Hoppa yfir valmynd
24. mars 2023 Innviðaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tímabundnar undanþágur verði veittar vegna búsetuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd

Mikil þörf er fyrirsjáanleg fyrir tímabundin búsetuúrræði handa umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að senda þingflokkum stjórnarflokkanna drög að frumvarpi sem veitir heimild til að gera viðeigandi breytingar á húsnæði, sem ekki hefur verið ætlað til búsetu, til að unnt sé að nota það sem úrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Með frumvarpinu er gefin heimild til að veita tímabundnar og skilyrtar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi. Undanþágur eru bundnar við að húsnæði verði notað á vegum opinberra aðila fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og uppfylli m.a. viðeigandi kröfur til brunavarna, öryggis og hollustuhátta. Heimild til að veita undanþágu gildir til 1. júní 2025.

Í fyrra sótti metfjöldi fólks um alþjóðlega vernd hér á landi, ekki síst í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Frá áramótum hafa síðan um 1.300 manns sótt um vernd á Íslandi. Það eru helmingi fleiri en sóttu um vernd allt árið 2021. Samhliða eru búsetuúrræði á vegum Vinnumálastofnunar, sem þjónustar umsækjendur, nær fullnýtt og gengið hefur erfiðlega að finna hentugt húsnæði til leigu. Frumvarpið gerir stofnuninni kleift að breyta t.a.m. skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins, sem stendur autt, í tímabundið búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Frumvarpið er liður í samhæfingu aðgerða stjórnvalda vegna móttöku flóttafólks. Það var unnið í innviðaráðuneytinu í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið  og forsætisráðuneytið.

„Ríkisstjórninni þótti nauðsynlegt að veita Vinnumálastofnun svigrúm til að útvega húsnæði sem skjótum hætti. Það er mikilvægt að vanda til verka þegar um er að ræða löggjöf sem dregur tímabundið úr kröfum til húsnæðis sem ætlað er til búsetu. Ætlunin er að stytta ferla til að heimila breytta notkun húsnæðis til búsetu. Gerðar verða viðeigandi kröfur til brunavarna, öryggis og hollustuhátta húsnæðis í samræmi við fyrirhugaða notkun þess sem tímabundið búsetuúrræði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

„Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru á húsnæðismarkaði. Þegar Vinnumálastofnun tók í fyrra við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd voru 700 umsækjendur búsettir í húsnæði á vegum stofnunarinnar. Tæpum níu mánuðum síðar dvelja nú tæplega 1.800 umsækjendur í slíku húsnæði. Nauðsynlegt er því að grípa til þessara tímabundnu aðgerða til að tryggja flóttafólki búsetuúrræði á meðan mál þess eru í vinnslu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Skipulagsstofnun heimilað að veita undanþágur

Með frumvarpinu getur Skipulagsstofnun, með beiðni frá Vinnumálastofnun og umsögn hlutaðeigandi sveitarfélags, veitt tímabundna undanþágu frá einstökum greinum skipulags- og byggingarlöggjafar. Eftir atvikum einnig frá skipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags, til að heimila tímabundið breytta notkun húsnæðis til búsetu, að uppfylltum skýrum skilyrðum.

Lagt er til að undanþágur Skipulagsstofnunar verði til 18 mánaða. Einnig er lagt til að stofnunin geti synjað um undanþágu mæli heildstætt mat á aðstæðum gegn því að hún verði veitt. Fáist undanþága þarf ekki að afla sérstaklega byggingarleyfis fyrir breyttri notkun húsnæðisins til búsetu eða ráðast í breytingar á aðal- og deiliskipulagi, enda uppfylli húsnæðið skilgreind skilyrði um öryggi, brunavarnir og hollustuhætti ásamt fleiru.

Standi til að nýta húsnæðið sem tímabundið búsetuúrræði í lengri tíma en 18 mánuði beri þó að hefja ferli við öflun tilskilinna leyfa og þurfa þau að liggja fyrir innan þriggja ára frá því að undanþága var veitt til að húsnæðið verði áfram nýtt til búsetu.

Vinnumálastofnun starfrækir nú þegar margvísleg tímabundin búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Frumvarpinu er sem fyrr segir ætlað að fjölga þeim úrræðum enn frekar. Fái einstaklingur umsókn sína samþykkta flytur viðkomandi í varanlegt húsnæði.

Ítarefni: Hvaða skilyrði þarf að uppfylla?

Uppfylla þarf eftirfarandi skilyrði fyrir undanþágur á vegum Skipulagsstofnunar. 

a. Vottorð vegna öryggis- og lokaúttektar húsnæðisins liggi fyrir í samræmi við áður samþykkta notkun þess.
b. Húsnæðið uppfylli kröfur byggingarreglugerðar sem gerðar eru til brunavarna, öryggis og hollustuhátta sem og kröfur reglugerðar um hollustuhætti í samræmi við fyrirhugaða notkun húsnæðisins áður en það er tekið í notkun til búsetu. Húsnæðið sé ekki á landnotkunarsvæði sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagsreglugerð.
c. Húsnæðið sé ætlað til búsetu að hámarki 250 einstaklinga en þó ekki fleiri en húsrúm leyfir, sbr. b-lið.
d. Húsnæðið sé í nálægð við skóla ef um er að ræða tímabundið búsetuúrræði sem m.a. er ætlað börnum.
e. Nærumhverfi húsnæðis uppfylli að lágmarki þrjú eftirfarandi skilyrða:

  • Húsnæðið sé í göngufæri við verslun og þjónustu.
  • Húsnæðið sé í göngufæri við almenningssamgöngur.
  • Húsnæðið sé innan fjölbreyttrar og blandaðrar byggðar þar sem fjölbreytt þjónusta er í boði.
  • Húsnæðið sé innan eða í jaðri íbúðabyggðar.
  • Húsnæðið sé í göngufæri við friðsæl og heilnæm útivistarsvæði.

Lagt er til í frumvarpinu að Vinnumálastofnun miðli gögnum til viðbragðsaðila til að tryggja réttar upplýsingar um íbúa í tímabundnu búsetuúrræði. Þá er lagt til  að sveitarfélag tilkynni lóðarhöfum og nágrönnum í grenndinni, sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta, um breytta notkun húsnæðisins til búsetu áður en húsnæðið er tekið í notkun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum