Hoppa yfir valmynd

Miðlar og höfundaréttur

Tónlist

Höfundaréttur nær m.a. yfir þá tónlist, texta og nótur sem höfundar hafa samið. Með því er átt við að bannað er að afrita eða miðla slíkum verkum til almennings með því að t.d. birta eða dreifa þeim nema með samþykki höfundar eða annað sé tekið fram í lögum.

Kvikmyndir

Allar gerðir kvikmynda eru verndaðar af höfundarétti svo lengi sem þær uppfylla verndarskilyrði laganna. Engu máli skiptir hvort sé um að ræða langar kvikmyndir eða stuttar eins og t.d. auglýsingar.

Útvarp

Útvarp (hljóðvarp og sjónvarp) byggist að miklu leyti á flutningi á verkum sem njóta verndar í höfundarréttarlegum skilningi. Útvarpsstöðvum er ekki heimilt að senda út höfundaréttavernduð verk, hvort sem um er að ræða tónlist, kvikmyndir, myndlist eða ritlist, nema með samþykki höfunda. Að afla samþykkis hvers og eins höfundar eða flytjanda er ógerlegt og því er slíkt samþykki yfirleitt fengið með sérstökum samningum við umsýslustofnanir á sviði höfundaréttar eins og t.d. STEFs, Myndstefs, Innheimtumiðstöð gjalda (IHM) eða Rithöfundasambands Íslands (RSÍ).

Ekki má endurvarpa útvarpssendingum án samþykkis viðkomandi útvarpsstofnunar. Þó má geta þess að ef um er að ræða útsendingar frá íþróttarviðburðum og opinberum viðburðum sem útvarpsstöð hefur einkarétt á að senda út á grundvelli samnings sem vekja mikinn áhuga almennings þá mega aðrar útvarpsstöðvar endursenda stutt myndskeið í almennum fréttaþáttum.

Texti

Allt ritmál nýtur höfundaréttar ásamt titlum höfundaréttarvarinna verka. Titill verður þó að vera frumlegur og sérkennilegur eigi hann að njóta höfundaréttar.

Myndir

Myndverk er samheiti sem tekur til málverka, ljósmynda, höggmyndalistar og fleiri tegunda sjónrænnar listar.

Netið

Sömu reglur um höfundarétt gilda um not á verkum á netinu og í öðru formi. Samþykki höfunda þarf til að miðla verkum á netinu (hlaða upp) og gera eintök af verkum sem eru á netinu. Undantekning frá þessu er vegna eintakagerðar á netinu sem er tæknilega óhjákvæmileg vegna miðlunar verka í tölvum, netkerfum og gagnasamskiptum um netið.

Tölvuforrit

Tölvuforrit njóta verndar rétt samkvæmt höfundalögum. Í 4. mgr. 1. gr. höfundalaga er kveðið á um að tölvuforrit njóti verndar samkvæmt höfundalögum sem "bókmenntaverk". Í því felst að höfundaréttarvernd tölvuforrita nær til frumþulu tölvuforrits (e. source code) en ekki til svonefnds vélamáls, þ.e. keyrslukóta (e. executable code). Hugmyndir að baki tölvuforrita og viðmót þeirra nýtur almennt ekki verndar höfundaréttar en kunna að njóta verndar samkvæmt öðrum greinum hugverkaréttarins. Ef aðeins ein leið er talin fær til að lýsa tiltekinni aðgerð í frumþulu tölvuforrits er ólíklegt að sá hluti frumþulu njóti verndar vegna frumleikakröfunnar í höfundarétti.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum