Hoppa yfir valmynd

Móttaka flóttafólks

Íslensk stjórnvöld hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til að taka á móti flóttafólki

  • Margir umsækjendur um alþjóðlega vernd koma frá Úkraínu vegna innrásar Rússlands en hingað leitar einnig fólk víða annars staðar frá í leit að vernd. Íslensk stjórnvöld hafa sömuleiðis boðið hópum í viðkvæmri stöðu til landsins.
  • Um 2.100 umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelja nú í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar en stofnunin þjónustar umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.
  • Hér fyrir neðan er að finna umfjöllun um réttindi flóttafólks og hlutverk hinna ýmsu stofnana við móttöku fólksins, auk undirsíðna með margvíslegri tölfræði.
Lykilupplýsingar, móttaka flóttafólks

Lykilupplýsingar

Hversu mörg börn hafa komið til landsins og sótt um alþjóðlega vernd? En fullorðnir? Hvaðan kemur fólkið og hver er tímalínan? Lykilupplýsingar á vefnum eru uppfærðar daglega.

Skoða lykilupplýsingar

 
 
 

Samningar um samræmda móttöku flóttafólks

  • Sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa undirritað samninga um svokallaða samræmda móttöku flóttafólks. Samningarnir eru gerðir við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, ásamt fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Vinnumálastofnun. Sveitarfélög ákveða sjálf hversu mörgum flóttamönnum þau taka á móti samkvæmt samningnum.
  • Samræmd móttaka flóttafólks er hugsuð fyrir þau sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi og þurfa stuðning við að ná rótfestu hér á landi (sjá einnig spurningu um samræmda móttöku hér neðar á síðunni)
  • Samningur um samræmda móttöku flóttafólks samanstendur af samningnum sjálfum og tveimur fylgiskjölum: Kröfulýsingu og kostnaðarlíkani. Öll skjölin er að finna hér á vefnum:

 

 

 

 

 

 

Alþjóðleg vernd og mannúðarsjónarmið

Þau sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu til að mynda dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega meðferð eiga rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamenn.

Þau sem koma hingað til lands og óska eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn teljast vera umsækjendur um alþjóðlega vernd. Áður var talað um hælisleitendur – fólk í leit að hæli, það er griðastað.

Flóttafólkið sem leitað hefur skjóls á Íslandi frá Úkraínu eftir innrás Rússlands hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sjá spurt og svarað hér að neðan.

Fréttir

Spurt og svarað um umsækjendur um alþjóðlega vernd og móttöku flóttafólks

Fólk sem sætir ofsóknum í heimalandi sínu eða á þar á hættu til dæmis pyndingar eða ómannúðlega meðferð á rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamenn. Ríkisfangslaust fólk á líka rétt á slíkri vernd.

Þau sem koma hingað til lands og óska eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn teljast vera umsækjendur um alþjóðlega vernd. Umsækjendum um alþjóðlega vernd skal lögum samkvæmt standa til boða húsnæði, framfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta.

Fólkið sem um ræðir kemur sér sjálft til Íslands. Stjórnvöld hafa hins vegar sömuleiðis boðið hópi flóttafólks í viðkvæmri stöðu til landsins. Oft er vísað til þeirra sem kvótaflóttamanna. Stjórnvöld veita þeim þá alþjóðlega vernd um leið og þau koma hingað til lands.

Þau sem fá alþjóðlega vernd hér á landi fá dvalarleyfi í fjögur ár til að byrja með. Þau fá auk þess útgefið atvinnuleyfi.

Eigi umsækjandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi er skoðað hvort viðkomandi eigi rétt á viðbótarvernd. Þá er skoðað hvort ætla megi að manneskjan eigi á hættu ómannúðlega meðferð verði hún send aftur til heimalands síns eða verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum, án þess að um persónubundnar ofsóknir sé að ræða. Viðbótarvernd fylgja sömu réttindi og alþjóðlegri vernd.

Þeim sem hljóta alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd er ekki heimilt að snúa aftur til heimaríkis meðan þeir njóta verndar frá íslenskum stjórnvöldum. Fólkið hefur þó ferðafrelsi og getur fengið útgefin sérstök ferðaskilríki frá íslenskum stjórnvöldum.

Ef hvorki alþjóðleg vernd né viðbótarvernd eiga við er tekið til skoðunar hvort viðkomandi eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hefur umsækjandinn ríka þörf fyrir vernd af heilbrigðisástæðum, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna eða vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríkinu?

Eigi umsækjandi rétt á vernd af mannúðaraðstæðum fær hann útgefið endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs. Viðkomandi má þá vinna hér á landi en vinnuveitandinn þarf að sækja um atvinnuleyfið fyrir hann.

Þau sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum njóta þess ferðafrelsis sem þau höfðu fyrir veitingu leyfis síns hér á landi og geta heimsótt heimaríki í styttri ferðum.

Fólkið sem leitað hefur skjóls á Íslandi frá Úkraínu eftir innrás Rússlands hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Það var gert með því að virkja í fyrsta sinn ákveðna grein útlendingalaga hér á landi og var gert til að veita þeim sem flúðu Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð. Þau fara þannig ekki inn í hefðbundna málsmeðferð í verndarkerfinu hér á landi heldur er þeim veitt svokölluð sameiginleg vernd um leið og þau koma til Íslands.

Ákvörðunin var í samræmi við ákvörðun ESB um að virkja samskonar úrræði um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Fólkið frá Úkraínu hefði að öllum líkindum flúið til Evrópuríkjanna hvort sem var en með þessu var létt á verndarkerfinu þar sem ekki þurfti að meðhöndla hverja einustu umsókn um vernd.

Reynsluverkefni um samræmda móttöku flóttafólks hérlendis hófst árið 2020 með samningi þáverandi félags- og barnamálaráðuneytis við fimm sveitarfélög. Hugmyndin var að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kæmi.

Mikill munur hafði verið á þjónustu við þau sem komu hingað til lands í boði stjórnvalda, og var oft vísað til sem kvótaflóttamanna, og þeirra sem leituðu sjálf til landsins eftir vernd. Með samræmdri móttöku flóttafólks var á hinn bóginn búið til eitt samræmt kerfi.

Í því kerfi er meðal annars lögð áhersla á nauðsynlega aðstoð við fólk til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem gegnum atvinnu, nám, samfélagsfræðslu og íslenskukennslu. Við tilraunaverkefninu tók svo fastur samningur sem stendur öllum sveitarfélögum til boða. Hann byggir á reynslu fyrri ára.

Með samræmdri móttöku flóttafólks gerir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið samning við sveitarfélög, ásamt fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Vinnumálastofnun. Sveitarfélög ákveða sjálf hversu mörgum flóttamönnum þau taka á móti samkvæmt samningnum. Honum er síðan ætlað að standa undir þeirri viðbótarþjónustu sem starfsfólk félagsþjónustu sveitarfélaganna þarf að veita vegna flóttafólks umfram aðra sem þau sinna. Að auki fá sveitarfélög margvíslegan útlagðan kostnað endurgreiddan frá ríkinu í allt að tvö ár eftir að flóttafólk fær skráð lögheimili hér á landi.

Í stuttu máli má segja að samræmd móttaka flóttafólks sé hugsuð fyrir þau sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi og þurfa stuðning við að ná rótfestu hér á landi.

Móttökumiðstöðin var opnuð í apríl 2022 og var nýmæli hér á landi. Í fyrsta sinn gátu umsækjendur um alþjóðlega vernd nálgast alla helstu nauðsynlega þjónustu strax við komuna til landsins. Í dag er þannig ekki þörf fyrir flóttafólk að fara á marga staði heldur er þjónustan öll á einum stað.

Móttökumiðstöðin er staðsett í húsinu þar sem Domus Medica var áður til húsa á Egilsgötunni í Reykjavík og þjónar öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi, hvort sem fólk kemur frá Úkraínu eða öðrum ríkjum.

Í miðstöðinni fer til dæmis fram heilbrigðisskoðun og Vinnumálastofnun undirbýr búsetu þeirra sem á því þurfa að halda, hvort sem er fyrstu búsetu við komuna til landsins eða önnur varanlegri húsnæðisúrræði. Í miðstöðinni miðlar Vinnumálastofnun fólki jafnframt í vinnu.


Í byrjun október 2022 opnaði Rauði krossinn á Íslandi fjöldahjálparstöð, að beiðni stjórnvalda, fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það var gert vegna mikillar fjölgunar á komu flóttafólks til landsins, meðal annars vegna átakanna í Úkraínu, samhliða skorti á íbúðarhúsnæði fyrir flóttafólk.

Fjöldahjálparstöðin er staðsett í herbergjum í skrifstofuhúsnæði í Borgartúni. Húsnæðið er á nokkrum hæðum og þykir henta verkefninu vel. Sérstök aðstaða er til staðar fyrir fjölskyldufólk.

Þegar flóttafólk kemur til landsins og sækir um alþjóðlega vernd fer það fyrst í móttökumiðstöðina í byggingunni þar sem Domus Medica var áður til húsa (sjá spurningu og svar um miðstöðina hér að ofan). Úr móttökumiðstöðinni fer fólk síðan eftir atvikum í ...

  • búsetuúrræði á vegum Vinnumálastofnunar,
  • búsetuúrræði hjá sveitarfélögum sem stofnunin hefur gert samninga við
  • húsnæði sem það finnur sér sjálft

Komi til þess að ekki séu laus pláss í ofangreindum búsetuúrræðum er fólki beint í fjöldahjálparstöðina. Samhliða leggur starfsfólk Vinnumálastofnunar kapp á að koma fólkinu annað og hingað til hefur það gengið vel. Fólk býr þannig ekki að staðaldri í fjöldahjálparstöðinni og einungis er gert ráð fyrir að fólk gisti í stöðinni í fáeina daga.

Um mitt ár 2022 tók Vinnumálastofnun yfir það hlutverk sem Útlendingastofnun hafði áður varðandi þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.

Breytingarnar voru í samræmi við breytta skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta en þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd hafði þá flust frá dómsmálaráðuneytinu yfir til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá þjónustu frá Vinnumálastofnun, eða sveitarfélögum sem Vinnumálastofnun hefur samið sérstaklega við, meðan á afgreiðslu umsókna þeirra stendur. Í umræddri þjónustu felst til að mynda að tryggja fólkinu húsnæði, vikulega framfærslu og nauðsynlega heilbrigðisþjónusta – meðan umsóknirnar eru afgreiddar. Þegar börn eiga í hlut aðstoðar Vinnumálastofnun foreldra sömuleiðis við að setja sig í samband við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Þar að auki starfrækir Vinnumálastofnun sérstaka deild sem veitir innflytjendum og flóttafólki sértæka þjónustu við atvinnuleit. Þar fær fólk aðstoð við að fá vinnu, auk þess sem boðið er upp á samfélagsfræðslu og íslenskukennslu.

Vorið 2023 sameinuðust Fjölmenningarsetur (MCC) og Vinnumálastofnun. Sameinuð stofnun sér meðal annars um að para saman sveitarfélög og fólk sem fengið hefur alþjóðlega vernd hér á landi. Starfsfólkið veitir flóttafólki upplýsingar um fyrstu skrefin eftir veitingu dvalarleyfis og býður því að taka þátt í svokallaðri samræmdri móttöku flóttafólks (sjá spurningu um hana). Það veitir líka móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna móttöku flóttafólks. 

Markmiðið er að gera hverjum einstaklingi kleift að verða virkur meðlimur í íslensku samfélagi, sama hver bakgrunnurinn er og hvaðan viðkomandi kemur.

Meðan einstaklingur bíður eftir því að umsókn hans sé afgreidd er hann umsækjandi um alþjóðlega vernd. Umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa lögum samkvæmt margvísleg réttindi og fá þjónustu frá Vinnumálastofnun meðan á afgreiðslu umsókna þeirra hjá Útlendingastofnun stendur.

Ef fólk fær jákvætt svar við umsókn sinni um alþjóðlega vernd fær það dvalarleyfi hér á landi og má auk þess vinna (sjá spurninguna „Hvað þýðir það að fá dvalarleyfi eftir umsókn um alþjóðlega vernd sem flóttamaður?“).

Við verndarveitinguna færist ábyrgðin á félagslegri aðstoð við fólkið yfir til þess sveitarfélags þar sem það er skráð með lögheimili. Sveitarfélagið fær margvíslegan útlagðan kostnað hins vegar endurgreiddan frá ríkinu fyrstu tvö árin eftir að flóttafólk fær lögheimili hér á landi og getur að auki gert sérstakan samning við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks. Í raun nýtur flóttafólk sambærilegra réttinda og aðrir íbúar sveitarfélagsins. Þau sem þurfa aðstoð geta fengið aðstoð félagsþjónustu en þau sem telja sig ekki þurfa slíka aðstoð geta afþakkað hana (sjá spurninguna „Hvað er samræmd móttaka flóttafólks?“).

Þjónustan á vegum Vinnumálastofnunar gildir einnig áfram í allt að átta vikur eftir verndarveitinguna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Móttaka flóttafólks

Síðast uppfært: 21.2.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum