstu lagaákvæðum sem gilda um vitni og framkvæmd skýrslutöku og þeirri aðstoð sem unnt er að veita í samræmi við þær tillögur sem reifaðar verði að framan. Einnig komi þar fram hvatning til vitnis að leggja fram kæru ef það hefur orðið fyrir óþægindum frá öðrum, t.d. hótunum vegna skýrslutökunnar.
Nefndin leggur einnig til að einum eða fleiri starfsmönnum hjá lögreglu verði falið hlutverk ráðgjafa fyrir vitni og veitt sérstök þjálfun í því skyni. Stefnt verði að því að vitni geti leitað til starfsmanns innan lögreglunnar sem er sérhæfður til þess að leiðbeina því um réttindi sín og skyldur, svo og um viðbrögð og úrræði ef vitni óttast hefndaraðgerðir.Yrði þetta að mati nefndarinnar mjög til þess að styrkja stöðu vitna og felur í sér viðurkenningu á því að þau kunni að þarfnast sérstakrar aðstoðar.


Reykjavík 21. apríl 1999





Björg Thorarensen
Atli Gíslason
Ásgeir Karlsson
Bogi Nilsson
Egill Stephensen
Þórir Odsson





FYLGISKJAL I: Tillögur um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um meðferð opinberra mála o.fl.

1. Breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940.

1. Við 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. laganna bætist nýr málsliður, sem orðast svo:
Sérstaklega má meta til refsilækkunar ef maður upplýsir um aðild annarra að brotinu.

2. Í lögin bætist ný grein, sem verður 108. gr., sem orðast svo:
Ef maður hótar öðrum manni, eða öðrum sem honum tengjast, ofbeldi eða beitir ofbeldi, ólögmætri nauðung skv. 225 gr., hótunum skv. 233. gr. eða fremur önnur refsiverð brot gagnvart honum, eða öðrum sem honum tengjast, vegna skýrslutöku hans hjá lögreglu eða fyrir dómi þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 árum.

2. Breytingar á lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

1. Á 59. gr. laganna verða eftirfarandi breytingar:

a. Nýir 2. og 3. málsliðir bætast inn í 1. mgr., sem orðast svo:
Dómari getur ákveðið að lögreglumenn og aðrir opinberir starfsmenn sem bera vitni starfs síns vegna geri aðeins grein fyrir nafni sínu, stöðu og starfsstöð. Einnig getur dómari ákveðið að víkja frá skyldu vitnis til að gera grein fyrir kennitölu og heimili ef sérstök ástæða er til þess til hlífðar vitninu.
b. Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, sem orðast svo:
Dómari getur einnig ákveðið að víkja sakborningi úr þinghaldi þegar skýrsla er tekin af vitni, ef sérstök ástæða er til að ætla að því hafi verið ógnað eða hótað hefndaraðgerðum eða verði síðar fyrir slíkri ógnun vegna skýrslutökunnar, þannig að hætt sé við að framburður þess verði ekki óþvingaður í nærveru sakbornings. Verði sakborningi vikið úr þinghaldi skal dómari sjá til þess að hann geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og er honum rétt að leggja fyrir vitni þær spurningar sem hann óskar.
c. Ný málsgrein bætist við greinina, sem orðast svo:
Nú hefur sakborningi verið vikið úr þinghaldi skv. 6. mgr. og skal honum gert kleift að hlýða á vitnisburðinn með aðstoð hljóðkerfis eða öðrum sambærilegum hætti.

2. Heiti X. kafla laganna verður:
Hald á munum, símhlerun, önnur hlerun o.fl.

3. Á 80. gr. verður eftirfarandi breyting:
Í stað orðanna Pósts og síma í 1. málslið 1.mgr komi orðin "aðila sem rekur póst eða fjarskiptaþjónustu".

4. 86. gr. laganna orðast svo:
Í þágu rannsóknar máls og með þeim skilyrðum sem greind eru í 87. gr. getur lögreglan:

a. hlerað, tekið upp og afritað símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma eða annað fjarskiptatæki,
b. aflað upplýsinga um hvaða símar eða önnur fjarskiptatæki tengjast eða hafa tengst tilteknum síma eða öðru fjarskiptatæki,
c. hlerað, tekið upp og afritað önnur samtöl, aðra orðræðu eða annars konar hljóð eða merki með sérstökum tæknibúnaði,
d. tekið myndir af fólki eða fylgst með fólki í sjónauka eða með sjálfvirkum eða fjarstýrðum myndatökubúnaði eða öðrum sambærilegum tæknibúnaði á stað sem almenningur á ekki aðgang að,
e. komið fyrir búnaði til eftirfarar inni í bifreið eða öðru farartæki, varningi eða á manni, t.d. í veski, handtösku eða í fatnaði hans, eða farið inn í læsta geymslu eða hirslur til að koma slíkum búnaði fyrir.

5. 87. gr. laganna orðast svo:
1. Til aðgerða sem taldar eru upp í 86. gr. þarf úrskurð dómara. Þó ber að veita lögreglu upplýsingar skv. b-lið þeirrar greinar án dómsúrskurðar ef fyrir liggur samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis. Í úrskurði skal m.a. taka fram hvaða tiltekinn síma eða fjarskiptatæki sé um að ræða, sbr. a- og b-lið, og hvar og með hverjum hætti samtöl, önnur orðræða, hljóð eða merki skulu numin eða myndir teknar, sbr. c-, d- og e-lið. Heimild til aðgerðar skal standa lengst í fjórar vikur og skulu tímamörk ákveðin í úrskurðinum. Tímamörkin má framlengja með dómsúrskurði, lengst til fjögurra vikna hverju sinni.
2. Eftirfarandi skilyrði verða að vera fyrir hendi svo heimila megi aðgerð skv. 86. gr.:

a. að ástæða sé til að ætla að á þann hátt sem um ræðir hafi grunaði samskipti við aðra eða aðrir við hann,
b. að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þessum hætti,
c. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi, ásetningsbroti gegn X. kafla og 262. gr. almennra hegningarlaga eða brotum gegn XI. kafla, 108. gr., 1. mgr. 111. gr., 112. gr., 1. mgr. 168. gr., 1. mgr. 176. gr, 225. gr., 233. gr. og 251. gr. almennra hegningarlaga.

3. Að uppfylltum skilyrðum a- og b-liðar má ennfremur heimila að aflað verði upplýsinga um tengingu eða samskipti tiltekinna síma ef um er að ræða ítrekað brot gegn 232. gr. almennra hegningarlaga. Sama gildir um brot gegn 249. gr. a, 1. og 2. mgr. 257. gr. og 2. mgr. 259. gr. ef brot er framið með því að notuð er fjarskiptaþjónusta.
4. Hlerun samkvæmt c-lið 86. gr. má einungis heimila þegar rannsókn beinist að broti sem þegar hefur stofnað eða getur stofnað lífi manns í hættu eða það ógnar velferð manna eða verulegum almannahagsmunum.
5. Í þágu rannsóknar má lögreglan taka upp hljóð, taka myndir og festa eftirfararbúnað á bifreið eða annað farartæki eða varning á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að án þess að skilyrðum 1. og 2. mgr. sé fullnægt.
6. Aðilum sem reka póst- og fjarskiptaþjónustu, opinberum eða einkareknum ber að aðstoða lögregluna, eftir því sem þörf krefur, við aðgerðir sem fjallað er um í þessum kafla laganna og ráðist er í samkvæmt heimild í dómsúrskurði eða samkvæmt beinni lagaheimild, sbr. 2. málslið 1. mgr. 87. gr.
7. Aðilum sem reka fjarskiptaþjónustu er skylt að veita lögreglu upplýsingar um fyrir hvaða símtækjum og símanúmerum tiltekinn einstaklingur er skráður sem eigandi, umráðamaður eða notandi þótt hvorki nafn hans né viðkomandi símanúmer komi fram í símaskrá sem almenningur hefur aðgang að.

6. Á eftir 87. gr. laganna kemur ný grein, 87. gr. a, sem orðast svo:
1. Áður en dómari tekur ákvörðun um heimild til aðgerða skv. 86. gr. ber að skipa þeim sem aðgerðin varðar lögmann og skal honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna.
2. Tilkynna ber skipuðum lögmanni um þinghöld í málinu og gefa honum kost á að kynna sér gögn málsins, fá afrit þeirra og taka til varna. Dómari getur með úrskurði ákveðið að afrit málsgagna verði ekki afhent ef rökstuddir rannsóknarhagsmunir krefjast þess eða ástæða er til sérstaks trúnaðar.
3. Þagnarskylda hvílir á lögmanninum um málið og er honum óheimilt að veita þeim sem aðgerðin beinist gegn eða öðrum upplýsingar er það varða eða aðgang að gögnum.
4. Um skipun lögmanns samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti sömu reglur og um skipun verjanda samkvæmt lögum þessum. Dómari getur ákveðið að kröfu lögreglu að lögmaðurinn megi ekki síðar gegna starfi verjanda fyrir sakborning eða aðra sem sem tengjast málinu.


7. 2.-4. mgr. 88. gr. laganna orðast svo:
2. Þegar aðgerð skv. 86. gr. er lokið skal þeim sem aðgerð beinist að, þar á meðal sakborningi og eiganda eða umráðamanni síma, fjarskiptatækis, staðar eða húsnæðis tilkynnt um hana. Tilkynna skal um aðgerð eins fljótt og mögulegt er, hafi lögreglan ekki, í síðasta lagi 14 dögum áður en tímabilið sem aðgerðin stendur rennur út, sett fram beiðni um að tilkynning falli niður eða verði frestað, sbr. 4. mgr. Senda ber skipuðum lögmanni skv. 87. gr. a. afrit tilkynningar.
3. Dómari getur ákveðið að kröfu lögreglu að ekki verði tilkynnt um aðgerð eða því frestað um nánar tiltekinn tíma ef sýnt er fram á að sérstaklega ríkar ástæður mæli gegn því, t.d. að stefnt sé í hættu rannsókn máls eða tengdra mála. Ber að veita skipuðum lögmanni skv. 87. gr. a. kost á að tjá sig um frestun eða niðurfellingu tilkynningar áður en dómari tekur ákvörðun.
4. Héraðsdómur, þar sem úrskurður skv. 87. gr. er kveðinn upp, skal annast sendingu tilkynningar um aðgerð.


3. Breytingar á reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu nr. 395/1997.
Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar kemur nýr 2. málsliður, sem orðast svo:
Heimila má lögreglumönnum og öðrum opinberum starfsmönnum sem bera vitni að víkja frá skyldu til að gefa upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer. Einnig er heimilt að víkja frá skyldu annarra vitna til að gera grein fyrir kennitölu, heimili og símanúmeri ef sérstök ástæða er til þess til hlífðar vitninu.

4. Breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981.
3. málsliður, 4. töluliðar, A liðar 7. gr. laganna orðast svo:
Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir, verðlitlir vinningar í almennum happdrættum og keppnum svo og greiðslur frá lögreglu fyrir aðstoð við uppljóstran afbrota.




FYLGISKJAL II: Tillögur að reglum um upplýsingagjafa.


Reglur um upplýsingagjafa

1. gr.
Markmið

Markmið þessara reglna er að fyrirbyggja brotastarfsemi, upplýsa um brot og tryggja öryggi upplýsingagjafa og lögreglumanna, vitneskju yfirmanna, ábyrgð og eftirlit.

2. gr.
Skilgreiningar.

Upplýsingagjafi er einstaklingur sem gefur lögreglu upplýsingar um afbrot eða menn sem tengjast brotastarfsemi og getur ætlast til nafnleyndar. Gerður er greinarmunur á upplýsingagjöfum, sem annars vegar eru í föstu upplýsingasambandi við lögreglu og hins vegar þeim, sem gefa lögreglu upplýsingar án þess að til eiginlegs upplýsingasambands sé stofnað.
Upplýsingasamband er tvíhliða samband lögreglumanns og upplýsingagjafa undir umsjón og eftirliti yfirmanns.
Reglur þessar gilda bæði um upplýsingagjafa í föstu sambandi og um aðra upplýsingagjafa eftir því sem við á.

3. gr.
Stofnun og slit upplýsingasambands.

Upplýsingasambandi upplýsingagjafa og lögreglumanns verður ekki komið á nema í samráði við og með samþykki yfirmanns. Við mat á því hvort stofna skuli til upplýsingasambands skulu eftirfarandi atriði m.a. skoðuð:
Líklegur árangur, m.a. með tilliti til upplýsingagetu upplýsingagjafans. Ferill upplýsingagjafa, aldur, kynferði, áreiðanleiki og hvatir hans til að gefa lögreglu upplýsingar.
Ekki skal stofnað til upplýsingasambands nema ástæða sé til að ætla að það skili árangri og að ekki sé fyrirsjáanlegt annað en að öryggi lögreglumanns og upplýsingagjafa sé tryggt. Metið skal hvort unnt er að upplýsa mál með öðrum hætti áður en afráðið er með stofnun upplýsingasambands.
Óheimilt er að stofna til fasts upplýsingasambands við virka afbrotamenn.
Óheimilt er að stofna til upplýsingasambands, nema í hlut eigi lögreglumaður með a.m.k. 2ja ára starfsreynslu eftir útskrift frá Lögregluskóla ríkisins.
Upplýsingasambandi skal slitið ef það skilar ekki tilætluðum árangri eða forsendur þess eru ekki lengur fyrir hendi.

4. gr.
Skráning upplýsingasambands.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um stofnun fasts upplýsingasambands skal skrá eftirtaldar upplýsingar í stofnskrá:
1. Nafn, heimili og kennitölu upplýsingagjafa.
2. Dulnefni og númer.
3. Upplýsingar um stofnun og forsendur upplýsingasambandsins.
4. Feril upplýsingagjafa.
5. Önnur atriði er máli kunna að skipta.
Enn fremur skal haldin samskiptaskrá þar sem fram komi eftirtaldar upplýsingar:
1. Fundir lögreglumanns og upplýsingagjafa, símtöl og önnur samskipti þeirra.
2. Mótteknar upplýsingar.
3. Árangur.
4. Nýjar upplýsingar um upplýsingagjafa.
5. Samráð lögreglumanns og yfirmanns og endurmat á sambandi.
6. Slit upplýsingasambands og ástæður.
Tryggja skal nafnleynd upplýsingagjafa og trúnað gagnvart honum. Upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang og aðrar upplýsingar sem gætu gefið til kynna hver upplýsingagjafinn er, skulu aðeins vera aðgengilegar viðkomandi lögreglumanni og næsta yfirmanni hans. Viðkomandi yfirlögregluþjónn og lögreglustjóri hafa aðgang að þessum upplýsingum til eftirlits.
Lögregluskýrslur og önnur rannsóknargögn, sem byggja á upplýsingum frá upplýsingagjafa, skulu ekki hafa að geyma vísbendingar um það hver upplýsingagjafinn sé.

5. gr.
Meginreglur um samskipti.

Upplýsingasamband skal skipulagt og stjórnað af lögreglu með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir brot eða upplýsa um brot.
Lögreglumaður skal upplýsa yfirmann sinn og hafa náið samráð við hann um alla þætti samskipta við upplýsingagjafa.
Í upphafi upplýsingasambands skal upplýsingagjafa gerð skýr grein fyrir þeim reglum sem gilda um samskiptin og tilgangi lögreglu með sambandinu. Lögreglumaður skal ekki eiga önnur samskipti við upplýsingagjafa en þau er varða beinlínis starf hans.
Lögreglumaður skal leitast við að staðreyna sannleiksgildi móttekinna upplýsinga svo fljótt sem unnt er.
Samband við upplýsingagjafa skal sæta stöðugu endurmati lögreglumanns og yfirmanns, m.a. með tilliti til árangurs og áhættu.
Yfirmaður skal sjálfur ekki annast samskipti við upplýsingagjafa. Hann getur þó átt fundi með upplýsingagjafa ásamt lögreglumanni, ef þörf krefur til að meta forsendur sambandsins eða af öðrum brýnum ástæðum, sbr. þó 6.tl. 6.gr.
Lögreglumaður skal gæta fyllstu varkárni í öllum samskiptum við upplýsingagjafa og m.a. tilkynna og hafa samráð við yfirmann um fundi, fundarstaði og annað er máli kann að skipta. Lögreglumaður skal leitast við að eiga föst og reglubundin samskipti við upplýsingagjafa.
Lögreglumaður skal ekki vera í upplýsingasambandi við aðila af gagnstæðu kyni.


6. gr.
Greiðslur til upplýsingagjafa og önnur úrræði.

Lögreglumanni er óheimilt að gefa upplýsingagjafa fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi, enda séu slík fyrirheit ólögleg eða ekki á valdi lögreglumanns að veita þau.
Lögreglu er rétt að vekja athygli á að upplýsingagjöf til lögreglu sé til þess fallin að hafa áhrif á ákvörðun refsingar til lækkunar, sbr. 70. gr. og 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Heimilt er að greiða upplýsingagjafa fyrir upplýsingar, sem leiða til þess að komið er í veg fyrir að alvarlegt brot sé framið eða að alvarlegt brot upplýsist. Fjárhæð greiðslu í hverju tilviki skal ákveðin með tilliti til vægi upplýsinganna, eðlis og alvarleika brots, vinnu og kostnaðar upplýsingagjafa og áhættu, sem hann tekur. Ekki skal greidd hærri fjárhæð en kr. 150.000.
Greiðsla skal ekki innt af hendi fyrr en ljóst er að upplýsingagjöfin hafi skilað árangri.
Ákvörðun um greiðslu til upplýsingagjafa tekur lögreglustjóri og staðfestir hana með áritun á greiðslubeiðni.
Upplýsingagjafa skal afhent greiðsla af viðkomandi lögreglumanni að viðstöddum yfirmanni hans. Upplýsingagjafi skal kvitta fyrir greiðslunni ef þess er kostur og staðfest skal af lögreglumanni og yfirmanni að greiðsla hafí átt sér stað.

7. gr.
Ábyrgð og eftirlit.

Lögreglustjóri ber ábyrgð á því, að þessum reglum sé fylgt og skal hafa reglubundið eftirlit með framkvæmd þeirra. Enn fremur setur hann nánari starfsreglur eftir því sem við á.





FYLGISKJAL III: Tillögur að fyrirmælum um notkun tálbeitu.

Fyrirmæli um notkun tálbeitu.

1. Ákvörðun um notkun tálbeitu skal tekin af lögreglustjóra eða staðgengli hans. Ef ákvörðun þolir ekki bið og ekki næst í lögreglustjóra eða staðgengil hans má víkja frá þessu skilyrði en nauðsynlegt er að leita staðfestingar frá viðkomandi yfirmönnum á beitingu úrræðisins svo fljótt sem kostur er.
2. Heimilt er að nota tálbeitu þegar sterkur grunur er um að verið sé að fremja eða reynt verði að fremja alvarlegt brot.
3. Ef um fíkniefnabrot er að ræða verða fíkniefnin að vera komin til Íslands.
4. Ef fíkniefni eru keypt verða fjármunir að koma úr sjóðum lögreglunnar en ekki frá einkaaðilum.
5. Ástæða verður að vera til að ætla að með notkun tálbeitu fáist upplýsingar sem skipt geta verulega miklu fyrir rannsókn máls.
6. Ætla verður að venjuleg rannsóknarúrræði, önnur en notkun tálbeitu, dugi ekki til að fá slíkar upplýsingar.
7. Rannsókn verður að beinast að broti sem varðað getur átta ára fangelsi. Ef um fíkniefnabrot er að ræða verður að vera um umtalsvert magn að ræða og fíkniefnin ætluð til dreifingar eða efnin sérstaklega hættuleg þannig að brotið varði við 173. gr. a alm. hgl.
8. Ekki má nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin.



FYLGISKJAL IV: Tillögur að reglum um afhendingu undir eftirliti.
Reglur um afhendingu undir eftirliti.
1. gr.
Skilgreining og markmið.

Afhending undir eftirliti er rannsóknaraðgerð lögreglu sem felst í því að fresta að leggja hald á, en hafa undir stöðugu eftirliti, fíkniefnasendingu eða aðra ólöglega eða grunsamlega vörusendingu á leið til landsins, um landið eða úr landi. Tilgangur afhendingar undir eftirliti er að upplýsa um viðtakanda sendingar, aðferðir við flutning og hugsanlegt dreifikerfi og afla þannig sönnunargagna um refsiverða háttsemi.

2. gr.
Ákvörðun og stjórn.

Ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um afhendingu undir eftirliti og mælir fyrir um stjórn aðgerða. Hann getur jafnframt óskað eftir samvinnu við löggæsluyfirvöld annarra ríkja.
Áður en ríkislögreglustjóri ákveður að afhending undir eftirliti fari fram hér á landi eða leitar samvinnu um það við löggæsluyfirvöld annarra ríkja ber honum að leita samþykkis ríkissaksóknara og ríkistollstjóra.

3. gr.
Skilyrði.

Heimilt er að afhending undir eftirliti fari fram eftir beiðni frá erlendu ríki að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:
1. Rökstuddur grunur er um alvarlegt refsivert brot.
2. Aðgerðin er nauðsynlegur þáttur í öflun sönnunargagna um brotið sem ella væri ekki unnt að afla.
3. Tæknibúnaður og mannafli er til staðar sem tryggir órofa eftirlit með sendingunni á meðan aðgerðin stendur yfir.
4. Kannað hefur verið hvort unnt er að skipta um innihald sendingarinnar, t.d. fíkniefni, að hluta til eða öllu leyti.
Þegar um ræðir sendingu undir eftirliti sem flutt er milli landa með viðkomu á Íslandi (transit) eru að auki sett þau skilyrði að lokaáfangastaður sé þekktur, viðkomandi erlend yfirvöld tryggi órofa eftirlit með sendingunni, að hald verði lagt á hana og að þeir sem hlut eiga að máli verði sóttir til saka.

4. gr.
Beiðni um aðgerð.

Beiðni erlendra yfirvalda um aðstoð vegna afhendingar undir eftirliti skal send ríkislögreglustjóra. Beiðnin má vera á ensku, dönsku, norsku eða sænsku og þar skulu koma fram eftirfarandi atriði:
1. Hvaða yfirvald óskar aðgerðarinnar og staðfesting þess að það sé bært til að setja fram slíka beiðni.
2. Rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að aðgerðin fari fram.
3. Frá hvaða löggæslustofnun í viðkomandi ríki upplýsingar um sendinguna hafa borist.
4. Nákvæmar upplýsingar liggi fyrir eftir því sem við verður komið um:

a. innihald og umfang sendingar,
b. flutningsleið, flutningsaðferð og tímasetningar,
c. persónuupplýsingar um grunaða og tengsl við aðra brotamenn,
d. önnur atvik sem kunna að skipta máli fyrir aðgerðina.

5. Hvaða aðstoðar er óskað.
6. Hvaða löggæslustofnanir viðkomandi ríkis taka þátt í aðgerðinni, nöfn og stöður stjórnenda og hvernig tryggt verði að ávallt sé hægt að ná sambandi við þá meðan á aðgerð stendur.
7. Hvernig eftirliti verður hagað.
8. Hvort önnur ríki sem sendingin fer um hafa samþykkt aðgerðina.
Heimilt er að setja beiðni fram í símtali, þoli aðgerðin ekki bið, enda sé tryggt að skrifleg beiðni verði send tafarlaust í kjöfarið sem uppfylli skilyrði 3. gr. og geti þeirra atriða sem talin eru 1. mgr.
Ríkislögreglustjóri metur hvort beiðni fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr.

5. gr.
Störf löggæslumanna utan heimaríkis.

Ríkislögreglustjóri getur heimilað löggæslumönnum annarra ríkja fylgjast með afhendingu undir eftirliti á íslensku yfirráðasvæði, enda hafi þeir tilskilin leyfi yfirvalda í heimaríki sínu. Þeir fara þó ekki með lögregluvald.
Ríkislögreglustjóri getur heimilað íslenskum lögreglumönnum að fylgjast með afhendingu undir eftirliti utan íslensks yfirráðasvæðis og að vinna undir stjórn erlendra löggæsluyfirvalda meðan á aðgerðinni stendur.

6. gr.
Stöðvun aðgerðar.

Stöðva ber afhendingu undir eftirliti tafarlaust, leggja hald á sendinguna og handtaka grunaða í eftirfarandi tilvikum:
1. Þeir sem grunur beinist hafa komist að því að sendingin er undir eftirliti.
2. Hætta steðjar að lögreglumönnum, tollvörðum eða öðrum sem taka þátt í aðgerðinni.
3. Hætta er á að eftirlit með sendingu rofni þannig að hún verði ekki haldlögð.

7. gr.
Skráning aðgerðar.

Allt ferli aðgerðar skal skráð þar sem lýst er upphafi hennar og lyktum, hvaða yfirvöld tóku þátt í henni og önnur atriði sem máli skipta.
Að lokinni aðgerð skal ríkislögreglustjóri gera skýrslu þar sem kemur m.a. fram hver var árangur aðgerðarinnar, upplýsingar um grunaða og handtekna og haldlagðan varning. Skýrsluna skal afhenda ríkissaksóknara.

8. gr.
Aðgerð fer fram innanlands

Ríkislögreglustjóri getur, að fengnu samþykki ríkissaksóknara, mælt fyrir um eftirlit með sendingu á milli tveggja eða fleiri umdæma lögreglustjóra innanlands. Ákvæði 1. mgr. 3. gr., 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. reglna þessara gilda þá eftir því sem við á.





FYLGISKJAL V:



[Þýðing úr ensku]


Tilmæli ráðherranefndar nr. R (97) 13
til aðildarríkja, um ógnanir gagnvart vitnum og réttindi varnarinnar.
(samþykkt af ráðherranefnd 10. september 1997, á 600. fundi fulltrúanefndar).


Ráðherranefnd Evrópuráðsins, samkvæmt 15 gr. b í stofnskrá Evrópuráðsins,

sem hefur í huga að markmið Evrópuráðsins er að koma á nánari einingu aðildarríkjanna,

sem gerir sér ljósa þörf aðildarríkjanna til að móta sameiginlega afbrotamálastefnu á sviði vitnaverndar,

sem hefur í huga að á sumum sviðum afbrota, svo sem skipulagðrar afbrotastarfsemi og afbrota innan fjölskyldunnar, er vaxandi hætta á að vitnum sé ógnað,

sem hefur í huga að óviðunandi er ef réttarkerfið bregst því hlutverki að færa sakborninga fyrir rétt og fá dóm um sakir þeirra vegna þess að tekist hefur að koma í veg fyrir að vitni veiti rétta skýrslu af frjálsum vilja,

sem veitir því athygli að hinu sérstaka hlutverki vitna í sakamálum er veitt vaxandi viðurkenning, og að vitnisburður þeirra skiptir oft höfuðmáli við að fá afbrotamenn sakfellda, einkum þegar um er að ræða skipulagða glæpastarfsemi eða afbrot innan vébanda fjölskyldunnar,

sem gerir sér ljóst að um leið og allir bera þá þegnlegu skyldu að veita skýrslu sem vitni eftir bestu vitund ef réttarkerfið krefst þess, verður einnig að veita réttindum og þörfum vitna aukna viðurkenningu, þar á meðal rétti þeirra til að njóta friðar og þurfa ekki að leggja sig persónulega í hættu,

sem lítur til þess að aðildarríkjunum er skylt að vernda vitni fyrir slíku með því að sjá þeim fyrir sérstakri vernd til að öryggi þeirra sé tryggt,

sem hefur í huga ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu og framkvæmd stofnana sem samkvæmt honum starfa, þar sem réttindi verjanda til að spyrja vitni og bera brigður á skýrslur þeirra eru viðurkennd, en ekki er mælt fyrir um að vitni og meintur brotamaður séu sett andspænis hvort öðru augliti til auglitis,

sem hafa hliðsjón af Tilmælum nr. nr. R (85) 4 um ofbeldi innan vébanda fjölskyldunnar, Tilmæli nr. R (85) 11 um stöðu vitna á sviði refsiréttar og réttarfars, Tilmæli nr. R (87) 21 um aðstoð við vitni og vernd þeirra, Tilmæli nr. (91) 11 um kynferðislega misnotkun, klám, vændi og verslun með börn og ungmenni, og Tilmæli nr. (96) 8 um refsistefnu í Evrópu á breytingatímum,

mælist til þess að ríkisstjórnir aðildarríkjanna

- nýti þau meginatriði, sem lýst er með tilmælum þessum, sér til leiðsagnar við lagasetningu sína og við endurskoðun á refsistefnu sinni og réttarframkvæmd,

- tryggi að öllum stofnunum sínum sem hagsmuna hafa að gæta, svo sem lögmannafélögum, stofnunum dómskerfisins, löggæslustofnunum og stofnunum á sviði fjölskylduverndar, séu kynnt þessi meginatriði eins og þörf krefur.


I. Skilgreiningar

Í tilmælum þessum merkir

- "vitni" hvern þann sem býr yfir upplýsingum sem varða meðferð refsimáls, hver sem staða þess er samkvæmt landslögum um réttarfar í opinberum málum. Skilgreining þessi tekur einnig til sérfróðra matsmanna og túlka,

- "ógnun" hvers konar beina, óbeina eða hugsanlega hótun gagnvart vitni, sem getur haft áhrif á skyldu þess til að bera vitni án nokkurrar truflunar af hvaða tagi sem er. Undir þetta fellur ógnun sem á annað hvort rætur að rekja til tilveru glæpasamtaka einnar saman, sem sterkt orð fer af um ofbeldi og hefndaraðgerðir, eða til þess eins að vitni er meðlimur í lokuðum þjóðfélagshóp og er í veikri stöðu innan hans,

- "nafnleynd" að sakborningi sé með öllu ókunnugt um þau atriði sem persónugreina vitni,

- "uppljóstrari" hvern þann sem vænta má refsimálssóknar eða hefur verið sakfelldur vegna þátttöku í samtökum afbrotamanna eða glæpasamtökum af hvaða tagi sem er, eða vegna afbrota sem tengjast skipulögðum glæpum, en fellst á að vinna með réttarvörsluyfirvöldum, einkum með því að veita upplýsingar um samtökin eða eitthvert afbrot sem tengist skipulögðum glæpum.


II. Almenn meginsjónarmið

1. Gera ber viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og framkvæmdar til að tryggja að vitnaskýrslur megi veita af frjálsum vilja og án ógnunar.

2. Um leið og réttindi varnarinnar eru virt ber þar sem þörf krefur að skipuleggja vernd vitna, skyldmenna þeirra og annarra nákominna, þar á meðal vernd á lífi þeirra og persónulegu öryggi fyrir málsmeðferð, meðan á henni stendur og eftir hana.

3. Gera ber ógnanir gagnvart vitnum að refsiverðri háttsemi, annað hvort sem sérstakt afbrot eða sem lið í hótunarbroti.

4. Um leið og tekið er tillit til meginreglunnar um sönnunarmat dómara ber að gera ráð fyrir því í réttarfarslögum að ógnanir gagnvart vitnum geti haft áhrif á mat á vitnisburði þeirra.

5. Með fyrirvara um lögákveðin sérréttindi ber að hvetja vitni til að tilkynna viðeigandi yfirvöldum um vitneskju sína varðandi afbrot og fallast síðan á að bera vitni fyrir rétti.

6. Um leið og réttindi varnarinar eru virt ber að veita vitnum möguleika á að gefa skýrslu með aðferðum sem vernda þau fyrir ógnunum sem eiga rætur að rekja til þess að vera sett augliti til auglitis við varnaraðila, til dæmis með því að heimila þeim að gefa skýrslu í aðskildu herbergi.

7. Starfsfólki réttarvörslukerfisins ber að veita fullnægjandi þjálfun til að fást við mál þar sem vitni kunna að sæta ógnunum.


III. Ráðstafanir sem gera ber varðandi skipulagða glæpastarfsemi

8. Við tilhögun baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi er ákvörðuð ber að taka upp sérstakar réttarfarsreglur til að bregðast við ógnunum. Slíkar ráðstafanir kunna einnig að eiga við um önnur alvarleg afbrot. Þær verða að tryggja nauðsynlegt jafnvægi í lýðræðisþjóðfélagi á milli þess að firra glundroða eða glæpum, og þess að tryggja réttindi hins ákærða við réttláta málsmeðferð.

9. Um leið og tryggt er að vörnin hafi fullnægjandi tækifæri til að bera brigður á skýrslu vitnis, ber meðal annars að íhuga eftirfarandi ráðstafanir:

- að taka upp á myndband og hljóðband þær skýrslur sem vitni veitir áður en aðalmeðferð máls fer fram fyrir dómi.

- að nota skýrslur sem gefnar eru í dómi áður en aðalmeðferð fer fram sem sönnunargögn þegar vitnum er ekki unnt að koma fyrir dóminn eða þegar skýrslugjöf í dómi kynni að valda verulegri og raunverulegri hættu fyrir líf og öryggi vitnis, skyldmenna þess eða annarra nákominna,

- gefa deili á vitnum upp eins seint í málsmeðferðinni og kostur er, og/eða veita einungis upplýsingar um valin atriði,

- útiloka fjölmiðla og/eða almenning frá málsmeðferðinni eða hluta hennar.

10. Þar sem slíks er kostur og samræmist landslögum ber einungis í undantekningartilvikum að gæta nafnleyndar um fólk sem kann að bera vitni. Þegar það hefur farið fram á að nafnleynd verði tryggð, og/eða þegar þar til bær yfirvöld hafa lofað nafnleynd til bráðabirgða, ber að kveða í lögum um opinbert réttarfar á um hvernig staðfestingar verði aflað, svo að gætt sé jafnvægis milli réttarfarslegrar nauðsynjar og réttinda sakbornings. Með þeirri tilhögun ber að veita vörninni tækifæri til að bera brigður á meinta þörf fyrir nafnleynd vitnis, trúverðugleika þess, og uppruna þeirrar vitneskju sem það býr yfir.

11. Nafnleynd ber aðeins að veita ef dómari telur, eftir að hafa kynnt sér sjónarmið aðilanna, að

- lífi eða frelsi viðkomandi fólks sé alvarlega ógnað, eða, ef um er að ræða löggæslumann sem starfar með leynd, að starf hans eða hennar í framtíðinni sé sett í verulega hættu,

- upplýsingarnar séu líklegar til að teljast mikilvægar og viðkomandi aðili virðist trúverðugur.

12. Þegar við á ber að hafa önnur úrræði tiltæk til verndar vitnum, þar á meðal að vörnin fái ekki að vita deili á þeim, svo sem með því að skýla þeim og leyna andlitsdráttum eða breyta rödd.

13. Hafi nafnleynd verið veitt ber ekki að byggja sakfellingu eingöngu eða að ákvarðandi marki á vitnisburði viðkomandi vitnis.

14. Þar sem við á ber að koma á sérstökum starfsáætlunum, svo sem um vernd vitna, og veita vitnum sem verndar eru þurfi kost á að taka þátt í þeim. Helsti tilgangur þeirra á að vera að vernda líf og persónulegt öryggi vitna, skyldmenna þeirra og annarra nákominna.

15. Með starfsáætlunum um vernd vitna ber að veita þeim kost á vernd með mismunandi hætti, svo sem að veita þeim, skyldmennum þeirra og öðrum nákomnum kost á nafnbreytingu, menntun eða aðstoð við að afla annars starfs, eða skipa þeim lífvörð og sjá þeim fyrir annarri líkamlegri vernd.

16. Með tilliti til þess hve uppljóstrarar gegna mikilvægu hlutverki í baráttu gegn skipulagðri afbrotastarfsemi ber að huga sérstaklega að þeim, og þar með hvort veita skuli þeim kost á að njóta góðs af ráðstöfunum sem gerðar eru á vettvangi starfsáætlana um vernd vitna. Þar sem þörf krefur kynnu slíkar áætlanir að fela í sér sérstakar ráðstafanir, svo sem sérstakan aðbúnað til handa uppljóstrurum sem afplána fangelsisrefsingu.


IV. Ráðstafanir varðandi vitni í viðkvæmri stöðu, einkum í tengslum við afbrot innan vébanda fjölskyldu

17. Gera ber fullnægjandi ráðstafanir á sviði löggjafar og framkvæmdar til að tryggja vernd gegn ógnunum og létta þrýstingi af vitnum sem veita upplýsingar í sakamálum gegn fjölskyldumeðlimum.

18. Haga ber slíkum ráðstöfunum með tilliti til mismunandi hópa vitna í viðkvæmri stöðu. Ber þar að taka tillit til þess að innan fjölskyldu eru ógnanir oft settar fram með duldum hætti, og beinast venjulega að sálfræðilegri og/eða tilfinningalegri velferð vitnis. Séu ógnanir ekki settar fram með beinum hætti ber því fyrst og fremst að gera ráðstafanir sem ekki snerta refsiréttarleg atriði.

19. Veita ber börnum sérstaka vernd og stuðning gegn hvers kyns misnotkun valds innan fjölskyldunnar. Kynna ber börnum réttindi þeirra, einkum rétt þeirra til að tilkynna um afbrot.

20. Hina sérstöku hagsmuni barna ber að vernda á öllum stigum máls fyrir atbeina stofnunar á sviði félagsmála, og eftir því sem við á fyrir atbeina lögmanna sem sérmenntun hafa hlotið.

21. Veita ber konum, sem sætt hafa ofbeldi á heimili, og eldra fólki, sem sætt hefur illri meðferð innan fjölskyldu sinnar, fullnægjandi vernd gegn ógnunum sem hafðar eru í frammi í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tilkynningar um afbrot eða vitnisburð.

22. Koma ber á starfsáætlunum til aðstoðar vitnum sem bera gegn öðrum fjölskyldumeðlimum. Þar mætti setja umgerð um

- lagalega, sálfræðilega og aðra félagslega aðstoð, svo og umönnun og fjárhagsaðstoð ef við á,

- ráðstafanir til að flytja sakborning úr nálægð sinni við vitni til að koma í veg fyrir frekari ógnanir, eða ráðstafanir til að flytja vitni brott,

- félagssálfræðilegar aðgerðir (svo sem sálfræðilega meðferð) á sakborningi til að koma í veg fyrir frekari ógnanir.

23. Starfsmönnum stofnana innan réttarvörslukerfisins ber að gera sér grein fyrir að þær geta valdið vitnum sálrænu áfalli, og ber þeim að vinna gegn því.

24. Hafa ber sérfræðilega aðstoð tiltæka jafnskjótt og vitni í viðkvæmri stöðu setur ásakanir sínar fyrst fram við lögreglu. Enn fremur ber að fela starfsmönnum með viðeigandi þjálfun yfirheyrslu slíks vitnis.

25. Alltaf ber að yfirheyra vitni í viðkvæmri stöðu sem fyrst í meðferð refsimáls, eins fljótt og unnt er eftir að tilkynnt hefur verið um atvik þess. Slíkri yfirheyrslu ber að haga með sérstaklega vönduðum, tillitssömum og ítarlegum hætti.

26. Ekki ber að endurtaka slíkar yfirheyrslur. Stjórn hennar ber að hafa í höndum dómara eða láta hana fara fram í viðurvist dómara, og veita ber vörninni nægilegan kost á að vefengja vitnisburðinn.

27. Ef við á ber að taka skýrslur sem fengnar eru fyrir aðalmeðferð máls á myndband til að komast hjá því að stilla aðilunum upp augliti til auglitis og til að forðast óþarfar endurtekningar sem geta valdið sálrænu áfalli. Við aðalmeðferð má nota hljóð- og myndupptökutækni til að gera viðeigandi yfirvaldi kleift að prófa hlutaðeigendur án þess að annar þeirra sé viðstaddur.

28. Við aðalmeðferð ber dómara að hafa nána yfirumsjón með skýrslutöku. Þegar gagnspurningar kunna að valda vitni óhæfilegu sálrænu áfalli, einkum í málum þar sem ásakanir um kynferðisbrot eru hafðar uppi, ber dómara að gera viðeigandi ráðstafanir til að stjórna hvernig spurningar eru bornar fram.

29. Ekki ber að vísa á bug vitnisburði barna vegna þess eins að þau staðfesti hann ekki með eiði.


V. Alþjóðleg samvinna

30. Í samninga sem miðast að því að styrkja alþjóðlega samvinnu, svo og í landslög, ber að bæta reglum til að auðvelda skýrslutöku af vitnum sem eiga ógnanir á hættu, og gera kleift að framkvæma áætlanir um vernd vitna handan landamæra. Ber til dæmis að íhuga eftirfarandi ráðstafanir:

- notkun nútímafjarskipta, svo sem myndtenginga, til að auðvelda samtímaprófun verndaðra vitna eða vitna, sem ella geta ekki mætt fyrir dóm í því ríki sem um vitnaleiðslu biður, eða ef mót af hálfu þeirra er á annan hátt erfiðleikum eða miklum kostnaði háð, um leið og réttinda varnarinnar er gætt,

- aðstoð við að flytja heimili verndaðra vitna til annarra landa og tryggja vernd þeirra,

- skipti á upplýsingum um milli yfirvalda sem hafa umsjón með starfsáætlunum um vernd vitna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum