Hoppa yfir valmynd

Reglur nr. 30/1990

Reglur nr. 30/1990

um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi

1. gr.
Skilmálar slysatryggingar ríkisstarfsmanna.

 1. Skilmálar slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum og öðrum hliðstæðum kjaraákvörðunum sem teknar eru lögum samkvæmt, eru tvenns konar. Annars vegar skilmálar þessir sem gilda um slys sem starfsmaður verður fyrir í starfi sínu í skilningi 4. gr. reglna þessara. Hins vegar skilmálar sem gilda um slys sem starfsmaður verður fyrir utan starfsins og gilda sérstakar reglur sem settar eru samhliða reglum  þessum, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs.

2. gr.
Almenn ákvæði.

 1. Starfsmenn þeir sem 3. gr. reglna þessara tekur til, eru slysatryggðir fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku. Trygging þessi er í eigin áhættu ríkissjóðs.
 2. Um trygginguna gilda lög nr. 20 frá 8. mars 1954, um vátryggingarsamninga, þegar ekki er vikið frá þeim í reglum þessum.
 3. Í reglum þessum merkir hugtakið vátryggður þann sem kröfu á um greiðslu bóta er til hennar kemur og orðasambandið sá sem tryggður er merkir þann einstakling sem ríkissjóður ber áhættuna af að slasist.

3. gr.
Hverjir eru tryggðir.

 1. Slysatryggðir skv. reglum þessum eru fastir og lausráðnir starfsmenn ríkisins, enda verði starf þeirra talið aðalstarf, sem eru félagar í stéttarfélagi er gert hefur kjarasamning við fjármálaráðherra samkvæmt ákvæðum laga nr. 94 frá 31. desember 1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, enda taki samningurinn til starfsmannsins og í samningnum sé ákvæði um slysatryggingu í samræmi við reglur þessar.
 2. Einnig eru tryggðir samkvæmt reglum þessum þeir starfsmenn ríkisins sem taka laun eftir sambærilegum kjaraákvörðunum, svo sem ákvörðun fjármálaráðherra skv. 5. tölulið 1. gr. 1) og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 og skv. lögum nr. 92 2) frá 31. desember 1986, um Kjaradóm, eftir því sem við getur átt enda sé þar kveðið á um slysatryggingu í samræmi við reglur þessar.
  1) Nú 1. tl. 1. gr.
  2) Nú lög nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd
 3. Tryggingin gildir á sama hátt fyrir starfsmenn sjálfseignarstofnana ef öll eftirgreind skilyrði eru uppfyllt:
  3.1 að fjármálaráðherra fari með samningsrétt fyrir stofnunina skv. 2. gr. laga nr. 94/1986;
  3.2 að rekstrarkostnaður stofnunarinnar sé greiddur af ríkissjóði;
  3.3 að launaskrifstofa ríkisins 3) annist launagreiðslur;
  3.4 að út frá því sé gengið við fjárveitingar Alþingis til stofnunarinnar að slysatrygging starfsmanna verði í eigin áhættu ríkissjóðs.
  3) Nú Fjársýsla ríkisins, launaafgreiðsla
 4. Slysatrygging skv. reglum þessum tekur þó ekki til starfsmanna er falla undir ákvæði 1.-3. mgr. ef viðkomandi stofnun kaupir tryggingu vegna þeirra og tryggingin bætir dauða eða varanlega örorku. Ákvæði þetta tekur þó ekki til trygginga sem teknar eru til viðbótar tryggingu þessari með sérstakri heimild fjármálaráðuneytisins.

4. gr.
Gildissvið.

 1. Trygging skv. reglum þessum tekur til slysa sem sá sem tryggður er, sbr. 3. gr., verður fyrir í starfi sínu eða á eðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis. Sama gildir í matar- og kaffitíma á matstað og um ferðir milli vinnustaðar og matstaðar í matar- og kaffihléum. Ef starfsmaður hefur vegna starfs síns viðlegustað utan heimilis, kemur viðlegustaður í stað heimilis. Trygging skv. reglum þessum tekur aðeins til starfsmanns á útkallsvakt meðan á útkalli stendur. Tryggingin tekur ennfremur til slysa á ferðalagi innanlands og utan í þágu starfsins eins og nánar er kveðið á um í reglum þessum.
 2. Bætur greiðast því aðeins að slysið sé aðalorsök þess að sá sem tryggður er, deyr eða missir varanlega starfsorku sína að nokkru eða öllu leyti. Orðið slys merkir hér skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist sannanlega án vilja hans.

5. gr.
Gildistími.

 1. Trygging skv. reglum þessum tekur gildi frá þeim tíma er tryggingarskyldur launþegi skv. 3. gr. hefur störf hjá ríki eða ríkisstofnun en fellur úr gildi um leið og hann hættir störfum, fer í launalaust leyfi eða námsleyfi á launum.

6. gr.

Aldurstakmörk.

 1. Sé sá sem tryggður er 70 ára eða eldri, verða vátryggingarupphæðir eftirtaldir hundraðshlutar af hámarksupphæð skv. 9. og 10. gr.:

  Á 71. ári 95%
  Á 72. ári 90%
  Á 73. ári 85%
  Á 74. ári 80%
  Á 75. ári 75%
  Á 76. ári 70%
  Á 77. ári 65%
  Á 78. ári 60%
  Á 79. ári 55%
  Á 80. ári 50%
  Á 81. ári 45%
  Á 82. ári 40%
  Á 83. ári 30%
  Á 84. ári 20%
  Á 85. ári 10%

2. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal starfsmaður er með samþykki yfirmanns lætur af föstu starfi í árslok árið sem hann nær 70 ára aldri, halda óskertri hámarksupphæð allt það ár.

3. Börn yngri en 13 ára eru ekki vátryggð fyrir hærri dánarbótum en sem nemur venjulegum útfararkostnaði.

7. gr.
Takmarkanir á bótaskyldu.

1. Svik og rangar upplýsingar.
Skýri vátryggður sviksamlega frá eða leyni atvikum sem skipta máli um bótaábyrgð, glatar hann öllum rétti sínum skv. tryggingunni, sbr. 23. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga.
2. Takmarkanir vegna náttúruhamfara.
Ef jarðskjálfti, eldgos, flóð, skriðuföll eða aðrar náttúruhamfarir valda slysi í einum og sama atburði á fleiri en 100 einstaklingum sem njóta slysatrygginga launþega almennt, takmarkast bótagreiðsla ríkisins til þeirra sem tryggðir eru skv. reglum þessum við meðaldánarbótafjárhæð 15 einstaklinga. Meðaldánarbótafjárhæð miðast við dánarbætur til maka og 1,2 barna skv. 9. gr., tl. 2.3 og 2.4. Bætur skiptast hlutfallslega á milli bótaþega. Takmörkun þessi tekur þó ekki til þeirra starfsmanna sem eiga skyldustörfum að gegna við slíkar náttúruhamfarir.
3. Aðrar takmarkanir á bótaskyldu.
Tryggingin bætir ekki:

3.1 Slys sem verða vegna ásetnings, stórkostlegs gáleysis eða hirðuleysis þess sem tryggður er eða vátryggðs.
3.2 Slys er sá sem tryggður er, verður fyrir í handalögmálum, við þátttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og eiturlyfja eða í ölæði nema sannað sé að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins.
3.3 Slys sem orsakast af matar- eða drykkjareitrun, af nautnalyfjum eða lyfjanotkun nema það sé að læknisráði vegna bótaskylds slyss. Slys vegna kvalastillandi lyfja eða svefnlyfja eru alltaf undanskilin bótaábyrgð.
3.4 Slys sem verða í flugi nema að sá sem tryggður er sé farþegi í farþegaflugi á vegum aðila sem hefur tilskilin leyfi hlutaðeigandi flugmálayfirvalda, í flugfari í eigu ríkisins eða í flugi er tengist nauðsynlegri læknisþjónustu, björgunar- og öryggisstarfsemi.
3.5 Slys af völdum styrjaldar, innrásar, hernaðaraðgerða, borgararósta, uppreisnar, uppþots eða svipaðra aðgerða nema hinn tryggði sé tilkvaddur til skyldustarfa við slíkar aðstæður eða sé á ferðalagi utanlands í þágu starfsins.
3.6 Slys sem beint eða óbeint eru af völdum kjarnabreytingar, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis og kjarnaúrgangsefnis nema meðferð slíkra efna og tækja tengist starfi hins tryggða.
3.7 Slys vegna eitraðra lofttegunda nema það hafi orðið skyndilega og án vilja þess sem tryggður er.

8. gr.
Ráðstafanir vegna slyss.

1. Slasaða ber að leita læknis strax eftir að slys hefur borið að höndum, gangast undir nauðsynlegar læknisaðgerðir og fara í öllu að fyrirmælum læknis.
2. Tilkynna skal slys eins fljótt og unnt er til launaskrifstofu ríkisins 1).
3. Deyi sá sem tryggður er af slysförum, skal tilkynna það eins fljótt og auðið er.
4. Fjármálaráðuneytið hefur rétt til að krefjast krufningar á líki hins látna.
5. Þegar slys ber að höndum, er fjármálaráðuneytinu heimilt að láta trúnaðarlækni sinn skoða þann sem tryggður er.
6. Þegar læknishjálp lýkur eða þegar unnt er að dæma um afleiðingar slyssins, skal senda læknisvottorð og bótakröfu til embættis ríkislögmanns vegna fjármálaráðuneytisins.
7. Vátryggður fær endurgreidd nauðsynleg læknisvottorð sem aflað er skv. reglum þessum.

1) Nú Fjársýsla ríkisins, launaafgreiðsla

9. gr.
Dánarbætur.

1. Valdi slys dauða þess sem tryggður er innan þriggja ára frá slysdegi, greiðist tryggingarfjárhæð sú sem í gildi er í uppgjörsmánuði skv. 2. mgr. greinar þessarar, sbr. 11. gr. Bætur fyrir varanlega örorku sem kunna að hafa verið greiddar vegna sama slyss, skulu framreiknaðar með framfærsluvísitölu 1) til uppgjörsmánaðar og dragast þannig reiknaðar frá greiðslu.
1) Nú vísitala neysluverðs

2. Bætur sem greiddar eru vegna hvers einstaklings ef slys veldur dauða, eru:

2.1 Ef hinn látni var ógiftur og lætur ekki eftir sig barn undir 18 ára aldri og hefur ekki séð fyrir foreldri eða foreldrum 67 ára og eldri, kr. 532.700 2).
Rétthafar þessara dánarbóta eru lögerfingjar.
2.2 Ef hinn látni var ógiftur en lætur eftir sig barn (börn) undir 18 ára aldri og/eða hefur sannanlega séð fyrir foreldri eða foreldrum 67 ára og eldri, kr. 1.632.300 2).
Rétthafar þessara dánarbóta eru foreldrar og börn. Taki báðir þessir aðilar bætur, rennur 1/3 hluti bóta til foreldra en 2/3 hlutar bótanna skiptast milli barna að jöfnu.
2.3 Ef hinn látni var í hjúskap eða í sambúð sem að öðru leyti má jafna til hjúskapar og sem staðið hefur a.m.k. í 2 ár samfellt fyrir andlát hans, skulu bætur til maka eða sambúðaraðila vera kr. 2.663.800 2).
Rétthafi þessara dánarbóta er viðkomandi maki eða sambúðaraðili.
2.4 Ef hinn látni lætur eftir sig barn (börn) undir 18 ára aldri, kr. 532.700 2) til hvers barns. Stundi barn hins látna á aldrinum 18-25 ára nám á framhaldsskóla- eða háskólastigi í a.m.k. 6 mánuði ársins er hinn tryggði andaðist, á það sama rétt til bóta.
Rétthafar dánarbóta þessara eru viðkomandi börn. Bætur greiðast til fjárhaldsmanns ófjárráða barns.
2.5 Með börnum í töluliðum 2.2 og 2.4 er átt við kynbörn, kjörbörn, stjúpbörn, börn sambúðaraðila og fósturbörn sem hinn látni var framfærsluskyldur við skv. 14. gr. barnalaga nr. 9/1981.
2.6 Bætur greiðast aðeins skv. einum af töluliðum 2.1, 2.2 og 2.3. Til viðbótar töluliðum 2.2 og 2.3 geta komið bætur skv. tölulið 2.4.
2) Bótafjárhæðir uppfærðar mánaðarlega. Uppfærðar bótafjárhæðir og vísitala. (PDF 65K)

3. Um vísitölubindingu tryggingarfjárhæða skv. 2. mgr. greinar þessarar, gildir ákvæði 11. gr.

10. gr.
Bætur fyrir varanlega örorku.

1. Valdi slys þeim sem tryggður er, varanlegri örorku innan þriggja ára frá því að slysið varð, greiðast bætur á grundvelli þeirrar tryggingarfjárhæðar sem í gildi er í uppgjörsmánuði bóta skv. 2. mgr. greinar þessarar, sbr. 11. gr., eftir þeim reglum sem að neðan greinir.
2. Bætur vegna varanlegrar örorku greiðast í hlutfalli við tryggingarfjárhæðina kr. 3.353.000 1), þó þannig að hvert örorkustig frá 26 50% vegur tvöfalt og hvert örorkustig frá 51-100% þrefalt. Bætur við 100% varanlega örorku verða því kr. 7.544.300 1). Um vísitölubindingu tryggingarfjárhæðarinnar gildir ákvæði 11. gr.

1) Bótafjárhæðir uppfærðar mánaðarlega. Uppfærðar bótafjárhæðir og vísitala. (PDF 65K)

3. Við ákvörðun örorku skal fylgja eftirfarandi reglum:

3.1 Þessi tafla skal höfð til hliðsjónar við örorkumat:

A. Sjón og heyrn

Alger missir sjónar á báðum augum

100%

Alger missir sjónar á öðru auga, full sjón á hinu

20%

Annað augað numið burtu, full sjón á hinu

25%

Algert heyrnarleysi á öðru eyra

10%


Algert heyrnarleysi á báðum eyrum

50%B. Fótlimir


Stúfhögg á báðum fótlimum um lærleggi

100%


Annar fótlimur numinn burtu í mjaðmarlið, hinn um hnélið

100%


Alger lömun á báðum fótlimum

100%


Stúfhögg á báðum fótlimum um hnéliði

75%


Stúfhögg á öðrum fótlim um lærlegg

50-65%


Stúfhögg á öðrum fótlim um fótlegg

35-45%


Staurhné á öðrum fótlim

25-50%


Staurökkli á öðrum fótlim

20-30%


Missir allra táa á öðrum fæti

10%C. Handlimir


Stúfhögg beggja handlima

100%


Stúfhögg um upphandlegg

65-75%


Stúfhögg um framhandlegg

60-65%


Stúfhögg um úlnlið

60%


Missir alls þumalfingurs

25%


Missir alls vísifingurs

12%


Missir allrar löngutangar

10%


Missir alls baugfingurs

5%


Missir alls litlafingurs

7%


Ofangreind örorka á handlimum er miðuð við betri handlim. Örorka vegna hliðstæðrar missmíði á lakari handlim er allt að 10% minni.

3.2 Ef missir útlima, sjónar eða heyrnar er ekki alger, bætist örorka hlutfallslega. Ef útlimir eru algerlega ónothæfir, telst það missir þeirra. Ef þeir eru að einhverju leyti nothæfir, reiknast örorka hlutfallslega.
3.3 Samanlögð örorkustig geta aldrei orðið meira en 100%.
3.4 Missir eða bæklun útlims sem áður var bæklaður, skal metinn í hlutfalli við þann missi sem slasaði varð fyrir við slysið. Sama gildir um líffæri.
3.5 Við ákvörðun örorku ber ekki að taka tillit til starfs, sérstakra hæfileika slasaðra né þjóðfélagsstöðu.
3.6 Örorkan ákveðst í fyrsta lagi einu ári eftir slysið. Telji slasaði eða fjármálaráðuneytið að örorkan geti breyst, getur hvor aðili um sig krafist þess að endanlegu örorkumati verði frestað, þó ekki lengur en í þrjú ár frá slysdegi.
3.7 Ef endanleg örorka hefur ekki verið ákveðin vegna frestunar skv. tölulið 3.6 þegar launagreiðslum til starfsmanns lýkur, er heimilt að greiða honum upp í bætur ef ríkar ástæður eru fyrir hendi. Við lokauppgjör skal slík greiðsla framreiknuð með framfærslu-vísitölu til uppgjörsmánaðar og koma þannig reiknuð til frádráttar bótum.
3.8 Þótt gera megi ráð fyrir að ástand hins slasaða kunni að breytast, skal undantekningar-laust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Í þessu tilfelli ber að ákveða örorkuna eins og gera má ráð fyrir að hún verði endanleg. Ef líkur eru til að ástand hins slasaða megi bæta með skurðaðgerðum eða öðrum slíkum aðgerðum og hann veigrar sér við án gildra ástæðna að gangast undir slíkar aðgerðir, ber samt sem áður við ákvörðun örorku að taka tillit til hugsanlegs bata sem slíkar aðgerðir kynnu að hafa í för með sér.
3.9 Slys sem einungis valda lýti, eru ekki bótaskyld.

11. gr.
Vísitölubinding tryggingarfjárhæða.

1. Tryggingarfjárhæðir skv. 9. og 10. gr. eru vísitölubundnar og miðast við vísitölu framfærslukostnaðar 1) í apríl 1989 119,9 stig 2). Við uppgjör bóta skal framreikna fjárhæðir miðað við þær breytingar sem orðið hafa á vísitölu framfærslukostnaðar frá apríl 1989 til uppgjörsmánaðar bóta. Vísitölubinding bóta varir þó aldrei lengur en í 3 ár frá slysdegi.
1) Nú vísitala neysluverðs
2) Uppfærðar bótafjárhæðir og vísitala. (PDF 65K)

12. gr.
Bótauppgjör.

1. Embætti ríkislögmanns fjallar um bótaskyldu skv. reglum þessum og annast uppgjör bóta í umboði fjármálaráðuneytisins.
2. Bætur greiðast eftir að læknisvottorð og nauðsynleg sönnunargögn fyrir bótaskyldu hafa borist og unnt er að ákvarða upphæð bótanna. Berist ekki athugasemdir við bótafjárhæðina innan eins mánaðar frá því að bótaþega var skýrt frá henni, telst hún samþykkt.


13. gr.
Fyrning.

1. Kröfur vegna tryggingar þessarar fyrnast á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, þó í síðasta lagi á 10 árum frá slysdegi.

14. gr.
Skaðabótaábyrgð.

1. Verði ríkissjóður eða vinnuveitandi skaðabótaskyldir gagnvart hinum vátryggða, skulu slysabætur sem greiddar hafa verið vegna slyssins skv. slysatryggingu þessari, koma að fullu til frádráttar skaðabótum er þeim kann að verða gert að greiða.
2. Beri slys að með þeim hætti að vátryggður öðlist rétt til bóta úr annarri slysatryggingu er þessir aðilar kosta, skulu bætur úr þeirri tryggingu koma að fullu til frádráttar bótum skv. reglum þessum sbr. þó 2. ml. 4. mgr. 3. gr.


15. gr.
Gildistaka.

1. Reglur þessar öðlast þegar gildi. Ákvæðum þeirra skal beita um slys sem áttu sér stað frá og með 1. apríl 1989.
Fjármálaráðuneytið, 16. janúar 1990.


Ólafur Ragnar Grímsson

_________________
Birgir Guðjónsson

Síðast uppfært: 24.6.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira