Hoppa yfir valmynd

Höfundaréttur

Höfundaréttur fjallar um vernd hugverka. Um réttinn gilda höfundalög nr. 73/1972 með síðari breytingum og réttindin sem honum fylgja geta verið ýmiskonar. Með höfundalögum er höfundum tryggður einkaréttur á tiltekinni nýtingu verka sinna. Þessi einkaréttindi höfunda fela í sér einkarétt til að gera eintök af verkum sínum og til að gera þau aðgengileg almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd. Flytjendum, framleiðendum, útgefendum og útvarpsfyrirtækjum eru tryggð svonefnd „skyld réttindi” sem fela í sér sambærileg einkaréttindi vegna listflutnings, hljóð- og myndrita og útvarps- og sjónvarpsútsendinga.

Lögin fela í sér að aðrir en eigendur slíkra réttinda mega ekki nota umrædd réttindi heimildarlaust í atvinnuskyni.

Ákveðnar takmarkanir á einkarétti höfunda eru til staðar í lögunum sem telja má nauðsynlegar þetta eru t.a.m. tímatakmarkanir á verndartíma, takmarkanir á hvað getur notið verndar, réttur til einkanota og sérstakar takmarkanir sem eiga að tryggja hagsmuni almennings að aðgengi að höfundaréttarvernduðu efni í sérstökum tilvikum t.d. vegna fötlunar, menntunar eða aðgang að upplýsingum.

Höfundaréttur felur í sér tvenns konar réttindi fyrir höfunda; annars vegar fjárhagsleg réttindi og hins vegar sæmdarrétt (eða „mórölsk” réttindi).

  • Í fjárhagslegum hluta höfundaréttarins felst einkaréttur höfundar til að njóta arðs af nýtingu verka sinna með þeim undantekningum og takmörkunum sem af höfundalögum leiðir.
  • Í sæmdarrétti höfundar felst m.a. rétturinn til að verk sé eignað höfundi sínum, rétturinn til að ráða því hvenær opinber birting fer fram og rétturinn til að varna því að verk sæti ótilhlíðilegri eða ósæmilegri meðferð.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið fer með höfundaréttarmálefni og stjórnsýslu vegna hagsmunamála rétthafa höfunda, flytjenda, útgefenda, framleiðenda, fjölmiðla og samtaka þeirra.

Ráðuneytið fer með aðild Íslands að alþjóðlegum samningum á sviði höfundaréttar í umboði utanríkisráðuneytisins og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á vegum alþjóðahugverkastofnunarinnar WIPO auk þess að taka þátt í samstarfi norræna ráðuneyta og starfi sérfræðingahópa á vegum Evrópusambandsins og EFTA um hugverkaréttarmálefni.

Höfundaréttarnefnd, höfundaréttarráð og úrskurðarnefnd í höfundaréttarmálum

Höfundaréttarnefnd er menningar- og viðskiptaráðherra til ráðgjafar um málefni höfundaréttar.

Í nefndinni eiga sæti sjö sérfróðir einstaklingar á sviði höfundaréttar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, auk tveggja varamanna, að höfðu samráði við helstu höfundaréttarsamtök landsins. Formaður nefndarinnar er valinn án tillits til tillagna höfundaréttarsamtaka enda er hlutverk hans að tryggja jafnvægi á milli hagsmuna notenda og rétthafa á sviði höfundaréttar.

Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.

Í höfundarréttarráði sitja fulltrúar tilnefndir af þeim samtökum sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu menningar- og viðskiptaráðuneytisins til meðferðar höfundaréttar, svo og annarra höfundaréttarsamtaka auk annarra hagsmunasamtaka þeirra sem sýsla með höfundarétt í landinu, t.d. fjölmiðlar og fjarskiptafyrirtæki. Þeir sem eiga sæti í höfundaréttarnefnd eiga einnig sæti í höfundaréttarráði.

Sjá nánar í reglugerð um starfsreglur höfundaréttarnefndar og höfundaréttarráðs 500-2008.

Úrskurðarnefnd í höfundaréttarmálumsbr. 57. gr. höfundalaga, verður skipuð af ráðherra ef aðilar ná ekki samkomulagi um upphæð eða fyrirkomulag þóknunar vegna afnotakvaða og samningskvaða í höfundalögum eða önnur ágreiningsatriði samningskvaðaheimilda. Úrskurðarvald nefndarinnar tekur þó ekki til hinnar almennu samningskvaðaheimildar sem er að finna í 2. mgr. 26. gr. a. höfundalaga.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 4.6.2023 2
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum