Hoppa yfir valmynd

Íslensk tunga

Íslensk tunga

Íslenska er opinbert mál á Íslandi, þjóðtunga Íslendinga og sameiginlegt mál landsmanna, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011.

Stjórnvöld eiga að sjá til þess að hægt sé að nota íslensku á öllum sviðum samfélagsins. Allir sem eru búsettir hér á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi. Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.

 

Íslensk málstefna

Íslensk málnefnd mótar og gerir tillögu að íslenskri málstefnu. Í stefnunni fyrir árin 2021–2030 er fjallað um:

- málrækt og viðhorf til íslensku
- jafnræði, jafnrétti og fjölmenningarlegt samfélag
- máluppeldi barna
- íslensku í skólakerfinu
- íslensku sem annað mál
- íslensku í háskólum og rannsóknastarfi
- menningu og miðla
- íslenska máltækni
- íslensku í stjórnsýslu, opinberri þjónustu og atvinnulífi

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2024-2026 var samþykkt sem þingsályktun í maí 2024. Þar er áhersluverkefnum stjórnvalda í málefnum íslenskunnar næstu árin forgangsraðað, með hliðsjón af framangreindri málstefnu. Sjá nánar hér.

Íslenskt táknmál

Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011.

Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina tungumálið sem á sér lagalega stöðu hérlendis við hlið íslenskrar tungu.

Hlutverk málnefndar um íslenskt táknmál er að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi.

Megináherslur í málstefnu íslensks táknmáls 2023-2026 eru á:

  • Máltöku táknmálsbarna
  • Rannsóknir og varðveislu
  • Jákvætt viðhorft
  • Fjölgun umdæma íslensks táknmáls
  • Lagaumhverfi
  • Máltækni

Íslensk málnefnd

Íslensk málnefnd veitir stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gerir tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Ráðherra skipar Íslenska málnefnd til fjögurra ára og í henni eiga sæti 16 einstaklingar.

Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum.

Skrifstofa Íslenskrar málnefndar er hjá Árnastofnun.

 

Íslenska og máltækni

Máltækni felur í sér alla þá tækni sem gerir hugbúnaði kleift að fást við tungumál en framtíð tölvunotkunar verður samofin slíkri tækni. Markmið stjórnvalda á sviði máltækni miða að því að íslenska sé notuð á öllum sviðum tölvu- og upplýsingatækni sem varða daglegt líf almennings. Í því felst meðal annars að hugbúnaður í tækjum geti skilið og unnið með íslensku líkt og önnur tungumál.

Unnið er eftir Máltækniáætlun 2 sem kynnt var í mars 2024. Áætlunin telur fram sjö afmarkaðar tillögur og byggir á fyrri máltækniáætlun sem í gildi var 2018-2022. Helstu áherslur máltækniáætlunar 2 snúa að:

- Hagnýtingu og innleiðingu máltækni í íslensku atvinnulífi, stjórnsýslu og samfélagi. Sérstök áhersla er lögð á kynningu á íslenskri máltækni með það að markmiði að koma íslenskum máltæknilausnum að í hugbúnaðarþróun, bæði hérlendis og hjá erlendum tæknifyrirtækjum.

-  Samþættingu málefna gervigreindar og máltækni til að styrkja samkeppnisstöðu Íslands og auka velsæld í samfélaginu með tungumálið í forgrunni.

- Viðhald og áframhaldandi þróun innviða sem þróaðir voru á verktíma fyrri máltækniáætlunar stjórnvalda.

 

Árnastofnun 

Hlutverk Árnastofnunar er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem stofnuninni eru falin eða hún á. Stofnunin er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menningar- og viðskiptaráðherra.

Árnastofnun er til húsa í Eddu ásamt Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Edda er nýtt kennileiti í höfuðborginni þar sem fram fer fjölbreytt starfsemi og sýningarhald á íslenskum handritum. Hönnun hússins miðar að því að skapa sveigjanlega umgjörð um lifandi vísindasamfélag; örvandi samskipti nemenda, kennara og fræðimanna jafnt sem hljóða íhygli fræðimennskunnar.

 

Dagur íslenskrar tungu og vika íslenskunnar

Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Þann dag eru veittar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslensks máls og efnt til margvíslegra menningarviðburða.

Sjá nánar á vefsíðu dags íslenskrar tungu.

  

Örnefnanefnd

Örnefnanefnd er stjórnsýslunefnd á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis og starfar á grundvelli laga um örnefni.

Örnefnanefnd hefur margþætt hlutverk. Hún veitir t.d. umsagnir um nöfn á nýjum sveitarfélögum og nýjum náttúrufyrirbærum innan sveitarfélaga. Í ákveðnum tilvikum úrskurðar hún einnig í ágreiningsmálum er varða örnefni, svo sem um nýtt eða breytt bæjarnafn eða götunafn, um nöfn á opinberum skiltum og um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni.

Stjórnvöld stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum. Samkvæmt lögum um örnefni skal tryggt að örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju þannig að þau séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð. Ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra er á höndum sveitarfélaga að því leyti að ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnast nafns ber viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar. Árnastofnun annast skrifstofuhald fyrir örnefnanefnd.

 

 

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 3.7.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum