Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um loftslagsmál

COP stendur fyrir aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (Conference of Parties) og eru þau haldin árlega. Þegar númer er aftan við COP segir það til um hvaða þing er vísað til. Til dæmis var COP21, 21. þing samningsins og var það haldið í París árið 2015, þar sem Parísarsamkomulagið var samþykkt.
Ísland tekur þátt í ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, skv. ákvæðum EES-samningsins. Í kerfinu fá fyrirtæki í ákveðnum greinum – einkum stóriðju og flugrekstri hér á landi – úthlutað heimildum, sem duga fyrir hluta losunar þeirra á gróðurhúsalofttegundum. Þau þurfa síðan að kaupa það sem upp á vantar ef þau geta ekki dregið úr losun. Fyrirtæki sem geta minnkað losun meira en heimildir leyfa geta hins vegar selt þær heimildir. Með þátttöku í ETS búa íslensk stóriðjufyrirtæki og flugfélög við sambærilegar reglur um losun og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Loftslagssamningurinn sem samþykktur var árið 1992 hefur ekki að geyma lagalega bindandi tölulegar skuldbindingar um markmið eða einstakar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eftir gildistöku samningsins var fljótlega ákveðið að gera viðbótarsamning við hann með skuldbindandi ákvæðum fyrir þróuð ríki. Sá samningur er Kýótó-bókunin sem samþykkt var 1997 og var ætlað að ná yfir helming heimslosunar gróðurhúsalofttegunda hjá rúmlega 40 þróuðum ríkjum.

Gildistími fyrsta skuldbindingartímabils bókunarinnar var 2008 – 2012. Í lok þess tímabils, á aðildaríkjaþingi loftslagssamningsins í Doha, var samið um framhald á Kýótó-bókuninni sem gildir fyrir árin 2013-2020. Fjögur ríki sem voru með tölulegar skuldbindingar á 1. tímabili Kýótó-bókunarinnar ákváðu að taka ekki á sig skuldbindingar á 2. tímabili. Nú bera eingöngu Evrópuríki, þ.m.t. Ísland, auk Ástralíu skuldbindingar um losun innan Kýótó-bókunarinnar, sem nær því aðeins yfir um 15% af heimslosun gróðurhúsalofttegunda.

Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change, UNFCCC) var samþykktur á Heimsráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem var haldin í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992 og tók gildi tveimur árum síðar.

Markmið samningsins er „að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum.“ Aðildarríki samningsins eru 197 talsins.

Á aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins sem haldið var í París árið 2015, var gengið frá samningi með þátttöku allra aðildarríkja Loftslagssamningsins og gildir samningurinn frá árinu 2020 þegar 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur.

Samningurinn markar tímamót í loftslagsmálum og innan við ári eftir að hann var samþykktur í París var hann genginn í gildi á heimsvísu, eða þann þann 4. nóvember 2016. Enginn alþjóðasamningur hefur tekið gildi á svo skömmum tíma frá því hann var samþykktur.

Til að samningurinn öðlaðist gildi á heimsvísu þurftu 55 ríki sem báru ábyrgð á 55% heimslosunar að fullgilda samninginn. Ísland var meðal fyrstu 55 ríkjanna sem fullgilti samninginn.

Í Parísarsamningnum er í fyrsta sinn að finna ákvæði um aðgerðir allra ríkja heims til að draga úr losun og þar er loks komin hnattræn sátt sem auðveldar ríkjum að einblína á aðgerðir í stað þess að einblína á það hvað sé sanngjörn skipting byrða varðandi losun og fjármögnun aðgerða.

Samningurinn rammar m.a. inn sjálfviljug markmið ríkjanna, tryggir gegnsæi og samanburð og skapar ferli sem þrýstir á ríki að setja strangari markmið með tímanum. Fyrir þingið voru ríkin hvött til að senda inn landsmarkmið (INDC) þar sem þau tilgreindu hvað þau hyggðust gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2020. Yfir 150 ríki sem ná til yfir 90% heimslosunar gróðurhúsalofttegunda sendu inn sín landsmarkmið fyrir Parísarfundinn, þ.á.m. öll þróuð ríki og öll stærstu ríkin. Parísarfundurinn var stærsta aðildarríkjaþing Loftslagssamnings SÞ hingað til en yfir 45 þúsund manns sóttu fundinn og ýmsa viðburði sem haldnir voru í tengslum við hann.

Síðast uppfært: 2.7.2020 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum