Loftslagsmál

Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er meðal þeirra viðfangsefna sem ber hvað hæst í umhverfismálum.

Helstu orsaka loftslagsbreytinga er að leita í aukningu svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Styrkur koltvíoxíðs (CO2) hefur aukist um þriðjung frá því við upphaf iðnbyltingar, en koltvíoxíð er sú gróðurhúsalofttegund sem mest er af. Aukning koltvíoxíðs stafar af bruna jarðefnaeldsneytis (þ.m.t. kola, jarðgass og olíu) sem er mest notaði orkugjafi mannkyns. Meðan losun gróðurhúsalofttegunda er ekki takmörkuð með einhverjum hætti mun magn þeirra í lofthjúpnum halda áfram að aukast. Helstu áhrif loftslagsbreytinga eru m.a. breytingar á hitastigs jarðar, öfgar í veðurfari, bráðnun jökla, þurrkar og hækkun sjávarborðs. Jafnframt verða breytingar í höfum þar sem hafstraumar breytast og jafnframt sýrustig og selta sem hafa mikil áhrif á búsvæði þeirra lífvera sem lifa í sjónum.

Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna

Alþjóðlega samvinnu um loftslagsmál grundvallast á Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change, UNFCCC). Samstarfið felst m.a. í að því að samhæfa aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og undirbúa óhjákvæmilega aðlögun að breytingum.

Samningurinn var samþykktur árið 1992 og tók gildi tveimur árum síðar. Markmið samningsins er „að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum.“ Aðildarríki samningsins eru 197 talsins. Ísland er aðili að samningnum og hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið umsjón með framkvæmd hans, sem og þeim tveimur bókunum sem gerðar hafa verið við samninginn, þ.e. Kýótó-bókuninni og Parísarsamningnum.

Umhverfisstofnun hefur stóru hlutverki að gegna varðandi söfnun og skráningu upplýsinga um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Sjá nánar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 

Vísindastarf um loftslagsbreytingar

Vísindamenn á Veðurstofunni leiða starf Vísindanefndar á Íslandi um loftslagsbreytingar og hafa einnig tekið þátt í starfi Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Sjá nánar á heimasíðu Veðurstofunnar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur einnig umsjón með gerð og framfylgd aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum og annarra áætlana, s.s. sóknaráætlun í loftslagsmálum. Nokkrar stofnanir hafa beina aðkomu að aðgerðum stjórnvalda til að vinna gegn loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim. Má þar nefna Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Skógræktina og Landgræðslu ríkisins.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum miðar að því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030.  Nánari upplýsingar eru á www.co2.is.

Fréttamynd fyrir Fjallað verði um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í Landsskipulagsstefnu

Fjallað verði um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í Landsskipulagsstefnu

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið / 13. 07. 2018

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Skipulagsstofnun að hefja vinnu við gerð landsskipulagsstefnu sem feli í sér viðbætur við Landsskipulagsstefnu...

Fréttamynd fyrir Loftslagsráð kemur saman í fyrsta sinn

Loftslagsráð kemur saman í fyrsta sinn

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið / 21. 06. 2018

Loftslagsráð kom saman í fyrsta sinn í gær, en því er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast...

Sjá einnig:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn