Hoppa yfir valmynd

Íslensk tunga

Íslenska er opinbert mál á Íslandi, þjóðtunga Íslendinga og sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að hægt sé að nota hana á öllum sviðum samfélagsins. Allir sem eru búsettir hér á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi.

Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Árið 2011 voru sett lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Íslensk málstefna

Íslendingar hafa sett sér það markmið að varðveita tungu sína og efla. Með varðveislu íslenskrar tungu er átt við að tengslum í máli frá kynslóð til kynslóðar, einkum að gæta þess að ekki glatist tengsl sem verið hafa og eru enn milli lifandi máls og bókmennta fyrri alda. Með eflingu tungunnar er einkum átt við að auðga orðaforðann svo að ávallt verði unnt að tala og skrifa á íslensku um hvað sem er, enn fremur að styrkja þekkingu kunnáttu í meðferð tungunnar og styrkja trú á gildi hennar.

Í þingsályktun um íslenska málstefnu, sem samþykkt var á Alþingi 12. mars 2009 segir: „Alþingi ályktar að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu. Alþingi lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags“.

Íslensk málnefnd vinnur að endurskoðun íslenskrar málstefnu.

Íslenskt táknmál

Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.

Hlutverk málnefndar um íslenskt táknmál er að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi. Skrifstofa málnefndar um íslenskt táknmál er í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Unnið er að mótun málstefnu um íslenskt táknmál.

Dagur íslenskrar tungu

Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Þann dag eru árlega veittar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslensks máls og efnt til margvíslegra menningarviðburða.

Sjá nánar á vefsíðu dags íslenskrar tungu.

Íslensk málnefnd

Íslensk málnefnd veitir stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gerir tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Ráðherra skipar Íslenska málnefnd til fjögurra ára og í henni eiga sæti 16 einstaklingar.

Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum.

Skrifstofa Íslenskrar málnefndar er hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Íslenska og máltækni

Máltækni vísar til samvinnu tungumáls og tölvutækni í hagnýtum tilgangi. Tæknin beinist að því að þróa kerfi sem geta unnið með og skilið mannlegt mál og stuðla að notkun þeirra í samskiptum fólks, tölvu og annarra tækja sem byggja á stafrænni tækni.

Markmið aðgerðaáætlunar stjórnvalda um máltækni er að tryggja að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við margskonar tæki og í upplýsingavinnslu. Með máltækni er átt við samvinnu og samspil tungumálsins og tölvutækninnar en það mun skipta lykilmáli í því að stuðla að stafrænni framtíð íslenskunnar. Nú er unnið eftir máltækniáætlun stjórnvalda og miðar því verkefni vel, í því er lögð áhersla á þrjá meginþætti; uppbyggingu innviða, nýsköpun í máltækni og víðtækt samstarf. Sjá nánar á vef Almannaróms.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Hlutverk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem stofnuninni eru falin eða hún á. Stofnunin er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra.

Örnefnanefnd

Stjórnvöld stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum. Samkvæmt lögum um örnefni skal tryggt að örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju þannig að þau séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð. Ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra er á höndum sveitarfélaga að því leyti að ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnast nafns ber viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast skrifstofuhald fyrir örnefnanefnd.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 5.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum