Hoppa yfir valmynd


Unnið hefur verið að mótun aðgerðaáætlunar í málefnum íslenskrar á vettvangi fimm ráðuneyta sem aðkomu eiga að ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu. Þingsályktunartillaga menningar- og viðskiptaráðherra um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 verður brátt lögð fram á Alþingi en hún er nú aðgengileg á vef þingsins


Aðgengi að íslenskunámi 

Meðal aðgerða sem stuðla að bættu aðgengi og gæðum náms fyrir fullorðið fólk með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn eru stuðningur við starfstengda íslenskufræðsla og talþjálfun samhliða starfi;  þróun gagnsærri og skilvirkari umgjarðar um íslenskunám utan formlega skólakerfisins samhliða heildar­endurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu; og stefnumótun í málefnum innflytjenda og flótta­fólks. Þá verður jafnframt unnið að fjölgun kennara með fagþekkingu í kennslu íslensku sem annars máls fyrir fullorðna, bættu námsframboði og kennsluefni á því sviði. Liður í því er ný námsleið á háskólastigi fyrir nemendur sem ekki hafa grunn í íslensku í formi fjarnáms í hagnýtri íslensku og háskólabrú fyrir innflytjendur sem hafa slíkan grunn en þurfa stuðning til þess að sækja sér frekara háskólanám á íslensku.

Fram kemur í tillögunni að aukin áhersla verði lögð á að innflytjendur öðlist grunnfæri í íslensku og hvatar þróaðir sem stuðli að því. Markmiðið sé að koma í veg fyrir jaðarsetningu, stuðla markvisst að inngildingu og treysta stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. Nauð­syn­legt sé að gera auknar kröfur um íslenskunám og efla hvata innflytjenda til að tileinka sér tungu­málið, innan marka skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningum og að teknu tilliti til viðkvæmra hópa. Ein aðgerðanna felur í sér að kröfur um grunnfærni í íslensku verði skil­greind­ar fyrir mismunandi hópa og kortlagt hvernig tryggja megi að fólk með fjöl­breyttan tungumála- og menningarbakgrunn öðlist slíka færni, t.d. með breytingum á lögum, opin­berum stuðn­ingi og námsframboði.


Sýni- og heyranleiki íslenskunnar

Leita þarf leiða til að auka meðvitund um mikilvægi sýni- og heyranleika íslenskunnar og tengjast nokkrar aðgerðir í þingsályktunartillögunni því verkefni. Í einni aðgerð er fjallað um hvernig virkja eigi fleiri til þátttöku í því samhengi með því að auka umræðu og samráð og kalla eftir hugmyndum að aðgerðum úr sem flestum áttum, m.a. frá fulltrúum atvinnulífsins, þriðja geirans og sveitarfélaga. Íslenska á alls staðar að vera sýni­leg á opinberum vettvangi og upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku. Þá á að greina umfang og möguleika á aukinni textun og talsetningu myndefnis á íslensku og auka fræðslu til foreldra og fagfólks í skólastarfi um mikilvægi móðurmála fyrir málþroska og máltöku barna og ungmenna.

Íslenska til framtíðar

Nokkrar aðgerðanna tengjast íslenskukennslu og fræðslu fyrir börn og ungmenni. Þar má nefna nýja upplýsingagátt um íslenskt mál fyrir yngri málnotendur og/eða málnotendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli sem unnið er að hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá á að móta viðmið um  íslenskuhæfni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun sem hvorki er með íslensku að móðurmáli né með leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskólum en þegar hafa verið gefin út viðmið fyrir íslenskuhæfni kennara og skóla­stjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum. 

Þá er unnið að aðgerðaáætlun um samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landsvísu, fyrir ríki og sveitarfélög, þvert á skólastig og þjónustukerfi. Þar verður áhersla lögð á að börn og ungmenni fái íslensku­kennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi sem allra fyrst eftir komu til landsins og svo lengi sem þörf er á. Þá verða sett viðmið um gæði og starf skólasafna svo efla megi þjónustu þeirra við fjölbreytta nemendahópa og þróaðir innviðir fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastig sem bæta á aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum á íslensku og stuðla að hraðari þróun þess og uppfærslum.

Síðast uppfært: 29.11.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum