Hoppa yfir valmynd
24. maí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úttekt GEV á samningum um móttöku flóttafólks

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) hefur lokið úttekt sinni á samræmdri móttöku flóttafólks en hún var unnin að beiðni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Úttektin fjallar um þjónustusamninga sem voru í gildi til ársloka 2023 og náði til níu móttökusveitarfélaga af þrettán. Nýir samningar tóku gildi þann 1. janúar sl.

Markmið samninganna var og er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur.

GEV ræddi meðal annars við starfsfólk og stjórnendur móttökusveitarfélaga, úrtak notenda þjónustunnar, Vinnumálastofnun, Rauða kross Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Niðurstöður sýndu að notendur sem rætt var við voru almennt ánægðir og þakklátir fyrir þjónustuna sem þeir hafa fengið. Misræmi var þó í framkvæmd sveitarfélaga við móttökuna og virtist misræmið að mestu leyti byggja á tveimur þáttum: Annars vegar því að sveitarfélög eru sjálfstæð í störfum sínum og setja sér sínar eigin reglur. Hins vegar þóttu þjónustusamningurinn og fylgiskjöl hans ekki nógu skýr og þótti starfsfólki sveitarfélaga því oft óljóst til hvers væri ætlast af því. Sveitarfélög túlkuðu til að mynda kröfur til þjónustunnar á ólíkan hátt, til dæmis varðandi útvegun húsnæðis.

Úrbætur verið gerðar

Sem fyrr segir tóku nýir samningar gildi í byrjun árs. Þegar hefur verið tekið tillit í þeim til margra atriða sem bent er á í úttekt GEV. Kröfulýsingin, sem hefur verið fylgiskjal með samningnum, hefur til að mynda verið felld inn í samninginn en að mati félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins leiðir slíkt til þess að hann verður skýrari, einfaldari og aðgengilegri. Þá er í fylgiskjali með samningnum nýtt kostnaðarlíkan sem byggir á eldra kostnaðarlíkani. Nýja líkanið er einfaldara í framsetningu og veitir sveitarfélögum betri yfirsýn.

Loks er uppgjör vegna samninganna á forræði Vinnumálastofnunar en sent á sveitarfélögin til yfirferðar. Með þessu móti þurfa sveitarfélög ekki að skila ársfjórðungslega inn uppgjöri sem bent hefur verið á að sé tímafrekt og auki umsýslu með samningnum. Uppgjörið verður við þetta einfaldara og skilvirkara. 

Núverandi samningar gilda til 30. júní nk. með heimild til framlengingar um sex mánuði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að beiðni sveitarfélaganna hefur verið settur á fót starfshópur til að koma með tillögu að nýjum samningi til framtíðar. Skýrsla GEV verður höfð til hliðsjónar við vinnu hópsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum