Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um loftslagsmál

COP stendur fyrir aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (Conference of Parties) og eru þau haldin árlega. Þegar númer er aftan við COP segir það til um hvaða þing er vísað til. Til dæmis var COP21, 21. þing samningsins og var það haldið í París árið 2015, þar sem Parísarsamkomulagið var samþykkt.
Ísland tekur þátt í ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, skv. ákvæðum EES-samningsins. Í kerfinu fá fyrirtæki í ákveðnum greinum – einkum stóriðju og flugrekstri hér á landi – úthlutað heimildum, sem duga fyrir hluta losunar þeirra á gróðurhúsalofttegundum. Þau þurfa síðan að kaupa það sem upp á vantar ef þau geta ekki dregið úr losun. Fyrirtæki sem geta minnkað losun meira en heimildir leyfa geta hins vegar selt þær heimildir. Með þátttöku í ETS búa íslensk stóriðjufyrirtæki og flugfélög við sambærilegar reglur um losun og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Loftslagssamningurinn sem samþykktur var árið 1992 hefur ekki að geyma lagalega bindandi tölulegar skuldbindingar um markmið eða einstakar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eftir gildistöku samningsins var fljótlega ákveðið að gera viðbótarsamning við hann með skuldbindandi ákvæðum fyrir þróuð ríki. Sá samningur er Kýótó-bókunin sem samþykkt var 1997 og var ætlað að ná yfir helming heimslosunar gróðurhúsalofttegunda hjá rúmlega 40 þróuðum ríkjum.

Gildistími fyrsta skuldbindingartímabils bókunarinnar var 2008 – 2012. Í lok þess tímabils, á aðildaríkjaþingi loftslagssamningsins í Doha, var samið um framhald á Kýótó-bókuninni sem gildir fyrir árin 2013-2020. Fjögur ríki sem voru með tölulegar skuldbindingar á 1. tímabili Kýótó-bókunarinnar ákváðu að taka ekki á sig skuldbindingar á 2. tímabili. Nú bera eingöngu Evrópuríki, þ.m.t. Ísland, auk Ástralíu skuldbindingar um losun innan Kýótó-bókunarinnar, sem nær því aðeins yfir um 15% af heimslosun gróðurhúsalofttegunda.

Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change, UNFCCC) var samþykktur á Heimsráðstefna Sþ um umhverfi og þróun sem var haldin í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992 og tók gildi tveimur árum síðar. Markmið samningsins er „að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum.“ Aðildarríki samningsins eru 197 talsins.

Á aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins sem haldið var í París árið 2015, var gengið frá samningi með þátttöku allra aðildarríkja Loftslagssamningsins og gildir samningurinn frá árinu 2020 þegar 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur.

Samningurinn markar tímamót í loftslagsmálum og innan við ári eftir að hann var samþykktur í París var hann genginn í gildi á heimsvísu, eða þann þann 4. nóvember 2016. Enginn alþjóðasamningur hefur tekið gildi á svo skömmum tíma frá því hann var samþykktur.

Til að samningurinn öðlaðist gildi á heimsvísu þurftu 55 ríki sem báru ábyrgð á 55% heimslosunar að fullgilda samninginn. Ísland var meðal fyrstu 55 ríkjanna sem fullgilti samninginn.

Í Parísarsamningnum er í fyrsta sinn að finna ákvæði um aðgerðir allra ríkja heims til að draga úr losun og þar er loks komin hnattræn sátt sem auðveldar ríkjum að einblína á aðgerðir í stað þess að einblína á það hvað sé sanngjörn skipting byrða varðandi losun og fjármögnun aðgerða.

Samningurinn rammar m.a. inn sjálfviljug markmið ríkjanna, tryggir gegnsæi og samanburð og skapar ferli sem þrýstir á ríki að setja strangari markmið með tímanum. Fyrir þingið voru ríkin hvött til að senda inn landsmarkmið (INDC) þar sem þau tilgreindu hvað þau hyggðust gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2020. Yfir 150 ríki sem ná til yfir 90% heimslosunar gróðurhúsalofttegunda sendu inn sín landsmarkmið fyrir Parísarfundinn, þ.á.m. öll þróuð ríki og öll stærstu ríkin. Parísarfundurinn var stærsta aðildarríkjaþing Loftslagssamnings SÞ hingað til en yfir 45 þúsund manns sóttu fundinn og ýmsa viðburði sem haldnir voru í tengslum við hann.

Með sóknaráætlun, sem sett var fram haustið 2015, voru kynntar efldar aðgerðir til að takast á við loftslagsvandann. Var þetta gert í aðdraganda aðildarríkjaþings loftslagssamningsins sem haldinn var í París í desember 2015, COP21. Með aðgerðaráætluninni er sett aukið fé til aðgerða í loftslagsmálum og lagður grunnur að samstarfsverkefnum með atvinnulífinu og fleiri aðilum. Aðgerðir miða að minnkun losunar og eflingu kolefnisbindingar heima fyrir, en einnig er áhersla á alþjóðleg verkefni, þar sem loftslagsvæn tækni og þekking Íslendinga kemur að gagni. Sóknaráætlun er hugsuð sem efling til þriggja ára, en verkefni sem sett eru á fót undir merkjum hennar eiga að hjálpa Íslandi að ná markmiðum til 2030, þ.e. 40% minnkun á nettólosun í samvinnu við ríki ESB og Noreg.
Sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum er ætlað er að efla starf í loftslagsmálum árin 2016-2018. Áætlunin byggir á 16 verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og bæta getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Áhersla er lögð á samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs um að draga úr losun í tilteknum greinum og ýta undir nýsköpun og loftslagsvænar lausnir. Sóknaráætlun er ætlað að styrkja starf til að ná raunverulegum árangri til að minnka nettólosun og skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum. Verkefni og áherslur sem kynnt eru undir hatti sóknaráætlunar eru fjölbreytt og mörg hver sjálfstæð og miða ekki síst að því að víkka út þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ekki er gert ráð fyrir að áætlunin sé miðstýrð eða að hún komi í staðinn fyrir núverandi aðgerðaáætlun til að draga úr nettólosun.
Ísland sendi inn sitt landsmarkmið þann 30. júní 2015 þar sem tilkynnt var um að landið stefnir að þátttöku í sameiginlegu markmiði með ríkjum Evrópusambandsins og Noregi um 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda til 2030, miðað við 1990. Markmiðið er framhald af því fyrirkomulagi sem nú er við lýði á 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, þar sem Ísland er hluti af sameiginlegu losunarmarkmiði Evrópuríkja á tímabilinu 2013-2020 auk þess sem Ísland er þegar aðili að evrópsku viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS), skv.EES-samningnum. Samkvæmt því fá fyrirtæki úthlutað heimildum sem ganga kaupum og sölum á sam-evrópskum markaði og er erfitt að eyrnamerkja heimildir einstökum ríkjum. Ríki ESB þurfa að draga úr losun allt að 40% til 2030 miðað við 2005 og var samið um innbyrðis skiptingu ESB-ríkjanna á árinu 2016 en eftir er að ganga formlega frá samningi ESB við Ísland og Noreg, sem þurf að semja formlega um sinn hlut við framkvæmdastjórn ESB. Gert er ráð fyrir að að losunarmarkmið ríkjanna eftir 2020 verði tvískipt; annars vegar munu fyrirtæki þurfa að uppfylla skyldur innan viðskiptakerfisins, en hins vegar þurfa ríkin tvö að taka á sig skuldbindingar varðandi losun utan viðskiptakerfisins.
Orkufrekur iðnaður ber kvaðir um minnkun losunar innan evrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir (ETS), sem Ísland tekur þátt í skv. ákvæðum EES-samningsins. Þar fá fyrirtæki úthlutað heimildum, sem duga fyrir hluta losunar, en þurfa að kaupa það sem upp á vantar ef þau geta ekki dregið úr losun. Fyrirtæki sem geta minnkað losun meira en heimildir leyfa geta hins vegar selt þær heimildir. Með þátttöku í ETS búa íslensk orku- og iðnfyrirtæki við sambærilegar reglur um losun og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Losun á tonn af framleiddu áli á Íslandi er um 1,8 tonn CO2-ígilda, ef losun vegna orku er talin með, sem er sjöfalt minni en losun að meðaltali á heimsvísu sem er 11,3 tonn á hvert framleitt tonn af áli.
Samkvæmt aðferðafræði Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) nýttust 54% af framlögum Íslands tilþróunarsamvinnu á árinu 2014 til umhverfismála og 28% til verkefna sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Fyrir liggur að Ísland mun taka þátt í sameiginlegum markmiðum ESB um að minnka losun um 40% m.v. árið 1990 og sama á við um Noreg en eftir er að ganga frá samningi milli Íslands og Noregs annars vegar og ESB hins vegar um hlut ríkjanna tveggja í þessu markmiði. Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um skiptingu ábyrgðar á losun voru kynntar í júlí 2016 og er ljóst að Ísland og Noregur myndu far í stórum dráttum eftir þeim reglum og viðmiðum sem þar er að finnar. Tillögurnar eiga hins vegar eftir að fara í gegum samþykktarferli inna ESB og ljóst að ekki verður gengið frá formlegu samkomulagi við Ísland og Noreg fyrr en frá því hefur verið gengið. Reiknað með að samkomulag geti verið í höfn í lok árs 2017 eða á árinu 2018. Mikilvægt er að horfa til þess að losuninni er tvískipt:

  1. í losun innan viðskiptakerfis (ETS), þar sem yfir 10.000 fyrirtæki fá kvóta, og
  2. í losun utan viðskiptakerfisins, þar sem ríkin 30* fá hvert um sig ákveðna hlutdeild eða kvóta. * (ESB 28 + Ísland og Noregur)

Losunin innan ETS á að minnka um 43%, en þar bera fyrirtækin ábyrgð, ekki ríki. Hin losunin er á ábyrgð ríkja og þar er farið eftir ákveðnum reiknireglum sem liggja fyrir í grófum dráttum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira