Hoppa yfir valmynd

Fróðleiksmolar um fjölmiðla í almannaþágu

Af hverju var Ríkisútvarpinu breytt í opinbert hlutafélag?

Samkeppnis- og ríkisstyrkjadeild Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) taldi að ef Ríkisútvarpið væri ríkisstofnun, skv. þeim lögum sem áður voru í gildi, bæri ríkissjóður ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum þess. Gæta yrði að því að Ríkisútvarpið nyti ekki efnahagslegs forskots á keppinautana miðað við eðlilegar markaðsaðstæður. Það fyrirkomulag sem gilti um Ríkisútvarpið var því ekki viðunandi að mati ESA sem gerði kröfur um breytingar.

Til að bregðast við athugasemdum ESA stóð valið milli nokkra félagsforma, þ.e. einkahlutafélags, opinbers hlutafélags og sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri. Ástæðan fyrir því að hlutafélagaformið var valið er að um hlutafélög gildir ítarleg og skýr löggjöf, leikreglur eru vel þekktar og fjöldi fordæma er til um hvernig leysa beri úr einstökum málum. Lög um sjálfseignarstofnanir voru aftur á móti talin óskýr og því var sú leið ekki talin heppileg. Þá var talið að hlutafélagaformið mætti vel þeim kröfum sem gerðar eru um fjárhagslegan aðskilnað fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu frá samkeppnisrekstri. Þá má nefna sem dæmi að stofnað var hlutafélag um TV2 í Danmörku vegna þess að félagið er á auglýsingamarkaði og til að auðveldara væri að aðskilja reksturinn með þeim hætti sem framkvæmdastjórn ESB gerði kröfur um. Norrænu ríkisfjölmiðlarnir NRK, SVT og YLE eru öll hlutafélög.

Hverjir eru helstu tekjustofnar ríkisfjölmiðla?

Það er afar mismunandi hvernig tekjustofnar ríkisfjölmiðla eru í Evrópu. Algengast er að tekjustofninn er leyfisgjald (afnotagjald) en einnig tíðkast m.a. greiðslur af fjárlögum. Þá eru flestir ríkisfjölmiðlar í Evrópu á auglýsingamarkaði. Miklar umræður hafa verið um það í aðildaríkjum Evrópusambandsins á undanförnum árum hvort breyta ætti tekjustofnum ríkisfjölmiðla og þá hvernig. Ástæðan er m.a. að nú er ekki aðeins hlustað og horft á ríkisfjölmiðla í sjónvarpi heldur einnig á öðrum miðlum. Ríkisstjórnir Evrópulanda þurfa að bregðast við stafrænni tækni og breyttri notkun.

Er munur á skyldum Ríkisútvarpsins og einkastöðva til útvarpsþjónustu í almannaþágu?

Með lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 eru lagðar ríkari skyldur á Ríkisútvarpið en fjölmiðla í einkaeigu en allir fjölmiðlar heyra undir fjölmiðlalög nr. 38/2011.

Ríkisútvarpið heldur nú úti efnismiklu textavarpi með m.a. fréttum, upplýsingum og textun fyrir heyrnarlausa. Einnig sendir Ríkisútvarpið út fréttir á táknmáli og sinnir þörfum minnihlutahópa, t.d. með fréttum á ensku og pólsku á textavarpi sínu. Þá hefur Ríkisútvarpið táknmálstúlkað umræður fyrir kosningar, svo nokkrir þættir séu nefndir.  

Hvað er samningur um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu?

Í samningi um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er leitast við að skýra hvernig Ríkisútvarpið eigi að sinna þeirri þjónustu og að sjá til þess að það starfi innan þeirra marka sem samningurinn kveður á um. Þar koma jafnframt fram þeir þættir sem vilji er til að fjölmiðillinn leggi áherslu á samningstímabilinu.

Eru fordæmi fyrir þjónustusamningum við ríkisfjölmiðla í Evrópu?

Í Evrópu hafa verið gerðir þjónustusamningar við ríkisfjölmiðla í eftirtöldum löndum:

Belgía
VRT (Flæmski hlutinn)
RTBF (Franski hlutinn)
Beheersovereenkomst
Contrat de gestion
Danmörk
DR (Danmarks Radio)
TV2
Public service-kontrakt
Public service-kontrakt
Frakkland
France Télévisions
Contrat d'objectifs et de moyens
Írland
RTÉ
PSB-Charter
Ítalía
RAI
Contratto di sevizio
Portúgal
RTP (Almenn)
PRP 2 (Önnur stöð)
RDP
Contrato de concessão geral
Contrato de concessão especial
Contrato de concessão
Svíþjóð
SVT (Sveriges Television)
SR (Sveriges Radio)
Sändningstillstånd
Sändningstillstånd

Er einsdæmi í Evrópu að ríkisfjölmiðill sé á auglýsingamarkaði?

Flestar ríkissjónvarpsstöðvar í Evrópu eru reknar á sama grunni og Ríkisútvarpið. Þær fá blandaðar tekjur, þ.e. auglýsingatekjur, leyfisgjöld, ríkisstyrki eða annarskonar tekjur. Leyfisgjöld eru um 95% tekna BBC, SVT og NRK, en slíkt hlutfall tekna frá ríkinu er einsdæmi meðal ríkissjónvarpsstöðva í Evrópu.

Hlutfall ríkisstyrkja í formi afnotagjalda eða af fjárlögum til ríkisfjölmiðla í Evrópu eru yfirleitt á bilinu 50% - 95%. Afnotagjöld eru um 60% af rekstrartekjum Ríkisútvarpsins og um 40% tekna eru auglýsingatekjur, kostunartekjur og ýmsar tekjur. Slíkt hlutfall auglýsingatekna eru í samræmi við það sem gerist og gengur meðal ríkisfjölmiðla í Evrópu. Sjá nánar í Ársskýrslum Ríkisútvarpsins.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum