Hoppa yfir valmynd

Listir, menning og skapandi greinar

Íslensk stjórnvöld líta á það sem hlutverk sitt að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista. Þau vilja stuðla að aukinni þátttöku og bættu aðgengi alls almennings að menningarstarfsemi sem starfrækt er með stuðningi hins opinbera. Einstaklingar og samtök þeirra eru meginhreyfiafl menningarlífsins og skapa grundvöll fyrir sköpun og samstarf. Framþróun og nýsköpun í menningarlífinu byggist á breiðri þátttöku og samvinnu mismunandi aðila. Samstarf opinberra aðila og einkaaðila er nauðsynlegt til að lista- og menningarlíf geti þrifist. Stjórnvöld stuðla að því að efla menningarstarf um allt land og eiga gott samstarf við sveitarfélögin, t.d. með fjárframlögum til menningarsamninga landshlutanna.

Sjá einnig síður um einstaka flokka: |  Bókmenntir|   Kvikmyndir   |  Myndlist   |   Sviðslistir   |   Tónlist   | Hönnun og arkitektúr

List fyrir alla

List fyrir alla er barnamenningarverkefni á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem er ætlað að velja og miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Markmiðið er að fyrir tilstuðlan verkefnisins eigi öll grunnskólabörn á Íslandi þess kost að njóta reglulegra heimsókna listafólks. Fræðslu- og upplýsingavefnum Listveitunni er einnig viðhaldið innan verkefnisins. Stefnt er að því að yfir tíu ára grunnskólagöngu kynnist börnin fjölbreytileika listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.

Listamannalaun

Starfslaun listamanna

Tilgangur listamannalauna er að efla listsköpun í landinu og skapa þeim  listamönnum sem hljóta starfslaun ár hvert grundvöll til þess að geta helgað sig listsköpun sinni. Starfslaun eru veitt til handa listamönnum úr sex launasjóðum og heildarfjöldi starfslauna á hvert miðast við 1600 mánaðarlaun.  Auk þess að veita starfslaun er sjóðunum heimilt að veita náms- og ferðastyrki. Umsýsla starfslauna listamanna er hjá Rannís.

Heiðurslaun listamanna

Heiðurslaun listamanna eru veitt allt að 25 listamönnum árlega. Þeir einir geta notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða ef störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi. Forseti Alþingis skipar nefnd þriggja manna sem allsherjar- og menntamálanefnd leitar umsagnar hjá um þá listamenn sem til greina koma að njóta launanna skv. lögum nr. 66/2012 um heiðurslaun listamanna.

Listahátíð í Reykjavík

Listahátíð í Reykjavík er þverfagleg listahátíð með áherslu á nýsköpun. Hátíðin hefur verið leiðandi afl í íslensku menningarlífi frá stofnun árið 1970. Hún er rekin sem sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Mikil listræn fjölbreytni er megin einkenni hátíðarinnar, hún vinnur með og leiðir saman opinberar stofnanir og sjálfstæða hópa listamanna úr öllum sviðum menningarlífisins. Hún hefur beint frumkvæði að fjölda verkefna, í hefðbundnum og óhefðbundnum rýmum. Aðild að Listahátíð eiga mennta- og menningarmálaráðuneyti, Reykjavíkurborg, ýmis samtök listamanna og menningarstofnanir. Sjá nánar á vef Listahátíðar í Reykjavík.

Menningarstefna

Alþingi samþykkti 7. mars 2013 þingsályktunartillögu um menningarstefnu, sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fyrir þingið og var þetta í fyrsta skipti sem samþykkt var sérstök stefna íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs.  Stefnan snýr að málefnum lista og menningararfs og aðkomu ríkisins að þeim málaflokkum.  Í henni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar: Í fyrsta lagi sköpun og þátttaka í menningarlífinu, í öðru lagi áhersla á gott aðgengi að listum og menningararfi, í þriðja lagi er undirstrikað mikilvægi samvinnu stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og loks er bent mikilvægi þátttöku barna og ungmenna í menningarlífinu.

Aðgerðaáætlunin Menningarsókn var kynnt í september 2021. Hún inniheldur 18 aðgerðir sem styðja markmið menningarstefnunnar, en felur jafnframt í sér ný markmið og umfjöllun um nýjar áskoranir.

Menningarsamstarf við sveitarfélög

Sóknaráætlun landshluta

Tilgangur sóknaráætlunar er að sjá til þess að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum. Markmiðið er að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni einstakra landshluta, sem og landsins alls, en jafnframt að einfalda samskiptis ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna.

Uppbyggingarsjóðir eru hluti sóknaráætlunar sem skulu veita landshlutabundinn stuðning til menningar- og nýsköpunarverkefna og annast landshlutasamtökin umsýslu sjóðanna, en sérstök úthlutunarnefnd á hverjum stað velur verkefnin sem styrkt eru á grundvelli faglegs mats. Áhersluverkefni eru samningsbundin og tímabundin og hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans. Þau geta m.a. verið ráðgjafar- og átaksverkefnis á sviði nýsköpunar, menningar- og markaðsmála. Upplýsingar um uppbyggingarsjóðina eru hjá landshlutasamtökum sveitarfélaga.

Samningur við Akureyri um menningarmál

Tilgangur samningsins er að efla Akureyri sem miðstöð menningarstarfs utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við stefnu stjórnvalda í byggðamálum. Stuðningi ríkis og bæjar við meginverkefni á menningarsviði er beint í einn farveg þannig að saman fari frumkvæði og ábyrgð á verkefnum. Samningurinn nær til framlaga ríkissjóðs til Leikfélags Akureyrar, Listasafns Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 11.5.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum