Hoppa yfir valmynd

Alþjóðlegt menningarsamstarf

Menningarsamskipti og menningarsamstarf við útlönd er með margvíslegum hætti og er sú starfsemi annars vegar að frumkvæði ráðuneytisins og hins vegar í formi stuðnings við listamenn, félög og stofnanir. Meðal verkefna eru styrkveitingar til þátttöku í erlendu samstarfi, sýningum erlendis o.þ.h., þátttaka í norrænum samstarfsverkefnum erlendis, þátttaka í skipulagningu íslenskra menningarviðburða erlendis ýmist með utanríkisþjónustunni og/eða erlendum aðilum. Þátttaka listamanna í alþjóðlegu samstarfi er mikilvæg fyrir listsköpun í landinu og verður ekki slitin frá annarri listastarfsemi. Samstarf á vettvangi menningararfsmála veitir íslenskum stofnunum og öðrum aðilum tækifæri til að taka þátt í viðamiklum samstarfsverkefnum, læra af reynslu annarra þjóða og miðla af reynslu okkar.

EES-samstarfið

Með aðild að EES-samningnum hefur Ísland tækifæri til að taka þátt í margvíslegu samstarfi á sviði lista, menningarmála, íþrótta og æskulýðsmála. Á vettvangi EFTA starfa m.a. sérfræðihópar sem fjalla um samstarfsverkefni við Evrópusambandið. Af samstarfsáætlunum ber hæst „Skapandi Evrópa“ (Creative Europe) sem nær til listasamstarfs og samstarfs um gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis. Erasmus+ áætlunin er á sviði menntamála og æskulýðsmála og veitir fé til fjölbreyttra verkefni fyrir ungt fólk. 

Norræn menningarsamvinna

Menningarmálaráðherrar Norðurlandanna og Færeyja, Grænlands og Álandseyja bera ábyrgð á norrænu menningarsamstarfi innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Meginmarkmiðið er meðal annars að stuðla að fjölbreytni í listtjáningu og kynna listamenn og störf þeirra. Samstarfið snertir  marga þætti formlegs og óformlegs samstarfs innan og utan Norðurlanda. Starfseminni má gróflega skipta í rekstur stofnana, einkum norrænu húsanna, stuðningi við lista- og menningarstarfsemi í formi styrkja og sérstök samstarfsverkefni, t.d. um norrænar menningarhátíðir erlendis. Að auki eru samstarfsnefndir og vinnuhópar starfandi um ýmsa málaflokka og verkefni.

UNESCO

Minni heimsins og heimsminjaskrá UNESCO eru helstu verkefnin sem ráðuneytið tengist auk þess sem það sér um þátttöku í allsherjarþingum UNESCO og öðrum samskiptum og íslensku UNESCO-nefndina.  

Síðast uppfært: 13.11.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum