Hoppa yfir valmynd

Saga skjaldarmerkisins

Ágrip af sögu skjaldarmerkis Íslands eftir Birgi Thorlacius. Áður birt í ritinu Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki, útg. af forsætisráðuneyti 1991.

Skjaldarmerkið til smækkunar fyrir skjámiðlaInngangur

Skjaldarmerki komu að góðum notum, þegar herklæði voru þannig að erfitt var að þekkja vin frá óvini í orustu nema skjaldarmerki segðu til um hverjir þar færu. Sömu merki voru einnig löngum notuð í innsiglum, þótt engra lita gætti þar. Innsigli Hrafns Sveinbjarnarsonar er elsta innsigli Íslendings, sem vitað er um. Var það fingurgull með nafni hans og merktur á hrafn, gjöf frá Bjarna Kolbeinssyni, biskupi í Orkneyjum.

Við gerð skjaldarmerkja tíðkast ákveðnar meginreglur, bæði að því er varðar skjaldarmerki einstaklinga, ætta, þjóðhöfðingja og ríkja. Skjaldarmerki er einungis það, sem markað er á sjálfan skjöldinn, en umhverfis eru skjaldberar svo sem landvættirnar umhverfis íslenska ríkisskjaldarmerkið. Tveir málmar og fjórir litir koma við sögu í gerð skjaldarmerkja; gull eða gulu litur í þess stað, silfur eða hvítur litur, blátt, rautt, svart og grænt. Höfuðreglan er að láta ekki málm liggja að málmi (gull, silfur eða gult og hvítt) eða lit að liti, heldur eiga litur og málmur að skiptast á. Undantekningar og frávik eru þó frá þessu, einkum ef aukið er við fornt merki eða því breytt á annan hátt. Þá er þess að geta að þegar talað er um hægri og vinstri í skjaldarmerkjafræði, þá er miðað við þann, sem er að baki skildinum, heldur á honum.

Þótt skjaldarmerki einstakra manna hafi ekki verið mörg á Íslandi, þá hafa þau þó tíðkast. Í fornum ritum er getið um skildi, sem dregnar voru á myndir, t.d. ljón, og í innsiglum voru ýmsar myndir. Á 14. og 15. öld voru nokkrir Íslendingar gerðir að riddurum og tóku sér þá skjaldarmerki. Loftur ríki Guttormsson er sagður hafa haft hvítan fálka á bláum feldi sem sitt skjaldarmerki, en aftur á móti höggorm í innsigli sínu. Torfi Arason hafði að skjaldarmerki hvítabjörn á bláum feldi og hálfan hvítabjörn upp af hjálminum. Björn ríki Þorleifsson hafi samskonar skjaldarmerki nema hvað hvítabjörninn upp af hjálminum var heill.

Þeir, sem sæmdir voru stórkrossi Dannebrogsorðunnar, áttu að láta gera sér skjaldarmerki, ef þeir höfðu ekki slík merki fyrir. Þegar farið var að veita Íslendingum þetta orðustig, létu ýmsir þeirra gera sér skjaldarmerki svo sem fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut stórkross Dannebrogsorðunnar, dr. Pétur Pétursson biskup.

Forn merki

Skjaldarmerki Íslands á sér miklu lengri sögu en fáninn.

Á árunum 1950-1959 starfaði á vegum danska forsætisráðuneytisins nefnd, sem ráðuneytið hafði falið að gera athugun á og tillögur um notkun ríkisskjaldarmerkis Danmerkur. Einn nefndarmanna, P. Warming, lögfræðingur, sem var ráðunautur danska ríkisins í skjaldarmerkjamálum, hefur síðar látið í ljós álit sitt á því hvernig ríkisskjaldarmerki Íslands muni hafa verið fyrir 1262-1264, þ.e. áður en landið gekk Noregskonungi á hönd, og hvernig skjaldarmerki Noregskonungs hafi verið, þegar hann notaði merki sem konungur Íslands. Fara hér á eftir nokkur atriði úr grein P. Warming.

Til er frönsk bók um skjaldarmerki, talin skráð á árunum 1265-1285. Nefnist hún Wijnbergen-skjaldarmerkjabókin og er varðveitt í Koninklijk Nederlandsch Gencotschap voor Geslachot en Wapenkunde í Haag. Efni hennar var birt í Archives Heraldiques Suisses á árunum 1951-1954. Í bókinni er fjallað um 1312 skjaldarmerki, flest frönsk, nokkur þýsk, en einnig eru þar um 56 konungaskjaldarmerki frá Evrópu, Austurlöndum nær og Norður -Afríku. Eru þar á meðal merki konunga Frakklands, Spánar, Aragoníu, Englands, Portúgals, Þýskalands, Bæheims, Danmerkur, Navarra, Skotlands, Noregs, Svíþjóðar og Írlands. En á bakhlíð eins blaðsins í bókinni (35.) er m.a. sýnt merki konungsins yfir Íslandi, þ.e. merki Noregskonungs sem konungs Íslands eftir atburðina 1262-1264. Textinn yfir myndinni hljóðar svo: le Roi dillande, þ.e. le Roi d'Islande (konungur Íslands). Skjaldarrendur eru dökkar, en þverrendur bláar og hvítar (silfraðar). Tveir þriðju hlutar skjaldarins neðan frá eru með þverröndum, silfruðum og bláum til skiptis. Efsti þriðjungur skjaldarins er gylltur flötur, án þverranda. Á skjöldinn er markað rautt ljón, sem stendur öðrum afturfæti niður við skjaldarsporð, en höfuð ljónsins nemur við efri skjaldarrönd. Í framlöppum ljónsins er öxi í bláum lit á efsta þriðjungi skjaldarins (hinum gyllta hluta), en skaftið, sem nær yfir sjö efstu silfruðu og bláu rendurnar, virðist vera gyllt, þegar kemur niður fyrir efstu silfurröndina. Ljónið í skjaldarmerki Noregs var ekki teiknað með öxi í klónum fyrr en á dögum Eiríks konungs Magnússonar eftir 1280.

Þetta umrædda skjaldarmerki virðist eftir hinni frönsku bók að dæma hafa verið notað af Noregskonungi sem konungi Íslands eftir árið 1280. Þótt öxin bættist í skjaldarmerkið eftir árið 1280, er hugsanlegt að sama eða svipað skjaldarmerki, án axar, hafi verið notað af „Íslandskonungi" áður, e.t.v. strax frá 1264. Um þorskmerkið sem tákn Íslands eru ekki skráðar heimildir fyrr en svo löngu seinna að notkun þess þarf ekki að rekast á þetta merki eða önnur, sem kynnu að hafa verið notuð sem merki Íslands.

Skjaldarmerki „Íslandskonungs", sem að framan getur, virðist þannig myndað, að norska skjaldarmerkið, gullið ljón á rauðum grunni, er lagt til grundvallar, en litum snúið við: rautt ljón á gullnum grunni. Þessi breyting ein er þó ekki látin nægja, heldur er tveimur þriðju hlutum skjaldarins að neðan breytt þannig, að þar skiptast á bláar og silfraðar þverrendur, neðst blá, síðan silfruð, þá blá aftur og svo koll af kolli, en efsta silfraða þverröndin liggur að þeim þriðjungi skjaldarins, sem er gullinn. Með þessu er af einhverjum ástæðum brotin ein af grundvallarreglum við gerð skjaldarmerkja, en hún er sú, að silfur og gull eiga ekki að koma saman, heldur á einhver af skjaldarmerkjalitunum að vera á milli og sömuleiðis eiga skjaldarmerkjalitirnir ekki að koma saman, heldur á að skiptast á litur-silfur-litur-gull o.s.frv. Hefði því lögmál skjaldarmerkjagerðar eitt ráðið, þegar umrætt merki var búið til, hefði næst gullna fleti skjaldarins átt að koma blá þverrönd, síðan silfurrönd o.s.frv. í stað þess að nú liggur silfurröndin næst gullfletinum og brýtur þar með reglur um gerð skjaldarmerkja eins og áður segir. Af þessu kynni að mega draga þá ályktun, að merkið sé þannig gert af því að þurft hafi að taka tillit til skjaldarmerkis, sem þegar var til.

Í slíku tilviki, þegar aukið er við merki sem fyrir er, gerir skjaldarmerkjafræðin ráð fyrir frávikum frá meginreglunum. Af svipaðri ástæðu er það svo í danska skjaldarmerkinu að reitirnir fyrir Færeyjar og Grænland liggja hvor að öðrum, þótt báðir séu í lit, meira að segja í sama lit.

Það skjaldarmerki, sem þegar hefur verið til og menn hafa viljað virða og taka tillit til um leið og við það var bætt hluta af ríkisskjaldarmerki Noregs, hlýtur að hafa verið skjaldarmerki Íslands fyrir árið 1262. Það skjaldarmerki hefur samkvæmt framansögðu verið skjöldur með tólf silfruðum (hvítum) og bláum þverröndum, efst silfur og neðst blátt. Í einfaldleik sínum er þetta frá skjaldarmerkjafræðilegu sjónarmiði fallegt merki.

Ef þetta er rétt tilgáta, þá er elsta íslenska ríkisskjaldarmerkið álíka gamalt og það norska, en norska skjaldarmerkið (án axar) þekkist frá dögum Hákonar IV. Hákonarsonar. Fjöldi þverrandanna í Íslandsmerkinu þarf ekki að tákna neitt sérstakt, en gæti leitt hugann að því að Íslandi mun í upphafi hafa verið skipt í tólf þing, þótt því hafi að vísu verið breytt áður en sá siður barst til Norðurlanda á tímabilinu 1150-1200 að taka um skjaldarmerki.

Það, að ljónið í norska skjaldarmerkinu skuli á mynd í umræddri bók vera með öxi, sem einmitt var bætt í merkið í þann mund sem bókin hefur verið í smíðum, sýnir að sá, sem lét setja bókina saman, hefur haft glögga vitneskju um norræn skjaldarmerki.

Merki ÍslandskonungsÞað, sem hér að framan er sagt um merki Íslands fyrir og eftir 1262, er lausleg frásögn af áliti P. Warming, lögfræðings og skjaldarmerkjaráðunauts í Kaupmannahöfn.

Merkið, sem getið er um, skjöldur með tólf þverröndum, hvítum (silfruðum) og heiðbláum til skiptis, er hugsanlega það merki (eða fáni) sem Hákon konungur fékk Gissuri Þorvaldssyni í Björgvin 1258, er hann gerði hann að jarli.

Tilgátu P. Warmings um merki Íslandskonungs hefur verið andmælt, t.d. af Hallvard Trætteberg, safnverði í Noregi, og telja sumir merkið í Wijnbergen-bókinni tilbúning og hugarflug teiknarans. Þeim andmælum hefur P. Warming svarað og bent á að skjaldarmerkjabókin sé yfirleitt nákvæm og áreiðanleg svo sem um skjaldarmerki Englands, Skotlands, Írlands, Manar og Orkneyja, og ekki sé undarlegt að Ísland hafi haft sérstakt merki, þegar þess sé gætt að lítil samfélög eins og Mön, Orkneyjar, Jamtaland og Færeyjar höfðu sín merki.

Hvað sem líður merki Íslandskonungs, þá telur P. Warming allt benda til þess að skjöldurinn með tólf hvítum og bláum þverröndum sé hið upprunalega (skjaldar)merki Íslands.

Þorskmerkið

ÞorskemerkiðEigi er vitað hvenær fiskur (þorskur), stundum flattur, stundum óflattur, varð merki Íslands. Hamborgarkaupmenn (Íslandsfarafélagið) hafði þorsk í innsigli sínu um 1500 og einnig þýska (lýbiska) verslunarfélagið í Bergen um 1415. Mynd af flöttum þorski er á spássíu í íslenskri skinnbók frá því um 1360 (Stokkhólmsbók, nr. 5, fol. í konunglega bókasafninu í Stokkhólmi) og á korti Olaus Magnus „Carta Marina" útgefnu í Feneyjum 1539 er krýndur þorskur á skildi, svipaður og síðar í skjaldarmerkinu.

Árið 1550 sendi Kristján III. Danakonungur innsigli til Íslands með Lárentsíus Mule, hirðstjóra, og fylgdi því bréf, dagsett 28. janúar það ár, þar sem konungur þakkar Íslendingum trúa fylgd í siðaskiptamálinu. Er kveðið svo á í bréfinu, að 6-8 valinkunnir menn skuli annast vörslu innsiglisins svo að það verði á engan hátt misnotað.

Eigi er vitað hvort konungur lét gera innsiglið óbeðinn eða að ósk landsmanna, en það hefur átt að vera konungi og öðrum trygging fyrir því, að þau skjöl, sem innsiglið bæru, væru frá réttum valdsmönnum.

Innsigli þetta virðist hafa glatast og gerð þess er ókunn, en líklega hefur þorskmerkið verið í því.

Á Alþingi 1592 var Jóni lögmanni Jónssyni falið að bera upp fyrir ríkisráði, er með völd fór sakir æsku Kristjáns konungs IV, ýmis málefni, þ.á.m. að fá innsigli handa landinu. Innsiglið skyldi vera í vörslu höfuðsmanns og notað í erindum til konungs. Ríkisráðið varð við þessari beiðni um innsigli og er bréf þess til hirðstjóra um það efni dagsett 9. maí 1593. Segir þar að ríkisráðið hafi orðið við beiðni Íslendinga og látið gera handa þeim innsigli og látið afhenda það hirðstjóranum yfir Íslandi Heinrich Chrag og jafnframt falið honum að varðveita það og sjá um að það verði ekki misnotað.

Mynd af innsigli með þorski
Á innsiglinu, sem er úr silfri, er hausaður þorskur með kórónu yfir og ártalinu 1593 til hliðar, en umhverfis í boga er letrað SIGILLVM INSVLÆ ISLANDIÆ (þ.e. innsigli eyjarinnar Íslands). Innsigli þetta er geymt í Þjóðminjasafninu, nr. 4390, afhent þangað af stiftsyfirvöldunum árið 1897.

Þarna er örugg heimild um hinn krýnda þorsk sem merki Íslands, enda kemur hann fyrir sem slíkur áður en innsiglið 1593 var gert m.a. á dönskum gullpeningum, sem slegnir voru 1591. Í innsigli Danakonungs var þorskurinn tekinn á ríkisstjórnarárum Kristjáns IV. og þar var hann fram á ríkisstjórnarár Friðriks VI. með nokkurri tilfærslu 1819. Frá og með árinu 1820, þegar konungsljón Noregs hvarf úr sameiginlegu skjaldarmerki ríkisins, voru merki Íslands, Grænlands og Færeyja sett í staðinn. Þar var íslenski þorskurinn neðst til hægri, flattur, silfurlitur á hárauðum grunni og gyllt kóróna yfir.

Íslenski skjaldarmerkisþorskurinn var látinn víkja úr danska ríkisskjaldarmerkinu, en í staðinn kom fálkinn sem tákn Íslands.

Á síðari hluta 19. aldar var hafinn áróður fyrir því að hætta að nota þorskmerkið sem tákn landsins, en nota í þess stað hvítan fálka á bláum grunni.

Fálkamerkið

FálkamerkiðMeð konungsúrskurði frá 3. október 1903 var ákveðið, að skjaldarmerki Íslands skyldi vera „hvítur íslenskur fálki á bláum grunni." Fannst mönnum veglegra að nota þennan svipmikla, harðgera og tígulega fugl sem tákn landsins en þorskinn. Það hefur verið sagt, að íslensk skáld og íslenskir fálkar hafi samhliða um þriggja til fjögurra alda skeið haldið uppi hróðri landsins meðal erlendra þjóða. En þegar sá dagur rann, að erlendir höfðingjar hættu að skilja og meta íslensk skáld, þá héldu þeir áfram að dá fálkann um margar aldir og þóttu íslenskir fálkar konungsgersemi og eru eftirsóttir enn í dag. Veiðar með fálkum er eldforn íþrótt, talin upprunnin hjá hirðingjum í Asíu og fyrst einkum iðkuð í Turkestan. Um 2000 árum fyrir Kristsburð voru fálkar taldir höfðinglegar gjafir í Kína. Veiðiíþrótt þessi barst til Evrópu og var stórhöfðingjagaman þar um margar aldir eins og í Austurlöndum. Á Norðurlöndum voru slíkar veiðar tíðkaðar langt aftan úr heiðni. Það var því ekki að undra, þótt það varpaði nokkrum ljóma á hið fjarlæga Ísland að þaðan skyldu koma bestu veiðifálkar, sem völ var á og voru sendir sem gjafir milli konunga og keisara.

Eftir að breytt var til um skjaldarmerki Íslands árið 1919 er það af fálkanum að segja, að árið 1920 var gefinn út úrskurður um sérstakan íslenskan konungsfána og í honum íslenskur fálki.

Fána af þessari gerð notaði konungur við komu sína til Íslands 1921 og þá um sumarið stofnaði konungur Hina íslensku fálkaorðu. Er fálkamynd einkennismerki orðunnar eins og nafn hennar bendir til.

Landvættaskjaldarmerkið

Landvættaskjaldarmerkið

Fálkaskjaldarmerkið var ekki lengi í notkun. Hinn 12. febrúar 1919 var breytt til og tekið upp merki, þar sem fáni Íslands er markaður á skjöld. Konungsúrskurðurinn um skjaldarmerkið hljóðar þannig: „Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hannmarkaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar alkunnu fjórar landvættir, þannig: dreki, gammur, uxi og risi."

Ríkarður Jónsson myndhöggvari gerði teikninguna af skjaldarmerkinu að undangenginni samkeppni, sem m.a. Jóhannes Sv. Kjarval tók þátt í. Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem um getur í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, en þar segir svo:

„Haraldur (Gormsson Dana) konungr bauð kunnugum manni at fara í hamförum til Íslands og freista, hvat hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landit. Hann sá, at fjöll öll ok hólar váru fullir af landvéttum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vápnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn ok ætlaði á land at ganga. Þá fór ofan eptir dalnum dreki mikill, ok fylgdu honum margir ormar, pöddur ok eðlur ok blésu eitri á hann. En hann lagðisk í brot ok vestr fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eptir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svá mikil, at vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, ok fjöldi annarra fugla, bæði stórir ok smáir. Braut fór hann þaðan ok vestr um landit ok svá suðr á Breiðafjörð ok stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungr mikill ok óð á sæinn út ok tók at gella ógurliga. Fjöldi landvétta fylgdi honum. Brot fór hann þaðan ok suðr um Reykjanes ok vildi ganga upp á Vikarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi ok hafði járnstaf í hendi, ok bar höfuðit hærra en fjöllin ok margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austr með endlöngu landi - „var þá ekki nema sandar ok öræfi ok brim mikit fyrir útan, en haf svá mikit millim landanna," segir hann, „at ekki er þar fært langskipum."“

Það er hugmyndin um þessar hollvættir landsins, sem liggur að baki gerð skjaldbera skjaldarmerkisins eins og það varð árið 1919. Kom til athugunar að hafa sína landvættina í hverjum reit skjaldarins, en horfið var að því að taka landvættirnar ekki í sjálft skjaldarmerkið, heldur sem skjaldbera. En skjaldarmerki er einungis það sem markað er á sjálfan skjöldinn og hægt er að nota merkið með eða án skjaldbera.

Lýðveldisskjaldarmerkið

LydveldisskjaldarmerkiÞegar leið að endurreisn lýðveldisins 1944, fól þáverandi forsætisráðherra dr. juris Björn Þórðarson þremur ráðuneytisstjórum (Vigfúsi Einarssyni, Agnari Kl. Jónssyni og Birgi Thorlacius) ásamt dr. Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði, sem hafði verið ráðunautur um gerð skjaldarmerkisins 1919, að athuga og gera tillögur um breytingu á ríkisskjaldarmerkinu. Breyting var í öllu falli nauðsynleg vegna þess að kóróna var yfir skildinum, en hún hlaut að hverfa við afnám konungdæmisins. Við, sem fengum þetta verkefni ræddum nokkuð um breytingar á sjálfu skjaldarmerkinu, og þá einkum, hvort taka bæri upp á ný fálka á bláum skildi. Niðurstaðan varð þó sú, að gera ekki tillögur um breytt skjaldarmerki og hverfa ekki frá landvættahugmyndinni að því er skjaldbera varðaði. Vorum við allir sammála um þetta og ræddum málið á fundi með forsætisráðherra og féllst hann á þessa skoðun. Var gerð ný teikning af skjaldarmerkinu, þar sem kórónan var felld burtu og lögun skjaldarins breytt. Skjaldberarnir voru teiknaðir með öðrum hætti en áður og einnig undirstaðan, sem skjöldurinn hvíldi á. Tryggvi Magnússon listmálari gerði teikninguna. Frummyndin er í Þjóðminjasafninu, nr. 15026.

Ekki vorum við ánægðir með teikninguna. Kom til orða síðar að leita til skjaldarmerkjafræðinga í páfagarði í þessu sambandi, en þeir voru þá svo önnum kafnir við gerð skjaldarmerkja fyrir nýútnefnda kardinála að þeir máttu ekki vera að því að sinna öðrum verkefnum. - Við gerð undirstöðunnar, sem skjöldurinn hvílir á, var haft í huga „kirkjugólfið" á Kirkjubæjarklaustri.

Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins og hljóðar hann þannig:

Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, gammur, griðungur, og dreki og bergrisi

„Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross í heiðbláum feldi, með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir, jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri.

Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem getur í Heimskringlu: Griðungur, hægra megin skjaldarins, bergrisi, vinstra megin, gammur, hægra megin, ofan við griðunginn, og dreki, vinstra megin, ofan við bergrisann.

Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu."

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum