Hoppa yfir valmynd

Myndlist

Myndlistarráð 

Hlutverk myndlistarráðs er að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni myndlistar, úthluta árlega styrkjum úr myndlistarsjóði, stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana.

Myndlistarsjóður

Hlutverk Myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.  Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun.

Listskreytingasjóður

Hlutverk Listskreytingasjóðs er að veita styrki til listaverka í opinberum byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999 ásamt umhverfi þeirra og annarra útisvæða á forræði ríkisins og sveitarfélaga svo og til listaverka í húsnæði sem ríkið tekur á leigu til a.m.k. 10 ára. Markmið sjóðsins er að fegra opinberar byggingar og umhverfi þeirra með listaverkum og stuðla þannig að listsköpun í landinu. Í 14. gr. laganna segir að verja skuli að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar, og skal stjórn sjóðsins veita framkvæmdaaðilum ráðgjöf vegna ákvarðana um listaverk í opinberum byggingum.

Listasafn Íslands

Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar og helstu verkefni þess samkvæmt myndlistarlögum eru að leitast við að safna íslenskri myndlist og vera miðstöð varðveislu, rannsókna, heimildasöfnunar og miðlunar á íslenskri myndlist. Listasafn Íslands veitir öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu listasafna og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar. Listasafn Ásgríms Jónssonar og Listasafn Sigurjóns Ólafssonar eru rekin sem deildir í Listasafni Íslands.

Listasafn Einars Jónssonar

Listasafn Einars Jónssonar starfar samkvæmt arfleiðsluskrá Einars Jónssonar og Önnu Jørgensen konu hans dags. 11. september 1954. Arfleiðsluskráin ber með sér að hlutverk safnsins sé að varðveita, sýna og rannsaka verk Einars Jónssonar, halda skrá yfir þau, heimildir um æviferil og fleira er tengist lífi og list listamannsins. Listasafn Íslands hefur umsjón með Listasafni Einars Jónssonar.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 11.12.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum