Hoppa yfir valmynd

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja loftslagsstefnu fyrir Stjórnarráðið sem vera skuli fyrirmyndarverkefni fyrir aðrar ríkisstofnanir og fyrirtæki. Sett verða markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, innleiddar aðgerðir og um kolefnishlutleysi í starfsemi Stjórnarráðsins. Loftslagsstefnan er undir hatti aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

Græn skref

Öll ráðuneyti og Rekstrarfélag Stjórnarráðsins hafa nú hafist handa við innleiðingu grænna skrefa í ríkisrekstri. Nokkur ráðuneyti eru þegar komin áleiðis með Grænu skrefin á meðan önnur eru að hefja vinnu við verkefnið. Þátttaka ráðuneytanna í Grænu skrefunum er liður í að innleiða aðgerðir tengdum loftslagsmálum.

Grænu skrefin felast í litlum og stórum aðgerðum á sviðum flokkunar og minni sóunar, orkunotkunar, samgangna, viðburða og funda á vegum ráðuneyta, innkaupa, upplýsingamiðlunar og umhverfisstjórnunar almennt. Sem dæmi um verkefni sem hrint hefur verið í framkvæmd í ráðuneytum má nefna innleiðingu prentskýja sem draga úr pappírsnotkun, flokkun úrgangs, samgöngusamninga, aðstöðu fyrir hjólandi, tilboð um deilibíl (Zipcar), rafhjólatilraun og innkaup á ýmsum umhverfisvottuðum vörum. Öll ræstiþjónusta er Svansvottuð og úrgangsþjónusta umhverfisvottuð.

Aðrar aðgerðir

Zipcar

Stjórnarráðið hefur gert samning við Zipcar deilibíla sem felur í sér hagstætt tilboð fyrir starfsfólk ráðuneytanna ef það þarf að sinna nauðsynlegum einkaerindum á vinnutíma. Með Zipcar deilibílum má bóka bíl hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu, eins og þörf krefur. Með aðgangi að deilibíl er auðveldara fyrir starfsmenn að ferðast vistvænt enda auðvelt að skreppa ef nauðsyn krefur.

Hjólaaðstaða, Hjólavottun og rafhjól – vistvænar samgöngur starfsmanna

Mörg ráðuneyti hafa undanfarin misseri bætt hjólaaðstöðu fyrir starfsmenn sína og hafa að auki hlotið Hjólavottun fyrir hjólaaðstöðu sína:

  • Gull: umhverfis- og auðlindaráðuneytið og forsætisráðuneytið
  • Silfur: mennta- og menningarmálaráðuneytið, sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Brons: utanríkisráðuneytið

Hjólavottun vinnustaða er tæki til að markvisst innleiða bætta hjólreiðamenningu. Í vottuninni felst hvatning fyrir vinnustaði til að bæta hjólaaðbúnað fyrir viðskiptavini og starfsmenn í því skyni að ýta undir umhverfisvæna og heilbrigða ferðamáta í daglegu lífi. Aukin hlutdeild hjólreiða er hagkvæm, hefur góð áhrif á umhverfi, lýðheilsu og lífsgæði og skapar betri borg. Hlutdeild hjólandi í ferðum á höfuðborgarsvæðinu er 6% samkvæmt ferðavenjukönnun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem gerð var í október 2017. Hjá starfsmönnum Stjórnarráðsins er hlutdeildin 6,1% yfir vetur og 12,4% á sumrin samkvæmt ferðavenjukönnun starfsmanna Stjórnarráðsins 2018.

Starfsmönnum Stjórnarráðsins býðst að lána vel útbúin rafhjól til reynslu í nokkra daga eða til að nota á fundi.

Matarbakkar

Í mötuneyti Stjórnarráðsins geta starfsmenn tekið með sér mat. Undanfarin ár hafa einnota matarílát verið úr plöntusterkju sem má endurvinna en nú geta starfsmenn Stjórnarráðsins einnig keypt margnota matarbakka sem eru allt í senn, umhverfisvænni, ódýrari og minnka úrgang.

Hleðslustöðvar fyrir rafbíla

Fyrir tveimur árum voru settar upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla á bílastæðum starfsmanna til að styðja við orkuskipti í samgöngum.

 

Heimsmarkmið Sþ: 13 Verndun jarðarinnar Heimsmarkmið Sþ: 7 Sjálfbær orka Heimsmarkmið Sþ: 11 Sjálfbærar borgir og samfélög Heimsmarkmið Sþ: 12 Ábyrg neysla Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira