Hoppa yfir valmynd

Heiðursmerki

Hin íslenska fálkaorða

FálkaorðanÞegar Kristján konungur X. kom til Íslands sumarið 1921, var gefið út konungsbréf um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu, undirritað í Reykjavík 3. júlí 1921.

Konungur Íslands var fyrsti stórmeistari fálkaorðunnar, en með stofnun lýðveldisins árið 1944 verður forseti Íslands stórmeistari.

Sérstök nefnd, orðunefnd, ræður málefnum orðunnar og gerir tillögur til stórmeistara um hverja skuli sæma henni.

Nánari upplýsingar um starfsemi orðunefndar veitir orðuritari, auk þess sem hann veitir móttöku öllum tillögum um orðuveitingar. Orðuritari er ávallt starfandi forsetaritari. Vinsamlega athugið að tillögur verða að berast skriflega og undirritaðar. Netfang: forseti[hjá]forseti.is.

Orðustigin voru í upphafi þrjú, en eru nú fimm: Keðja ásamt stórkrossstjörnu, stórkross, stórriddarakross með stjörnu, stórriddarakross og riddarakross.

Um orðuna gilda ákvæði forsetabréfs:

Heiðursmerki Rauðakross Íslands

Heiðursmerki Rauða-krossins

Forsetabréf, nr. 7 24. febrúar 1949, um heiðursmerki þetta er svohljóðandi:

Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Stjórnendur Rauðakross Íslands hafa farið þess á leit, að gert verði heiðursmerki, sem sæma megi íslenska menn og erlenda, er inna af höndum mannúðarstörf, sem mikils þykir um vert. Að ráði forsætisráðherra fellst ég á, að efnt verði til slíks heiðursmerkis, og skulu um það gilda eftirfarandi reglur:

1. gr. Heiðursmerkið er í tveimur stigum. Fyrra stigið er hvítsteindur kross, gullbryddur. Armar krossins eru breiðastir yst og tjúgumyndaðir. Á framhlið krossmarksins er blár hringur og á hann mörkuð gullnu letri kjörorð Rauðakross Íslands: CARITATE SANITATE. Milli arma krossmarksins, utan bláa hringsins, eru felldir mislangir geislar úr gulli. Innan bláa hringsins er hvítur flötur og á hann dregið hið alþjóðlega merki Rauðakrossins. Bakhlið merkisins er um það eitt frábrugðin, að áletrunin er þar: BENEFACTORIBUS RKÍ.

Heiðursmerki fyrra stigs er 4,5 sentímetrar að þvermáli.

Annað stig heiðursmerkisins er eins og hitt, nema fimmtungi minna og silfur í stað gulls.

Heiðursmerki fyrra stigs skal bera um hálsinn í silkibandi með fánalitum Íslands, þannig að rautt sé í miðju, hvítt til hvorrar hliðar, en blátt yst. Bláu rendurnar skulu hvor um sig jafnbreiðar báðum hinum.

Heiðursmerki annars sigs skal borið á brjóstinu vinstra megin í litbandi sömu gerðar.

Eigi má bera litbandið eitt í neins konar formi sem orðumerki.

2. gr. Heiðursmerki þessu má sæma íslenska menn og erlenda, er þess þykja verðir af störfum sínum að mannúðarmálum.

3. gr. Forseti veitir heiðursmerkið.

4. gr. Forseti skipar þrjá menn í nefnd, er geri tillögur um veiting heiðursmerkisins. Einn skal skipa eftir tillögu forsætisráðherra og sé hann félagi Rauðakross Íslands, annar sé formaður Rauðakross Íslands, en hinn þriðji formaður orðunefndar hinnar íslensku fálkaorðu. Forseti skipar einhvern þeirra formann nefndarinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.

5. gr. Engan má sæma heiðursmerkinu, nema nefndarmenn allir séu því samþykkir og sérstök ástæða þyki til. Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða, skal leita umsagnar utanríkisráðherra Íslands áður en ákvörðun er tekin um veiting heiðursmerkisins.

6. gr. Eigi má veita fleiri heiðursmerki árlega en fimm, þó aldrei nema eitt fyrra stigs. Sá, er hlýtur æðra stig merkisins, skal skila hinu aftur, hafi hann verið sæmdur því.

Veiting heiðursmerkja skal að jafnaði fara fram á stofndegi Rauðakross Íslands, 10. desember.

Birta skal í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum hverjir heiðursmerkið hljóta.

7. gr. Rauðikross Íslands ber allan kostnað af heiðursmerki þessu.

8. gr. Við andlát þess, er heiðursmerkið hefur hlotið, ber erfingjum að skila formanni nefndarinnar merkinu aftur.

Heiðurspeningur forseta Íslands

Heiðurspeningur forseta Íslands

Heiðurspeningur þessi var sleginn í sambandi við heimsókn forseta Íslands til Norðurlanda árið 1954.

Er hér um að ræða heiðurspening, sem forseti Íslands getur, án atbeina annarra aðila, afhent íslenskum sem útlendum mönnum fyrir þjónustu látna í té við forseta.

Afreksmerki hins íslenska lýðveldis

Afreksmerki hins íslenska lýðveldis

Um heiðursmerki þetta gilda ákvæði forsetabréfs:

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum