Hoppa yfir valmynd

Söfn og menningararfur

Stjórnvöld  stuðla að verndun menningarsögulegra minja og að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Með rekstri lykilstofnana á sviði menningararfsmála stuðla stjórnvöld að óháðum rannsóknum á menningararfinum og gefa almenningi færi á að kynnast menningarsögu þjóðarinnar. Auk þess veitir ríkið fjármunum til sveitarfélaga og annarra aðila sem reka slíkar stofnanir og sem m.a. falla undir safnalög. Loks auðvelda stjórnvöld aðgang að og kynni þjóðarinnar af menningararfinum og greiða fyrir rannsóknum á honum með fjárstuðningi og öðrum aðgerðum.

Bókasöfn

Almenningsbókasöfn

Í bókasafnalögum er mælt fyrir um að allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna og hlutverk þeirra skilgreint þannig að þau séu þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings. Almenningsbókasöfn eru menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir sem reknar eru af sveitarfélögum, og er öllum sveitarfélögum skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög. Sameiginlegt markmið allra bókasafna sem falla undir lögin er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi, að efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er samkvæmt lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn skilgreint sem þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands, og er því ætlað að vera rannsóknarbókasafn og þekkingarveita fyrir alla landsmenn. Safnið sinnir virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs og lista- og menningarmála. Þá ber safninu að þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku skylduskila samkvæmt lögum um skylduskil til safna, svo og að afla erlendra gagna er varða íslensk málefni. Safnið skal einnig vinna að rannsóknum og veita aðstoð við rannsóknir á sviði bókfræði, bóksögu og bókasafns- og upplýsingafræði og veita upplýsingar um íslenska útgáfustarfsemi, og loks að stuðla að samstarfi, samræmingu og þróun starfshátta bókasafna og veita þeim faglega ráðgjöf.

Hljóðbókasafn Íslands

Hljóðbókasafn Íslands hét áður Blindrabókasafn Íslands en nafni þess var breytt m.a. með vísan til þess að það þjónar nú mun stærri hópi en blindum einvörðungu. Hlutverk þess er samkvæmt lögum um bókasöfn að það skuli sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda.

Menningarminjar

Með menningarminjum er átt við fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripi og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og báta, samgöngutæki, listmuni og nytjahluti, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lög um menningarminjar ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu þjóðarinnar. Þjóðminjar teljast jarðfastar minjar eða lausir gripir eða hlutir sem hafa sérstaka merkingu fyrir sögu Íslands. Þjóðminjar skulu verða friðlýstar eða varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands eða á vegum þess í viðurkenndum söfnum. Til þjóðarverðmæta teljast hvers konar menningarminjar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu.

Minjastofnun Íslands

Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í landinu í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar. Meginhlutverk hennar að tryggja eftir föngum varðveislu menningarsögulegra minja í eigin umhverfi og auðvelda aðgang að og kynni þjóðarinnar af þeim, auk þess að hafa yfirumsjón með verndun fornleifa- og byggingararfs á Íslandi. Sjá nánar um minjavernd.

Söfn

Gljúfrasteinn

Hlutverk safnsins að Gljúfrasteini er að sýna heimili Halldórs Laxness sem lifandi safn og standa vörð um lífsstarf hans. Áhersla er lögð á að safna, varðveita, rannsaka og miðla þekkingu um verk Halldórs Laxness og ævi hans og miðla þeim fróðleik meðal annars með sýningum, útgáfum og öðrum hætti.

Kvikmyndasafn Íslands

Samkvæmt lögum er hlutverk Kvikmyndasafns Íslands að safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir, kvikmyndir sem eru samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi. Það skal varðveita skilaskylt efni og hafa eftirlit með að efni sé látið safninu í té samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Auk þessa skal Kvikmyndasafnið standa fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist, sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins, skapa fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir og efla kvikmyndamenningu á Íslandi.

Listasafn Íslands

Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar og helstu verkefni þess samkvæmt myndlistarlögum eru að leitast við að safna íslenskri myndlist og vera miðstöð varðveislu, rannsókna, heimildasöfnunar og miðlunar á íslenskri myndlist. Listasafn Íslands veitir öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu listasafna og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar. Listasafn Ásgríms Jónssonar og Listasafn Sigurjóns Ólafssonar eru rekin sem deildir í Listasafni Íslands.

Listasafn Einars Jónssonar

Listasafn Einars Jónssonar starfar samkvæmt arfleiðsluskrá Einars Jónssonar og Önnu Jørgensen Jónsson konu hans, dags. 11. september 1954. Arfleiðsluskráin ber með sér að hlutverk safnsins sé að varðveita, sýna og rannsaka verk Einars Jónssonar, halda skrá yfir þau, heimildir um æviferil og fleira er tengist lífi og list listamannsins. Safnið var gjöf Einars til íslenska ríkisins.

Safn Jóns Sigurðssonar

Safn Jóns Sigurðssonar, (hrafnseyri.is) – menningarsetur á Hrafnseyri er í eigu ríkisins. Hlutverk þess er að halda uppi minningu Jóns Sigurðssonar á þessum fæðingarstað hans við Arnarfjörð og er það gert með sýningum og fræðslu um ævi hans og störf. Á Hrafnseyri hafa verið haldin árleg námskeið sem tengjast hugðarefnum og skrifum Jóns Sigurðssonar og þá hefur saga staðarins verið könnuð með skipulegum fornleifarannsóknum sem hafa staðið með hléum um árabil.

Þjóðminjasafn Íslands

Þjóðminjasafn Íslands er miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum í landinu. Í lögum er hlutverk þess meðal annars að auka og miðla þekkingu á menningararfi íslensku þjóðarinnar frá upphafi til vorra daga og stuðla að því að sem flestir geti haft gagn og gaman af sögu og minjum lands og þjóðar. Meginhluti safnhússins hýsir grunnsýningu Þjóðminjasafnsins: Þjóð verður til - menning og samfélag í 1200 ár.

Safnaráð / Safnasjóður

Safnaráð starfar á grundvelli safnalaga og samkvæmt þeim er hlutverk ráðsins er m.a. að vinna að stefnumörkun um safnastarf og hafa eftirlit með söfnum í eigu ríkisins og söfnum sem hljóta ríkisstyrki. Safnaráð gerir m.a. tillögur um viðurkenningar safna til ráðherra, sem og tillögur um úthlutun styrkja úr safnasjóði, en hlutverk hans er að styrkja starfsemi safna sem safnalögin ná yfir, önnur en söfn í eigu ríkisins. Það eru einkum menningarminjasöfn sem sveitarfélög reka en einnig aðrir aðilar.

Skjalasöfn

Þjóðskjalasafn Íslands 

Hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands  er m.a. að safna og varðveita skjöl og aðrar skráðar heimildir þjóðarsögunnar til notkunar fyrir stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga til þess að tryggja hagsmuni og réttindi þeirra og til notkunar við vísindalegar rannsóknir og fræðiiðkanir. Lögin kveða á um hvaða aðilum er skylt að afhenda safninu og öðrum opinberum skjalasöfnum (héraðsskjalasöfnum)  skjöl sín til varðveislu. Safninu er jafnframt falið eftirlit með starfsemi héraðsskjalasafna og skjalamálum afhendingarskyldra aðila, að tryggja aðgengi að skjölum í vörslu safna í samræmi við ákvæði laga og fleira.

Önnur verkefni á sviði safna og menningararfs

Úr ríkissjóði eru veittir styrkir til starfsemi ýmissa stofnana og samtaka sem stuðla að verndun og miðlun menningararfs þjóðarinnar. Meðal stofnana sem fá framlög samkvæmt samningum við mennta- og menningarmálaráðuneytið eru Vesturfarasetrið á Hofsósi, Snorrastofa í Reykholti, Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og Þórbergssetur í Suðursveit.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 25.10.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum