Hoppa yfir valmynd

Fjölmiðlar

Markmið laga um fjölmiðlun er m.a. að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum sem og að efla vernd neytenda á þeim vettvangi. Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með framkvæmd fjölmiðlalaga. Ríkisútvarpið sér um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Markmið þess samkvæmt lögum er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi eins og nánar er kveðið á um í samningi við ráðherra.

Eftirlit með fjölmiðlum

Samkvæmt fjölmiðlalögum og tilskipun Evrópusambandsins um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu er haft eftirlit með afmörkuðum þáttum í starfsemi fjölmiðla, einkum hvað varðar auglýsingar og vernd barna og ungmenna gegn skaðlegu efni. Fjölmiðlanefnd sér um þetta eftirlit og hún er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og hefur ráðherra því ekki almennar stjórnunar- eða eftirlitsheimildir yfir henni. Af því leiðir að ráðherra gefur nefndinni hvorki almenn né sérstök tilmæli um úrlausn mála.

Evrópusamstarf í fjölmiðlamálum

Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins eru ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu leidd í lög á Íslandi og eru uppistaðan í fjölmiðlalögum.  Samstarf við ríki innan EES á sviði fjölmiðlunar helgast einkum af ákvæðum tilskipunarinnar, reglum um ríkisstyrki og ýmsum öðrum tilskipunum og reglum um frjáls viðskipti, höfundaréttarmál og fleira. Þá tekur Ísland þátt í störfum stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og nýja miðla (CDMC) auk þess að ráðuneytið á í óformlegu samstarfi við hin Norðurlöndin á þessum sviðum.

Ríkisútvarpið

Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins og  stjórn þess fer með æðsta vald í málefnum þess á milli aðalfunda. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins, að farið sé að lögum og að samþykktir þess og ákvæði samnings um fjölmiðlun í almannaþágu séu uppfyllt. Útvarpsstjóri er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins og hefur daglegan rekstur þess með höndum auk þess að vera æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 2.3.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum