Hoppa yfir valmynd
23. mars 2023 Forsætisráðuneytið

Samhæfingarteymi um móttöku flóttafólks sett á laggirnar

Forsætisráðuneytið hefur sett á laggirnar samhæfingarteymi um móttöku flóttafólks. Meginverkefni þess verður að efla samhæfingu og yfirsýn yfir helstu verkefni og áskoranir í málaflokknum, þvert á ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Gert er ráð fyrir að teymið starfi í þrjú ár.

Aðdragandi þess að teymið er stofnað er að forsætisráðherra fól í lok síðasta árs teymi sérfræðinga ráðuneytisins og Almannavarna að taka stöðuna á samhæfingu aðgerða innan Stjórnarráðsins vegna móttöku flóttafólks hingað til lands.

Markmiðið var að afla mats lykilaðila og sérfræðinga innan stjórnsýslunnar á helstu áskorunum í málaflokknum og greina hvaða þætti stjórnkerfisins mætti styrkja með sérstökum aðgerðum. Meðal helstu niðurstaðna stöðutökunnar var að ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar hafi unnið ómetanlegt starf við að tryggja móttöku og aðbúnað fyrir mikinn fjölda flóttafólks. Samvinna allra aðila hafi aukist og almennt gengið vel en á sama tíma sé ákall um enn frekari samhæfingu í málaflokknum til að tryggja að yfirsýn sé á einum stað, bæta skilvirkni og sveigjanleika móttökukerfisins sem og gæði og miðlun upplýsinga.

Því ákalli er nú svarað með stöðu samhæfingarstjóra og skipan samhæfingarteymis.

Ráðningarferli samhæfingastjóra sem var auglýst fyrr í mánuðinum stendur nú yfir sem og skipan samhæfingateymisins. Undirbúningur teymisins er hafinn í samráði við þau ráðuneyti og stofnanir er koma að móttökunni og gert er ráð fyrir að samhæfingastjóri komi til starfa fljótlega. Teymið mun upplýsa ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólk reglulega um stöðu mála. 

Aldrei hafa fleiri komið til landsins á flótta en nú. Það sem af er ári hafa um 1.300 manns sótt um alþjóðlega vernd og á síðasta ári voru umsækjendur um 4.500. Fjöldinn frá 1. janúar 2022 og fram í mars 2023 er meiri en samanlagður fjöldi allra umsækjanda um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir sex ára tímabil, frá 2016 til og með 2021.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum