Hoppa yfir valmynd

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Loftslagsbreytingar eru nú þegar farin að hafa áhrif á íslenskt samfélag og lífríki bæði með beinum og afleiddum hætti. Skýrslur vísindanefndar hafa t.a.m. vísað til hitastigsbreytinga, hækkunar sjávarstöðu, aukinnar úrkomuákefðar, bráðnunar jökla og súrnunar sjávar. Þá geta áhrif í löndunum í kringum okkur haft afleiðingar á birgðakeðjur til landsins og fólksflutninga til þess.  

Til þess að geta varist neikvæðum afleiðingum þessara breytinga og gripið þau tækfæri sem gefast, þá er mikilvægt að skilja bæði eðli þeirra og umfang. Við þurfum að búa okkur undir möguleg áhrif á umhverfið, okkur sjálf og samfélögin sem við tilheyrum. 

Dæmi um loftslagsvá á Íslandi til framtíðar

 
Einnig geta breytingar utan Íslands haft áhrif á efnahag, fæðuöryggi, birgðakeðjur, ferðalög og fólksflutninga hingað til lands.

Samfélög búin undir afleiðingar loftslagsbreytinga

Aðlögun snýr að því að búa samfélög undir að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Vísindanefndir vinna skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og á þeim þarf að byggja við mat á áhættu og mótun aðlögunaraðgerða. Til dæmis þarf að gæta þess hvar byggð er skipulögð til framtíðar með tilliti til aukinnar áhættu á sjávar- og árflóðum, en einnig hvernig eigi að verja þá byggð sem er sérstaklega útsett fyrir tilteknum áhrifaþáttum loftslagsbreytinga.

Ákvarðanataka og aðlögunaraðgerðir þurfa að byggja á bestu fáanlegu vísindalegu upplýsingum og fela í sér að tekið sé tillit til áhættumats og viðmiða um ásættanlega áhættu fyrir samfélag og lífríki frammi fyrir loftslagsbreytingum. Aðlögunaraðgerðir geta þannig falið í sér bæði aukna fræðslu og upplýsingagjöf t.d. við skipulagsgerð en einnig hannaðar framkvæmdir líkt og flóðvarnargarða og loftslagsmiðaðar fráveitulausnir.

Staða vinnu við aðlögun að loftslagsbreytingum

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér stefnu vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum. Þar eru sett fram markmið fyrir uppbyggingu þekkingar og mótun aðlögunaraðgerða, en framtíðarsýn stjórnvalda er að íslenskt samfélag og lífríki búi að loftslagsþoli og að aðlögun að loftslagsbreytingum sé fastur þáttur í áætlunum og starfsemi ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja.

Stýrihópur vegna aðlögunar er að störfum við gerð tillögu um efnisþætti og skipulag við gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Hópurinn á að skila af sér tillögu til ráðherra í lok ágúst 2023 til grundvallar ákvarðanatöku um gerð áætlunar.

Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar er starfrækt á Veðurstofu Íslands. Hún er vettvangur fyrir fræðasamfélag, sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og almenning til að sækja sér þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi.

Ráðuneytið ber jafnframt ábyrgð á aðgerð í núgildandi byggðaáætlun (C.10) sem framkvæmd er af Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og Veðurstofu Íslands og snýr að aðlögun sveitarfélaga að loftslagsbreytingum.

Sjá einnig

Síðast uppfært: 12.12.2022

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum