Hoppa yfir valmynd

Spurningar og svör um svæði sem falla undir verndarflokk rammaáætlunar og hvernig unnið er að friðlýsingu þeirra lögum samkvæmt

  • Þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nefnd rammaáætlun, er unnin á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun og lögð fram á Alþingi af umhverfis- og auðlindaráðherra.
  • Í rammaáætlun eru virkjunarkostir og landsvæði flokkuð í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Í orkunýtingarflokk falla kostir sem áætlað er að ráðast megi í, en þó á grundvelli ákveðinna sjónarmiða sem lýst er í lögunum. Í verndarflokk falla kostir sem ekki er talið rétt að ráðast í og landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Í biðflokk falla kostir sem talið er að þurfi að afla frekari upplýsinga um áður en þeir eru flokkaðir í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.
  • Ef virkjunarkostur er flokkaður í orkunýtingarflokk er stjórnvöldum heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum og orkuvinnslu vegna hans. Ef virkjunarkostur er flokkaður í verndarflokk er stjórnvöldum ekki heimilt að veita slík leyfi heldur eiga þau að hefja undirbúning að friðlýsingu viðkomandi landsvæða gegn orkuvinnslu.
  • Við samþykkt Alþingis á áætluninni tekur hún gildi og þá hvílir sú skylda á stjórnvöldum að vinna að framfylgd hennar. Í ofangreindum lögum segir: „Stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar.“
  • Verndarsvæðin í 2. áfanga rammaáætlunar sem samþykktur var af Alþingi árið 2013 eru afmörkuð með hliðsjón af umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar segir að „virkjunarsvæði í vatnsafli miðast almennt við allt vatnasvið fallvatnsins ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallvatnsins neðan virkjunar.“
  • Þetta þýðir að verndarsvæðið er afmarkað þannig að það nær til alls vatnasviðsins ofan við stíflu fyrirhugaðrar virkjunar og meginfarveg neðan stíflunnar. Ef annan virkjunarkost er að finna neðar í ánni og sá virkjunarkostur hefur ekki verið flokkaður í verndarflokk heldur bið- eða nýtingarflokk þá er ekki heimilt að afmarka svæðið niður fyrir þann virkjunarkost. Því er miðað við að verndarsvæðið endi við efstu mörk í fyrirhuguðu lóni í næsta virkjunarkosti fyrir neðan.
  • Verndarsvæðin sem nú er unnið að því að friðlýsa gegn orkuvinnslu voru afmörkuð í samræmi við ofangreinda greinargerð sem fylgdi frumvarpinu um verndar- og orkunýtingaráætlun. Afmörkunin sjálf var unnin á ábyrgð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins með aðkomu sérfræðinga hjá Veðurstofu Íslands og Landmælingum Íslands.
  • Fyrsta rammaáætlunin (þingsályktun sem nefnd er 2. áfangi rammaáætlunar) var samþykkt á Alþingi þann 14. janúar 2013. Í kjölfarið hófst vinna stjórnvalda við að undirbúa friðlýsingu svæða í verndarflokki í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Umhverfisstofnun er sú stofnun ríkisins sem hefur það lögbundna hlutverk að undirbúa friðlýsingu svæða.
  • Eftir að rammaáætlun hafði verið samþykkt á Alþingi sendi Umhverfisstofnun bréf til hagsmunaaðila þar sem fram kom að undirbúningsvinna væri hafin vegna friðlýsingar svæða í verndarflokki. Á þeim tíma voru í gildi eldri lög um náttúruvernd en í þeim var ekki að finna ákvæði um sérstakan friðlýsingarflokk fyrir verndarflokk rammaáætlunar. Því fólst vinnan m.a. í því að meta í hvaða flokk friðlýstra svæða væri heppilegt að hvert og eitt svæði myndi falla. Mismunandi reglur geta átt við mismunandi svæði, allt eftir því hvaða friðlýsingarflokkur er valinn. Vinna hjá stjórnvöldum við undirbúning friðlýsinganna fór í bið.
  • Í samræmi við áherslur núverandi ríkisstjórnar í stjórnarsáttmála var ákveðið árið 2018 að hefja að nýju vinnu við undirbúning friðlýsinga svæða í verndarflokki rammaáætlunar. Þegar sú vinna hófst höfðu ný náttúruverndarlög tekið gildi með ákvæði um sérstakan friðlýsingarflokk vegna verndarflokks rammaáætlunar. Þessi friðlýsingarflokkur felur eingöngu í sér bann við þeirri orkuvinnslu sem fellur undir gildissvið rammaáætlunar en hún miðast við ákveðna stærð virkjana. Það þýðir að ef um er að ræða vatnsaflskost í verndarflokki þá er orkuvinnsla vatnsafls á því svæði bönnuð ef hún er 10 MW eða stærri. Fyrir jarðvarmakost í verndarflokki er miðað við uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Engar aðrar reglur, t.d. um umferð, tjöldun eða veiðar eru settar og því er t.d. ekki gert ráð fyrir landvörslu á viðkomandi svæðum.
  • Eftir að átak stjórnvalda í friðlýsingum hófst árið 2018 vann Umhverfisstofnun drög að friðlýsingarskilmálum fyrir kosti í verndarflokki rammaáætlunar í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Í samræmi við lög um náttúruvernd voru drögin lögð fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta og var óskað eftir athugasemdum þeirra auk þess sem drögin voru auglýst til kynningar.
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið lét vinna afmörkun að viðkomandi verndarsvæðum í samræmi við greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar segir að „„virkjunarsvæði í vatnsafli miðast almennt við allt vatnasvið fallvatnsins ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallvatnsins neðan virkjunar.“
  • Drög að friðlýsingarskilmálum og afmörkun svæðanna var kynnt opinberlega af Umhverfisstofnun og gefinn var þriggja mánaða frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu. Í kjölfarið vísaði stofnunin málinu til ráðuneytisins til frekari ákvörðunartöku, eins og lög gera ráð fyrir, þar sem hún gerði grein fyrir framkomnum athugasemdum.
  • Endanleg afmörkun viðkomandi svæða tók breytingum frá upphaflegum tillögum sem auglýstar voru af hálfu Umhverfisstofnunar, m.a. í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu á kynningartíma. Veðurstofa Íslands var m.a. fengin til að reikna með nákvæmum hætti vatnasviðið sem virkjunarkostirnir tóku til.
  • Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun voru samþykkt á Alþingi 20. maí 2011 og tóku þá 1.-3. gr. þeirra gildi. Í ákvæði til bráðabirgða við lögin kom fram að fyrsta tillagan um rammaáætlun skyldi lögð fram þegar fyrir lægju tillögur verkefnisstjórnar um rammaáætlun. Í ákvæðinu var kveðið á um hvernig málsmeðferð við gerð tillögunnar skyldi vera áður en hún væri lögð fram á Alþingi.
  • Verkefnisstjórn skilaði tillögum að rammaáætlun til iðnaðarráðherra 5. júlí 2011 og  samþykkti Alþingi rammaáætlun 14. janúar 2013 (þingsályktun sem nefnd er 2. áfangi rammaáætlunar). Sama dag tóku lög um verndar- og orkunýtingaráætlun að öðru leyti gildi (4.-13. gr.) – eða eftir að Alþingi samþykkti 2. áfanga rammaáætlunar. Þingsályktunin var með öðrum orðum unnin áður en málsmeðferðarreglur laganna tóku gildi, þar sem fjallað er um verklag verkefnisstjórnar og faghópa við gerð rammaáætlunar, m.a. um afmörkun virkjunar- og verndarsvæða (sjá 10 gr.).
  • Verkefnisstjórn hafði því ekki það hlutverk á þeim tíma að vinna afmörkunina sem hluta af tillögum sínum. Af þessu leiðir að afmörkun kostanna kom ekki til umfjöllunar á Alþingi líkt og gert er ráð fyrir varðandi þær áætlanir sem síðar verða lagðar fram.
  • Þegar Alþingi samþykkti rammaáætlun 2013 var stjórnvöldum skylt að hefja vinnu við friðlýsingu landsvæða í verndarflokki sem ástæða var talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Í þeirri vinnu fólst m.a. að afmarka þau landsvæði sem friðlýsa bæri gagnvart orkuvinnslu.
  • Þar sem afmörkun svæðanna sjálfra kom ekki fram í þingsályktuninni er horft til greinargerðar með lögunum um hvernig eigi að afmarka þau. Þar segir að „virkjunarsvæði í vatnsafli miðast almennt við allt vatnasvið fallvatnsins ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallvatnsins neðan virkjunar.“

Síðast uppfært: 13.9.2019
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum