Hoppa yfir valmynd

Höfundaréttur

Höfundaréttur felur í sér tvenns konar réttindi fyrir höfunda; annars vegar fjárhagsleg réttindi og hins vegar sæmdarrétt (eða „mórölsk” réttindi). Í fjárhagslegum hluta höfundaréttarins felst einkaréttur höfundar til að njóta arðs af nýtingu verka sinna með þeim undantekningum og takmörkunum sem af höfundalögum leiðir. Í sæmdarrétti höfundar felst m.a. rétturinn til að verk sé eignað höfundi sínum, rétturinn til að ráða því hvenær opinber birting fer fram og rétturinn til að varna því að verk sæti ótilhlíðilegri eða ósæmilegri meðferð.

Með höfundalögum er höfundum tryggður einkaréttur á tiltekinni nýtingu verka sinna. Þessi einkaréttindi höfunda eru m.a. einkarétturinn til opinberrar birtingar, opinbers flutnings, dreifingar og eintakagerðar. Flytjendum, framleiðendum, útgefendum og útvarpsfyrirtækjum eru tryggð svonefnd „skyld réttindi” sem fela í sér sambærileg einkaréttindi vegna listflutnings, hljóð- og myndrita og útvarps- og sjónvarpsútsendinga.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fer með höfundaréttarmálefni og stjórnsýslu vegna hagsmunamála rétthafa höfunda, flytjenda, útgefenda, framleiðenda, fjölmiðla og samtaka þeirra. Ráðuneytið fer með aðild Íslands að alþjóðlegum samningum á sviði höfundaréttar í umboði utanríkisráðuneytisins og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á vegum alþjóðahugverkastofnunarinnar WIPO auk þess að taka þátt í samstarfi norræna ráðuneyta og starfi sérfræðingahópa á vegum Evrópusambandsins og EFTA um hugverkaréttarmálefni.

Höfundaréttarnefnd og höfundaréttarráð

Samkvæmt reglugerð um starfsreglur höfundaréttarnefndar og höfundaréttarráðs er höfundaréttarnefnd mennta- og menningarmálaráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál. Í nefndinni eiga sæti sjö sérfróðir menn á sviði höfundaréttar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, auk tveggja varamanna, að höfðu samráði við helstu höfundaréttarsamtök landsins. Formaður nefndarinnar er valinn án tillits til tillagna höfundaréttarsamtaka enda er hlutverk hans að tryggja jafnvægi á milli hagsmuna notenda og rétthafa á sviði höfundaréttar.

Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið. Í höfundarréttarráði sitja fulltrúar tilnefndir af þeim samtökum sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu mennta- og menningamálaráðuneytisins til meðferðar höfundaréttar, svo og annarra helstu höfundaréttarsamtaka í landinu. Þeir sem eiga sæti í höfundaréttarnefnd eiga einnig sæti í höfundaréttarráði auk  fulltrúa fjölmiðla og annarra hagsmunaaðila.

Endurskoðun höfundarlaga

Endurskoðun höfundalaga stendur yfir samkvæmt áætlun þar að lútandi. Lögin, sem eru frá árinu 1972, eru afrakstur norrænnar lagasamvinnu sem fór fram í upphafi sjöunda áratugarins. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á samfélagi og tækni. Rétt þykir að samræma íslensku höfundalögin þróuninni í höfundalöggjöf annarra Norðurlandaþjóða, jafnframt því sem tryggja þarf sem besta samsvörun laganna við tilskipanir ESB á sviði höfundaréttar og skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóðlegum höfundaréttarsáttmálum. Á undanförnum áratug hefur tilkoma netsins, stafvæðing og almennar tækniframfarir leitt til gagngerra breytinga á notkun og miðlun efnis sem er háð höfundarétti og því er nauðsynlegt að laga lögin að því. Gert er ráð fyrir að endurskoðun höfundalaga fari fram í þremur áföngum.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur að tillögu höfundaréttarnefndar samþykkt svonefnt leiðarljós með átta áhersluatriðum sem leggja ber til grundvallar við heildarendurskoðun höfundalaga.

  1. Höfundalög þurfa að vera skýr og auðskiljanleg.
  2. Áhersla er lögð á að haldið sé lagasamræmi við önnur norræn höfundalög.
  3. Efla þarf virðingu fyrir höfundarétti m.t.t. menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið.
  4. Réttarúrræði fyrir rétthafa þurfa að vera skilvirk og hafa forvarnargildi.
  5. Stuðla ber að því að notendur taki löglegra kosti fram yfir ólöglega eintakagerð.
  6. Höfundalög ættu að stuðla að jafnvægi á milli rétthafa og notenda.
  7. Leiðbeiningar og fræðsla um höfundarétt fyrir rétthafa sem og notendur.
  8. Áhersla er lögð á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði höfundaréttar.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira